Friday, October 31, 2008

Spaghetti Carbonara

Spaghetti Carbonara tja hvað er hægt að segja annað en hreinn og klár unaður og svo einfalt að maður bara spyr sig hvernig þetta sé hægt! Rétturinn á að vera alveg jafn safaríkur og ef að rjóma væri bætt saman við nema ekki eins mikil rjómasósa heldur meira sérstakur réttur frekar en enn einn rjómasaghettí rétturinn.
Ég vil endilega bæta hér inn að ég hef nú verið að lesa aðeins um réttinn Carbonara á netinu og í bókum og það er greinilega ýmislegt sem fólki þykir í lagi að bæta saman við réttinn og í mörgum tilfellum myndi ég segja að rétturinn væri orðinn að rjómasósu með beikoni. Það sem ég lærði af Ítölsku vinkonu minni (hafið þó í huga að Ítalirnir geta verið sérstaklega íhaldssamir í sambandi við klassísku réttina sína) var að um leið og þú ferð að bæta fleiru saman við réttinn eins og t.d. rjóma þá vildu þeir kalla réttinn eitthvað annað. Annars eru þeir nú farnir að bæta rjóma saman við réttinn norðar á Ítalíu en rétturinn kemur frá suður-Ítalíu þannig að það er erfitt að segja hvað er rétt og hvað er rangt í þessu sambandi. En eitt er víst að ef þið viljið hafa þetta alveg authentic þá er þetta uppskrift sem kemst mjög nærri því.

Spaghetti Carbonara
f/4

400 gr spaghetti
4 eggjarauður
4 eggjavítur
2 msk rifinn parmesanostur
7 beikonsneiðar, skornar smátt og steiktar á pönnu
(salvía og smjörklípa)
Nýmalaður pipar

Aðferð:
1. Setjið spaghettíið í sjóðandi vatn og sjóðið eftir tímanum sem stendur á pakkanum
2. Stökksteikið beikonið(ásamt salvíu ef þið viljið nota hana, takið hana svo úr og hendið)í örlitlu smjöri
3. Skiljið eggin að í tvær skálar og hrærið eggjarauðurnar með parmesanostinum
4. Stífþeytið eggjahvíturnar
5. Þegar spaghettíið er tilbúið þarf að hafa hraðar hendur, þá er vatninu hellt af því og það sett í skálina sem á að bera fram í, þá eru rauðunum bætt saman við þegar það er sjóðandi heitt til þess að þær eldist, þegar þær eru vel blandaðar saman við er hvítunum blandað saman við og síðast er beikoninu bætt saman við og þá er rétturinn tilbúinn. Piprið með nýmöluðum pipar.

Berið fram með brauði og fersku salati og ég set yfirleitt á borðið piparkvörnina og parmesanost ef fólk vill fá meira af því.

Aths. Mjög gott er að steikja beikonið uppúr smjörklípu og smá ferskri salvíu.

2 comments:

Hrafnkell said...

Skellti í þetta í kvöldmatinn hér.

Fannst bragð vanta þó (engin Salvía). Setti auka parmesan svo og pipar. Eggahvítubragð/áferð var dáldið yfirþyrmandi í fyrstu en það jafnaði sig að mestu.

Sigurrós Pálsdóttir matreiðslumaður á Vox said...

Sæll Hrafnkell- Já það er svo svakalega mismunandi hér hvort eggin eru stór eða lítil. Hér miða ég við lítil egg og hitt er líka mjög mikið smekksatriði, maðurinn minn setur t.d alltaf auka pipar og salt þegar við erum sest við borðið.