Tuesday, February 26, 2008

Lasagna


Hér ætla ég að setja inn lasagna eins og ég geri það frá grunni, þá meina ég að ég geri tómatsósuna líka en það er alveg hægt að nota annaðhvort heila tómata úr dós og skera þá í bita áður en þeir eru settir útí kjötið eða saxaða tómata úr dós.
Til þess að fá fullkomna tómata mæli ég með því að þeir séu keyptir nokkrum dögum áður en sósan er búin til og látnir standa við stofuhita. Á þennan hátt verða þeir rauðir, fallegir og svakalega safaríkir.

Lasagna

Tómatsósa

10- 12 tómatar, stórir og eldrauðir1
1/2 stór laukur, skorinn í sneiðar
50 ml ólífuolía
1 tsk rósmarín
1/2 tsk óreganó
1/2 msk balsamic edik
salt og pipar

1. Tómatarnir eru blancheraðir en það þýðir að það er skorinn kross á endann á honum og svo dýft í sjóðandi vatn í3 mínútur eða þar til fer að flettast upp úr krossinum þá er tómatarnir teknir upp einn og einn þegar þeir eru tilbúnir og settir í ísvatn eða í skál sem er sett undir rennandi kalt vatn, kældir alveg niður, þá eru þeir afhýddir.
2. Olían er hituð og laukurinn léttsteiktur yfir meðal hita þar til hann er orðinn vel mjúkur en hefur ekki tekið lit.
3. Tómatarnir eru skornir í bita og bætt útí laukinn, ásamt oreganóinu og rósmaríninu, þetta er látið malla rólega við lágan hita í 30-45 mínútur. Þá er þetta múlað með töfrasprota, og látið malla enn frekar í 10 mínútur. Edikinu bætt útí og saltað og piprað.

Kjötsósa fyrir lasagna

500 gr kjöthakk
1 gulrót
1/2 sellerístöngull
ólífuolía
300 ml vatn og 1 teningur kjötkraftur
100 ml hvítvín
1/2 laukur(þessu er sleppt ef búin er til tómatsósan sem er hér á undan)
Tómatsósan eða 1 dós tómatar
salt og pipar

1. Gulrótin og sellerístöngullinn er skorið í mjög smáa bita og laukurinn ef hann er notaður. Þetta er mýkt í olíu á pönnu og þegar pannan er orðin vel heit er kjöthakkinu bætt saman við, þetta er allt saman steikt þar til kjötið hefur náð smá lit.
2.Þá er hvítvíninu bætt útí og látið sjóða aðeins niður. Þá er tómatsósunni bætt saman við ásamt kjötsoðinu.
3.Þetta er látið sjóða í ca.20 - 25 mínútur við lægsta hita.

Bechamel sósa fyrir lasagna

1 ltr nýmjólk
30 gr smjör
35-40 gr hveiti
salt og pipar

1. Bræðið smjörið í potti sem tekur 1-1/2 ltr. bætið hveitinu saman við og búið til bollu
2. Hellið mjólkinni útí, 300 ml í einu, og pískið vel saman þar til allir kekkir eru farnir, þetta er allt saman gert yfir meðal hita.
Þegar mjólkin sýður er næstu 300 ml bætt saman við og svo koll af kolli þar til réttri þykkt er náð. Þetta á að vera svolítið þykkt eins og þykkt uppstúf. þá er þetta saltað og piprað að smekk.

Í þetta þarf að auki ost(Gouda eða mozzarella) og parmesan ost

Allt sett saman:
1. Hitið ofninn í 190°C.
2. Takið eldfast mót og smá ausu af bechamel sósunni í botninn og svo lasagnaplötur ofan á, þá setjið þið kjötsósuna og svo bechamelsósuna þar ofan á og þá annað lag af lasagnaplötum og svo koll af kolli þar til fatið er næstum fullt, síðasta lagið á að vera lasagnablöð bechamelsósa og svo ostsneiðar(gouda, eða fyrir þá sem vilja spreða mozzarella) og svo er heilmikill parmesanostur rifinn smátt yfir.
3. Bakið í ofni í 30-45 mínútur eða eins og segir á pakkningunum sem fylgja lasagnaplötunum(misjafnt eftir plötum eins og með pastaið). Ef osturinn brúnast of hratt er settur álpappír yfir. En ef osturinn brúnast of hægt er hægt að setja grillið á síðustu 5 mínúturnar.

Berið fram með rucolasalati með tómötum og ristuðum furuhnetum og munið að salta salataið, það er lang best þannig. Eða eins og Ítalirnir segja að þá er salat án salts eins og kaka án sykurs.




Sojakjúklingur með red miso aioli ídýfu og heimatilbúnum frönskum kartöflum


Teryaki kjúklingavængir með red miso aioli ídýfu og frönskum kartöflum

8 kjúklingavængir
100 ml teryaki
100 ml sojasósa
2 hvítlauksrif
1 tsk sesemolía
2 msk olía, má vera ólífu eða grænmetis
1 msk hunang

1. Öllu blandað saman og vængirnir settir útí og marineraðir í a.m.k. 1 klst.
2. Hægt er að steikja kjúklinginn á pönnu og setja inn í ofn, hvort heldur sem ykkur þykir þægilegra.

Red miso aioli ídýfa

Ídýfa sem einnig er hægt að nota fyrir sætar franskar kartöflur og marineringu en þá er majónesinu sleppt og matarolía sett í staðinn.

1 msk red miso paste

2 msk appelsínudjús

½ hvítlauksgeiri( má setja meira, sérstaklega ef um er að ræða marineringu)

1 bolli majónes

¼ tsk toasted sesame oil

1. Miso paste hrært upp með appelsínusafanum og hinu bætt útí.



Heimatilbúnar franskar kartöflur

80 gr af kartöflum á mann
skrældar ef hýðið er ljótt annars má hýðið vera á, skornar eftir endilöngu í stórar franskar kartöflur og settar í odnskúffu, olíu dreift vel um þær og bakaðar í ofni við 200°C í ca 30 mínútur en passið að skafa þær af botninum á ca 5 mínútna fresti til að þær festist ekki við botninn og formið eyðileggjist.

Friday, February 22, 2008

Risa súkkulaði-tobleróne smákökur




Við Íslendingar verðum að fara að finna betra orð yfir smákökur þar sem það er í flestum tilfellum nú til dags ekki réttnefni. Við erum byrjuð að herma meira og meira eftir könunum í matargerð og þá sérstaklega í bökun og þá væri réttast að kalla það stórkökur.
En þessar stórkökur eru án efa ein sú mesta bomba sem ég hef smakkað og það er engu til sparað hér. Það er fullt af súkkulaði, fullt af púðursykri og svo ennþá meira af súkkulaði. Gerist ekki betra...

Risa súkkulaði-toblerone smákökur
gerir u.þ.b. 18 kökur

100 ml hveiti
1 tsk lyftiduft
1/4 tsk salt
450 gr súkkulaði, 50-60%, saxað
50 ml smjör, ósaltað
350 ml púðursykur
4 stór egg
1 msk vanillu extract
150 ml toblerone eða annað súkkulaði, hægt er að nota súkkulaðihjúpað súkkulaði alls konar, gróft hakkað
200 ml valhnetur, hægt að sleppa og setja meira af toblerone(ég gerði það)

1. Blandið saman hveiti, lyftidufti og salti í lítilli skál. Setjið hakkaða súkkulaðið og smjörið í skál yfir potti með vatni í og hitið þar til súkkulaðið bráðnar, hrærið mjög oft og passið að vatnið sjóði ekki. Bræðið þar til allt er bráðið og glansandi fallegt. Kælið þar til volgt.
2. Pískið saman púðursykurinn og egginn með rafmagnsþeytara þar til það er þykknar, ca.5 mínútur. Bætið þá súkkulaðiblöndunni og vanillunni saman við, pískið þetta saman og svo síðast hveitiblöndunni og síðast toblerone og hnetum(ef notaðar)og þá er nóg að blanda saman með sleif. Kælið deigið í ca 45 mínútur.
3. Hitið ofninn í 180°C. Leggjið bökunarpappír á bökunarplötur og setjið kúfaða matskeið(einnig hægt að nota ísskeið) á pappírinn fyrir hverja köku. setjið u.þ.b. 4-5 á hverja plötu og bakið í 15 mínútur eða þar til topparnir eru þurrir og brotnir en mjúkar þegar komið er við þær, þær harðna þegar þær kólna.
Þetta er hægt að geyma í 2 daga í lofttæmdum umbúðum og þá er best að setja bökunarpappír ofan í ílátið fyrst.

Steiktur fiskur með gulrótar-og kartöflu pönnukökum og tatziki
















Jæja þá er aspasinn loksins búinn og ég ákvað að gera eitthvað annað með fiskinum en bara venjulegar kartöflur. Þetta sló algerlega í gegn hjá fjölskyldunni og þá er sérstaklega skemmtilegt að segja frá því að Heklu matvöndu fannst þetta mjög gott. Þessi uppskrift verður skrifuð í millilítrum og endilega látið mig vita hvort ykkur þykir þægilegra, millilítrar eða grömm.



Gulrótar og kartöflupönnukökur

350 ml gulrætur, gróft rifnar
100 ml kartöflur, gróft rifnar
200 ml laukur, skorinn í þunnar sneiðar
1 stórt egg
1/2 tsk salt
1/4 tsk pipar
50 ml hveiti

1. Blandið saman gulrótum, kartöflum og lauk og bætið svo restinni saman við. Hrærið vel í.
2. Setjið bökunar pappír á bökunarplötu.
3. Hitið 1 1/2 msk olíu í stórri pönnu og hafið á meðalhita. Takið með sleif góða slettu af gulrótarmaukinu og setjið á pönnuna og fletjið létt í hring, það ættu að komast um 4 pönnukökur í hvert skipti. Eldið í ca.4 mínútur á hverri hlið. Færið pönnukökurnar á bökunarpappír og geymið þar til á að bera þær fram. Rétt áður en þetta er borið fram er þetta sett inní ofn á 180°C í ca 2 mínútur til að hita upp aftur.

Steiktur fiskur

Ég geri reyndar ráð fyrir að flestir kunni að steikja fisk en hér er mín útgáfa.

200-250 gr fiskur á mann(fer eftir græðgi í fisk á heimilinu)
100 ml hveiti
1 egg
200 ml brauðrasp/eða skrítna appelsínugula raspið
smjörklípa og olíusletta

1.Fiskurinn er skorinn í skammta
2. Takið fram 3 diska og raðið í röð við hliðina á steikarpönnunni. Í þann sem er næstur pönnunni er sett raspið, þann við hliðina er sett eggið(saltað og piprað mjög vel) og í þann síðasta er hveitið sett.
3. Smjörið og olían hituð á pönnunni og á meðan er fisknum velt upp úr hveitinu. Þegar pannan er orðin heit er hveitið dustað létt af fisknum honum dýft í eggið og velt þar upp úr með gaffli og svo í raspið og á pönnuna, og þannig koll af kolli.

Ef þið eruð með stóra fjölskyldu og litla pönnu er hægt að setja fiskinn sem er steiktur á bökunarpappír og hitaður upp í ofni rétt áður en hann er borinn fram.

Tatziki

200 gr grísk jógúrt eða sýrður rjómi(18%)
1/2 hvítlauksrif
1/2 gúrka, skræld og kjarninn skafinn úr með skeið
salt og pipar

1. Sýrði rjóminn er settur í skál hvítlauksrifið kramið útí, þá er gúrkan rifinn útí, saltað og piprað.

Þegar á að bera fram þá er fiskurinn og pönnukökurnar settar inn í ofn, lagt á borðið og já þið vitið restina....

aths. Hægt er að setja ýmislegt í staðinn fyrir kartöflurnar og gulræturnar eins og til dæmis rauðbeður, gulrófur, steinseljurót, sellerírót o.s.frv.

Thursday, February 21, 2008

Púðursykur eða eitthvað annað???

Ég fékk fyrirspurn frá Hörpu sem er greinilega í sömu vandræðum og ég var hér á Ítalíu fyrst.
Er hægt að nota eitthvað í staðinn fyrir púðursykur.
Ég á núna líklegast allar tegundir sykurs hér í skúffunni hjá mér og það sem kom næst púðursykrinum var moscovadosykur. En hér á Ítalíu er hægt að ná í púðursykur í ethnicbúðunum, hjá Kínverjunum,Indverjunum og Aröbunum, helst hjá Kínverjunum. Vonandi er það þannig líka á Spáni því að mér finnst persónulega ekkert koma í staðinn fyrir púðursykur.

Túnfisksalat fjölskyldunnar





Já ég fékk leyfi til að setja hérna inn túnfisksalatið hennar mömmu, það slær alltaf í gegn hvar sem ég ber það fram. Það er öðruvísi og alveg einstaklega gómsætt.

Túnfisksalatið hennar mömmu

270 gr(vigt án vökva) túnfiskur í dós, helmingur í vatni og helmingur í olíu
50 gr ólífur, saxaðar
5 gr capers, saxað mjög fínt
150 gr majónes og sýrður rjómi til helminga
1 tsk dijon sinnep
salt og pipar
Steinselja

1.Saxið ólífurnar og capersið, takið olíu og vatn af túnfisk.
2. Hrærið saman í skál majónes,sýrðan rjóma(eða grískt jógúrt),sinnepi og saltið og piprið eftir smekk.
3. Blandið saman túnfisk, ólífum og capers í annarri skál og passið að hræra varlega til þess að túnfiskurinn fari ekki í mauk. Bætið majónesinu saman við túnfiskinn, á þennan hátt er hægt að ráða hversu mikið majónes er í salatinu þar sem hver og einn hefur skoðun á því hversu mikið hann vill hafa.
Mamma bætir einni msk af saxaðri steinselju saman við en þar sem kallinum mínum finnst hún ekki góð sleppi ég henni en ég hins vegar skreyti með henni.

Wednesday, February 20, 2008

Aspassúpa


Já ég sagði ykkur að það hefði verið allt of stórt aspasbúntið sem ég keypti þannig að það var aspassúpa í kvöldmatinn í kvöld, hér kemur hún:


Aspassúpa

300 gr aspas, topparnir skornir af um 2 cm og geymdir þar til síðar
30 gr laukur, má vera skallott eða venjulegur
1 hvítlauksrif(má sleppa)
1 sletta hvítvín(má sleppa ef ekki er opin flaska í ískápnum)
700 ml vatn
1 súputeningur, grænmetis
40 gr smjör
41/2 msk hveiti
salt og pipar

1. Skerið aspasinn í bita, skerið laukinn í þunnar sneiðar. Hitið smá klípu af smjöri og olíu í potti, léttsteikið laukinn bætið aspasinum útí. Þegar þetta hefur mýkst aðeins þá er vatninu hellt yfir og súputeningnum bætt útí. Þetta er soðið í ca 15 mínútur. Þá er þetta hakkað með töfrasprota. Því næst er þetta sigtað yfir í stóra skál.
2. Bræðið 40 gr af smjöri í pottinum, þegar það er bráðið er hveitinu bætt útí og þetta látið blandast vel saman þannig að myndi þétta bollu, þegar það er búið er aspasvökvanum bætt útí slatta í einu og pískað vel saman og þá er restinni af aspasvökvanum bætt saman við. Þetta er pískað vel saman og suðan er látin koma upp. Þá er aspastoppunum bætt útí súpuna. Látið sjóða í ca.5 mínútur, ef þykktin er eins og þið viljið hafa hana er þetta bragðbætt með salti og pipar og smá nýmjólk, rjóma eða jafnvel kókosmjólk. Ef hins vegar ykkur þykir súpan of þykk er meira vatni bætt útí hana. Athugið að rjómi og mjólk þykkja súpur og sósur, þær þynna ekki. Það er líka misjafnt eftir hveiti hvernig súpan þykknar þess vegna er magnið ekki alltaf það rétta þegar farið er eftir uppskriftinni.

Berið fram með brauði, ég set smjör,skinku og mozzarella á rúnstykki og bræði undir grillinu í örskamma stund.
Eins og sést líkar yngri kynslóðinni einnig mjög vel við súpuna.

Tuesday, February 19, 2008

Amerísk Devils food cake með súkkulaði ganache og jarðaberjum


Á myndinni gerði ég helminginn af þessari uppskrift þar sem ég var með óbærilega löngun í "deth by chocolate" en þar sem við erum ,enn og aftur, bara 3 í heimili sá ég fram á að geta ekki klárað heila uppskrift á næstu 2 dögum, þannig að ég setti hana bara í klassísku brauðformin og voila'.

200 ml sjóðandi vatn
150 ml ósætt kakóduft
100 ml nýmjólk
1 tsk vanilla
400 ml hveiti
1 1/4 tsk lyftiduft
1/2 tsk salt
200 ml ósalt smjör, mjúkt
250 ml dökkur púðursykur
150 ml sykur
4 stór egg

1.
Hitið ofinn í 180°C og smyrjið 3 lítil form,16cm x 4cm(hægt að hafa þau bara 2 stór eða gera muffins úr þessu), setjið bökunar pappír í botninn. og setjið hveiti í og dustið úr allt auka hveiti.
2. Pískið saman kakóið og sjóðandi vatnið þar til það er smooth(endilega komið með góða þýðingu á þessu orði í commentakerfið), bætið þá mjólinni og vanillunni saman við.
3. Sigtið hveiti, salt og lyftiduft saman í annarri skál.
4. Þeytið saman smjörið og báðar tegundirnar af sykrinum saman í skál með rafmagnsþeytara ar til það er ljóst og létt, bætið þá eggjunum saman við einu í einu, þeytið vel eftir hvert egg. Bætið þá saman við hveitinu og kakóblöndunni litlu í einu til skiptis og byrjið og endið á hveitblöndunni(degið getur litið út eins og það sé skilið en engar áhyggjur það á að líta þannig út).
5. Skiptið deiginu á milli formanna og sléttið toppinn. Bakið í efri og neðri part af ofninum og skiptið um eftir 10 mínútur af bökunartíma. Bakið litlu 3 formin í ca 20-25 mínútur. Ég mæli með því að athuga kökuna eftir 15 mínútur og ef prjóninn sem stungið er í miðju kökunnar kemur út með örlítið af rakri mylsnu þá er kakan tilbúin, ef prjóninn er alveg hreinn getur kakan verið aðeins of þurr.
Ég gerði þetta aðeins auðveldara með því að helminga uppskriftina og setja í eitt lítið form án þess að vesenast með bökunarpappír, en án gríns var ég ca. 40 mínútur að gera og baka kökuna.

Súkkulaði ganache

200 gr dökkt súkkulaði, 70% eðal er best,fínt saxað
1 dl rjómi

1. Látið suðu koma upp á rjómanum og leyfið rétt að hvílast, setjið þá súkkulaðið saman við og hrærið vel þar til orðið þykkt og smooooth, glansandi fallegt.

Hellið eyfir kökuna og skreytið með jarðaberjum

Aspasrisotto

Hér á Ítalíu er aspastíminn rétt að byrja og girnilegur aspasinn er að fylla búðirnar og markaðina. Ég stóðs ekki mátið og keypti stærðarinnar búnt án þess að átta mig á að við erum einungis 3 í heimili, en þetta þýðir að hinir ýmsu aspasréttir verða prófaðir á næstu dögum.

Aspasrisotto
f/4
300 gr aspas,skrældur
30 gr smjör
vatn
700 ml kjúklingasoð(700 ml vatn+11/2 kjúklingakraftsteningur)
300 gr risotto hrísgrjón
1 skallottulaukur, saxaður
2 msk ólífuolía
200 ml hvítvín
30 gr parmesan, og jafnvel meira eftir smekk
salt og pipar eftir smekk

1. Sjóðið vatn með salti, setjið skrældan aspasinn útí og sjóðið í 2 mínútur hellið mestu vatninu af en skiljið eftir botnfylli, bætið smjörinu útí og setjið lok yfir og sjóðið í 2 mínútur til viðbótar og passið að smjörið sé alveg bráðið og vel blandað saman við aspasinn. takið af hitanum og geymið.
2. Látið suðu koma upp í soðinu og haldið léttri suðu með því að hafa á lágum hita.
3. Í öðrum potti tiltölulega stórum (ca 22 cm í ummál), hitið létt ólífuolíuna og léttsteikjið laukinn, þegar hann hefur mýkst aðeins er hrísgrjónunum bætt útí og hrært vel, þar til hrísgrjóin eru farin að glansa, þá er hvítvíninu hellt útí og látið sjóða rétt aðeins niður.
4. Því næst er einni ausu af léttsjóðandi soðinu bætt útí og hrært vel saman við. Þegar hrísgrjónin hafa sogið í sig allan vökvann er meira af soðinu bætt útí, og svo koll af kolli þar til grjónin eru al dente(mikilvægt að smakka til áður en öllu soðinu er bætt útí því það er misjafnt eftir tegund grjóna hvað þau þurfa mikið vatn, þá er aspasinn skorinn í 3 cm bita og smá af vökvanum af aspasinum , ásamt aspasinum bætt útí og grjónin látin sjúga það í sig. Þegar grjónin eru tilbúin er parmesanosturinn rifinn útí saltað og piprað eftir smekk og borið fram með brauði.

Aspas og Avocadó salat

Ein útgáfa af þessu salati hefur sést á hádegisverðarhlaðborði Vox en ég hef svona tekið út það sem mér finnst ekki svo gott og sett inn það sem mér þykir gott. Því miður fylgir ekki mynd með þessum rétti en í framtíðinni mun ég láta mynd fylgja með.

1 avocado, mikilvægt að það sé vel þroskað
10 aspasstilkar
20 sykurbaunir
hvítlauksrif
góð ólífuolía
1 tsk balsamik edik
2 tsk sítrónusafi
flögusalt og nýmalaður pipar

1.Sjóðið vatn með salti, ca 1 msk á hvern ltr.
2.Skrælið aspasinn upp að hausnum og skerið endana af sykur baununum. Þegar vatnið sýður er aspasinn settur útí og soðinn í ca 3 mínútur þegar hann er léttsoðinn er hann settur í skál í vaskinn undir rennandi köldu vatni og kældur hratt niður. Það sama er svo gert við sykurbaunirnar í sama vatni.
3.Búið til hvítlauksolíu með því að kreista hvítlauksrifið útí olíu og hrista eða hræra vel í(ef afgangur er hægt að nota á ýmislegt annað eins og t.d. pizzu).
4.Takið fram disk til að setja salatið í.
5.Skerið avócadóið eftir miðjunni og takið steininn úr, takið kjötið úr með skeið og skerið með skeiðinni þannig að þið fáið ca 1/2-1 msk í hvern bita. Dreifið yfir diskinn og dreifið svo aspasinum og baununum, dreipið hvítlauksolíunni yfir ásamt sítrónusafanum og edikinu saltinu og piparnum(gott að vera örlátur á piparinn).

Þetta salat passar með öllum fisk- og kjötréttum. Ég hafði þetta með krabba-og rækjusalati(í sitthvoru lagi), kexi og nýbökuðu baquette brauði.