Það er nú meira sem maður hefur vanrækt þessa síðu síðustu daga. Ég skellti mér nefnilega upp í sumarbústað um helgina en það þýddi þó ekki að maður væri laus úr eldhúsinu, öðru nær, en þó algerlega mér að kenna. Við eyddum meirihluta seinni partsins á laugardeginum í eldamennsku og svo eyddum við kvöldinu í át og spil og spjall fram á nótt, hvílíkt dekur á manni.
Ég verð nú samt að reyna að setja saman uppskrift af alveg frábærri rauðlaukssultu sem ég hafði með grilluðu lambalæri og lamba ,,jus" en það er soð sem hefur verið soðið niður þar til það þykknar. Þar svindlaði ég aðeins svona með tilliti til heimilisfólksins og notaðist við alvöru soð og þess vegna er ég ekkert að setja inn þá uppskrift en lambið var mjög klassískt og ekkert flókið við það. hvítlauk stungið í litlar holur í það og saltað mjög mikið og piprað og svo fullt af rósmaríni dreift yfir. Þá var því pakkað í álpappír og hent á grillið...
Daginn eftir var maður dálítið ryðgaður en þá var tilvalið að henda í lambakjötssamlokur í kvöldmatinn. Þá smurði ég baguette(sem ég kaupi frosið) með smá majónesi og steikti skinkusneiðar með osti ofan á setti það á brauðið létt steikti niðurskorna afgangana af kjötinu og setti á brauðið ásamt rauðlaukssultunni og afganginum af sósunni. Þetta var líklegast geggjaðasta samloka sem ég hef smakkað!
Rauðlaukssulta
meðlæti fyrir 4-6
3-4 rauðlaukar(fer eftir stærð), sneiddir
2 msk sinnepsfræ, annað hvort brún eða gul
2 msk rósmarín
50 ml balsamikedik
50 ml púðursykur
salt og pipar
1 chillialdin, saxað
olía til steikingar
Aðferð:
1. Sneiðið laukana og setjið olíu í djúpa pönnu yfir meðallágum hita.
2. Steikið chillialdinið í nokkrar mínútur og bætið svo lauknum saman við.
3. Léttsteikið laukinn þar til hann hefur mýkst og bætið þá afganginum af hráefninu saman við og látið malla í 40-45 mín, eða þar til laukurinn er orðinn að nokkurs konar sultu, vökvinn orðinn þykkur. Ef vökvinn verður hins vegar of þykkur er gott að bæta vatni saman við og ef ykkur þykir vanta bragð er gott að bragðbæta með ediki og salti.
Tuesday, November 25, 2008
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment