Sunday, November 9, 2008

Saffranrisotto

Ég fékk að gjöf frá móður minni forláta saffran beint frá Indlandi fyrir tveimur árum síðan og það hef ég notað í þennan rétt síðan. Þetta er náttúrulega ekki beint kreppumatur þar sem saffran er jú dýrara en gull en það er svo bragðmikið að það þarf aðeins eina klípu af saffran í stóran skammt af risotto. Það er líka hægt að nota uppskriftina af risottoinu og sleppa saffraninu og setja ýmislegt annað í staðinn eins og t.d. aspas(má vera úr dós), blandaða þurkaða sveppi, bianco(án bragðefna).
Mér þykir best að bera þetta fram með bökuðu brauði.

Saffranrisotto
f/4
10 gr smjör
700 ml kjúklingasoð(700 ml vatn+11/2 kjúklingakraftsteningur)
300 gr risotto hrísgrjón
1 skallottulaukur, saxaður
2 msk ólífuolía
200 ml hvítvín
30 gr parmesan, og jafnvel meira eftir smekk
salt og pipar eftir smekk
Smá klípa af saffran

Aðferð:
1. Látið suðu koma upp í soðinu og haldið léttri suðu með því að hafa á lágum hita.
2. Í öðrum potti tiltölulega stórum (ca 22 cm í ummál), hitið létt ólífuolíuna og léttsteikið laukinn, þegar hann hefur mýkst aðeins er hrísgrjónunum bætt útí og hrært vel, þar til hrísgrjóin eru farin að glansa, þá er hvítvíninu hellt útí og látið sjóða rétt aðeins niður.
3. Því næst er einni ausu af léttsjóðandi soðinu bætt útí og hrært vel saman við. Þegar hrísgrjónin hafa sogið í sig allan vökvann er meira af soðinu bætt útí, og svo koll af kolli þar til grjónin eru al dente(mikilvægt að smakka til áður en öllu soðinu er bætt útí því það er misjafnt eftir tegund grjóna hvað þau þurfa mikið vatn. Setjið klípu af saffrani saman við. Þegar grjónin eru tilbúin er parmesanosturinn rifinn útí og smá smjörklípa sett saman við, saltað og piprað eftir smekk og borið fram með brauði.

No comments: