Monday, November 10, 2008

Matseðill fyrir vikuna 11.nóv- 18.nóv.

Ég sat í bílnum áðan að setja saman matseðil vikunnar þannig að í þetta skiptið voru allir réttirnir ákveðnir af mér og því fær eiginmaðurinn engu að ráða þessa vikuna. Venjulega þá tek ég við óskum frá fjölskyldunni, því að allir eiga sinn uppáhaldsrétt og vilja fá hann svona annað slagið.
Þessa vikuna ætla ég að brassera svolítið og þar sem ég ætla að ráða þá fá að læðast hér inn grænmetisréttir líka, eitthvað létt til að vinna á móti brasseringunni. Í þetta skiptið ætla ég að brassera kjúkling, þetta er mjög oft gert á dönskum heimilum og er þetta partur af klassísku réttunum sem eru mikið í uppáhaldi hjá mér, sérstaklega þegar kalt er í veðri og ég þarf á ,,comfort food" að halda. Ég þarf að finna gott íslenskt orð yfir þetta.

Matseðill fyrir vikuna 11.-18. nóvember

Þriðjudagur

Brasseraður kjúklingur með beikoni og sveppum
Ég keypti svo mikið beikon um daginn á tilboði og setti helminginn í frysti, þannig að gott er að losa aðeins um geymsluplássið þar og nýta.

Miðvikudagur

Bakaðar kartöflur með beikoni, sveppum og salati.
Ég býst við að það verði afgangur af sveppunum frá gærdeginum og svo þar að auki er ég að fara á mótmælafund og þarf að hafa eitthvað fljótlegt og gott.

Fimmtudagur

Linsubaunaréttur með tómatsósu og steiktu eggaldin.
Ég get ekki beðið eftir grænmetisréttinum það er bara allt of langt síðan ég eldaði linsubaunarétt.

Föstudagur

Svínalundir með gráðostasósu og frönskum kartöflum.
Ég bara fæ ekki leið á þessari klassík og langar alltaf í þetta svona annað slagið, kannski maður breyti aðalhráefninu ef það er eitthvað spennandi á tilboði.

Laugardagur

Grill: BBQ svínahnakki, bakaðar kartöflur og salat.
Ég er í nostalgíu og sakna grillsins hans pabba, en það var á hverjum einasta föstudegi og ekki sleppt úr fyrir forsetann!
Reyndar ætla ég að láta vita strax að föstudagurinn og laugardagurinn gætu breyst lítillega, annað hvort skipti ég á dögum eða aðalhráefni. Sjáum hvað vikan færir mér.

Sunnudagur

Sítrónukjúklingur, salat og hrísgrjón
Ég ætla að vera mjög djörf í þetta skiptið og breyta gamla góða réttinum, sem öll fjölskyldan mín hefur gert í áraraðir, örlítið af ýmsum ástæðum og meðal annars þeirri að gamli er frekar dýr þar sem olían er svo hátt verðsett. Ég vona að það gangi upp hjá mér og að ég fái ekki fjölskylduna upp á móti mér.

No comments: