Sunday, November 2, 2008

Grillaðar samlokur með kartöflusalati


úps.... Ég bara steingleymdi að taka ýsuna úr frystinum, þar sem sparnaður er í gangi er ekki keyptur ferskur fiskur. Ég á reyndar eftir að smakka hann svona frosinn en ég læt vita ef þetta er óætt þegar ég kemst í plokkarann.
En í kvöld verða því grillaðar samlokur og kartöflusalat. Ég er mjög mikill aðdáandi kartöflusalats og það er nú alveg merkilegt hvað þessi salöt geta verið vond þegar þau eru keypt tilbúin. Það besta sem ég fæ er kartöflusalatið hennar mömmu og set ég það hér inn. Á samlokurnar ákváðum við að notast við það sem til er í ísskápnum og úr varð dýrindiskvöldverður.

Grillaðar samlokur

samlokubrauð(2 brauðsneiðar á mann)
3 beikonsneiðar á mann, stökk steikt
1 skinkusneið á mann
ostur
gráðostur
dijon sinnep
majónes
smjörklípa

Aðferð:
1. Brauðið er smurt með dijon og majónesi og ofan á er sett ein skinkusneið, ostur, dreifið örlitlu af gráðosti yfir og lokið með brauði
2. Steikið á pönnu uppúr smjöri. þá er pannan höfð á háum hita fyrst og síðan lækkað í meðal hita, snúið brauðinu við og lokið pönnunni þannig að osturinn bráðni. Athugið að með þessu þarf að hafa gát þar sem brauðið á það til að brenna hratt.

Kartöflusalatið hennar múttu (sem er að sjálfsögðu það besta í heimi)

kartöflur
jafnt majónes og sýrður rjómi
asíur, skornar í litla bita
dijon sinnep
egg, harðsoðin
paprika, skornar í litla bita
epli, skorin í aðeins stærri bita

Aðferð
1. kartöflur soðnar og látið kalt vatn renna á þær, þær kældar vel
2. Majónesi, sýrðum og dijon hrært vel saman og restinni blandað saman við og síðan er þessu blandað út í skrældar og kældar kartöflurnar.
Ef þetta er það eina sem er í matinn er mjög gott að blanda túnfisk saman við og þá er komin heil máltíð. Ég man ég gat ekki beðið eftir kvöldmatnum þegar þetta var í matinn þegar ég var lítil.

2 comments:

Ólöf said...

sælar! Hvað gerirðu við beikonið? Ég get alveg ímyndað mér það, meira svona að láta þig vita að það gleymdist.

Sigurrós Pálsdóttir matreiðslumaður á Vox said...

já sæl
já reyndu bara að ímynda þér það.. neeei ég grillaði það í ofninum og setti á samlokurnar áður en ég steikti þær. og ég þorði ekki að stela alveg kartöflusalatinu frá mömmu þannig að fólk gerir bara sína útgáfu af kartöflusalati út frá þessari hugmynd;) svona þar sem kallinn þinn kvartaði smá í mér útaf þessu, hehe