Monday, May 5, 2008

Steikt fennika með parmesanhúð og linsubaunasalati



Þessi réttur fannst mér alveg rosalega góður og ekkert kjöt kemur nálægt honum. Linsubaunir eru vítamnríkar, járninnihald er hátt og mér finnst þær kærkominn staðgengill hrísgrjóna og kartaflna. Ég er nefnilega komin með smávegis nóg af kartöflum og hrísgrjónum og er að vinna í því að finna eitthvað gott í staðinn. Ef þið viljið er þó einnig mjög gott að bæta litlum kartöfluteningum saman við í þessari uppskrift. Það getur verið örlítið subbulegt að steikja fennikuna á þennan hátt en það er svo sannarlega þess virði, það er líka hægt að nota ýmislegt annað grænmeti í staðinn, eins og t.d. gulrætur, eggaldin, kúrbít, kartöflur og fleira sem ykkur dettur í hug eða það sem er girnilegast í búðinni.

Linsubaunasalat

Handa 4

150 g grænar linsubaunir
1 meðalstór gulrót
1 meðalstór blaðlaukur, bara hvíti hlutinn
1/2 laukur
4 msk tómatpassata(sem er tómatsósa úr dós með engum tómatbitum í)
10 basilíkulauf(hægt að sleppa)
vinaigrette(2-3 msk ólífuolía og 1 msk balsamedik)
1 fennikuhaus
50-100 g parmesanostur, rifinn mjög smátt
3 msk mjólk(ég notaði léttmjólk en það má vera hvað sem er)
extra virgin ólífuolía

Aðferð:
Sjóðið linsubaunirnar í söltu vatni í u.þ.b. 15 mín.(smakkið til að athuga hvort tilbúnar), látið þá renna af þeim og setjið til hliðar. Skerið grænmetið á meðan fyrir utan fennikuna. Skerið allt grænmetið í litla teninga og steikið á pönnu með olíu við meðal-lágan hita, ef þið eigið húðaða pönnu er hægt að sleppa olíunni, þar til grænmetið er meyrt, ca. 20-25 mín. Bætið þá tómatsósunni saman við, saltið og piprið og rífið basilíkuna út í. Látið malla við lægsta hita á meðan þið skerið fennikuna og steikið. Skerið fennikuna fyrst í tvennt, þá skerið þið kjarnann úr og síðan skerið þið hvert fenniku,,lauf" í tvennt og skrælið ystu ,,laufin". Sjóðið fennikuna í sjóðandi, söltu vatni í ca 5 mín þar til hann er meyr en með smá biti í, takið hann þá upp úr og haldið undir ísköldu rennandi vatni í 2-3 mínútur, þerrið hann þá á eldhúspappír. Hellið mjólkinni í grunna skál og rífið ostinn í aðra grunna skál. Hitið ólífuolíu á pönnu og hafið á meðal-háum hita. Dýfið hverju laufi ofan í mjólkina fyrst og veltið svo upp úr parmesan ostinum og setjið á heita pönnuna. Steikið þar til hann er gullinbrúnn á báðum hliðum. Á meðan hann steikist blandið þá linsubaununum saman við grænmetið og hitið þar til heitt í gegn, setjið á diska og fennikuna yfir þegar hún er tilbúin. Dreypið smá vinaigrette yfir og berið fram.
Ath. hægt er að sleppa tómatsósunni og blanda grænmetinu, linsubaununum og vinaigrette saman og hafa það þannig.