Wednesday, November 5, 2008
Plokkfiskur
Ég gerði loksins plokkfiskinn í kvöld og hann heppnaðist bara þokkalega vel. Það er alveg bráðnauðsynlegt að hafa rúgbrauð og ferskt grænmeti með, annars verður þetta allt of þungt fyrir okkur sem erum ekki vön svona þungum mat. Matarvenjur okkar hafa jú tekið stakkaskiptum síðustu ár og flestir réttir orðnir miklu léttari og ferskari þar sem allt hráefni var auðfáanlegt og tók ekki alveg eins mikið í budduna eins og það gerir í dag. Það var meira að segja orðið þannig að þegar ég bjó á Ítalíu öfundaði ég Íslendingana af hráefnaúrvalinu sem var/er hér á veturna. Ítalirnir fara nefnilega eftir árstíðum í matargerð, eitthvað sem við ættum að gera líka en hefur alltaf verið svo erfitt fyrir okkur þar sem það sem er til á veturna er tja lítið sem ekkert ef við hefðum ekki gróðurhúsin. En við höfum gróðurhúsin og við höfum mikið úrval og þar af leiðandi ætti maður að nýta sér það upp að vissu marki. Við ættum að fá að vita hvaðan grænmetið og ávextirnir koma og hvað hver tegund heitir. Epli er ekki bara epli það eru til þónokkuð margar tegundir og geta þær verið jafn mismunandi og epli og banani. Ég kannski fer ein í Bónus einhvern daginn svona þegar kreppan hefur hjaðnað og maður er kominn í mótmælagírinn og mótmæli skorts á upplýsingaflæði til viðskiptavinarins.
En jæja við vorum að tala um plokkfisk ekki satt?!
Hér kemur uppskriftin sem ég sauð saman í kvöld.
Plokkfiskur
f/4-6
500 gr soðin ýsa
200 gr soðinn saltfiskur
400 gr kartöflur
1 laukur, saxaður
50 gr smjör
40 gr hveiti
1 ltr nýmjólk
50 gr ostur
salt og pipar
Rúgbrauð- smjör - gulrætur skornar í franskar og agúrka skorin í franskar
Aðferð:
1. Sjóðið kartöflurnar
2. Sjóðið fiskinn
3. Takið stóran pott(f /a.m.k 2 ltr) og bræðið smjörið yfir meðalháum hita bætið lauknum saman við og sjóðið í 5-10 mín(má ekki taka lit) þegar hann hefur mýkst er hveiti bætt saman við smátt og smátt og hættið að bæta saman við þegar hægt er að móta bollu úr öllu saman.
4. Bætið þá mjólkinn smátt og smátt saman við og pískið vel á meðan. Látið suðuna koma upp á mjólkinni og þá ætti hún að vera orðin nokkuð þykk. Passið að hræra stanslaust því mjólkin á það til að brenna hratt í botninn. Saltið og piprið.
5. Þegar sósan er tilbúin eru kartöflurnar skrældar og skornar í bita og fiskurinn tekinn úr vatninu og þessu er blandað saman við sósuna, þetta er svo allt saman sett í eldfast mót og osturinn rifinn yfir og sett örstutt undir grillið til að gratínera eða bræða ostinn.
6. Berið þetta allt saman fram með rúgbrauði með smjöri og fersku grænmeti.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment