Wednesday, December 30, 2009

Pasta með steiktum harricot verte baunum og balsamicdressingu

Ég er í einhverju pastastuði þessa dagana, kannski vegna þess að það er langt síðan ég hef haft það og hátíðamaturinn þetta árið sem önnur þungur í maga og þarf aðeins að létta á þessu öllu saman.
Ég henti í eitt salat í gær með þessari frábæru dressingu, svo langaði mig að fá smá Ítalíufílíng í kroppinn og steikti því strengjabaunir með extra virgin ólífuolíu og maldonsalti, þar til þær verða léttbrúnar, það er fáránlega gott, soldið eins og snakk.
Venjulega þegar ég geri svona salat með pasta hef ég enga dressingu en í þetta skiptið ákvað ég að breyta til og það heppnaðist svona líka dásamlega.

Pasta með steiktum harricot verte baunum og balsamic dressingu
f/4
400 gr pasta
200 gr strengjabaunir(harricot verte)
6 kirsuberjatómatar eða konfekttómatar, skornir í fernt
3 msk fetaostur
3 msk ólifur, skornar í tvennt
3-4 sneiðar beikon
2 tsk sýrður rjómi
2 tsk majónes
salt og pipar

Dressing:
2 msk balsamico edik
4-5 msk ólífuolía
1 tsk sinnep
1 msk púðursykur

Aðferð:
1. Steikið baunirnar mjög vel í slatta af olíu og smá maldon salti, þar til þær eru létt brúnaðar. Á meðan er beikonið steikt í ofninum(setjið á smjörpappír og grillið) og vatn sett yfir fyrir pasta.
2. Sjóðið pasta og létt kælið það.
3. Setjið allt í skál fyrir utan dressinguna og blandið létt saman
4. Gerið dressinguna: Notið helst töfrasprota til þess að gera hana þykka, þá er olíunni hellt varlega saman við edikið og púðursykurinn og hrært í á meðan svo er sinnepinu bætt saman við.
Blandið saman við pastað eftir smekk. Sumir vilja hafa mikið aðrir lítið, læt ykkur ráða því.

Tuesday, December 29, 2009

Rjómapasta með fetaosti og beikoni

Ég verð nú að viðurkenna að ég var eilítið þvinguð til þess að setja hér inn þessa uppskrift, þeim fannst hún svo góð heimilisfólkinu mínu. Þannig er það nú með mig að ég vil helst ekki elda neitt með rjóma, ég er ekki mikið fyrir hann og rjóma pasta þykir mér frekar vera amerískt afbrigði af pastarétti en nokkurn tímann ítalskt, sérstaklega þar sem maður átti verulega erfitt með að finna rjóma í búðum á Ítalíu vegna einmitt þess að þeir nota hann afar sjaldan og enn sjaldnar með pasta. Þess vegna hef ég einbeitt mér að því að búa til pastarétti sem eru ferskari og léttari en rjómapasta en jæja ég átti rjóma inni í ísskáp eftir hátíðarnar, þar sem ég var með ís í eftirrétt og vegna þess að þetta er mjög dýrt hráefni ákvað ég að nota þetta í stað þess að henda í ruslið. Ég reyndar gerði mér grein fyrir því að ísskápurinn var því sem næst tómur en náði þó að henda í þennan rétt og kom svona líka vel út. Hér eru þó engin geimvísindi á ferð en ég set þetta inn samt sem áður.

Rjómapasta með fetaosti og beikoni
Fyrir litla sæta fjölskyldu

200 ml rjómi
1 msk fetaostur
2 tsk sýrður rjómi
2 gulrætur, skornar í 1 cm ferninga
1/2 lítill laukur, saxaður
4 beikonsneiðar, skrornar í litla bita
1/2 nautakraftsteningur
salt og pipar
smá smjörklípa
Spaghetti eða pasta(ég geri ráð fyrir 100 gr á svangan fullorðinn í aðalrétt og 50 gr á litlu músina mína en venjulegt barn borðar um 70 gr)

Aðferð:
1. Skerið og saxið lauk, gulrætur og beikon og léttsteikið upp úr smjörklipu í potti.Bætið þá rjómanum, ostinum og sýrða rjómanum saman við ásamt kraftinum, salti og pipar og látið sjóða vel niður í ca 10-15 mínútur, þar til sósan er þykk og ljúffeng.
2. Sjóðið pastað eða spaghetti á meðan og berið farm með brauði

Það er hægt að segja að þessi sé ein af þessum fljótlegu og einföldu uppskriftum þetta tók mig ekki meira en 15 mínútur að búa til.

Monday, December 21, 2009

Súkkulaðikaramellur hjúpaðar súkkulaði


Ég prófaði loksins að gera þessar og sem betur fer því þær eru guðdómlegar! Ef ykkur finnast fílakaramellur góðar þá þykir ykkur þessar klikkaðar! Það var líka miklu minna mál að búa þær til heldur en ég hélt, það eina sem maður þarf alveg pottþétt er réttur hitamælir(tékkið á því með því að mæla sjóðandi vatn), en ég komst að því að minn er 2 gráðum of lár. Maður ræður alveg hvort maður hjúpar þær eða ekki en ég var eitthvað stressuð yfir að þær yrðu of harðar og sauð þær aðeins of stutt sem gerði það að verkum að hún varð of mjúk en ég reddaði því bara með því að setja hana inn í kæli og skera kalda í litla bita, bræða súkkulaði og dýfa hverjum og einum þar í. Soldið tímafrekt þar sem ég vildi hafa bitana litla en ekki flókið ferli. Það tók mig 1 klst að hjúpa allt og ætli það hafi ekki tekið mig 45 mínútur að búa til karamelluna og þar fór mesti tíminn í að bíða eftir að karamellan yrði nægilega heit með því að standa yfir pottinum með hitamælinn. Karamella getur brunnið mjög hratt þannig að ég mæli með því að fylgjast vel með og standa yfir pottinum(góður tími til að taka símaspjall við einhvern sem þú hefur ekki heyrt í lengi).
Ég notaði bara suðusúkkulaði og fannst það ekkert verra en hefði ég notað fínna súkkulaði en ég mæli með því að nota aðeins súkkulaði sem er undir 70%.
Saltið í þeim kemur með skemmtilegt surprise í munninum, ég veit ekki með ykkur en alltaf þegar ég borða snakk þá tek ég mér hlé á milli til að borða súkkulaði og hafið þið smakkað popp blandað með Nóa kroppi? Það er svakalega gott. Þetta er svipaður fílingur fyrir utan að ég notaði svakalega lítið salt og það verður að vera milt salt eins og Maldon, þá kemur smávegis hint af salti, æðislegt! Hins vegar ef þið eigið ekki Maldon og notið það ekki að staðaldri verið þá ekkert að kaupa það til að nota aðeins 1 tsk, sleppið því bara, þær eru alveg jafn góðar.

Súkkulaðikaramella með maldonsalti og súkkulaðihjúpaðar

400 ml rjómi
300 gr súkkulaði(suðu)undir 70%, fínt hakkað
350 ml sykur
100 ml ljóst sýróp
50 ml vatn
1/4 tsk salt, maldon
1,5 msk smjör, skorið í bita
2 tsk maldon salt
20,3 cm ferkantað form, 2 lengjur af smjörpappír, leggjið smjörpappírinn þannig að fljóti yfir barmana og svo aðra lengju í hina áttina

Aðferð:
1.Sjóðið rjóma í 1 ltr potti við meðal hita. Minnkið hitann og bætið súkkulaðinu saman við, látið standa í 1 mínútu og hærið svo þar til súkkulaðið er alveg bráðið.Takið af hita.
2. Látið suðuna koma upp á sykrinum,sýrópinu, vatni og salti í 5 ltr potti við meðalhita. Hrærið þar til sykurinn hefur alveg leysts up. Sjóðið án þess að hræra þartil sykurinn er djúp gullinn, ca 10 mín.
3. Hallið pottinum og hellið súkkulaðiblöndunni varlega saman við(blandan bullar mjög mikið). Haldið áfram að sjóða þar til blandan nær 124°C, ca 15 mín.
4. Bætið þá smjöri saman við og hrærið þar til það hefur blandast vel saman við.
5. Hellið strax í form(ekki skrapa botninn á pottinum).
6. Látið standa í 10 mínútur og stráið þá ca 1/2-1 tsk af maldon salti yfir. Kælið alveg í forminu í ca 2 tíma. Snúið karamellunni við á hreint skurðarbretti og takið bökunarpappírinn af, snúið þá karamellunni upp með saltið upp og smyrjið örlítilli olíu á beittan hníf og skerið í 3 cm bita.

Ef þið viljið hjúpa með súkkulaði þá breytti það ekkert rosalega miklu máli hvort ég var með suðusúkkulaði eða 56% þannig að suðu gengur alveg og ég notaði ca. 300 gr til að hjúpa allar.

Monday, December 14, 2009

Þriggja hæða súkkulaði og marengskaka með mokkarjóma og karamellu



Já þetta er massívur titill enda massív kaka get ég sagt ykkur. Ég hef nú gert hana fyrir tvö afmæli og hún var enn betri í seinna skiptið. Hún lítur líka mjög grand út og fólk heldur að maður hafi verið að baka þetta í heillangan tíma en viti menn það er ekkert mál að vippa þessari saman. Ég bakaði súkkulaðibotninn 2 vikum fyrir afmælið, plastaði hann vel og frysti og marengsinn er einnig hægt að geyma í 2 vikur í lofttæmdum umbúðum, svo að það eina sem þarf að gera á daginn sem hún er borin fram er að gera rjómann og setja hana saman, sem tók mig um 10 mínútur.
Ég mæli svo sannarlega með að þið prófið þessa næst þegar ykkur langar í svakalega köku! eða þurfið að slá fólk út af laginu í einhverju kaffiboðinu eða saumaklúbbnum.
Uppskriftin á eftir að líta út fyrir að vera flókin en þegar þið byrjið þá er hún það alls ekki. Hins vegar má geta þess að marengs tekur langan tíma í ofni, þannig að ef þið ætlið að gera þessa köku á einum degi eða alla í einu þá þarf að byrja snemma, þó svo að vinnan sé lítil er hún kannski tímafrek í ofninum, en þá er bara hægt að taka til á meðan;) já eða fara í vinnuna.

Þriggja hæða súkkulaði-og marengskaka með mokkarjóma og karamellu
(Kakan er samansett þannig að neðsta lagið er súkkulaðibotn,rjómi,marengsbotn,rjómi og karamella,marengsbotn rjómi og karamella)

Súkkulaðibotn
(1 botn)
100 ml sjóðandi vatn
75 ml ósætt kakóduft(ekki hollenskt)
50 ml mjólk(helst nýmjólk)
1/2 tsk vanilludropar
200 ml hveiti
rúmlega hálf teskeið matarsódi
salt á hnífsoddi
113 gr smjör, mjúkt(ég mýkti það með því að kremja það á milli fingranna)
125 ml púðursykur
75 ml sykur
4 stór egg

Aðferð:
1. Hitið ofninn í 180°C. og smyrjið 23 cm hringform og setjið smjörpappír í botninn og dustið með hveiti.
2.Blandið saman kakó og sjóðandi vatni þar til það glansar og bætið þá mjólk og vanillu saman við.
3. Sigtið saman hveiti , matarsóda og salti í annarri skál.
4. Þeytið saman smjör og báðar tegundirnar af sykri með rafmagnsþeytara(eða í vél)þar til það er ljóst og létt og bætið þá eggjum saman við einu í einu og pískið vel saman eftir hvert egg. Þeytið þá saman við hveiti og kakóblöndunum til skiptis og byrjið og endið á hveitiblöndunni(deigið gæti litið út fyrir að hafa skilið).
5. Setjið deigið í formið og bakið í 20-25 mínútur eða þar til prjónn sem stungið er í miðju kökunnar kemur út hreinn. Takið út og kælið á grind og takið svo úr forminu og kælið alveg. Hægt er að geyma botninn vel plastaðann við stofuhita í tvo daga eða í fryst í viku(jafnvel meira en þá gæti hún orðið soldið laus í sér).

Púuðursykurs-og kornflexmarengs
(2 botnar)
4 eggjahvítur
100 gr sykur
100 gr púðursykur
70 gr kornflex
1/2 tsk lyftiduft

Aðferð:
1. Hitið ofninn í 150°C og setjið smjörpappír í hliðarnar á tveimur 23 cm hringsmelluformum og setjið á ofnplötur með smjörpappír(enn betra ef þið eigið sílíkonform, eða sílíkonmottur en passið að það sé í sömu stærð og súkkulaðibotninn)
2. Stífþeytið eggjahvíturnar. Bætið sykrum útí og þeytið í 8-12 mínútur.
3. Myljið kornflexið(gott að setja það í lítinn nestispoka og mylja með kökukefli)
og hrærið varlega saman við eggjahvíturnar ásamt lyftiduftinu.
4. Setjið helminginn í hvort form og sléttið vel úr.

Bakið við 150°C í klukkutíma og látið kólna í ofninum, passið að opna ekki ofninn fyrr en ofninn er orðinn alveg kaldur(annars gæti marengsinn fallið).
Aths. ef hann fellur er það í lagi en setjið þá bara minna af rjómanum þegar kakan er sett saman.

Karamellusósa
150 ml sykur
50 ml vatn
1,5 msk smjör
100 ml rjómi

Aðferð:
1. Setjið sykur og vatn á pönnu og þegar hann er orðinn nokkuð brúnn er smjörinu bætt saman við(blandan mun bulla rosalega) og síðast rjómanum.
Það er einnig hægt að gera þetta í potti en þá tekur það lengri tíma fyrir sykurinn að brúnast.
(ég geri tvöfalda uppskrift og geymi karamelluna til að hafa með ís eða ef einhver vill auka á kökuna, svo er bara svo gott að vera með karamellusósu í ísskápnum, alltaf tilbúna, hún geymist svo rosalega lengi)

Mokkarjómi
500 ml rjómi
2 msk(kúfaðar)vanilluskyr, þetta græna ekki skyr.is það passar ekki(prófaði það)
50 gr(5 msk kúfaðar)flórsykur
1 msk espresso kaffi(sterkt), kalt

Aðferð.
1. Þeytið rjómann vel og blandið öllu hinu mjög varlega saman við með sleikju.

Setjið saman kökuna
Setjið súkkulaðibotninn fyrst á kökudisk og smyrjið með 1/3 af rjómanum, setjið þá marengsbotn ofan á og smyrjið með 1/3 af rjómanum og dreifið karamellu yfir með skeið, passið að setja ekki of mikið(hún á ekki að þekja). Setjið þá seinni marengsbotninn ofan á og smyrjið með afgangnum af rjómanum og dreifið karamellu yfir með skeið eða eins og ég gerði og sést á myndinn með rjómasprautu og gerði fyrst lóðréttar línur,þá láréttar ofan á og svo á ská og aftur á ská í hina áttina og gott að láta hverja línu fara aðeins niður kökuna á hliðunum.

Endilega ef þið hafið einhverjar spurningar eða athugasemdir bara setja í athugasemdakerfið og ég mun svara ykkur um hæl.

Friday, December 4, 2009

Piparkökur

Nú hef ég gert nokkrar tilraunir með piparkökur og hef hingað til ekki verið nógu ánægð með afraksturinn alltaf eitthvað að en svo ákvað ég að leita að amerískri uppskrift og sjá hvort kanarnir væru ekki bara með þetta og viti menn ég rambaði á eina sem er alveg súper dúper góð ég reyndar breytti aðeins kryddmagninu og sé ekki eftir því, ég vil nefnilega hafa þær soldið sterkar eða bragðmiklar, stökkar en örlítið mjúkar inní og ef ég hef þær þunnar þá eiga þær að vera alveg stökkar en svo ef ég hef þær þykkri þá eiga þær að vera stökkar að utan og mjúkar að innan. Þessi uppskrift uppfyllir allar þessar kröfur mínar svo endilega tékkið á þessum ef þið eruð að leita að rosalega góðri piparkökuuppskrift.

Þessi uppskrift er vel stór og gefur alveg helling af piparkökum í öllum stærðum og gerðum. Það eina sem hægt er að setja út á þessa uppskrift er að maður getur ekki flatt hana út aftur og aftur og aftur, þ.e 3var sinnum er eiginlega það mesta en ég passaði bara að stinga út þannig að formin snertust alveg svo að sem minnst væri af afgöngum. Ég notaði líka mjög gott ráð sem er að fletja út deigið og setja það svo á smjörpappír og stinga út á honum og taka svo utan af formunum deigið en þannig aflagast ekki kökurnar eins og þær geta gert ef maður þarf að taka þær af borðinu og setja á pappírinn, þá geta ýmsar hendur eða hausar teygst.

Piparkökur

130 ml hunang(má skipta á milli hunangs,maple sýróps og Golden sýróps)
130 ml púðursykur
2 msk mulið engifer
3 tsk mulinn kanill
1 tsk stjörnuanís, mulinn
1 tsk negull
2 tsk matarsódi
200 ml smjör, skorið í bita
1 egg léttþeytt
600 ml hveiti
1/2 tsk salt

Aðferð:
1. Setjið í djúpan pott: hunang,púðursykur og krydd og látið suðuna koma upp yfir meðalhita. Takið af hitanum.
2. Hrærið matarsóda saman við(blandan bólgnar öll upp og freyðir sem er eðlilegt)
3.Bætið þá smjöri saman við 3 msk í einu og látið bráðna alveg saman við áður en næstu smjörskeiðum er bætt saman við. Þar til allt er bráðnar saman.+
4. Bætið eggi saman við og hrærið hveiti og salti síðast saman við.
5. Hitið ofninn í 160°C.
6. Takið deigið úr pottinum og setjið á hveitistráð borð og hnoðið þar til það er komið saman og er glansandi fallegt.(30 sek til 1 mínúta)Passið að hnoða ekki of mikið.
7. Skiptið deiginu í tvennt og plastið annan hlutann og geymið við stofuhita. Fletið svo hinn hlutan út í ca 35 cm ferning, setjið á smjörpappír, skerið út fígúrur og bakið í ofni við 160°C í 10-12 mínútur(í mínum ofni voru þær 12 mínútur en hann er ekki blástursofn) Mæli með að fylgjast með þeim.

Tuesday, November 24, 2009

Hið fullkomna súkkulaðimuffins

Loksins loksins hef ég fundið það sem ég hef verið að leita að. Ég er búin að prófa um 5 uppskriftir af súkkulaðimuffins í þessari leit minni að mjúkri, fullri af súkkulaðibragði unaðslegri muffins og hér er hún. Ég fékk hana á amerískum uppskriftavef svo að hún er alveg ekta amerísk en viðurkenni þá að hún kemur ekki frá mér persónulega.

Súkkulaðimuffins
12 stórar muffins/ fleiri í pappírsformunum

85 gr 70% súkkulaði, saxað gróft
285 gr 56% súkkulaði, gróft saxað eða súkkulaðidropar
200 ml hveiti
1/2 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
1 tsk vanilla
135 ml súrmjólk(má líka vera mjólk en ég mæli frekar með súrmjólkinni)
100 ml smjör,mjúkt
200 ml ljós púðursykur
2 stór egg

Aðferð:
1. Hitið ofninn í 180°C
2. Bræðið 70% súkkulaðið með 95 gr af 56% súkkulaðinu
3. Hrærið saman hveiti,matarsóda og salt
4. Hrærið saman súrmjólk og vanillu í annarri lítilli skál
5. Pískið saman sykur og smjör þar til það er létt og ljóst og bætið svo eggjunum einu í einu og hrærið vel eftir hvert egg. Bætið þá brædda súkkulaðinu saman við.
Bætið þá súrmjólkurblöndunni og hveitiblöndunni saman við sitt á hvað og byrjið á hveitiblöndunni og endið á henni einnig. Hrærið þá varlega afgangnum af súkkulaðibitunum saman við.
6. Bakið í 22-25 mínútur eða þar til prjónn sem er stungið í miðju múffunnar kemur út hreinn. Athugið samt að í hverri múffu eru súkkulaðibitar þannig að ef það er súkkulaði á prjóninum gæti það verið eftir súkkulaði bita þannig að bara að það komi ekki hrátt deig á prjóninn þá er það tilbúið.

Gulrótar-og eplasúpa með chilli og engifer

Ég er farin að gera súpu í hádeginu þar sem ég borðaði svo mikið af brauði með áleggi á meðgöngunni að ég fékk ógeð af því og er að reyna að fá mér eitthvað annað og þá verður súpa oft fyrir valinu og þessi var bara ansi góð. Það er nefnilega svo þægilegt að skera allt grænmetið bara einhvern veginn ofan í pottinnEplið gerir hana létta og chillíið og engiferið bæta hana á mjög óvenjulegan hátt.
Uppskriftin er fyrir 2 í aðalrétt eða 4 í forrétt eða hádegismat

Gulrótar-og eplasúpa með chilli og engifer
f/2 eða 4
4 gulrætur
1 meðalstór sellerístilkur
1/2 laukur
1 epli
1/4 chilli
1/2 cm engifer
vatn
1/2 grænmetisteningur
smá olía

Aðferð:
1. Allt grænmetið skorið í pott með olíu og léttsteikt svo er vatni hellt yfir þannig að fljóti yfir eins og 1 cm. Látið suðuna koma upp og sjóðið í ca20 mínútur eða þar til gulræturnar eru soðnar. Hakkið svo allt saman með töfrasprota eða í hakkavél. Smakkað til með salti og pipar.

Wednesday, November 18, 2009

Muffins með kaffinu

Ég bara get ekki hætt að baka eða hugsa um uppskriftir. Hvað er eiginlega að mér? Nú get ég t.d. ekki hætt að hugsa um hvernig best væri að betrumbæta þessa uppskrift þó svo að hún hafi slegið í gegn og hvort ekki sé hægt að setja eitthvað auðvelt krem ofan á. Nú styttist óðum í afmæli Heklu og ég hugsa um ekkert annað en margra hæða kökur og endalaust mjúkar og örlítið blautar súkkulaði muffins og ætli það verði ekki bráðum piparkökur eða piparkökuhús, það væri nú gaman að gera það aftur. Hef ekki gert svoleiðis síðan ég var krakki en fannst það mjög skemmtilegt. Ég er reyndar farin að gæla við tilhugsunina að búa til konfekt og það ekki með marsipani þar sem ég þoli það ekki, eitt af fáum hlutum sem ég get ekki enn borðað, það kemur kannski með aldrinum, aldrei að vita. En uppskriftin að þessu er í rauninni gulrótarökuuppskriftin bara aðeins breytt, það er eiginlega ekki hægt að segja að þetta sé súkkulaði muffins því það er ekki nægilega mikið af súkkulaði í henni en hún er ansi góð með kaffinu þessi.

muffins með kaffinu
ca 15 muffins(fer eftir hvort þið notið litlu pappírsformin eða stærri sílíkonformin)

400 ml hveiti
2 tsk lyftiduft
1,5 tsk matarsódi
1 tsk kanill
4 tsk kakó
400 ml sykur
300 ml matarolía
4 egg
1,5 appelsína(má sleppa) kemur með skemmtilega tilbreytingu
150 gr súkkulaði
200 ml Cranola cereal
50 ml mjólk
Ég setti líka 3 tsk af fljótandi karamellu sem ég átti inni í ísskáp frá síðustu kökutilraun en það má alveg sleppa því

Aðferð:
1.Hitið ofninn í 180°C
2.Blandið saman sykri,lyftidufti,matarsóda,hveiti,kanil,kakó,matarolíu og eggjum.
3.Hakkið saman í hakkavél, múlínex Cranólainu og súkkulaðinu þar til það er mjög fínt hakkað. og skerið appelsínuna í bita og bætið útí ásamt safanum úr appelsínunni og mjólkinni.
4. Setjið blönduna í muffinsformin og fyllið 3/4 af hverju formi.
5. Bakið í 18-20 mínútur, styttra ef þið notið litlu pappírsmuffins formin. Tékkið á þeim með prjóni og stingið í miðjuna og ef prjónninn kemur hreinn út er muffinsið tilbúið.

Monday, November 16, 2009

Dijon hamborgarar með guacamole og karamelliseruðum lauk

Þetta var nú bara til að klára það sem var til í ísskápnum hjá mér, bætti aðeins við en þegar fullt af avócadó er að eyðileggjast þá þarf að nýta það, ekki satt?
Mig langaði til að breyta til og gera hamborgara sem ég hef ekki gert áður og útkoman var þessi og hún var rosaleg!

Dijon hamborgarar með guacamole og karamelliseruðum lauk
f/4 hamborgara
ca 500 gr nautahakk
3 msk dijon sinnep
3 msk sýrður rjómi(ég notaði Ab-mjólk)
1 egg
3 msk brauðrasp( ég tók 2 brauðsneiðar, ristaði þær og hakkaði í hakkavél)
1/2 hvítlauksrif, kramið
ostsneiðar til að setja ofan á við steikingu
salt og pipar

Aðferð:
1.Hrærið varlega öllu saman og búið til hamborgara og steikið og þegar borgurunum hefur verið snúið við einu sinni er ostinum bætt ofan á

Karamelliseraður laukur
1 laukur, skorinn í sneiðar(ekki of þunnar)
1/2 chilli, saxaður
1 msk maple sýróp
5 gr smjör
1 cm ferskur engifer, saxaður
salt og pipar

Aðferð:
1. Skerið laukinn, saxið engiferið og chilli.
2. Bræðið smjörið á pönnu, þegar það freyðir er öllu bætt í pönnuna fyrir utan sýrópið og laukurinn er mýktur við meðalhita, þegar hann er orðinn vel mjúkur er hitinn lækkaður í meðallágan, sýrópinu bætt saman við og látið malla í 15 mínútur til viðbótar með loki hálft á. Hann er tilbúnn þegar hann er dökkgullinbrúnn.

Guacamole
4 pínulítil avócadó
2 msk majónes(má vera sýrður, ég bara átti hann ekki til)
salt og pipar
(ég sleppti hvítlauknum þar sem hann getur verið of bragðsterkur svona hrár en það er smekksatriði.
smá sítrónusafi

Aðferð:
1. Avócadóið þarf að vera mjög mjúkt en það er stappað með gaffli og svo er majónesinu hrært saman við og saltað og piprað og bragðbætt með sítrónusafa.

Svo þarf að hafa tómata og salatblöð og franskar kartöflur
Ekki spara laukinn á borgarana hann er æðislega góður. En annars er brauðið smurt með guacamole og smá salsasósu ef vill og lauk, tómötum og salati

Friday, November 13, 2009

Plómu-og rauðvínsbakaður kjúklingur



Ég rankaði við mér í gær og sá ansi mikið af plómum vera að eyðileggjast í ísskápnum hjá mér og sparigrísinn ég, get nú ekki verið þekkt fyrir að eyðileggja þvílíkan fjársjóð(rándýrt dæmi) og fyrst íhugaði ég að búa til svokallaða upside down cake sem mig hefur langað til að búa til ansi lengi en gerði mér þá grein fyrir að ég yrði sú eina sem myndi borða það þar sem eiginmaðurinn og dóttirin hafa ekki mikinn áhuga á svoleiðis kökum(vonandi fær sonurinn minn matarsmekk!) þannig að ég ákvað að henda þessu í kvöldmatinn og viti menn, algjört dúndur að sjálfsögðu. Allt öðruvísi en ég hef gert hingað til og svo unaðslega gott, örlítið sætt á móti söltu og súru-fullkomið.
Ég bar þetta svo fram með steiktum kartöflum, þurfti ekki meira.

Plómu-og rauðvíns(roasted)bakaður kjúklingur
f/4
2 bakkar kjúklingabitar eða 1 heill kjúklingur bitaður niður
8 plómur
200-300 ml rauðvín(eftir því hversu miklu þið tímið, annars bætið bara upp með vatni)
1 msk rauðvínsedik/balsamik edik
hveiti til að velta upp úr
5 greinar timían, ef þið eigið það annars er hægt að setja estragon(þurrt eða ferskt) og þá eins og 1/2 msk
2 msk rósmarín
1 stjörnuanís
1/2 kanilstöng
3-4 msk sykur
2 hvítlauksrif
3 skallottulaukar
1 teningur kjúklingakraftur
smjörklípa og 1 msk olía
salt og pipar

Aðferð:
1. skerið plómurnar í 6 bita hverja
2. Hitið smjörið og olíuna á stórri pönnu og bætið plómunum útá þegar smjörið byrjar að krauma og eldið í 2 mínútur. Bætið þá ediki saman við og svo rauðvíninu og sjóðið í 4 mínútur. Takið af hitanum. Bætið kryddinu, kraftinum, lauknum, sykrinum saman við.
3.Veltið kjúklingnum uppúr hveiti og dustið allt aukahveiti af hverjum bita og steikið í olíu á heitri pönnu þar til hann er gullinbrúnn(meðalháum hita) og setjið svo í eldfast mót eða roasting pan og hellið plómublöndunni yfir og lokið með álpappír.
4. Bakið við 150°C í 1 klukkustund.
5. Sigtið þá vökvann frá í djúpan pott, setjið kjúklinginn og plómurnar aftur inn í ofn með álpappír yfir og slökkvið á ofninum.
6. Sjóðið vökvann niður, þar til hann þykkist og bragðast unaðslega
7. Berið fram: Setjið eldfasta mótið með plómunum og kjúklingnum á borðið og berið fram með sósunni og steiktum kartöflum.

Monday, November 9, 2009

Bjórbrasserað lamb með kartöflumús og grænmeti

Fingerlicking good eins og móðir mín komst svo vel að orði. Ég held ekki vatni yfir þessum rétti, hann er gjörsamlega out of this world sérstaklega fyrir þá sem þykir svona vetrarmatur góður(comfort food á ensku). Sósan kom út með smávegis vott karamellu og kjötið féll af beinunum. Ég veit ekki hvernig ég get lýst þessum rétti betur. það er smá verk að búa réttinn til en það er sko vel þess virði. Fyrir útivinnandi þá mæli ég með því að búa réttinn til á sunnudegi(eða laugardegi) og svo er hægt að geyma hann þar til seinna í vikunni, hita upp og gæða sér á. Ég myndi áætla ca. klukkutíma í undirbúning og eftirvinnslu og svo er rétturinn rúma 2,5 klukkutíma inni í ofni.

Bjórbrasserað lamb með kartöflumús og grænmeti
f/5
2 kg súpukjöt, mesta fitan hreinsuð af(ekkert stress þó nokkuð sé af fitu)
2 gulrætur, skornar gróft
1 steinseljurót, skorin gróft
2 sellerístilkar, skornir gróft
1,5 laukur, skorinn górft
handfylli ferskt timían
1 lambakraftur, 1 teningur
1 tsk tómatkraftur
100 ml púðursykur
vatn
1 ltr bjór(eða pilsner til að hafa réttinn ódýrari)ég notaði venjulegan ódýran ljósan bjór en það má til að fá meira bragð hafa bjórinn dekkri eins og t.d. dökkan Kalda eða einhvern þannig.
100 ml rauðvínsedik
3 lárviðarlauf
nýmalaður pipar
sósa ef þið viljið þykkja hana:
hveiti og olían sem er fleytt af sósunni

Aðferð:
1.Skerið grænmetið og hreinsið mestu fituna af kjötinu og steikið á pönnu í smávegis smjöri og olíu(1 tsk af hvoru). Fyrst gærnmetið og hellið í oftsteikingarpott svo kjötið og leggjið yfir grænmetið.
2.Hellið rauðvínsedikinu í heita pönnuna og sjóðið aðeins niður(1 mínúta), hellið þá bjórnum í pönnuna(í tveimur hlutum ef þörf er á) og sjóðið örlítið niður(ca 5 mín), bætið þá púðursykrinum og látið bráðna og hellið svo yfir kjötið.
Hellið svo vatni yfir þannig að rétt fljóti yfir allt.
3. Bætið úti tímíani, lárviðarlaufi, tómatkrafti, nýmalaður pipar og lambakrafti. Setjið lok á og í ofninn á 160°C hita í rúmlega 2,5 tíma, ef lokið er ekki mjög fast á pottinum er gott að setja smjörpappír ofan á kjötið og svo lokið á.
4. Á meðan er kartöflumúsin búin til ég gerði 1200 gr kartöflur(bökunar afhýddar og soðnar í saltvatni)200 gr smjör og salt og pipar
og skerið einnig 1 gulrót og 1 steinseljurót í bita(1x1 cm). Setjið útí sjóðandi vatn í nokkrar mínútur þar til það er soðið.
5. Þegar kjötið hefur soðið í 2,5 tíma(rúman)þá er kjötið tekið uppúr og sett í skál/pott og lok ofan á eða álpappír. Sigtið vökvann í lítinn pott og sjóðið aðeins niður um ca 20%, nokkrar mínútur. Fleytið olíunni af og setjið í lítinn pott og blandið hveiti saman við þar til hún myndar kúlu eða bollu. Þetta er til að þykkja sósuna, en einnig er hægt að sleppa því að þykkja sósuna og sjóða hana þá aðeins lengur niður kannski um 30%. Ef þið þykkjið sósuna er smátt og smátt af hveitibollunni bætt saman við sjóðandi sósuna þar til þeirri þykkt er náð sem ykkur þykir góð(hún á að vera eins og brún sósa á þykkt). Smakkað til með salti og pipar(oft þarf þess ekki). Setjið grænmetið útí sósuna og hitið vel, takið svo uppúr með gataskeið/spaða.Á meðan grænmetið hitnar er kartöflumúsin hituð upp.
Berið fram:
Setjið kjötið á fat og dreifið grænmetinu í kring og berið fram með kartöflumúsinni og sósunni til hliðar.

Sunday, November 8, 2009

Pizza með steiktu eggaldini og karamelliseruðum lauk

Við höfðum pizzu í matinn í staðinn fyrir brasseraða lambið þar sem ég gleymdi enn og aftur að taka það úr frystinum. Þar sem við gerum pizzu u.þ.b. einu sinni í viku og alltaf það sama þá er ég komin með leið á því og ákvað að gera eitthvað spennandi og unaðslega gott. Mín uppáhaldspizza úti á Ítalíu var einmitt með eggaldini en mér finnst það betra steikt upp úr olíu heldur en grillað en það er smekksatriði, það er líka mjög misjafnt hvort maður fær þegar maður pantar þessa pizzu úti, þannig að ef þið eruð á leiðinni út og viljið með Melanzane þarf að spyrja hvort það er steikt eða grillað. Þegar það er grillað verður það þurrt en þá fáið þið grillbragðið en ef þið fáið það steikt þá er það safaríkt og með smá ólífuolíubragði aukalega. Ég er mikill aðdáandi karamelliseraðs(mikil þörf á betra orði fyrir þetta) lauks og ef það er rauðlaukur, enn betra. Ég aftur á móti hafði ekki mikinn tíma þannig að ég var ekkert að flækja málin með lauknum og hafði hann einfaldan, það er hins vegar hægt að gera hann á annan hátt með fleira hráefni og ég á eina slíka uppskrift sem er geggjuð og ég hef borið fram með kjöti og maður bara slefar yfir henni. Það er nú líka þannig með álegg á pizzur, maður sleppur með lítið hráefni.

Pizza með eggaldini og karamelliseruðum lauk
f/eina pizzu
3 sneiðar af eggaldini, skorið í 1 sm sneiðar
1 rauðlaukur(má líka vera venjulegur)
1 tsk smjör
1 msk ólífuolía
1 msk hlynsýróp, hægt að skipta út fyrir púðursykur og setja þá smá vatn með
1 msk balsamik edik
salt og pipar

Aðferð:
1. Hitið olíu á pönnu, þegar hún er heit er eggaldininu velt uppúr olíunni á annarri hliðinni og snúið við og steikt við meðal hita þar til það er brúnt og svo snúið við og steikt þar til það er brúnt og mjúkt. Tekið af og skorið í fjórðunga og dreift yfir pizzuna.
2. Skerið laukinn í 1/2 sm sneiðar og hitið olíu og smjör á pönnu. Bætið lauknum útá þegar hún er heit og hann er mýktur aðeins þá er sýrópinu og edikinu bætt saman við og látið malla á meðallágum hita með lok hálft á í ca 10 mínútur eða þar til hann hefur skroppið vel saman og er mjög mjúkur. Saltið og piprið. og dreifið yfir pizzuna.

Friday, November 6, 2009

Kjúklingasúpa með ferskum engifer

Eiginmanninum leist svo vel á súpuna mína sem ég fékk mér í hádeginu að hann bað um þannig í kvöldmat og til að hafa hana aðeins matarmeiri bætti ég kjúklingi í uppskriftina og stækkaði hana aðeins. Útkoman var ljúffeng og ódýr kjúklingasúpa sem er nú ekki slæmt að gúffa í sig þessa dagana með allt þetta kvef í kringum mann. Ég fór nefnilega á netið til að athuga hvort eitthvað væri til í þessari þráhyggju í amerískum sjónvarpsþáttum og bíómyndum með kjúklingasúpu og kvef og hvort þetta gæti í raun og veru virkað. Viti menn það er búið að rannsaka þetta og þetta virkar að einhverju leyti, að sjálfsögðu er mikið af virkninni í hitanum og sálfræðinni en að sama skapi, virkar. Nú er stelpan mín með kvef, ég að fá það og litli guttinn orðinn stútfullur(hann fær nú reyndar bara að gæða sér á brjóstamjólkinni, en kannski síast eitthvað í gegn, aldrei að vita).
Ég set því hér inn uppskriftina eins og hún er fyrir fjóra.

Kjúklingasúpa með ferskum engifer
f/4
1,5 gulrót(stór)
1 steinseljurót
2 cm fersk engiferrót
1 laukur
2 sellerístilkar
2 hvítlauksrif
1 bakki kjúklingabitar(með beini)
1,5 teningur kraftur, grænmetis eða kjúklinga
1 msk edik, hvítt(mangóbalsamik t.d)
150 ml hvítvín
1-2 tsk smjör(hvort sem ykkur þykir betra)
1 msk olía
1 ltr vatn

Aðferð:
1. Allt grænmetið er skorið í litla bita(ferninga 1x1 cm)
2. Smjörið og olían er hitað í djúpum potti. Þegar smjörið freyðir er grænmetinu bætt saman við og svitað örlítið.
3. Húðin er tekin af kjúklingnum.
4. Hvítvíni og ediki er bætt saman við grænmetið og soðið niður í ca.4 mín. Þá er kjúklingnum bætt saman við og vatni hellt yfir. Teningnum bætt saman við.
5. Sjóðið við meðalháan hita í ca. 20 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn(takið þykkasta bitann og skerið í hann ef vökvinn sem kemur úr sárinu er glær er hann tilbúinn).
6. Takið af hitanum og takið kjúklingabitana upp úr og skerið(takið)kjötið af beinunum og bætið aftur útí pottinn. Látið suðuna koma aftur upp og berið fram með brauði, jafnvel hvítlauksbrauði.

Þið ráðið svo sem hvort þið takið kötið af beinunum eða ekki mér finnst það þægilegra sérstaklega í sambandi við börnin. Beinin eru hins vegar nauðsynleg í súpuna en þaðan kemur krafturinn og góða kjúklingabragðið. Þessi súpa, öfugt við grænmetissúpuna, er tær með grænmetisbitum en í grænmetissúpunni er allt saman maukað, en eins og ég sagði með hana er einmitt líka hægt að hafa hana tæra með grænmetisbitum. Allt er það jafn unaðslega gott og huggandi svona þegar skammdegið hellist yfir okkur þessa dagana.
Ég hins vegar gleymdi að taka lambið út úr frystinum þannig að það verður bara pizza í matinn í kvöld og ætla ég að prófa nýtt álegg á hana. Set það inn vonandi á morgun

Thursday, November 5, 2009

Gulrótar og steinseljurótarsúpa með engifer

Það var hádegi og mig langaði ekki enn eina ferðina í brauðmeti í hádegismatinn og ég var farin að sakna súpunnar sem ég fékk alltaf í vinnunni. Ég ákvað því að búa mér til grænmetissúpu sem heppnaðist svona líka ljómandi vel og ekki er hægt að segja að hún hafi verið mjög dýr, sitt lítið af hverju er í henni og afgangana ætla ég svo að brassera á föstudaginn og þá ætla ég að prófa að brassera í bjór, mmm spennandi.
Uppskriftin er fyrir fáa þar sem ég var bara að búa til handa sjálfri mér í þetta skiptið. Ég get svarið það að það tók mig styttri tíma að búa þetta til heldur en það tók eiginmanninn að búa sér til samloku í ofni með steiktu eggi(hmmm hvor okkar ætli fengi kransæðastíflu á undan???)

Gulrótar-og steinseljurótarsúpa með engifer
f/2
1/2 stór gulrót
1 lítil steinseljurót
1/2 lítill laukur
1 stilkur af sellerí(fannst of dýrt að kaupa sellerírót)
1 hvítlauksrif
1 cm engifer
1/2 teningur grænmetiskraftur
50 ml hvítvín(má sleppa)
1 tsk mangóbalsamik edik(má vera hvaða ljósa edik sem er epla,hvítvíns, kampavíns hvað sem er)
útaf því hversu saltur krafturinn er þá saltaði ég ekki í þetta skiptið
1/2 tsk smjör
1 msk olía(má vera hvaða sem er, ég notaði Isio4)

Aðferð:
1. Bræðið smjörið og olíuna saman í litlum djúpum potti.
2. Þegar smjörið byrjar að freyta er grænmetið skorið útí í grófa bita. Aðeins hitað þar til laukurinn hefur mýkst aðeins þá er vatninu bætt saman við og suðan látin koma upp, teningnum bætt saman við og soðið við vægan hita í ca 10 mín(fer eftir stærð bitanna)eða þar til gulræturnar eru mjög meyrar.
3. Þá er allt maukað saman með töfrasprota eða í hakkavél, svo getið þið sigtað hana ef þið viljið(ég sleppti því í þetta skiptið og það kom ekki að sök). Ef þið eigið ekki hakkara af einhverju tagi er alveg hægt að skera grænmetið í litla bita og borða súpuna þegar grænmetið er meyrt án þess að mauka hana.

Thursday, October 8, 2009

Kanilsnúðar með rjómaostsgljáa



Í þessum snúðum notaði ég gljáa sem er ekki með smjöri, er komin með nett nóg af smjörbragði enda fannst mér þessi gljái mun betri, ég hélt reyndar að hann yrði súrari þar sem í honum er rjómaostur og súrmjólk en hann var alls ekki súr heldur vóg sýran vel uppá móti flórsykrinum og myndaði frábæra contrasta sem pössuðu ótrúlega vel saman.
Ég hafði prófað aðra uppskrift á undan þessari sem bað um að hefast í endalausan tíma og setja inn í ísskáp í 16 tíma o.s.frv. og á endanum voru þeir alveg sérstaklega misheppnaðir, þannig að ég reyndi að finna uppskrift þar sem hefunin var í lágmarki, en að sjálfsögðu þegar maður er að vinna með ger er alltaf þörf á tíma í hefun. Þegar ég smakkaði þessa þá fann ég bragðið sem ég hef verið að leita að í mörg ár, fullkomið kanilpúðursykrursbragð með tvisti af sætum rjómaostskeim, hreinn unaður. Þeir eru líka alveg sérstaklega idiotproof þessir, þar sem ég er kanilsnúðabökunarvirgin og þessir komu fullkomlega út hjá mér.

Kanilsnúðar með rjómaostsgljáa
ca 18 snúðar
200 ml nýmjólk(ég notaði bara fjörmjólk, býst við að ef það er mjólk þá er það í lagi)
3 msk smjör
400 ml (gæti verið meira) hveiti
80 ml sykur, má minnka ef þið viljið
1 stórt egg
2 1/2 tsk þurrger
1 tsk salt
grænmetisolía til að smyrja

Fylling:
150 ml púðursykur
50 ml smjör, mjúkt
hrásykur(má sleppa)
2 msk kanill

Gljái:
3 msk rjómaostur
3 msk súrmjólk
300 ml flórsykur, má minnka ef vill tja eða setja meira, best að smakka til
1 tsk vanilludropar

Aðferð:
1. Hitið saman mjólkina og smjörið þannig að það sé volgt
2. Hrærið saman hveiti,sykur,egg,þurrger og salt og bætið svo mjólkurblöndunni saman við og bætið svo hveiti þangað til deigið er gljáandi og losnar auðveldlega frá hliðum skálarinnar.
3. Setjið deigið á hveitistráð borð og hnoðið í ca 5-8 mínútur og bætið hveiti eftir þörfum þar til deigið er hætt að vera klístrað og er fallega gljáandi og teygjanlegt
4. Smyrjið skál með olíunni og setjið deigkúluna í hana, setjið plastfilmu yfir og látið hefast á volgum stað í 2 klst. Ég kveiki á ofninum á lægstu stillingu og slekk svo á honum og læt skálina inn í ofninn og kveiki svo aftur þegar hann hefur kólnað alveg eftir ca.klst. Mér finnst þetta virka mun betur en að hafa skálina ofan á ofni.
5. Hrærið á meðan púðursykrinum saman við kanilinn og látið smjörið mýkjast við stofuhita.
6. Þegar deigið hefur tvöfaldast í stærð er það tekið úr skálinni og hnoðað létt aftur og svo flatt út í 30x40 cm ferhyrning og smurt vel með smjörinu og skiljið eftir 1 cm rönd við lengri endana. Þá er púðursykrinum dreift jafnt yfir allt saman og dempað létt með höndunum eða kökukeflinu þannig að sykurinn fari vel inn í deigið. Stráið svo hrásykrinum jafnt yfir ef þið notið hann og þrýstið honum létt niður í deigið einnig.
7. Rúllið svo deiginu upp eftir endilöngu og passið að rúlla þessu þétt upp og reynið svo að festa létt endann og svo slétta úr endunum á rúllunni. Skerið svo rúlluna í ca 18 bita.
8. Smyrjið 2 föt sem er annað hvort ferkantað og er um 23 cm eða eins og ég gerði þá var það eitt stórt eldfast egglaga fat 35 cm í hvorn endann(ég smurði með smjöri og dreifði hveiti yfir og dustaði úr allt auka hveiti)
9. Setjið snúðana í fatið og leggjið þá þannig að næstum ekkert pláss sé á milli þeirra. Setjið plastfilmu yfir og látið hefast í 40 mínútur og bakið svo við 190°C í 15 mín. Takið þá út úr ofninum og takið úr forminu og snúið við aftur í formið og bakið áfram í 4 mínútur eða þar til þeir eru gullinbrúnir að ofan. Takið þá úr forminu og látið kólna.
Aðferð fyrir gljáann:
1. Hrærið saman með písk eða handþeytara súrmjólkina og rjómaostinn og vanilludropana þar til engir kekkir eru og sigtið svo flórsykurinn saman við. Ég nennti reyndar ekki að sigta ekki frekar en fyrri daginn en þá þarf ég líka að hræra lengur til að losna við alla kekki. Dreifið svo yfir snúðana þegar þeir eru orðnir volgir og berið fram. Þeir eru bestir volgir en einnig svakalega góðir við stofuhita.

Thursday, September 24, 2009

Gulrótarkaka




Þetta er án efa besta gulrótarkaka sem ég hef smakkað, hún er svo safarík og mjúk og yndisleg eitthvað, enda er hún frá mömmu sem er að sjálfsögðu besti kokkur í heimi.
Ég helmingaði þessa uppskrift í þetta skiptið og setti í lítið hringform og svo afganginn í muffins form og það kom bara rosalega vel út.
Ég er þessa dagana meira fyrir að baka en að elda mat þannig að ég hendi í köku og eiginmaðurinn sér okkur fyrir næringu á kvöldin og er bara búinn að standa sig með prýði.
En hér er uppskriftin af bestu gulrótarköku í heimi

Gulrótarkaka

400 ml hveiti
2 tsk lyftiduft
1,5 tsk matarsódi
1,5 tsk salt
2.5 tsk kanill
400 ml sykur
300 ml matarolía
4 egg
600 ml rifnar gulrætur(ég ríf þær gróft)
1 stór appelsína skorin í litla bita
100 ml saxaðar valhnetur
200 ml kókosmjöl

Aðferð:
1. Hitið ofninn í 180°C. Smyrjið eitt hringsmelluform, gott að setja smjörpappír í botninn.
2. Hrærið saman sykri,eggjum,hveiti,lyftidufti,matarsóda,salti,kanil og matarolíu
3. Bætið svo við gulrótum,appelsínu,valhnetum og kókosmjöli
4. Hellið í formið og bakið í 1.5 klst. Látið kólna alveg áður en kremið er sett á.

Krem
100 ml smjör, mjúkt og við stofuhita (um 90 gr)
200 ml rjómaostur( um 190 gr)
4-5 msk flórsykur
smá vanilludropar

Aðferð:
1. Hrærið saman smjöri,rjómaosti,flórsykri og vanillu og smyrjið á kökuna.
Best finnst mér að hræra þetta með handþeytara og hræra fyrst smjörið til að ná kekkjum úr og bæta svo rjómaosti og síðast flórsykri og vanillu.
Aths. ef þið viljið hafa þetta í muffins formi þá er best að hafa það í sílíkonformum en þá karamellast kökurnar yst og verða mjög mjúkar og safaríkar. Ég hef ekki prófað í bréfformum þar sem mér finnast þau vera of lítil en núna síðast notaði ég álform úr IKEA sem virkuðu mjög vel en mér fannst kökurnar þurrkast örlítið að utan við það, sem kemur svo sem ekki að sök en bestar koma þær úr sílíkonformum. Tíminn sem kökurnar eru inni þegar þær eru í muffins formi er mjög stuttur og fer eftir formunum og myndi ég tékka á þeim eftir 10 mín með því að stinga prjóni í þær og fikra mig svo áfram eftir það. Ég hafði þessar í 15 mínútur og þær í sílíkonforminu(þau form eru minni) voru þær í 10 mínútur.

Aths.
Það hefur gerst núna nokkrum sinnum hjá mér að kremið skilur sig og hef ég reddað kökunni með því að smyrja skilda kreminu(bragðið er eins nefnilega)skera súkkulaði með ostaskerara yfir kökuna og setja kókosflögur á hliðarnar.

Thursday, September 10, 2009

Bláberjapæ



Ég eignaðist lítinn dreng í fyrradag hraustan og fallegan. Þar sem það er nú yfirstaðið get ég loksins farið að gera meira í eldhúsinu.
Nú eru allir í berjamó eða nýbúnir að fara í berjamó og eiga líklegast fulla ísskápa og frysta af bláberjum. Ég persónulega er algjör bláberjastelpa og fæ ekki nóg af þeim í hvernig formi sem þau birtast mér. Mig hefur þó lengi dreymt um bláberjapæ þar sem ég er líka algjör pæjustelpa, ég bara elska þessa hörðu, flögulaga en samt örlítið mjúku áferð deigsins og hið hálfsæta bragð þess sem er svo bætt upp með sætri og unaðslega mjúkri fyllingu og ekki skemmir fyrir að hafa ís með svona til að toppa unaðinn.
Ég henti í deig fyrir þónokkru og átti ansi mikinn afgang og ákvað að prófa að setja það í frysti og þar hefur það legið síðan og beðið eftir að vera bakað. Mamma kom svo með bláber handa mér daginn áður en ég átti en þá hafði ég einnig tekið út úr frystinum einn part af deiginu. Í gær voru svo hvoru tveggja á síðasta snúning og hvað var annað hægt að gera en að henda í eins og eina pæju? Ég bara gat ekki horft upp á þetta eyðileggjast í ísskápnum. Ég ákvað þó að þessi yrði prufukaka og ég reyndi að láta mér standa á sama um útkomuna en eins og vanalega þá var það ómögulegt og gat ég ekki staðist freistinguna og smakkaði í gær og var hún hreint unaðsleg og eiginlega enn betri því hún var svo einföld. Meira að segja eiginmaðurinn sem er enginn berjakall fannst hún mjög góð. þetta verður því syndin mín næstu daga, tja kannski maður bjóði einhverjum gestum uppá smá flís, það er aldrei að vita.
En með tilbúna deiginu tók þetta u.þ.b. 5 mínútur að henda saman og svo 40-45 mínútur í ofninum. Enda ekki annað hægt þar sem maður er varla genginn saman eftir barnsburðinn.

Bláberjapæ
1 hringlaga smelluform(úr IKEA)
500 gr smjördeig(hægt að nota tilbúið annars fylgir uppskrift hér að neðan)
600 gr(má vera rúmlega)Fersk bláber
150-200 ml sykur(má sleppa eða minnka ef þið viljið ekki mjög sæta pæju)
6 grahams hafrakex, mulin, ekki of fínt

Aðferð:
1. Fletjið deigið út þannig að þykktin sé tæplega sentimeter að þykkt, notið hveiti til að hjálpa til, þannig að það festist ekki við borðið og snúið deiginu oft við.
2. Smyrjið formið með smjöri og dreifið hveiti í þannig að hylji vel og dustið svo aukahveiti úr forminu. Hitið ofninn í 200°C.
3. Fellið deigið í formið, lagið göt ef einhver myndast. Dreifið kexmylsnunni í botninn og hellið svo bláberjunum yfir og síðast er sykrinum stráð yfir og blandað berjunum, svo er deigið sem liggur fyrir ofan berin fellt yfir þau og smurt með blöndu af eggi og vatni.
4. Bakað við 200°C í 40-45 mínútur, gott er að setja álpappír yfir eftir 25 mínútur og taka hann svo af þegar 5 mínútur eru eftir af bökunartíma.

Smjördeig eða mördeig(á dönsku)
Þessi uppskrift er í stærra lagi og gæti dugað í fleiri en eina pæju
250 gr flórsykur (1)
330 gr smjör(1)
660 gr hveiti(2)
3 egg(3)

Aðferð:
1. Hrærið öllu saman í hrærivél í númeraröðinni og passið að það verði ekki of heitt og takið svo úr hrærivélinni og hnoðið í höndunum til að koma því saman. Pakkið í plastfilmu og kælið í a.m.k.30 mínútur áður en það er rúllað út.

Ég persónulega bjó til miklu meira deig og mæli með því, því er svo skipt niður í 500 gr hvert og fryst, þá á maður alltaf til pæjudeig í frystinum, sem er afþýtt á einum degi inni í ísskáp.
Uppskriftin sem ég gerði er í þessum stærðum:

750 gr flórsykur
1000 gr smjör
2000 gr hveiti
10 egg
Sama aðferð og hér fyrir ofan.

Tuesday, September 1, 2009

Mjúkar súkkulaðibita-haframjölsklattar


Okkur er boðið í mat í kvöld þannig að ekkert verður úr súpunni en ég ákvað að baka klatta.
Þeir eru himneskir og alls ekki svo dýrir, ég átti mest allt af hráefninu fyrir þannig að ég býst við að í flestum eldhúsum sé það sama til staðar.
En án efa þeir bestu sem ég hef smakkað í laaaangan tíma. Það hafa nokkrir komið með athugasemdir í sambandi við kanilinn og negulinn og ég ráðlegg því þeim sem eru ekki miklir aðdáendur þessara krydda að sleppa þeim, það gerir ekkert til. Ef þið viljið minna súkkulaðibragð er líka mjög gott að nota vanillubúðing í staðinn fyrir súkkulaðibúðing. Þessar kökur dreifa ekkert úr sér í ofninum því er best að forma þær eins og þið viljið hafa þær áður en þær eru settar í ofninn, hvort sem þið viljið hafa þær stórar og þykkar eða stórar og þunnar. Ef þið hafið þær þykkar þá er best að lengja tímann um 2 mínútur þ.e. 12 mínútur en 10 ef þær eru þunnar.

16 klattar

200 ml smjör
150 ml sykur
150 ml púðursykur
2 egg
100 gr súkkulaðibúðingur, Royal
1 msk vanilludropar
1 tsk matarsódi
1 tsk vatn
örlítill kanill
örlítill negull
200 ml haframjöl
450 ml hveiti
250 gr súkkulaðidropar
50 ml valhnetur, saxaðar

Aðferð:
1. Hitið ofninn í 190°C
2. Pískið smjörið þar til það er létt, bætið þá báðum tegundunum af sykrinum saman við þar til það er létt og ljóst, Bætið þá eggjunum saman við einu í einu og hrærið vel á milli.
3.Bætið þá búðingnum, vanilludropunum, matarsódanum, vatni og kryddinu saman við. Hrærið vel.
4. Bætið þá haframjölinu saman við og síðast hveitinu.
5.Blandið þá súkkulaðidropunum og valhnetunum saman við með sleif.
6.Setjið eins og 3 msk í eina köku og látið hana vera örlítið þykka og hafið eins og 5 sm á milli hverrar köku. Bakið í 11 mín. Eða þar til þær virðast þurrar að ofan, örlítið brotnar og mjúkar viðkomu. Takið út og kælið. Passið að ofbaka ekki.

Monday, August 31, 2009

Sinneps-og hunangsgljáður kjúklingur með ratatuille

Ég var að nýta afgangana af grænmetinu frá grænmetislasagnainu sem ég gerði í síðustu viku. Þannig að uppskriftin er soldið lituð af því og gæti kannski verið betri en mér fannst þetta koma mjög vel út. Það gæti hins vegar verið betra að grilla grænmetið fyrst áður en maður steikir allt saman á pönnu og setur tómatsósuna saman við en ég hafði ekki tíma í það þannig að svona er uppskriftin að þessu sinni.

Sinneps-og hunangsgljáður kjúklingur
f/2
1 bakki af kjúklingabitum(blönduðum)
5 tsk Dijon sinnep
2 tsk hunang
salt og pipar

Aðferð:
1.Hrærið saman sinnepi og hunangi í skál. Saltið og piprið kjúklingabitana og spyrjið svo sinnepsblöndunni ofan á og bakið í ofni við 200°C í 30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn og hefur fallega gullinbrúna húð.

Ratatuille
f/4
1/2 laukur, skorinn í sneiðar og svo helmingaðar
1/4 af púrrulauk, skorinn í sneiðar
1/2 eggaldin, skorið í 2 cm bita
1/2 zucchini, sorið í 2 cm bita
3/4 paprika, skorin í 2 cm bita
2 hvítlauksrif, skorin í sneiðar
4 greinar timían
1 msk rósmarín
basilíka eða 3 tsk pestó
2 greinar steinselja
1 dós niðursoðnir tómatar, hakkaðir eða heilir
1 tómatur, skorinn í 2 cm bita

Aðferð
1. Skerið allt grænmetið og hitið olíu á pönnu
2. Steikið við meðalháan hita allt grænmetið fyrir utan hvítlaukinn og tómatinn og gott er að byrja á lauknum og paprikunni og bæta svo restinni saman við. Steikið rólega og hrærið oft í þar til allt grænmetið er orðið vel meyrt(gæti tekið um 15 mínútur, þá er tómötunum og hvítlauknum bætt saman við og steikt í nokkrar mínútur til viðbótar.
3. Bætið þá tómötunum úr dósinni og hellið smá botnfylli af vatni í dósina til að hreinsa hana vel af tómatsafanum og hellið saman við. Bætið þá öllum kryddjurtunum saman við og sjóðið við lágan hita í ca 5-10 mínútur.

Þetta er gott með pasta, fiski og kjúklingi eða bara eitt og sér með grilluðu brauði. Það er hægt að bera þetta fram heitt, kalt eða við stofuhita(best þannig) og geymist í kæli í nokkra daga í lofttæmdum umbúðum

Gott er að setja kjúklinginn inn um leið og grænmetið fer á pönnuna, þannig er þetta tilbúið á nokkurn veginn sama tíma.

Matseðill fyrir vikuna 31.08- 04.09. 2009

Þar sem litla krílið hefur enn ekki látið sjá sig og vill bara vera í rólegheitunum inni í bumbunni þá er ekkert annað að gera en að gera matseðil fyrir vikuna.
Við höfum tekið eftir því síðustu vikurnar að matvöruverð hefur hækkað töluvert þar sem matarkarfan okkar hefur hækkað en það er víst lítið við því að gera annað en að nýta allt sem maður kaupir eins vel og hægt er og að kaupa ódýrt hráefni og reyna að hafa fá hráefni í hverjum rétti. Við fórum upp í matjurtagarð í gær og tókum upp kartöflur, næpur, grænkál og salat en því miður þá fundum við aðeins eina gulrót, við vorum aðeins of áköf í arfareitingu í byrjun sumars þannig að fræin fóru, tja já þau bara fóru eitthvert annað. En maður lærir af reynslunni og þá er bara um að gera að gera betur næst. Þar sem ég er alin upp í húsi með stórum garði þar sem helmingur garðsins fór í kartöflugarð þá fannst okkur þetta heldur lítil kartöfluuppskera, en það er vonandi hægt að bæta úr því á næsta ári. Við vorum alltaf heilan dag að taka upp kartöflur en í gær tók þetta ekki nema rúman klukkutíma. Við erum því með kartöflur fyrir nokkra mánuði en ég efast um að þetta dugi út veturinn. Það er kannski ráð að geyma þær þar til eftir áramót þar sem kartöflubændur lentu í uppskerubresti og því munu kartöflur verða mun dýrari eftir áramótin þegar innflutningur hefst með krónuna eins og hún er.
Þar sem ég keypti fullt af grænmeti í grænmetislasagnaið í síðustu viku er um að gera að nýta það í þessari viku og ætla ég að byrja á ratatuille og vinna mig svo áfram eftir vikunni en vonandi mun ég fæða eins og eitt lítið kríli í þessari viku þannig að kannski verður einhver skortur á uppskriftum.

Matseðill fyrir vikuna 31.08.-04.09

Mánudagur
Ofngrillaður kjúklingur með ratatuille

Þriðjudagur
Blómkáls-og brokkólísúpa

Miðvikudagur
Ofnbökuð ýsa með pestó, tómötum og mangó/ananassalsa

Fimmtudagur
Einfalt pasta með steiktum strengjabaunum og kryddjurtaolíu

Föstudagur
Enn og aftur tapaði eiginmaðurinn sér á svínakjötsútsölu og verða því grilluð svínarif þennan föstudaginn

Wednesday, August 26, 2009

Matseðill fyrir vikuna 24.08-28.08 2009

Nú fer að líða að komutíma barnsins þannig að ég ákvað í dag að búa til nokkra rétti sem ég get fryst og notað þegar barnið er komið og enginn hefur tíma né orku í að elda kvöldmatinn. Þannig að það var drifið í að búa til grænmetislasagn, venjulegt lasagn(extra stóran skammt) og svo notaði ég afganginn af kjötsósunni fyrir lasagnið til að nota sem bolognes sósu. Ég gerði í gær pestó sem ég skipti niður í skammta og setti í poka og inn í frysti. Ég er að spá í að búa til úr uxahölunum á föstudaginn þ.e. ef ég verð ekki farin á fæðingardeildina. Ég hef nú þegar sett inn uppskriftirnar af lasagnainu, báðum og er best að hafa uppi á þeim með því að fara á google leit og setja inn lasagn sigurrós og grænmetislasagn sigurrós. Ég tvöfaldaði uppskriftina af lasagnainu og þannig átti nóg fyrir risastórt lasagn og fyrir bolognes sósu.
Í gær var ég mjög sein fyrir og bjó því bara til eggjaköku og kartöflur, einfalt og tók 20 mínútur.

Mánudagur
pylsur, letidagur

Þriðjudagur
eggjakaka með salsa, skinku og parmesan og soðnar kartöflur italian style, þá skrælir maður þær, saltar, dreypir sítrónusafa og síðast ólífuolíu yfir og hristir.

Miðvikudagur


fimmtudagur

Föstudagur
vonandi brasseraður uxahali

Við skulum svo bara sjá til með helgina, erfitt að plana svo langt fram í tímann þegar maður er kominn á steypirinn ;)

Thursday, August 20, 2009

Matseðill fyrir vikuna 17.08-21.08.2009

Nú gengur þetta kæruleysi ekki lengur, það að hafa ekki haft tíma eða öll óvæntu grillin og þess háttar í júlí hefur gert okkur mikinn grikk í fjármálum. Eyðslan hefur farið úr öllu hófi og því þarf ég nú að taka verulegar í r...gatið á okkur hjónakornunum og byrja á ný með matseðlagerð. Ég vil enn ekki trúa því að fyrsta haustlægðin sé að gera okkur lífið leitt þessa dagana og held enn í vonina um að sumarið sé ekki enn á enda. Ég neita því að fara í vetrarfötin bæði bókstsaflega og í eldhúsinu og held mig við sumarlega rétti.
Ég reyndi þessa vikuna að gera eitthvað annað en þetta venjulega með kjúklinginn, þar sem enn er hann ódýrastur og skrapp því til Mexíkó og hafði kjúklingaburrito á ódýran máta og svo daginn eftir þá nýtti ég afgangana þannig að ég hafði restina af burrito kökunum(fylltum) og svo var ég með supernachos með, þá tók ég afgangana af kjúklingafyllingunni og setti yfir nachos svo fullt af gulum baunum og reif svo ost yfir allt saman og bræddi, og hafði svo ostasósu og salsa með. Þetta sló í gegn, sérstaklega fannst dótturinni skemmtilegt að hafa snakk í kvöldmatinn, mikið sport.
Þar sem ég var ekki búin að negla niður neinn matseðil í upphafi vikunnar þá átti ég ekkert í ísskápnum í dag en var þó búin að kaupa Klaustursbleikju, þannig að úr varð hvítvínsbleikja með smjörblancheruðum gulrótum og kartöflum, ólífum og kapers.
En hér kemur þá matseðillinn

Mánudagur
Villisveppavelouté með baguette

Þriðjudagur
Kjúklingaburrito

Miðvikudagur
kjúklingaburrito með supernachos

Fimmtudagur
Hvítvínsbleikja með ólífum og kapers borið fram með smjörblancheruðum gulrótum og kartöflum

Föstudagur
Grænmetislasagna

Friday, August 7, 2009

Blóðbergskjúklingur með nýpum og gulrótum

Ég ákvað að skella mér í matjurtagarðinn minn í morgun og fór upp í Heiðmörk í leiðinni til að athuga með bláber. Ég fann 2 bláber en hins vegar fann ég tvo Kúalubba, sem er sveppur. Ég kom því heim með fulla fötu af grænmeti, kryddi og salati og svona til að toppa náttúrufríkina tvo nýtýnda sveppi. Ég hlakkaði alveg svakalega til eldamennskunnar. Eins og ég er þá vildi ég hafa þetta sem fljótlegast og einfaldast og henti öllu í braising pottinn minn og bakaði í 40 mínútur og hafði svo soðnar og svo léttsteiktar kartöflur með ásamt rjómalöguðum Kúalubbasveppum. Þetta sló alveg í gegn hjá eiginmanninum.
Ég hefði kannski frekar viljað hafa lambakjöt en kjúklingurinn var kominn úr frystinum svo að hann varð fyrir valinu.

Blóðbergskjúklingur með nýpum og gulrótum
f/4
2 bakkar af kjúklingabitum
nokkuð af blóðbergi, saxað
nokkuð af bláberjalyngi, saxað
2 greinar af steinselju, saxað
4 gulrætur, litlar, skornar í bita
3 nýpur, skornar í bita
1/2 laukur, skorinn í þunnar sneiðar
2 msk ólífuolía
smá kjúklingakraftur
100 ml hvítvín
2 stór hvítlauksrif

Aðferð:
1. olían, hvítvínið og krafturin sett í eldfast mót, kjúklingurinn ofan á og hann saltaður og pipraður og svo er blóðberginu, bláberjalynginu og steinseljunni dreift yfir ásamt restinni af hráefninu. Þessu er svo stungið í ofninn við 190°C í 40 mínútur.
Borið fram með kartöflum og rjómalöguðum sveppum

Kartöflurnar sauð ég og léttsteikti svo með grænkáli, salti og pipar

Sveppina steikti ég með 1 litlum skallottulauk, söxuðum og hellti svo eins og 2 msk af rjóma útá þegar þeir voru orðnir vel steiktir. Rjóminn er látinn sjóða þar til hann þykknar sem tekur u.þ.b. 1 mínútu á heitri pönnu.

Thursday, July 30, 2009

Hvítvíns-sinnepskjúklingur með sítrónurisotto

Eins og sést þá er greinilega mánaðarmót og fáir seðlar eftir í veskinu, þar sem kjúklingur er allsráðandi kvöldverður.
Ég hafði lítinn tíma í kvöld þar sem fólk var orðið svangt og horfði á mig með blóðhlaupin augun og froðu vellandi úr munnvikunum og spurði ,, hvað er langt í matinn...grrrrr..." eða var það bara ég, gæti verið, hef aldrei verið neitt sérstaklega þolinmóð þegar hungrið sverfur að.
Þannig að þessi fór í ofninn eftir 2 mínútur af sinneps- og hvítvínsnuddi og á meðan hann var að malla í ofninum þá henti ég í risottoið, svona til að dreifa huganum frá hungrinu.
En viti menn þetta var fáránlega gott og allir voru í gríðarlegu sumarstuði eftir matinn, saddir og sáttir.

Hvítvíns-og sinnepskjúklingur
f/4
2 bakkar af kjúklingabitum
2-3 msk dijon sinnep
3 hvítlauksrif, skorin gróft
2 msk ólífur
1 msk capers
100 ml hvítvín
25 gr smjör
salt og nýmalaður pipar
Smá sesamfræ

AÐferð:
1. Hellið hvítvíninu í eldfast mót sem rúmar alla kjúklingabitana.
2. Smyrjið kjúklinginn með sinnepi, skerið hvítlaukinn gróft yfir, dreifið ólífunum og capersinu yfir. Saltið og piprið kjúklinginn og svo stráið sesamfræjum síðast yfir kjúklinginn. Bakið í ofni við 200°C í 30 mínútur.

Sítrónurisotto
f/4
1,5 ltr kjúklingasoð, léttsjóðandi
80 gr smjör
1 saxaður lítill laukur, eða 2 litlir skallottulaukar
350 gr risottogrjón
1/2 sítróna, allur sítrónubörkurinn rifinn og smá af safanum
2 msk ólífuolía
100 ml hvítvín

Aðferð:
1. Látið soðið sjóða og haldið því rétt sjóðandi
2. Hitið ólífuolíuna og smá af smjörinu og þegar smjörið fer að bulla bætið söxuðum lauknum saman við og léttsteikið bætið þá grjónunum saman við og hitið í ca 4 mínútur. Hellið þá hvítvíninu saman við og látið sjóða niður. Byrjið þá að bæta soðinu saman við eina ausu í senn og látið grjónin taka upp vökvann eftir hverja ausu, þegar vökvinn hefur næstum verið drukkinn af grjónunum bætið þá annarri við þar til þið hafið notað næstum allt soðið þá er gott að byrja að smakka á þeim til að hafa þau alveg eins og þið viljið hafa þau. Þegar þau eru tilbúin og mjúk er sítrónuberkinum og safa bætt saman við ásamt salti og pipar og smjörklípu. Smakkið til með sítrónusafa og salti og pipar eftir smekk.

Gott að bera fram ferskst salat með.

Thursday, July 23, 2009

Súper fljótlegur kryddjurtagrillkjúklingur

Ég viðurkenni það ég nennti ekki að elda í kvöld þannig að ég henti í ótrúlega fljótlegan kjúkling og hann var svo góður að ég varð að setja hann hérna inn. Þessi er kannski meira fyrir þá sem eru að rækta kryddjurtir eða sem tíma að kaupa þær. Þær eru nefnilega notaðar í óhófi í þetta skiptið, sem er svo gaman svona annað slagið.

Kryddjurtakjúklingur með beikoni
f/4
2 bakkar kjúklingabitar, bara þeir ódýrustu
6 msk sítrónumelissa, söxuð
3 msk mynta, söxuð
4 msk timían, saxað
2 msk steinselja, söxuð
4 msk ólífuolía
2 msk edik af einhverju tagi, ég notaði mangó balsamik edik
2 msk sýróp, ég notaði maple
Flögusalt og pipar
1 pakki beikon

Aðferð:
1. Saxið allt kryddið og setjið í skál ásamtöllu hinu fyrir utan saltið og piparinn.
2. Saltið og piprið kjúklinginn vel.
3. veltið hverjum bita vel upp úr olíu og kryddjurtablöndunni og nuddið aðeins inn í kjúklinginn
4. Setjið í eldfast mót og leggjið svo beikonið yfir þannig að hylji. bakið í ofni við 210°C í 30 mínútur færið þá beikonið aðeins til hliðar og setjið svo á grillstillingu í ca 5 mínútur eða þar til beikonið er stökkt og hefur minnkað og kjúklingurinn gullinbrúnn.

Berið fram með steiktum kartöflum eða frönskum eða ofnbökuðum.

Ég sauð kartöflur og setti í eldfast mót og bakaði með kjúklingnum síðustu 10 mínúturnar af eldunartímanum með salti og pipar og ólífuolíu.

Tuesday, July 14, 2009

Grillaður rabbarbaralax með nýju smælki

Þessa dagana er tilvalið að fara í sitt nánasta umhverfi og ræna arfa og rabbarbara sem vex villtur, enda er allt matarkyns að hækka í verði ekki satt, um að gera að spara sér aurinn.
Ég fór því upp á hæðina sem er hér við enda götunnar og þar sá ég breiðurnar af villtum rabbarbara og kerfli svo að ég týndi mér smávegis í matinn. Ég hafði freistast í Melabúðina og keypt mér villt laxaflök og týndi smælki úr kartöflustaflanum sem var nýkominn úr týnslu. Enda gat ég ekki beðið eftir kvöldmatnum.
Þess vegna verður smá rabbarbaraþema kvöldmatarins í kvöld og ég get sagt ykkur það að við vorum í sjöunda himni!
Með þessu hafði ég svo rabbarbarasósu bragðbætta með chilli og balsamik ediki

Grillaður Rabbarbaralax
f/4
200 gr á mann(flestir borða meira af laxi en öðrum fiski annars er venjulega 150 gr á mann af fiski)
400 gr rabbarbari
75 gr hrásykur
50 ml vatn
nokkur blöð af kerfli
1/2 sítróna, sneidd

Aðferð:
1. Skerið rabbarbarann í litla bita og setjið í djúpan pott ásamt sykrinum og látið sjóða við vægan hita í ca 30 mínútur eða þar til rabbarbarinn er meyr en nokkrir harðari en aðrir. Sigtið og kælið.
2. Þvoið vel kerfilinn og leggjið hann á álpappír nægilega stóran til að fara utan um laxaflökin. Leggjið laxinn á kerfilinn og saltið og piprið laxinn og makið svo rabbarbaranum yfir og síðast leggjið sítrónusneiðarnar yfir og pakkið svo öllu inn í álpappírinn þannig að kerfillinn farin einnig yfir laxinn. Grillið við meðal háan hita á roðhliðinni í 7 mínútur og svo á kjöthliðinni í 3 mínútur.

Rabbarbarasósa
f/4
sýrópið sem kom af rabbarbaranum
1/2 chillialdin, saxið smátt
1 skallottulaukur, saxið smátt
1 msk balsamik edik
salt og pipar
1/2 msk ólífuolía, eða hvaða olía sem er

Aðferð:
1.Hitið olíuna í litlum potti og léttsteikið laukinn og chillialdinið, þegar það hefur mýkst er edikinu bætt saman við og látið sjóða alveg niður þá er sýrópinu bætt saman við og suðan látin koma upp, tekið af hitanum og saltað og piprað.

Smælki
f/4
100 gr á mann
50 gr smjör
flögusalt

Sjóðið kartöflurnar og þegar þær eru soðnar er smjöri bætt saman við og þær saltaðar. Berið strax fram.

Ég setti laxinn á rétt eftir að ég byrjaði að sjóða kartöflurnar. Sósuna var ég búin að gera áður en ég setti nokkuð á grill eða heita hellu.

Gott er að hafa ferskt salat með þessu öllu saman.

Monday, July 13, 2009

Grillað lambaprime marinerað í blóðbergi

Ég skellti mér upp á Valhúsahæð áðan en þar vex blóðberg eins og ég veit ekki hvað,út um allt þarna og bara bíður eftir að vera tínt, og ég tíndi heilmikið til að marinera lambaprime.
Lambaprime er eitt af því grillkjöti sem hefur verið hvað mest á tilboði í sumar og við höfum nýtt okkur það óspart því þetta er dýrindis kjöt, alltaf mjúkt, það eina sem þarf að passa er að skera af of mikla fitu sem getur verið á því, annars þarf ekker að gera við það.
Ég fór með svona í útilegu um daginn og setti í marineringu áður en lagt var af stað og það var svo mjúkt og bragðmikið eftir að hafa legið í marineringunni í 2 daga að ég er enn að láta mig dreyma um unaðslegt bragðið.
Í marineringuna í þetta skiptið notaði ég það sem hendi var næst og leyfði blóðberginu að njóta sín sem mest þannig að engar aðrar kryddjurtir voru notaðar og vökvi sem ýtir frekar undir bragðmikið blóðbergið frekar en að yfirgnæfa eða vera of bragðdauft. Með þessu bar ég fram nýjar kartöflur soðnar og svo velt upp úr smjöri og salti og nýtti svo afganginn af sósunni frá því í gær, grísku jógúrtinni með kryddjurtunum.

Marinering fyrir grillað lambaprime
f/4
200 gr á mann af kjöti
4 hvítlauksrif
2 tsk sinnep
2 góðar lúkur af blóbergi
salt og pipar
2 msk balsamik edik
4 msk ólífuolía(eða bara olía af einhverju tagi)
smá sletta af sherry, má sleppa
2 msk vodka(Reyka)

Aðferð:
1. Öllu hrært saman og kjötinu velt upp úr og látið liggja í leginum eins lengi og þið hafið tíma í en gott er að hafa það a.m.k. 30 mín til klukkutíma.
2. Grillið með öllu gúmmulaðinu á í ca 10 mínútur á meðalháum hita á hvorri hlið eða þar til vökvi sem rennur úr kjötinu er orðinn ljósrauður, fyrir medium steikt. Passið þá að stinga aðeins örlitla stungu í kjötið til þess að vökvinn fari ekki allur úr kjötinu og skilji eftir þurrt kjöt.
Berið fram með nýjum íslenskum kartöflum velt upp úr smjöri og salti
og góðri grillsósu

Sunday, July 12, 2009

Grillaður þorskur með kryddjurtum,lime, grískri jógúrt og steiktum kartöflum

Tölvan okkar er enn biluð þannig að ég er núna á lánstölvu og get því sett inn uppskriftir á ný.
Við höfum verið eitthvað löt við matseðlagerð síðustu vikur og hefur matarreikningurinn hækkar svo um munar, því verð ég að hætta þessu rugli og halda áfram með matseðlana.
Þar sem kryddjurtirnar mínar lifa dúndurgóðu lífi í glugganum hjá mér og úti í beði hef ég verið dugleg að nýta mér þær og ég mun örugglega setja inn nokkrar uppskriftir í sumar þar sem ég notast við þær, maður þarf nefnilega að grisja svona annað slagið.
Ég fór einnig í matjurtagarðinn minn í dag og þar náði ég mér í dýrindis grænkál og silfurblöðkur þar sem það þurfti líka að grisja af þeim. Þannig að kvöldmaturinn var uppfullur af vítamínum og fersku salati og kryddjurtum.
Ég fékk alveg frábæran þorsk hjá vinkonu minni en maðurinn hennar hafði farið í sjóstangaveiði og veitt hann, lítill og sætur en ofboðslega bragðgóður.
Með honum bar ég fram salat með strengjabaunum,avócadó og ristuðum söltuðum cashew hnetum, ásamt fersku grænkálssalati, steiktum kartöflum krydduðum með ferskum kryddjurtum og svo síðast en ekki síst kaldri sósu úr grískri jógúrt, hvítvíni og enn og aftur ferskum kryddjurtum.
Ykkur finnst þetta kannski einum of mikið en það tekur smá tíma fyrir þorskinn að grillast þegar hann er grillaður heill svo að ég var bara að nýta tímann í rauninni. Hann tók 40 mín á grillinu og það er tíminn sem ég tók í allt meðlætið, fyrir þá utan suðuna á kartöflunum því það gerði ég löngu áður og steikti svo alveg undir það síðasta.

Grillaður þorskur með ferskum kryddjurtum og lime
f/4
1 heill lítill þorskur, hreinsaður
1/2 lime
3 greinar timían
smá mynta
smá sítrónu melissa
smá basilíka
smá steinselja

Aðferð:
1. Þorskurinn er hreinsaður og skolaður vel og svo eru kryddjurtunum og limesneiðum komið fyrir í sárinu.
2. Pakkið svo inn í álpappír og setjið á meðalheitt grill og grillið í 20 mín á hvorri hlið.

Strengjabaunasalat með avócadó og ristuðum cashew hnetum
f/4
3 lúkur af frosnum baunum en mæli heldur með ferskum í þetta og þá ætti 2 bakkar að duga
1/2 avócadó
1 lúka af cashew hnetum, ég keypti hreinar en það er hægt að kaupa ristaðar og saltaðar
flögusalt og pipar
extra virgin ólífuolía
smá limesafi

Aðferð:
1. Baunirnar eru soðnar örstutt og skellt svo í ískalt vatn á eftir, þerraðar og sett á stóran disk
2. skerið avócadó í sneiðar og berið limesafa á til að hann brúnist ekki
3. Ristið hneturnar og saltið
4. Dreifið avócadóinu og hnetunum yfir baunirnar og hellið svo smávegis af ólífuolíu í mjórri bunu yfir allt saman og saltið og piprið.

Grænkálssalat
einfalt:
rífið niður grænkál og setjið í skál og hellið vinaigrette yfir, ég nota úr mangóbalsamik ediki og olíu

Kryddjurtasósa úr grískri jógúrt og hvítvíni
f/4
2 kúfaðar matskeiðar af grískri jógúrt
3 msk mable sýrópi
3 msk hvítvín
smá sítrónu melissa
smá mynta
smá basilíka
flögusalt og pipar

Aðferð:
1. Saxið kryddjurtirnar og blandið saman við jógúrtina, sýrópið og hvítvínið. Hrærið öllu vel saman og smakkið til. Ef ykkur finnst þurfa meira sætt endilega setjið meira af sýrópinu og ef ykkur þykir hún ekki nægilega bragðmikil er gott að bæta hvítvíni og salti útí og jafnvel smá sítrónu-eða limesafa.

Steiktar kartöflur með kryddjurtum
f/4
ca 400 gr kartöflur, soðnar
smá sítrónu melissa
smá mynta
smá basilíka
salt og pipar
3-4 msk extra virgin ólífuolía

Aðferð:
1. Sjóðið kartöflurnar, skrælið og þerrið
2. Saxið kryddjurtirnar
3. Hitið olíuna á stórri pönnu þar til hún er vel heit setjið þá kartöflurnar á pönnuna og steikið við meðal-háan hita þar til þær brúnast vel(hægt að bæta niðurskornu hvítlauksrifi saman við).
4. Þegar þær eru tilbúnar fallega brúnar þá eru þær settar í skál og kryddjurtunum dreift yfir ásamt salti og pipar.

Sunday, June 28, 2009

Tölvubilanir

Já tölvan okkar crashaði í vikunni og hef ég því ekkert getað komið inn uppskriftum eða öðru hér á síðuna.
Eiginmaðurinn sá um kjúklinginn í vikunni og vildi endilega grilla hann og hann bætti hnetusmjöri saman við BBQ uppskriftina mína og það kom svo fáránlega vel út að það verður pottþétt gert aftur. Hann er alveg svakalegur dashari að það er vonlaust að komast að því hversu mikið hann setti í uppskriftina.
Ég fékk ekki villtan lax í þessari viku en vona að hann komi í næstu svo að ég geti fullnægt þeirri þörf. Maður á víst að borða mikið af laxi og bleikju á meðgöngu, eða helst feitu fiskunum, sem eru svo sem fleiri en þessir fara best ofan í restina af fjölskyldunni.

Tuesday, June 23, 2009

Matseðill fyrir vikuna 24.06-27.06

Ég frétti af villtum laxi í Melabúðinni í vikunni en það var víst lítið af honum því hann er búinn en ég bíð bara spennt eftir næstu sendingu og verð þá með eitthvað gómsætt með villtum laxi sem er algjört uppáhald hjá mér.
Ég er víst með mikið æði fyrir ávöxtum þessa dagana og hef borðað ógrynnin öll af þeim og það hefur ekki verið ódýrt, er gjörsamlega búin að sprengja vikueyðsluna með þessu. Á 5 dögum eru farin 4 epli,1,5 ananas(stór), 4 bananar, ´1/2 melóna, 2 appelsínur og ca 10 ferskjur, já ég get sagt ykkur að það kostar að vera ófrískur með æði. Þar að auki er ég með æði fyrir múslí sem er ekki heldur neitt sérstaklega ódýrt heldur og fer ég núna að búa til mína eigin blöndu þar sem ég er að fara með 1 kg á viku af þessu.

En að matnum, þar sem ég hef eytt vikupeningnum í þetta allt saman þá verð ég að vera extra sparsöm í kvöldmatnum. Ég væri alveg til í kjúklingasúpu á morgun með einhvers konar austurlenskum árhifum, kannski er það rigningin sem kemur þessari löngun í mig.
en best að koma inn matseðlinum:

Miðvikudagur
kjúklingasúpa með austurlenskum áhrifum

Fimmtudagur
ég ætla að reyna að ná í lax

Föstudagur
kallinn vill hafa grill ætli við sjáum ekki hvað verður á tilboði og ég ætla að hafa bakaðar kartöflur með og svokallaða piparsósu með en það er enginn rjómi og ekkert majónes, hmm spennandi.

Laugardagur
já við sjáum til hvar við verðum...

Thursday, June 18, 2009

Grilluð klaustursbleikja vafin í kerfil með kryddjurtakartöflumús

Ég fór í bakgarðinn hjá móður minni í dag og nældi mér í kerfil og svo í alveg hreint frábæra Klaustursbleikju á Freyjugötunni, ég þurfti svo að hreinsa af kryddjurtunum mínum úr glugganum, þar sem þær voru farnar að svigna undan þungum stórum blöðum, og úr varð ótrúlega gómsæt máltíð.
Þetta var allt svo sumarlegt og ferskt og létt í maga, ég mæli með þessum frábæra sumarrétti.
Ég var að frétta af villtum laxi í Melabúðinni í dag, þannig að ég fer hiklaust þangað í næstu viku og vonandi næ ég mér í einn slíkan, ég fæ ekki nóg af honum.
Ég bar þetta svo fram með ofnbökuðu brokkólí og strengjabaunum með parmesanosti, og Ab-mjólkursósunni sem ég var með síðast með bleikjunni(Ab-mjólk,maple sýróp og mynta)
En hér er uppskriftin sem er bæði einföld og fljótleg.

Grilluð Klaustursbleikja umvafin kerfli
f/4
2 heilar bleikjur
1 lime
fullt af kerfli
salt og pipar
annað hvort grillfiskigrind eða 2 grillbakkar

Aðferð:
1. Fyllið vaskinn af köldu vatni og dýfið kerflinum ofan í og hristið vel. Takið svo uppúr og annað hvort hristið vel eða setjið í salatvindu(ef þið eigið svoleiðis).
2. Þvoið fiskinn og þerrið með þurrku. Saltið og piprið að innan og utan. Skerið lime í sneiðar og leggjið innan í fiskinn.
3. Leggjið kerfil á bakkann og setjið fiskinn ofan á hreiðrið og setjið svo kerfil ofan á hann einnig.
4. Búið til kartöflumúsina og brokkólíið áður en fiskurinn er grillaður, þar sem það tekur svo stuttan tíma að grilla hann þá er best að hfa allt annað tilbúið og hita það svo bara upp rétt áður en fiskurinn er tilbúinn.

Kryddjurtakartöflumús
f/4
5-6 meðalstórar kartöflur, soðnar og maukaðar
4 msk fersk basilíka og sítrónumelissa, saxað
100-150 gr smjör
100 ml mjólk
salt og pipar

Aðferð:
1. Sjóðið kartöflurnar og maukið
2. stappið smjörið með kryddjurtunum og bætið svo út í heita músina og bætið mjólk smátt og smátt saman við þannig að hún verði léttari og vel hægt að hræra í henni, saltið eftir smekk og piprið, oft er smekksatriði með hversu mikið smjör og salt er notað því er best að smakka sig áfram og bæta alltaf smátt og smátt saman við og smakka. Best er að hræra í músinni yfir lágum hita og passa að leyfa henni ekki að sitja á hellunni þannig að hún brenni við.

Bakað brokkólí og strengjabaunir með parmesan
f/4
1/2 brokkólíhaus
2 lúkur af strengjabaunum
4 msk parmesan, rifinn gróft
1-2 msk extra virgin ólífuolía
salt og pipar

Aðferð:
1. Skerið brokkólíið í smá blóm og látið renna vatn á baunirnar ef þið eruð að nota frosnar.
2. Leggjð í eldfast mót og kveikið á ofninum á 180°C.
3. Hellið olíunni yfir og veltið upp úr henni, saltið og piprið og dreifið/rífið ostinn yfir
4. Bakið í 20-30 mínútur.

Tuesday, June 16, 2009

matseðill fyrir vikuna 16.06-19.06

Nú er sumarið gengið í garð með sínum hefðbundnu skrítnu vikum. Það er óvíst hvar maður verður hvern dag og óvænt heimboð færast í aukana, hvílíkur unaður!
Ég hef nú samt sem áður sett saman smá matseðil fyrir vikuna og kannski verður úr þessu hjá mér og kannski ekki það kemur bara í ljós.
Ég er komin með kryddjurtir út í glugga og setti kaffikorg í moldina hjá þeim fyrir helgi og fór svo út úr bænum í 2 daga, þegar ég kom heim þá höfðu þær vaxið um a.m.k. 5 sentímetra! Ég trúði ekki mínum eigin augum. Ég hef heldur ekki séð neina lús á basilíkunni, vonandi virkar þetta á þær líka.
Ég fer svo á morgun upp í matjurtagarðinn minn og set kaffikorg á grænmetið þar, það á víst að halda kálflugunni frá og hraða á vexti, vonandi virkar það eins vel og á kryddjurtirnar mínar.
Ég fór um helgina í tjaldferðalag og skemmti mér konunglega, að sjálfsögðu, nema hvað að það var auðvitað grillað og grillað. Ég hafði því, ásamt eiginmanninum, sett lambaprime í marineringu, búið til marineringu fyrir svínarif, búið til túnfisksalat og miðjarðarhafssósuna og kartöflusalat, ásamt að sjálfsögðu samlokum og flatkökum með hangikjeti. Lambakjötið lá í marineringu í 2 daga og var svo ótrúlega mjúkt og unaðslega bragðgott að það er á hreinu að ég geri þetta aftur, en ég er hins vegar komin með nóg af majónes/sýrðum sósum og ætla því að einbeita mér að einhvers konar léttum grillsósum á næstu vikum án majónessins og sýrða rjómans.
Þegar ég fór í síðustu viku að kaupa bleikju hjá fisksalanum í Þingholtinu þá upplýsti hún mig um það að á miðvikudögum fengi hún Klaustursbleikju, en það er einmitt bleikjan sem við notum á Voxinu og er algjört dúndur, ég ætla því að fara á fimmtudaginn og kaupa mér hjá henni.
En hér er matseðill vikunnar:

Þriðjudagur
Bakað tómatpasta með osti og parmesan, borið fram með brauði

Miðvikudagur
Þjóðhátíðardagur, best að plana sem minnst...

Fimmtudagur
Grilluð bleikja í kerfli með blóðbergskartöflumús

Föstudagur
Bómkáls- og brokkólíeggjabaka með chillipiparsósu og gúrku-og myntusalati

Tuesday, June 9, 2009

Grilluð bleikja með steiktum ananas og myntujógúrtsósu

Ég tók mig loksins til og eldaði fiskinn sem ég hef ætlað að gera í ansi langan tíma. Ég fór reyndar í Kolaportið um helgina og keypti mér Sílamávsegg og Svartfuglsegg, og ég sauð þau með matnum í kvöld. Þau voru mjög góð á bragðið en það var svo slepjulegt eitthvað að taka utan af þeim að ég missti eiginlega lystina á þeim en fjölskyldan var alveg rosalega sátt við þau, ég harðsauð þau og blandaði svo smá smjöri og salti saman við og hakkaði saman með töfrasprota og hitaði þangað til þau voru þurr.
Ananasinn í búðunum núna er alveg rosalega sætur og góður og ég mæli með því að nota hann í allt, hann er svo sumarlegur og ferskur og safaríkur.
Myntan er líka mjög sumarleg og fersk og kemur sterk inn. Mér finnst ekki passa við svona léttan og góðan mat eins og bleikju að vera með þykka majónessósu og langaði því í eitthvað annað en hafði samt ekki orku í að kokka upp eitthvað flókið og tímafrekt þannig að úr varð þessi dýrindissósa með AB-mjólk, maple sýrópi og myntu, þunn eins og mér fannst passa við og svo myntan sem lyfti henni á hærra plan.

Grilluð bleikja með steiktum ananas og myntujógúrtsósu
f/4
800-1 kg bleikja, beinhreinsið og skolið vel og þerrið svo með bréfi
1 lime, skorin í þunnar sneiðar
salt og pipar

Steiktur ananas með chilli og skallottulauk
2/3 ananas
2 litlir skallottulaukar, saxaðir eða sneiddir þunnt
1/2 chilli, grænn eða rauður, saxaður smátt
smá olía

Borið fram með kartöflumús

AB-mjólkursósa með mynta
200 ml ab-mjólk
2-3 msk mablesýróp
1 msk mynta, söxuð

Aðferð:
1. Sjóðið kartöflurnar
2. Skerið ananasinn, chillialdinið og skallottulaukinn og steikið í olíu í potti þar til laukurinn og chillialdinið er mjúkt, hægt er að hita þetta aftur upp þegar allt er tilbúið.
3. Hitið grillið og búið til sósuna
4. Þegar grillið er orðið heitt og kartöflurnar soðnar er bleikjan sett á grillið(á grillbakka með roðhliðina niður), hafið á meðal hita í ca. 5 mínútur á roðhliðinni eða þar til hann er tilbúinn(misjafnt eftir grillum).
5. Á meðan bleikjan er á grillinu er kartöflumúsin búin til, skrælið kartöflurnar og stappið, bætið smjöri, smá mjólk og saltið og piprið þar til hún smakkast guðdómlega(ég er algjör kartöflustöppuaðdáandi).
6. Gott er að hræra í músinni í potti yfir meðal-lágum hita og hita ananasinn upp á meðan á annarri hellu, þannig ætti allt að vera heitt þegar bleikjan er tilbúin.

Mjög gott er að bera þetta fram með ristuðu brauði smurðu með smjöri á meðan það er heitt til að smjörið bráðni og skerið í þríhyrninga

Saturday, June 6, 2009

Sætur sítrónukjúklingur með stökkri húð og spaghetti með strengjabaunum

Það er búið að vera svo brjálað að gera hjá okkur systrunum í undirbúningi fyrir sextugs afmæli móður minnar að það fór lítið fyrir fisknum á fimmtudaginn og svo í gær var svo farið á veitingastaðinn Dill, sem er þvílík snilld, mæli með honum.
Ég hins vegar eldaði dýrindisrétt á miðvikudaginn og ætla ég að setja hann hér inn, hann var hreint unaðslegur.
Ég hafði reyndar ekki tíma til að marinera þannig að þeir sem hafa tíma þá er það örugglega betra og þá er best að marinera hann í sólarhring.
Ég átti svo lítinn bakka af kjúkling og var því hrædd um að hann myndi ekki duga handa okkur og ákvað að hafa spaghetti með og það kom bara mjög vel út og það er alveg pottþétt að ég geri þennan rétt aftur. Þetta tók mig líka ca 15 mín fyrir utan tímann sem ég þurfti að bíða eftir kjúklingnum í ofninum og spaghetti-inu að sjóða, þannig að þennan rétt má alveg flokka undir fljótlegan rétt.

Sítrónukjúklingur með stökkri húð
f/4
1 kjúklingur eða 2 bakkar af kjúklingabitum
1-2 sítrónur(fer eftir stærð þeirra), bæði safinn og börkurinn(rifinn)
4 msk púðursykur
1 kjúklingakraftsteningur
vatn
salt og pipar
hveiti til að velta upp úr
2 hvítlauksrif

Spaghetti með strengjabaunum
f/4
80-100 gr af þurru spaghetti á mann
2 lúkur strengjabaunir(ég notaði bara frosnar)
1 stór skallottulaukur, saxaður
extra virgin ólífuolía

Aðferð-kjúklingur:
1. Skerið fitu og aukahúð af kjúklingnum og veltið upp úr hveiti og dustið aukahveiti af
2. Steikið kjúklinginn í olíu(má vera hvaða olía sem er) þar til hann verður gullinbrúnn,saltið hann og piprið.
3. Setjið kjúklingakraftinn í eldfast mót ásamt smá botnfylli af vatni, leggjið svo kjúklingabitana í mótið og rífið sítrónubörkinn yfir og kreistið svo sítrónurnar yfir og skerið hvítlaukinn gróft og dreifið í botninn á mótinu. Smyrjið svo púðursykri jafnt yfir húðina á kjúklingnum og bakið í ofninum við 200°C í 25-30 mínútur(fer eftir stærð bitanna, tékkið alltaf á stærsta bitanum hvort hann sé tilbúinn). Einnig er hægt að skera þunnar sítrónusneiðar og smyrja með smá púðursykri og stinga á milli kjúklingabitanna ef þið viljið.
4. Á meðan kjúklingurinn er í ofninum er spaghetti-ið soðið og strengjabaunirnar steiktar við meðalhita ásamt lauknum, það er í lagi að laukurinn verði stökkur og brúnn en passið að hann brenni ekki. Gott er að vera óspar á olíuna og nota extra virgin og steikja þetta vel og lengi. Saltið og piprið, best að nota flögusaltið hér.
5. Þegar spaghetti-ið er soðið er það sigtað og svo hellt á pönnuna með baununum og blandað vel saman og borið fram með kjúklingnum.
6. Þegar kjúklingurinn er borinn fram er gott að ausa vökvanum í mótinu rétt aðeins yfir húðina á kjúklingnum til að hafa þetta aðeins safaríkara.

Aths. ef þið ætlið að marinera kjúklinginn er best að setja bitana í skál og kreista sítrónurnar yfir þannig að vökvinn hylji(það gæti þurft fleiri sítrónur í þetta)og sleppið þá sítrónusafanum þegar hann er eldaður í ofninum og hafði aðeins kjúklingasoðið.
Þetta er fljótleg útgáfa af kjúklingnum sem var í brúðkaupinu mínu og við höfum notað þennan rétt í ansi margar veislur, hann slær alltaf í gegn!

Tuesday, June 2, 2009

matseðill fyrir vikuna 02.06.-07.06

Það verður smá sumarblær á matseðlinum þessa vikuna enda kominn júní. Ég tók mig og fjölskylduna til í dag og í gær og plantaði alls konar góðgæti í matjurtagarðinn sem ég hef tekið á leigu og hlakka mikið til í haust þegar ég má taka upp og sjá árangur erfiðisins.
Þar sem við vorum að vinna í garðinum fram að kvöldmatarleyti og allir glorhungraðir þegar heim var komið þá tók eiginmaðurinn sig til og bjó til dýrindis samlokur, fullar af mat, tóamtar,ostur,skinka, harðsoðin egg, agúrka og salat og bragðbætt með Dijon sinnepi og majónesi(brauðsneiðarnar eru ristaðar fyrst), bara mjög góður skyndibiti.
Á morgun byrjar svo vikan fyrir alvöru í matardagskránni.
Ég ákvað að hafa grillaðar pizzur í gær og fann það út að það er best að taka botninn og grilla hann á annarri hliðinni fyrst og svo snúa við og setja fyllinguna og ostinn og grilla þá hina hliðina og loka grillinu. Þetta er nú örugglega misjafnt eftir grillum en svona virkar þetta best hjá okkur.
Ég gerði spaghetti carbonara(uppskrift komin inn, bara googla) og grillaði grófar margaritupizzur með, þá bjó ég til margar litlar pizzur, það kom mjög vel út og Heklu fannst það algjört æði að hafa litlar barnapizzur eins og hún kallaði þær.

Þriðjudagur
Samlokur

Miðvikudagur
Sítrónumarineruð kjúklingalæri með stökkri húð borið fram með hrísgrjónum og salati

Fimmtudagur
Grilluð bleikja í kerfli með steiktum chilli ananas, ofnsteiktum myntukartöflum og fersku salati

Föstudagur
Á þessum degi verður farið út að borða á Dill og hlakka ég svakalega til!

Laugardagur
eins og fyrr vil ég ekkert ákveða með þennan dag, það getur ýmislegt skemmtilegt gerst á laugardögum

Sunnudagur
Lauflétt pasta með strengjabaunum og myntu borið fram með fersku salati og brauði

Thursday, May 28, 2009

Grillaður kjúklingur með indverskri kryddblöndu

Ég hef mikið lesið af amerískum matartímaritum og þar hefur hefur mikið verið talað um ,,spice rub" sem er blanda af kryddum og engu öðru, ég hef oft velt því fyrir mér hvort það gæti verið of þurrt en kryddblöndurnar eru alltaf svo girnilegar að ég hef ekki getið hætt að hugsa um þetta fyrirbæri.
Ég ákvað því í kvöld að láta verða af þessu og bjó til mína eigin blöndu og ég varð svo sannarlega ekki svikin! Ég geri þetta aftur það er á hreinu. Ég hafði kjúklinginn í þetta skiptið á beinunum á grillbakka í ca 40 mínútur á grillinu við meðal hita og svo síðustu 10 mínúturnar setti ég hann á húðhliðina til að fá hann örlítið brenndan, eins og grillmatur á að vera.
Kjúklingurinn er skorinn eftir endilöngu á undirhliðinni og svo þvingaður út þannig að hann sé tiltölulega flatur.

Grillaður kjúklingur nuddaður með indverskri kryddblöndu
F/4-5
1 kjúklingur
1 msk sinnepsfræ(ég notaði dökk þar sem ég átti þau til)
1/2 msk mulin kóríanderfræ(ég nota kaffikvörn)
1/2 msk múlin kardimomma
1/2 msk anísstjörnur(muldar)
salt og nýmulinn pipar(ég er nú svo heppin að luma á sýrlenskum pipar)
3 msk púðursykur

Aðferð:
1.Skerið kjúklinginn og hitið grillið
2.Setjið þurrkryddið á litla pönnu og hitið þar til það byrjar að lykta unaðslega
3.Blandið því svo saman við púðursykurinn og nuddið vel skinnið á kjúklingnum og saltið og piprið yfir hann allan.
4.Setjið hann með beinahliðina á grillbakkann og grillið við meðalhita í 40 mín(athugið kjúklinginn á 20 mín. fresti, grill eru mjög misheit og ef hann byrjar að brenna er um að gera að lækka hitann örlítið). Snúið kjúklingnum svo við síðustu 10 mínúturnar til að fá fallega rétt brennda húð á hann. Athugið hvort hann er tilbúinn með að stinga með beittum hníf í þykkasta hlutann(bringuna) og athugið hvort vökvinn sem kemur úr er á litinn, ef hann er glær er hann tilbúinn(allt sem hefur smá roða í vökvanum þýðir að hann er ekki tilbúinn).

Mjög gott er að bera fram með tatziki sósu eða hvers kyns jógúrtsósu og ofnbökuðum kartöflubátum krydduðum með hvítlauk og engifer, salti og pipar.

Wednesday, May 27, 2009

Gulrótarsúpa og steiktar strengjabaunir

Kannski soldið skrítin samsetning en hún virkaði fyrir okkur stúlkurnar. Ég gerði strengjabaunirnar oft á þennan hátt þegar ég var au pair á Ítalíu fyrir óhemju mörgum árum síðan og gríp í þetta ennþá svona endrum og sinnum, þetta er eins og snakk svo gott er það. Það er svo sem engin uppskrift heldur set ég fullt af extra virgin ólífuolíu í stóra pönnu og svo hendi ég baununum á(ég nota hér á Íslandi frosnar og þær virka bara ágætlega) og salta vel og svo bara steiki ég þær í hel, þar til þær eru vel brúnar og steiktar og þá ríf ég parmesan yfir og steiki hann aðeins með og smakka svo til með enn meira flögusalti, þetta er æði ég lofa!
Gulrótarsúpan er líka mjög góð ég nota lítinn grænmetiskraf en fæ mér frekar kraft úr alls konar grænmeti sem ég finn í skápnum hjá mér og bæti svo einhverju bragðsterku eins og chilli, engifer og hvítlauk og nota það sem kryddið. Þetta er mjög næringarríkt og fyllandi.

Gulrótarsúpa
f/4
1/4 chilli
1 tsk engifer
2 lítil hvítlauksrif
1 msk rauð paprika
1 msk græn paprika
2 skallottulaukar
1 lítil kartafla
4 stórar gulrætur + 1 til viðbótar skorin sem skraut ofan í súpuna seinna
100 ml gulrótardjús, má vera hvað sem er ég notaði heilsudjús sem er blandaður og það virkaði bara mjög vel
vatn
grænmetiskraftur ef vill
1/2 msk smjör(ég notaði smjörva sem var í góðu lagi)

Aðferð:
1. Skerið allt grænmetið(skiptir ekki máli hvernig, það verður annað hvort hakkað eða sigtað frá)
2. Skerið gulræturnar fjórar frekar þunnt, til þess að þurfa ekki að sjóða súpuna mjög lengi, þar sem þynnri bitar eru tilbúnir fyrr heldur en þykkir bitar
3. Setjið smjörið í pott yfir meðal hita og hitið smjörið þar til það fer að freyða, bætið þá öllu grænmeti saman við fyrir utan gulræturnar. Létt steikið í ca 4 mínútur bætið þá gulrótunum saman við og léttsteikið áfram í 4 mínútur.
4. Hellið þá vatninu og djúsnum saman við þannig að fljóti yfir allt grænmetið og 2 cm til.
5. Sjóðið vel yfir meðal hita í ca 20-25 mínútur eða þar til gulræturnar eru meyrar, nú getið þið gert tvennt annað hvort hakkað þetta með töfrasprota og þá fáið þið kremaða mauksúpu eða þá sigtað súpuna og þá eruð þið með þunna grænmetissúpu, mér finnst hvoru tveggja alveg jafn gott, það fer eftir smekk hvers og eins.
6. Þegar búið er að hakka/sigta súpuna er hún bragðbætt með krafti/salti/pipar/djús eftir hvaða bragði þið leytið eftir, ég persónulega bragðbætti með þessu öllu saman. Þá er síðasta gulrótin sneidd mjög þunnt og sett útí og þetta látið sjóða þar til þær eru næstum meyrar en aðeins stökkar undir tönn.
7. Ég hafði þetta sem mauksúpu í þetta skiptið og bar fram með sýrðum rjóma og það var mjög gott og flott