Thursday, September 24, 2009

Gulrótarkaka




Þetta er án efa besta gulrótarkaka sem ég hef smakkað, hún er svo safarík og mjúk og yndisleg eitthvað, enda er hún frá mömmu sem er að sjálfsögðu besti kokkur í heimi.
Ég helmingaði þessa uppskrift í þetta skiptið og setti í lítið hringform og svo afganginn í muffins form og það kom bara rosalega vel út.
Ég er þessa dagana meira fyrir að baka en að elda mat þannig að ég hendi í köku og eiginmaðurinn sér okkur fyrir næringu á kvöldin og er bara búinn að standa sig með prýði.
En hér er uppskriftin af bestu gulrótarköku í heimi

Gulrótarkaka

400 ml hveiti
2 tsk lyftiduft
1,5 tsk matarsódi
1,5 tsk salt
2.5 tsk kanill
400 ml sykur
300 ml matarolía
4 egg
600 ml rifnar gulrætur(ég ríf þær gróft)
1 stór appelsína skorin í litla bita
100 ml saxaðar valhnetur
200 ml kókosmjöl

Aðferð:
1. Hitið ofninn í 180°C. Smyrjið eitt hringsmelluform, gott að setja smjörpappír í botninn.
2. Hrærið saman sykri,eggjum,hveiti,lyftidufti,matarsóda,salti,kanil og matarolíu
3. Bætið svo við gulrótum,appelsínu,valhnetum og kókosmjöli
4. Hellið í formið og bakið í 1.5 klst. Látið kólna alveg áður en kremið er sett á.

Krem
100 ml smjör, mjúkt og við stofuhita (um 90 gr)
200 ml rjómaostur( um 190 gr)
4-5 msk flórsykur
smá vanilludropar

Aðferð:
1. Hrærið saman smjöri,rjómaosti,flórsykri og vanillu og smyrjið á kökuna.
Best finnst mér að hræra þetta með handþeytara og hræra fyrst smjörið til að ná kekkjum úr og bæta svo rjómaosti og síðast flórsykri og vanillu.
Aths. ef þið viljið hafa þetta í muffins formi þá er best að hafa það í sílíkonformum en þá karamellast kökurnar yst og verða mjög mjúkar og safaríkar. Ég hef ekki prófað í bréfformum þar sem mér finnast þau vera of lítil en núna síðast notaði ég álform úr IKEA sem virkuðu mjög vel en mér fannst kökurnar þurrkast örlítið að utan við það, sem kemur svo sem ekki að sök en bestar koma þær úr sílíkonformum. Tíminn sem kökurnar eru inni þegar þær eru í muffins formi er mjög stuttur og fer eftir formunum og myndi ég tékka á þeim eftir 10 mín með því að stinga prjóni í þær og fikra mig svo áfram eftir það. Ég hafði þessar í 15 mínútur og þær í sílíkonforminu(þau form eru minni) voru þær í 10 mínútur.

Aths.
Það hefur gerst núna nokkrum sinnum hjá mér að kremið skilur sig og hef ég reddað kökunni með því að smyrja skilda kreminu(bragðið er eins nefnilega)skera súkkulaði með ostaskerara yfir kökuna og setja kókosflögur á hliðarnar.

Thursday, September 10, 2009

Bláberjapæ



Ég eignaðist lítinn dreng í fyrradag hraustan og fallegan. Þar sem það er nú yfirstaðið get ég loksins farið að gera meira í eldhúsinu.
Nú eru allir í berjamó eða nýbúnir að fara í berjamó og eiga líklegast fulla ísskápa og frysta af bláberjum. Ég persónulega er algjör bláberjastelpa og fæ ekki nóg af þeim í hvernig formi sem þau birtast mér. Mig hefur þó lengi dreymt um bláberjapæ þar sem ég er líka algjör pæjustelpa, ég bara elska þessa hörðu, flögulaga en samt örlítið mjúku áferð deigsins og hið hálfsæta bragð þess sem er svo bætt upp með sætri og unaðslega mjúkri fyllingu og ekki skemmir fyrir að hafa ís með svona til að toppa unaðinn.
Ég henti í deig fyrir þónokkru og átti ansi mikinn afgang og ákvað að prófa að setja það í frysti og þar hefur það legið síðan og beðið eftir að vera bakað. Mamma kom svo með bláber handa mér daginn áður en ég átti en þá hafði ég einnig tekið út úr frystinum einn part af deiginu. Í gær voru svo hvoru tveggja á síðasta snúning og hvað var annað hægt að gera en að henda í eins og eina pæju? Ég bara gat ekki horft upp á þetta eyðileggjast í ísskápnum. Ég ákvað þó að þessi yrði prufukaka og ég reyndi að láta mér standa á sama um útkomuna en eins og vanalega þá var það ómögulegt og gat ég ekki staðist freistinguna og smakkaði í gær og var hún hreint unaðsleg og eiginlega enn betri því hún var svo einföld. Meira að segja eiginmaðurinn sem er enginn berjakall fannst hún mjög góð. þetta verður því syndin mín næstu daga, tja kannski maður bjóði einhverjum gestum uppá smá flís, það er aldrei að vita.
En með tilbúna deiginu tók þetta u.þ.b. 5 mínútur að henda saman og svo 40-45 mínútur í ofninum. Enda ekki annað hægt þar sem maður er varla genginn saman eftir barnsburðinn.

Bláberjapæ
1 hringlaga smelluform(úr IKEA)
500 gr smjördeig(hægt að nota tilbúið annars fylgir uppskrift hér að neðan)
600 gr(má vera rúmlega)Fersk bláber
150-200 ml sykur(má sleppa eða minnka ef þið viljið ekki mjög sæta pæju)
6 grahams hafrakex, mulin, ekki of fínt

Aðferð:
1. Fletjið deigið út þannig að þykktin sé tæplega sentimeter að þykkt, notið hveiti til að hjálpa til, þannig að það festist ekki við borðið og snúið deiginu oft við.
2. Smyrjið formið með smjöri og dreifið hveiti í þannig að hylji vel og dustið svo aukahveiti úr forminu. Hitið ofninn í 200°C.
3. Fellið deigið í formið, lagið göt ef einhver myndast. Dreifið kexmylsnunni í botninn og hellið svo bláberjunum yfir og síðast er sykrinum stráð yfir og blandað berjunum, svo er deigið sem liggur fyrir ofan berin fellt yfir þau og smurt með blöndu af eggi og vatni.
4. Bakað við 200°C í 40-45 mínútur, gott er að setja álpappír yfir eftir 25 mínútur og taka hann svo af þegar 5 mínútur eru eftir af bökunartíma.

Smjördeig eða mördeig(á dönsku)
Þessi uppskrift er í stærra lagi og gæti dugað í fleiri en eina pæju
250 gr flórsykur (1)
330 gr smjör(1)
660 gr hveiti(2)
3 egg(3)

Aðferð:
1. Hrærið öllu saman í hrærivél í númeraröðinni og passið að það verði ekki of heitt og takið svo úr hrærivélinni og hnoðið í höndunum til að koma því saman. Pakkið í plastfilmu og kælið í a.m.k.30 mínútur áður en það er rúllað út.

Ég persónulega bjó til miklu meira deig og mæli með því, því er svo skipt niður í 500 gr hvert og fryst, þá á maður alltaf til pæjudeig í frystinum, sem er afþýtt á einum degi inni í ísskáp.
Uppskriftin sem ég gerði er í þessum stærðum:

750 gr flórsykur
1000 gr smjör
2000 gr hveiti
10 egg
Sama aðferð og hér fyrir ofan.

Tuesday, September 1, 2009

Mjúkar súkkulaðibita-haframjölsklattar


Okkur er boðið í mat í kvöld þannig að ekkert verður úr súpunni en ég ákvað að baka klatta.
Þeir eru himneskir og alls ekki svo dýrir, ég átti mest allt af hráefninu fyrir þannig að ég býst við að í flestum eldhúsum sé það sama til staðar.
En án efa þeir bestu sem ég hef smakkað í laaaangan tíma. Það hafa nokkrir komið með athugasemdir í sambandi við kanilinn og negulinn og ég ráðlegg því þeim sem eru ekki miklir aðdáendur þessara krydda að sleppa þeim, það gerir ekkert til. Ef þið viljið minna súkkulaðibragð er líka mjög gott að nota vanillubúðing í staðinn fyrir súkkulaðibúðing. Þessar kökur dreifa ekkert úr sér í ofninum því er best að forma þær eins og þið viljið hafa þær áður en þær eru settar í ofninn, hvort sem þið viljið hafa þær stórar og þykkar eða stórar og þunnar. Ef þið hafið þær þykkar þá er best að lengja tímann um 2 mínútur þ.e. 12 mínútur en 10 ef þær eru þunnar.

16 klattar

200 ml smjör
150 ml sykur
150 ml púðursykur
2 egg
100 gr súkkulaðibúðingur, Royal
1 msk vanilludropar
1 tsk matarsódi
1 tsk vatn
örlítill kanill
örlítill negull
200 ml haframjöl
450 ml hveiti
250 gr súkkulaðidropar
50 ml valhnetur, saxaðar

Aðferð:
1. Hitið ofninn í 190°C
2. Pískið smjörið þar til það er létt, bætið þá báðum tegundunum af sykrinum saman við þar til það er létt og ljóst, Bætið þá eggjunum saman við einu í einu og hrærið vel á milli.
3.Bætið þá búðingnum, vanilludropunum, matarsódanum, vatni og kryddinu saman við. Hrærið vel.
4. Bætið þá haframjölinu saman við og síðast hveitinu.
5.Blandið þá súkkulaðidropunum og valhnetunum saman við með sleif.
6.Setjið eins og 3 msk í eina köku og látið hana vera örlítið þykka og hafið eins og 5 sm á milli hverrar köku. Bakið í 11 mín. Eða þar til þær virðast þurrar að ofan, örlítið brotnar og mjúkar viðkomu. Takið út og kælið. Passið að ofbaka ekki.