Sunday, November 30, 2008
Barnaafmæli - Barbiekaka
Þá kom svo að barnaafmælinu. Bekkjarafmælið var haldið á föstudeginum og ekki var neitt verið að flækja það því var boðið upp á pulsur og barbieköku. Ég verð nú að segja stolt frá því að ég var búin í vinnunni klukkan 15:00 og átti að mæta aftur í vinnuna klukkan 18:00, þannig að það var ekki mikill tími til stefnu til að búa til kökuna en ég ákvað að reyna við þetta. Ég verð þó að viðurkenna hér og nú að það var notuð Betty Crocker, ég geri mér grein fyrir því að það er ekkert kreppulegt né húsmóðurlegt við það en þegar maður hefur svona lítinn tíma kemur bara ekkert annað til greina. En jæja ég henti í kökuna og bakaði nokkur form og svo byrjaði púsluspilið, ein ofan á aðra, skera út og svo glassúrinn, velja litina og nammið sem átti að fara á kökuna(úps var að muna eftir silfurkúlunum sem ég keypti, þær gleymdust en hvað um það, lítið við því að gera núna) það voru gúmmíbangsar og lakkrís og svo þessi líka fína barbiedúkka. Allt gekk rosalega vel þar til kom að lokapunktinum, að setja konuna í kökuna, þá vandaðist málið, því að konan var með mjög svo óeðlilega langa leggi, aldrei tekið eftir því, þá voru góð ráð dýr. Ég hugsaði með mér að það hlyti nú að vera hægt að taka þessar lengjur af blessaðri konunni án þess að eyðileggja og jú mig minnti að það hefði verið hægt þegar ég var lítil, var ég ekki alltaf að taka þetta af og setja aftur á? hmm jú ég held það nú bara þannig að af með leggina. Æ og úps þetta var víst ekki alveg hægt svona eins og í gamla daga, aumingja konan orðin leggjalaus og barnið grátandi inni í herbergi og bekkjarfélagarnir að banka á dyrnar. Það er víst ekki alveg aðstaðan sem maður vill vera í svona á þessum tíma. En málunum var reddað þegar leggjalausa konan var komin ofan í kökuna eins og besti strippari og stinn brjóstin gnæfðu yfir fallega bleiku kökuna þá sá dóttir mín ekkert annað en alveg frábæra barbie í alveg rosalega flottum kjól sem var svo bara alveg æðislega góð kaka. En hvað ég er heppin að hún er bara 6 ára.
Barbiekaka
2 pakkar Betty crocker devils food cake
1 1/2 dolla Betty crocker chocolate fudge frosting
200 gr flórsykur
vatn
matarlitur
lakkrís
gúmmíbangsar
decorating gel
Aðferð:
1. Bakið 4 kökur helst í mismunandi stærðum í litlum hringlaga smelluformum.
2. Kælið kökurnar og setjið stærstu á botninn á kökudisk og smyrjið með frosting skerið svo út minni hring(eða notið minna hringform) og leggjið ofan á og svo koll af kolli.
3. Smyrjið kökuna svo með frosting að utan og blandið svo vatni og flórsykri saman og athugið að setja smá vatn í einu og hræra því það þarf afskaplega lítið vatn. skiptið í tvennt eða þrennt eftir því hvað þið viljið hafa pilsið í mörgum litum og setjið mismikið af matarlit í hverja skál. Skreytið svo kökuna að vild
4. Gott er að notast við decorating gel til að skerpa línu eða gera skemmtilegt skraut í pilsið.
5. Skreytið svo enn frekar með gúmmíböngsum og lakkrís.
Aths. Ef ég gat þetta á einum og hálfum tíma þá getur hvaða hálfviti sem er gert það líka!!!
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment