Wednesday, April 29, 2009

Matseðill fyrir vikuna 28.04-02.05.

Ja hérna hér ég hef ekki enn sett inn matseðilinn fyrir vikuna, bölvað framtaksleysi er þetta í manni.
Á mánudaginn var ég með Pizzu og svo í gær hafði ég afgangana af henni og í kvöld verður afgangur af lasagna-inu sem ég gerði í síðustu viku. Ég geri alltaf svolítið ríflega af því til að geta sett afganginn í frystinn í nokkrum skömmtum, mjög þægilegt.
En á morgun verð ég að fara í búðina, ég tók nefnilega eftir því að það er lambaprime á tilboði og ég er í algjöru lambastuði núna þegar sumarið er á næsta leiti. Mér finnst einhvern veginn alltaf fylgja sumrinu að borða ógrynnin öll af lambi, kannski er það allt grillið sem maður fer í á sumrin ég býst við því. Ég væri samt alveg til í að fara að fá lambalærissneiðar, þær eru reyndar rándýrar en kannski maður splæsi á sig eitthvert kvöldið.

Þriðjudagur
afgangar af heimatilbúinni pizzu

Miðvikudagur
afgangar af lasagna

Fimmtudagur
lambaprime með grillsósu og ofnristuðum kartöflum, einfaldara gæti það ekki verið

Föstudagur
Krakkahamborgarar, s.s. venjulegir hamborgarar og krakkarnir ánægðir....

Laugardagur
Fiskur með léttsteiktu spínati, grænum baunum og kotasælu með ólífum og graslauk

Sunnudagur
Fullorðins hamborgarar, s.s það verður improviserað eitthvað þetta kvöldið!

Monday, April 27, 2009

góð ráð fyrir pizzadeig

Ég ætlaði að gera pizzur í gær og henti því í deig áður en við skelltum okkur í sund og leyfði því að hefast á meðan við svömluðum. Hins vegar þegar við komum heim var okkur boðið í mat til tengdó, naut og Bernaise og ekki segir maður nei við því að sjálfsögðu. Þá setti ég pizzadeigið inn í ísskáp vafið í plastfilmu til að fá ekki leiðindaskán sem gerir manni erftitt fyrir þegar maður rúllar því út. Í kvöld kom svo lítil vinkona Heklu í heimsókn og þá alveg tilvalið að skella pizzu í ofninn. Þá var deigið tilbúið og þurfti aðeins að fletja það út og setja á hana og baka, pissbangbúið!
Pizzasósuna má finna hér á blogginu, ef þið farið í google search og setjið inn pizzasósa Sigurrós og þá farið þið beint inná uppskriftina.

Sunday, April 26, 2009

Köld gráðostasósa

Ég ákvað að hafa kalda gráðostasósu með svínahnökkunum í þetta skiptið, og breyta henni þannig í kalda grillsósu. Þetta heppnaðist ágætlega þó svo að þannig sósa muni aldrei líta lystilega vel út, þær verða alltaf hálf grænar og ógirnilegar en þegar þær lenda á tungunni þá er ekki aftur snúið, hreinn unaður.
Ég notaði 2 bláa gráðosta á móti einum pela af rjóma, sem sagt helmingi meira af osti en venjulega og sauð þetta saman þannig að þykknaði og þá kældi ég hana aftur niður. Ef maður kælir hana of lengi þá verður hún alveg hörð þannig að maður þarf að finna meðalveg þarna. Ég reyndar kældi hana of lengi en bara hitaði rólega upp aftur þannig að hún varð mjúk en ekki alveg heit og setti í frystinn í 10 mínútur og þá var þetta tilbúið. Ég gerði, eins og venjulega, allt of mikið af henni og frysti afganginn og þá var tilvalið að hafa hana sem ídýfu á kosningakvöldinu með gulrótarstöngum eða smá crudité eins og það heitir. Þá gerði ég aftur það sama hitaði upp og setti inn í frysti í 10 mínútur og sósan klár.

Wednesday, April 22, 2009

Matseðill fyrir vikuna 22.04-26.04

Það er einhver lágdeyða yfir mannskapnum þessa vikuna. Er komið vor? er ekki komið vor? hvar er sólin? Þetta eru spurningar sem gera manni erfitt fyrir að komast í létta sumargírinn, en þetta er allt að koma, kemur bara hægar en oft áður ætli það helgist ekki af því að ég hef ekki verið á Íslandi síðustu 5 vor, þannig að úti var þetta leikur einn en hér þarf maður að vinna í vorfílingnum. Við vorum með pasta pomodoro á mánudaginn og í gær var dáldill vorfílingur, við hittum óvænt vini niðri í miðbæ og fórum saman að borða á nokkurs konar skyndibitastað. Þetta var hið skemmtilegasta kvöld, óvænt gleði og veðrið gott, jú það var ekki laust við smá vorglætu í sálinni eftir þetta.
Í kvöld verður svo antipasti, klára það sem til var og svo pulsur, letilíf á þessum bæ.
Ég býst nú þó við því að fara í eldhúsið á morgun og næstu daga þannig að hér kemur vikuseðillinn.

Fimmtudagur
BBQ svínahnakkar með kaldri gráðostasósu og bökuðum kartöflum

Föstudagur
Lasagna, að ósk Heklu litlu

Laugardagur-Kosningadagur
Allt of erfitt að ákveða, hvort maður verði heima eða að heiman

Sunnudagur
Þetta verður líklegast þynnka hjá eiginmanninum og fleiri býst ég við því ætla ég að hafa pizzu

Saturday, April 18, 2009

Roasted kjúklingur(vantar góða þýðingu) með eggaldini og zucchini og epla-og vínberjasalati

Þetta var kannski helst til of vetrarlegur réttur en passar þó ágætlega við veðrið sem hefur verið í dag og í gær, hlýjar manni ágætlega. Ég þarf að fara að koma mér í sumargírinn og hafa sumarlegri rétti. Þessi kjúklingur var bara helvíti góður ég prófaði í fyrsta skipti að kaupa bouillon eða nokkurs konar soð í pakka, eitthvað sem ég fann í Krónunni og hann lofar bara góðu. Ég hef nefnilega lengi pirrast yfir því að fá ekki að kaupa soð úti í búð en það er víst bara til í Bandaríkjunum, hér er nú bara góð hugmynd fyrir nýsköpun, ha hmm...
Ég keypti eins og ég sagði um daginn svokallaða roasting pan (á ensku) fékk mér það í afmælisgjöf, (langaði bara ekkert í föt) og hún stóð sig bara helvíti vel, mæli með henni og hún var ekkert svo dýr heldur, ég fékk hana í Bræðurnir Ormson í Smáralindinni og hún er svört og þykk. Ég hef einhvern veginn ekki mikla trú á þessum úr þunna málminum sem ég er nú bara ekki viss um hvað er, ætli það sé ekki ál en það er einnig sagt stórhættulegt og auka líkur á alzheimer að elda í álpottum. Hér kemur þó uppskriftin að kjúklingaréttinum:

Roasted kjúklingur
1 kjúklingur
1 zucchini
1 eggaldin(lítið)
4 stórar kartöflur
2 msk kjúklinga boullion
70 ml vatn
2 stönglar steinselja
5 blöð salvía
1/4 laukur, saxaður
1/2 fennel
30 gr smjör
4 hvítlauksrif
2 lúkur vínber
2 msk ólífuolía

Aðferð:
1. Skerið eggaldinið, zucchini-ið og kartöflurnar í 1 cm þykkar sneiðar.Skerið fennelinn í þunnar seniðar.
2. Setjið kjúklingasoðið ásamt vatni í botninnn á roasting pönnunni og blandið vel saman þannig að þekji botninn. Leggjið þá kjúklinginn ofan í og troðið svo salvíublöðum og smjörklípum innan undir húðina á kjúklingnum. saltið hann svo að utan og piprið með nýmöluðum pipar.
3. Raðið eggaldini, zucchini, kartöflum og fennelinu sitt á hvað í kringum kjúklinginn í röð og dreifið svo hvítlauk, vínberjum og söxuðum lauk yfir allt saman, og klippið steinseljuna yfir.
4. Síðast er svo olíunni dreypt yfir allt saman til að bleyta upp í öllu saman.
5.Setjið inn í 180°C heitan ofn og bakið í 1 klst. eða þar til hann er tilbúinn.
6.Berið einnig fram með soðinu sem safnast hefur saman í botninn á pönnunni. Ef þið viljið hafa bragðmikla sósu og hafið tíma þá er gott að taka það og sjóða niður í potti og jafnvel þykkja. Ég nennti því ekki og kom það bara ágætlega út að hafa bara soðið eins og það var.

Aths. Ef þið eigið afgang af grænmetinu og kartöflunum, ef það kemst ekki allt saman fyrir þá steikti ég zucchini-ið og forsauð kartöflurnar og steikti til að hafa með.

Berið fram með epla-og vínberjasalati

Epla-og vínberjasalat
f/4
2 epli, skræld og skorin í bita
1 lúka vínber, steinlaus og skorin í tvennt
2 msk majónes
2 msk sýrður rjómi
3 döðlur, saxaðar
1 tsk Dijon sinnep
salt og nýmalaður pipar

Aðferð:
1. Sýrður rjómi og majónes er hrært saman þar til það er kekkjalaust og sinnepi þá bætt saman við og saltað og piprað.
2. Skerið eplin, vínberin og döðlurnar og setjið í skál, blandið þá majónesblöndunni saman við. Smakkið til með salti og pipar.

Friday, April 17, 2009

Marinering fyrir svínakjöt

Var að kyngja síðasta bitanum og þetta heppnaðist bara ágætlega þetta mætti kalla einhvers konar smoky grillmarinering

1 dl sojasósa
1 dl olía
1 dl gin
1 dl rauðlaukssulta, fann hana lengst inní ísskáp hjá mér, eitthvað sem ég gerði fyrir mörgum mánuðum og auðvitað þar sem þetta er sulta er hún enn í lagi
2 msk púðursykur
1 msk sýróp
1/2 msk nýmalaður pipar
1/2 tsk poultry seasoning

Allt er sett í lítinn pott og soðið hratt niður á hæsta hita í ca 5 mín. eða þar til marineringin þykknar. Raðið svínahnökkum eða kótilettum í grunnt fat og hellið yfir og látið marinerast í 1-2 klst við stofuhita eða í ísskáp í lengri tíma allt upp í sólarhring. Passið að smyrja með marineringunni á meðan þið grillið.

Beikon timían kartöflur
f/4
100 kartöflur á mann
4 beikonsneiðar
smjörklípa
2 msk ferskt timían
salt og nýmalaður pipar

Aðferð:
1. Kartöflurnar soðnar þar til þær eru tilbúnar
2. Beikonið steikt í smjörinu þar til stökknar
3. Þegar kjötið er alveg að verða tilbúið er beikonið steikt og þegar það er stökkt er það tekið af og látið dreypa af því á pappírsþurrku og smjörið og fitan í pönnunni er geymt á meðan það er enn heitt er timíanið sett í pönnuna, hitið aðeins þá eru kartöflunum bætt saman við og þetta steikt saman í nokkrar mínútur eða þar til kjötið er tilbúið. Þá er beikonið skorið í litlar bita og bætt saman við kartöflurnar.
4. Gott er að bera fram með fersku salati og góðri grillsósu

Antipasti fyrir þá sem týma

Við vorum svo heppin að geta keypt okkur fullt af ostum og góðgæti á Ítalíu en fyrir þá sem týma þá er hér uppástunga á hinu fullkomna antipasti, sem hægt er að bjóða upp á í forrétt eða í rómantískan aðalrétt með elskunni og passa þá að hafa rauðvínið tilbúið.
Þegar við gerum þetta setjum við eins og 4 tegundir af ostum að þessu sinni voru það Taleggio, Gorgonzola, Sardo dolce og Pecorino Romano einnig vorum við með Prociutto cotto, sem er í rauninni venjuleg skinka skorin þynnra en okkar, Prociutto crudo, sem er þekkt undir heitinu Prociutto hér á landi og svo salami, við vorum með tvær tegundir af salami eina sem var þunnt skorin og svo eina pulsu sem við skárum sjálf. Með þessu er svo ómissandi að hafa stórar ólífur, grænar og svartar best væri að vera með Kalamati ólífurnar og svo Tuc kex og nýbakað baguette. Þetta getum við borðað endalaust og ég lofa að ef þið hafið ráð á að prófa einhvern tímann þá getið þið það líka.
Þegar þið bjóðið upp á osta þarf að athuga að láta fólk ekki byrja á þeim bragðsterkasta því eftir hann er ekki séns að finna nokkurt bragð af hinum ostunum. Þess vegna þarf maður alltaf að byrja á þeim bragðminnsta og svo koll af kolli. Þegar ég býð gestum upp á osta(sem gerist örsjaldan á þessum síðustu og verstu)þá smakka ég þá fyrst og læt svo gestina vita hver er sterkastur og hver er bragðminnstur.
Nú ef einhver af ykkur er svo heppin að vera á leið til Ítalíu þá eru ostunum skipt í dolce og ekki dolce, jafnvel stundum forte ef þeir eru mjög sterkir, dolce þýðir í raun sætur og eru þeir bragðminnstir. T.d. fyrir þá sem vilja smakka Gorgonzola en þykir gráðostur of sterkur þá eru til 100 styrkleikar á þeim osti allt frá næstum brie til svo sterks að hann án gríns brenndi á mér tunguna! Fyrir þá er best að byrja á Gorgonzola Dolce.
En í kvöld verður svínahnakki og kartöflusalat, best að byrja á marineringunni.

Wednesday, April 15, 2009

BBQ Kjúklingur og franskar, spaghetti Carbonara

Það er víst óþarft að setja inn þessar uppskriftir þar sem ég hef nú þegar sett þær inn hér á bloggið mitt og til að finna þær er best að setja inn í Google Search BBQ sósa Sigurrós og þá fáið þið uppskriftina strax og þurfið ekkert að leita endalaust í blogginu eða reyna að muna hvenær ég setti það inn síðast eins og systir mín lenti í um daginn. Ég mun þó reyna í þessum mánuði að byrja að setja upp heimasíðu þar sem verður hægt að prenta út hverja uppskrift, eitthvað sem margir hafa beðið mig um og svo auðveldari leit og margt fleira skemmtilegt.

Tuesday, April 14, 2009

Matseðill fyrir vikuna 14.04-18.04

Það er ítölsk stemining í heimilisfólkinu þessa vikuna, eins og gefur að skilja, það verður pasta og antipasto og kannski maður lummi inn einhverju svíni, það er víst það ódýrasta og eiginmaðurinn kaupir varla annað. Þar sem ég fæ ansi fljótt leið á hlutunum þá er stutt í það hjá mér með svínið þannig að ætli maður þurfi ekki að fara að stoppa manninn af í þessum innkaupum.

Þriðjudagur
BBQ kjúklingabitar og franskar og með því höfum við waldorfsalats afganga frá tengdó

Miðvikudagur
Spaghetti Carbonara, kannski maður laumist til að setja eitthvað nýtt í það, aldrei að vita nema eiginmaðurinn samþykki það

Fimmtudagur
Antipasti, við keyptum að sjálfsögðu alls konar osta og skinkur og ólífur á Ítalíu og það þarf víst að borða það áður en það skemmist

Föstudagur
Svínahnakkar var það heillin, marineraðir og bornir fram með timían og beikonkartöflusalati og fersku salati

Laugardagur
Roast kjúklingur eða eitthvað ódýrt úr búðinni, var að kaupa nýja roasting pan og bara verð að prófa, með rótargrænmeti og eplasalati með vínberjum

Saturday, April 11, 2009

Formaggi, salumi, prociutto cotto e crudo! Che vita meravigliosa!







Þá er maður komin heim úr mikilli matarferð til Ítalíu. Við vorum á stað sem heitir Fisciano og er pínulítill bær rétt hjá Salerno á suður-Ítalíu. Við vorum þar í brúðkaupi ítalskrar vinkonu minnar og borðuðum svo mikið að ég er alveg með það á hreinu að við höfum bætt á okkur nokkrum kílóum. Við fórum alltaf svo södd í rúmið og alltaf var maður að malda í móinn og reyna að borða minna en það var bara ekki tekið neitt mark á því. Við fórum í pastabúð til að kaupa pasta og spaghetti fyrir brúðkaupið, við fórum með bróður brúðgumans og hann fór svo allt í einu eitthvað að hvísla að afgreiðslustúlkunni sem kinkaði svo kolli, svo kallaði hann á okkur og sagði okkur frá því að þetta væri í rauninni lítil pastaverksmiðja sem framleiddi pasta fyrir frægustu og bestu veitingastaðina á Ítalíu, þ.á.m. staði sem hampa michelin stjörnu, ekki nóg með það sagði hann að nú fengjum við sýnistúr um verksmiðjuna með eigandanum. Ég fékk að sjá hvernig þetta er gert frá grunni í 300 ára gamalli verksmiðju í pínulitlum bæ á suður-Ítalíu, mér fannst ég vera heppnasta manneskja í öllum heiminum! Þetta var svo áhugavert að ég missti næstum vatnið. Vélin sem þeir nota er eldgömul en pínulítil í rauninni, svo sáum við hvaðan vatnið kemur og hversu mikilvægt það er í framleiðslunni, en þeir halda því fram að vatnið þarna suðurfrá sé það besta á Ítalíu og því nær sem maður fer Napólí því betra er það í pizzur, pasta og kaffi, og að það sé einmitt þess vegna sem þessir hlutir eru bestir í Napólí. Næst var okkur sýnt hvernig það er þurrkað og hvernig þeir gera einungis eina tegund í 1-3 daga og svo taka þeir til við annað form á pasta. Einu sinni í viku gera þeir svo litað pasta eins og svart með kolkrabbableki, en þeir nota ekta blek sem er geymt í kæli hjá þeim og svo ýmis önnur bragðefni, spínat og fleira. Ég set hér inn nokkrar myndir af þessu, vonandi þykir ykkur þetta eins áhugavert og mér. Við keyptum nokkra pakka og gerðum sl pomodoro í gærkvöldi og það hefur aldrei smakkast eins vel!
Við gæddum okkur einnig á heimagerðu rauðvíni og ég hef nú þegar sett inn beiðni til vinkonu minnar um uppskriftina að því, en þau gera það úr ferskum vínberjum og það var rosalega gott, svona heimilisvín að sjálfsögðu.
Brúðkaupið var svo kapítuli útaf fyrir sig, þvílíkt og annað eins hef ég aldrei séð eða heyrt af! Þegar við komum úr kirkjunni þá keyrðum við í klukkutíma að hótelinu þar sem veislan fór fram og var okkur beint inn í einn sal og þar beið okkar forréttarhlaðborð, reyndar héldum við að þetta væri aðalmaturinn þar sem það var svo glæsilegt og mikið af réttum á því en þ.á.m. voru ostrur, kræklingur, túnfiskur, reyktur lax, alls konar fritto misto sem er djúpsteikt grænmeti eða fiskmeti svo voru þarna frittatas, mozzarella og pomodoro, snittur og margt margt fleira. Ítalirnir ruddust að borðinu og því miður fékk ég aðeins að smakka á helmingnum af góðgætinu því þeir kláruðu allt saman á 3-5 mínútum, ótrúlegt! En við þurftum nú ekki að örvænta því næst beið okkar sitjandi hádegisverður í ca.6 klukkutíma eða 6 réttir svo eftir það var boðið uppá 2 tegundir af tertu, brúðkaups-og skýrnarterta og svo eftir það var súkkulaðigosbrunnur með litlum smjördeigshjartalaga tertum og eftir það súkkulaði og koníak eða limoncello og vindlar til að toppa þetta allt saman. Vínið var ekki sparað allan tíman en það einhvern veginn þannig með Ítalina að þeir verða ekki drukknir þó svo að þeir séu að drekka í 6 klukkutíma. Það var náttúrulega borðað ótæpilega á þeim tíma sem auðvita skiptir máli. Ef þið einhvern tímann fáið tækifæri til að fara í Ítalskt brúðkaup mæli ég eindregið með því.
Hér læt ég fylgja með nokkrar myndir. Á myndunum má sjá pastavélina, þar sem pastað kemur út og er sett á viðargrindur, Viðargrindunum er svo staflað upp í litlu herbergi með gríðarstórri viftu þar sem það er þurrkað í ca.3 daga það fer þó eftir raka utandyra þar sem pínulítill gluggi er á þurrkherberginu og þetta fer allt saman eftir því hvort verkstjóranum þyki pastað vera tilbúið eða ekki. Þarna er einnig hægt að sjá tilbúið pasta í heljarinnar stórum pokum sem eru fluttir út á land á hina ýmsa veitingastaði og sérverslanir.