Tuesday, February 8, 2011

NÝTT!! Námskeið í matreiðslu grænmetis og hollra rétta

Hollur matur á hagkvæman hátt
Á námskeiðinu fer Sigurrós vel yfir undirstöðuatriðin í matreiðslu grænmetis, grænmetisrétta, hollra rétta og einnig hvernig hægt er að breyta óhollustu í hollustu. Leiðbeint verður um hvernig hægt er að búa til hollan mat á hagkvæman hátt og hvernig gera má sér glaðan dag með lúxushráefni.

Sigurrós er matreiðslumaður að mennt og hefur unnið á fínum grænmetis- og fiskveitingastöðum bæði hér og erlendis og hefur viðað að sér mikilli þekkingu á hollum mat og heilbrigðum lífsstíl. Hún mun ljóstra upp „kokkaleyndarmálum“ og gefa ýmis góð ráð.

Þetta er námskeið sem hentar öllum, bæði fólki sem kann að elda og þeim sem hafa aldrei komið nálægt eldamennsku.

Kennari: Sigurrós Pálsdóttir - Matreiðslumeistari
Tími: Miðvikudaginn 02.mars kl. 18:00 - 20:00
Staður: Fræðslusalur Maður Lifandi Borgartúni 24
Skráning á netfangið: madurlifandi@madurlifandi.is
eða í síma 585 8701
Verð: 4.900 kr.

Monday, November 29, 2010

Hollar kökur- námskeið í Maður lifandi

Sæl öllsömul
Ég mun vera með námskeið á fimmtudaginn milli klukkan 18-20 og mun ég taka hollar kökur fyrir. Gerð þeirra, hvernig er hægt að breyta óhollum kökum í hollar og tilganginn með þessu öllu saman.
Námskeiðið verður haldið í Maður lifandi í Borgartúni fimmtudaginn 02.12.2010 milli klukkan 18 og 20 og kostar 3900 kr.
Endilega kíkið á þetta mjög svo áhugaverða námskeið og bráðnauðsynlegt svona í jólaundirbúningnum.

Með kveðju
Sigurrós

Sunday, July 25, 2010

Hin fullkomna samloka




Þessi er fyrir þá sem eru til í sukk og svínarí par excelance. Ég fór algerlega í hið svokallaða óverkill svo ég leyfi mér að sletta aðeins. Ef ég hefði átt trufflur eða truffluolíu hefði ég legið í vímu í allt kvöld, þannig að þeir sem hafa efni á eða eiga inni í skáp endilega bæta því ofan á þessa.
Þessi samloka er engan veginn fyrir þá sem eru að hugsa um línurnar heldur fyrir þá sem vilja njóta þess sem þetta líf býður uppá, enda er ég að fara í einkaþjálfun eftir helgina og vildi aðeins smakka á síðasta smjörmatnum í dágóðan tíma. Ójá það er smjör í henni þessari,en þó ekki svo mikið að maður fái klígju heldur ákkúrat rétta magnið,oh það er svo gott...stundum....
Hér kemur hún, hin fullkomna samloka...fyrir þá sem þora!

Hin fullkomna samloka
f/2
4 brauðsneiðar,ég nota heimilisbrauð en auðvitað væri best að vera með glænýtt sveitabrauð,skorið í góðar sneiðar
250 gr sveppir
4 sneiðar beikon
1 skallottulaukur
1 hvítlauksrif
1 msk balsamik edik
2 skinkusneiðar
8 ostsneiðar
4 tómatsneiðar
Dijon sinnep
majónes
smjör og nóg af því
salt og nýmalaður pipar
2 tsk maple sýróp

Aðferð:
1.Skerið sveppina í sneiðar,saxið laukinn,skerið beikonið smátt,skerið tómatana í sneiðar og saxið hvítlaukinn.
2.Setjið góða matskeið af smjöri á pönnu yfir hæsta hita og þegar það fer að krauma er beikoninu bætt saman við og það steikt þar til það fer að brúnast aðeins. Bætið þá hvítlauk,skallottulauk og sveppum saman við og steikið þar til sveppirnir fara að brúnast vel,ca. 5 mín. Bætið þá balsamik edikinu útá pönnuna og látið það sjóða alveg niður og hrærið vel á meðan. Takið þá af hitanum og geymið.
3. Takið nú brauðsneiðarnar og smyrjið allar með dijon sinnepi(örþunnt þó) og svo með majónesi.Leggjið skinkusneiðarnar,ostinn og tómatana ofan á og lokið með brauðsneið.
4.Hitið 3 msk af smjöri á stórri pönnu sem hægt er að loka með loki(eða disk,eða hverju sem þið finnið í eldhúsinu,brauðbretti jafnvel),þegar það er bráðið er samlokan lögð á smjörið og látin drekka í sig smjör þeim megin og svo velt strax aftur á hina hliðina og þar er hún steikt við hæsta hita í 3 mínútur,þá er hitinn lækkaður í meðal háan hita og steikt áfram í 3 mínútur(passið að kíkja undir og athuga hvort hún sé nokkuð að brenna),þegar hún er tilbúin þeim megin er henni snúið við og hún er steikt áfram í 4-5 mínútur, allan tímann er lokið á pönnunni(til þess að osturinn bráðni).Þegar hún er alveg að verða tilbúin er einni tsk af maple sýrópi smurt á hvora samloku. Ef þið notið truffluolíu eða trufflur mæli ég með því að dreypa henni yfir sveppablönduna eða sneiða trufflurnar yfir samlokuna.ohh þvílíkur draumur það væri.
Berið fram samlokuna með steiktu sveppunum til hliðar, og njótið til fulls því maður leyfir sér ekki svona unað oft.

Thursday, April 22, 2010

Magnaðir hamborgarar!


Þar sem ég er í hollustunni alla daga var mig farið að langa verulega í grillaða hamborgara og svona til að friða samviskuna þá ákvað ég að fara með þetta alla leið og bakaði meira að segja brauðið líka! Útkoman var hreint út sagt mögnuð!! Ég reyndi að taka mynd af herlegheitunum en veit ekki alveg hvernig til tókst þar sem það var á símann minn, en vonandi kem ég henni hér inn.
En hér er uppskriftin og ég get alveg lofað ykkur að þessir slá í gegn og verða gerðir aftur í sólinni í sumar(er mjög bjartsýn á gott sumar að sjálfsögðu)

Gleðilegt sumar allir saman og endilega grillið þessa og hafið bjór við höndina, hann passar hrikalega vel við, þá sérstaklega einhver dökkur eða Kaldi.
Til þess að það sé auðveldara fyrir fólk að leita að þessu í framtíðinni þá ætla ég að setja þetta í nokkrar færslur hér inn,þá er hægt að googla þetta auðveldlega, sérstaklega ef þið viljið nota sósuna í eitthvað annað eins og ég ætla svo sannarlega að gera.

Magnaðir hamborgarar með heimatilbúnu brauði og heimatilbúinni BBQ sósu

Hamborgarabrauð
f/8
250 ml nýmjólk
200 ml rjómi
50 ml volgt vatn
7 gr þurrger
50 ml sykur
2 tsk salt
1 kg hveiti (afsakið, þetta kemur soldið seint þessi lagfæring;))

1 egg
2 tsk sesamfræ

Aðferð:
1. Sjóðið létt saman mjólkina og rjómann og kælið niður í 40-50°C(eða þegar putta er stungið í og ykkur þykir blandan aðeins heit)
2. Blandið saman þurrgeri og vatni og bíðið þar til það freyðir, þá getið þið notað hana. ef hún freyðir ekki er ráð að henda og búa til nýja blöndu.
3. Bætið volgri mjólkurblöndunni saman við ásamt sykri,hveiti og salti. Hrærið í hrærivél á lágum hitafyrst(með hnoðaranum)eða hnoðið með sleif, svo á aðeins hraðari og hnoðið í 6 mín.(ef þið gerið í höndunum þá þarf ekki endilega að hnoða í 6 mín.) eða þar til deigið er svolítið klístrað.
4. Færið yfir í skál sem hefur verið smurð með olíu og berið olíu yfir deigið. Setjið viskastykki yfir og látið hefast við stofuhita eða aðeins heitara í 2 tíma.
5.Hnoðið þá aðeins deigið og bætið hveiti saman við og fletjið út í 2 cm þykkan hring og skerið út 8 hringi, ef þið náið ekki alveg 8 hringjum(10 cm í þvermál) er í lagi að hnoða afgangana einu sinni til viðbótar og skera út rest.
6. Setjið á bökunarpappír og setjið olíusmurða plastfilmu yfir látið hefast í 1,5 tíma eða jafnvel 2 ef þið hafið tíma, við stofuhita eða inni í ofni, eins og ég geri. Þegar þau eru tilbúin eru þau smurð með þeyttu egginu og sesamfræjum stráð yfir og brauðin eru bökuð í forhituðum ofni við 190°C í 20-25 mín. Kælið. Svo eru þau skorin í tvennt og sárin smurð með olíu og grilluð í eina mínútu með sárið niður.
Þessi er svakaleg!! Ég mæli með henni á allt BBQ í framtíðinni sem þið munið nokkurn tíman gera, þessi er svona The Ultimate, ekki spurning!

Kaffikryddaðir hamborgarar

Þetta kom mér svo skemmtilega á óvart að ég bara varð að deila þessu með ykkur. Ég gerði rétt um daginn sem var með kakói í og það kom svo vel út að ég hugsaði að það hlyti að vera það sama með kaffið. Ég notaði koffínlaust þar sem ég get ekki drukkið koffín og það kom ekki að sök. Bragðið verður svo djúpt og mjúkt við kaffið og rífur svo smá í við cayennapiparinn. Hreint æðislegt!

Kaffikryddaðir hamborgarar
f/5

Kaffikryddblanda
1 msk kaffi
2 tsk púðursykur
2 tsk pipar
1/2 tsk kóríanderduft
1/2 tsk oreganóduft
1/2 tsk salt
cayennapipar á hnífsoddi

Öllu blandað saman og stráð yfir hamborgarana áður en þeir fara á grillið og svo einnig á meðan þeir eru á grillinu.

Hamborgarar
f/5
1 kg nautahakk, passið að það sé hreint hakk, ekki með kartöflusterkju og vatni
salt og pipar

10 beikonsneiðar
10 cheddarostsneiðar

Aðferð:
1. Hnoðið hakkinu saman í borgara sem eru um 200 gr hver, ég reyndar gerði fyrir mína fjölskyldu um 160 gr það var alveg nóg fyrir okkur en þetta er smekksatriði
2. Steikið beikonið, ég grilla það í ofni á bökunarpappír, þá er ekki eins mikil bræla sem kemur af því.
3. Grillið borgarana og passið að setja kryddblönduna á meðan og svo þegar þið snúið borgurunum á seinni hliðina þá setjið þið ostsneiðarnar yfir þannig að þær bráðni.
Grillið þá þar til þið sjáið blóð koma upp úr sprungum á seinni hliðinni, fyrir medium borgara.

Setjið saman:
Hafið tómatsneiðar,salat,beikon og sósu til taks fyrir fólk að setja borgarana saman sjáft eftir smekk.
Gott að bera fram með heimatilbúnum frönskum kartöflum.

Texas BBQ sósa

Texas BBQ sósa
f/8 hamborgara
1 msk smjör
1 hvítlauksrif,kramið
200 ml tómatsósa(ketchup)
70 ml púðursykur
70 ml Worcestershire sósa
50 ml sítrónusafi
1 chillialdin, ég setti bara smá með fræjum en þeir sem vilja hafa hana heita setja heilann
1/4 tsk cayennapipar

Aðferð:
1.Bræðið smjörið í meðalstórum potti við meðalhita,bætið hvítlauk saman við og hrærið í 30 sekúndur. Bætið tómatsósu saman við ásam restinni af hráefninu. Látið sjóða. Lækkið hitann í meðal-lágan og látið malla þar til sósan er þykk og bragðmikil eða kemst í 270 ml glas, ca 15 mín., hrærið af og til á meðan. Saltið og piprið. Kælið.
Athugið að hægt er að geyma sósuna í kæliskáp í lofttæmdum umbúðum í viku.

Tuesday, April 13, 2010

Bragðmildur karrý-kókosréttur tilvalinn fyrir krakkana

Ég gerði þennan rétt í kvöld og þegar ég var að elda hann þá grátbað dóttir mín mig um að hafa hann ekki bragðsterkan, svo að ég ákvað að verða við þeirri bón en hann var alveg svakalega góður og allir fengu sér aftur og aftur á diskinn. Málið var nú eins og venjulega hjá mér þessa dagana að það var ekkert til í ískápnum, eða svo fannst mér en fann þetta og hitt og þetta var útkoman. Maður lumar jú alltaf á einhverjum kryddum í skápunum hjá sér og nýtti ég mér það að þessu sinni.

Karrý-kókos grænmetisréttur
f/4
1 lítil sæt kartafla
7-8 litlar gulrætur
1 laukur
1 sellerístöngull
1/4 paprika,rauð
2 hvítlauksrif
1 cm engiferrót
1 cm chillialdin(það er greinilega mjög milt í búðunum núna og þetta var þar engin undantekning,ég smakka það alltaf áður en ég set það út í réttinn)
2 tsk karrý
1 tsk kóríander
1 tsk engifer
1 kjúklinga/grænmetiskraftur
1 dós niðursoðnir tómatar
1 dós kókosmjólk
olía til steikingar

Aðferð:
1. skerið laukinn í sneiðar,saxið selleríið,hvítlaukinn,engiferið og chillialdinið og steikið létt á pönnu í olíu. Bætið kryddunum saman við og brennið létt á pönnunni þar til ilmar vel.
2. skerið restina af grænmetinu í franskar og bætið saman við, steikið létt. Bætið þá tómötunum og kókosmjólkinni saman við þannig að rétt fljóti yfir, bætið kraftinum saman við. Setjið lok á pönnuna og sjóðið við meðal-lágan hita í 40 mínútur eða þar til grænmetið er meyrt. Saltið og piprið eftir smekk.
Berið fram með annað hvort linsubaunum eða hrísgrjónum. Einnig er hægt að bæta baununum saman við.