Thursday, May 28, 2009

Grillaður kjúklingur með indverskri kryddblöndu

Ég hef mikið lesið af amerískum matartímaritum og þar hefur hefur mikið verið talað um ,,spice rub" sem er blanda af kryddum og engu öðru, ég hef oft velt því fyrir mér hvort það gæti verið of þurrt en kryddblöndurnar eru alltaf svo girnilegar að ég hef ekki getið hætt að hugsa um þetta fyrirbæri.
Ég ákvað því í kvöld að láta verða af þessu og bjó til mína eigin blöndu og ég varð svo sannarlega ekki svikin! Ég geri þetta aftur það er á hreinu. Ég hafði kjúklinginn í þetta skiptið á beinunum á grillbakka í ca 40 mínútur á grillinu við meðal hita og svo síðustu 10 mínúturnar setti ég hann á húðhliðina til að fá hann örlítið brenndan, eins og grillmatur á að vera.
Kjúklingurinn er skorinn eftir endilöngu á undirhliðinni og svo þvingaður út þannig að hann sé tiltölulega flatur.

Grillaður kjúklingur nuddaður með indverskri kryddblöndu
F/4-5
1 kjúklingur
1 msk sinnepsfræ(ég notaði dökk þar sem ég átti þau til)
1/2 msk mulin kóríanderfræ(ég nota kaffikvörn)
1/2 msk múlin kardimomma
1/2 msk anísstjörnur(muldar)
salt og nýmulinn pipar(ég er nú svo heppin að luma á sýrlenskum pipar)
3 msk púðursykur

Aðferð:
1.Skerið kjúklinginn og hitið grillið
2.Setjið þurrkryddið á litla pönnu og hitið þar til það byrjar að lykta unaðslega
3.Blandið því svo saman við púðursykurinn og nuddið vel skinnið á kjúklingnum og saltið og piprið yfir hann allan.
4.Setjið hann með beinahliðina á grillbakkann og grillið við meðalhita í 40 mín(athugið kjúklinginn á 20 mín. fresti, grill eru mjög misheit og ef hann byrjar að brenna er um að gera að lækka hitann örlítið). Snúið kjúklingnum svo við síðustu 10 mínúturnar til að fá fallega rétt brennda húð á hann. Athugið hvort hann er tilbúinn með að stinga með beittum hníf í þykkasta hlutann(bringuna) og athugið hvort vökvinn sem kemur úr er á litinn, ef hann er glær er hann tilbúinn(allt sem hefur smá roða í vökvanum þýðir að hann er ekki tilbúinn).

Mjög gott er að bera fram með tatziki sósu eða hvers kyns jógúrtsósu og ofnbökuðum kartöflubátum krydduðum með hvítlauk og engifer, salti og pipar.

Wednesday, May 27, 2009

Gulrótarsúpa og steiktar strengjabaunir

Kannski soldið skrítin samsetning en hún virkaði fyrir okkur stúlkurnar. Ég gerði strengjabaunirnar oft á þennan hátt þegar ég var au pair á Ítalíu fyrir óhemju mörgum árum síðan og gríp í þetta ennþá svona endrum og sinnum, þetta er eins og snakk svo gott er það. Það er svo sem engin uppskrift heldur set ég fullt af extra virgin ólífuolíu í stóra pönnu og svo hendi ég baununum á(ég nota hér á Íslandi frosnar og þær virka bara ágætlega) og salta vel og svo bara steiki ég þær í hel, þar til þær eru vel brúnar og steiktar og þá ríf ég parmesan yfir og steiki hann aðeins með og smakka svo til með enn meira flögusalti, þetta er æði ég lofa!
Gulrótarsúpan er líka mjög góð ég nota lítinn grænmetiskraf en fæ mér frekar kraft úr alls konar grænmeti sem ég finn í skápnum hjá mér og bæti svo einhverju bragðsterku eins og chilli, engifer og hvítlauk og nota það sem kryddið. Þetta er mjög næringarríkt og fyllandi.

Gulrótarsúpa
f/4
1/4 chilli
1 tsk engifer
2 lítil hvítlauksrif
1 msk rauð paprika
1 msk græn paprika
2 skallottulaukar
1 lítil kartafla
4 stórar gulrætur + 1 til viðbótar skorin sem skraut ofan í súpuna seinna
100 ml gulrótardjús, má vera hvað sem er ég notaði heilsudjús sem er blandaður og það virkaði bara mjög vel
vatn
grænmetiskraftur ef vill
1/2 msk smjör(ég notaði smjörva sem var í góðu lagi)

Aðferð:
1. Skerið allt grænmetið(skiptir ekki máli hvernig, það verður annað hvort hakkað eða sigtað frá)
2. Skerið gulræturnar fjórar frekar þunnt, til þess að þurfa ekki að sjóða súpuna mjög lengi, þar sem þynnri bitar eru tilbúnir fyrr heldur en þykkir bitar
3. Setjið smjörið í pott yfir meðal hita og hitið smjörið þar til það fer að freyða, bætið þá öllu grænmeti saman við fyrir utan gulræturnar. Létt steikið í ca 4 mínútur bætið þá gulrótunum saman við og léttsteikið áfram í 4 mínútur.
4. Hellið þá vatninu og djúsnum saman við þannig að fljóti yfir allt grænmetið og 2 cm til.
5. Sjóðið vel yfir meðal hita í ca 20-25 mínútur eða þar til gulræturnar eru meyrar, nú getið þið gert tvennt annað hvort hakkað þetta með töfrasprota og þá fáið þið kremaða mauksúpu eða þá sigtað súpuna og þá eruð þið með þunna grænmetissúpu, mér finnst hvoru tveggja alveg jafn gott, það fer eftir smekk hvers og eins.
6. Þegar búið er að hakka/sigta súpuna er hún bragðbætt með krafti/salti/pipar/djús eftir hvaða bragði þið leytið eftir, ég persónulega bragðbætti með þessu öllu saman. Þá er síðasta gulrótin sneidd mjög þunnt og sett útí og þetta látið sjóða þar til þær eru næstum meyrar en aðeins stökkar undir tönn.
7. Ég hafði þetta sem mauksúpu í þetta skiptið og bar fram með sýrðum rjóma og það var mjög gott og flott

Monday, May 25, 2009

Matseðill fyrir vikuna 25.05-31.05

Það verður sparað þessa vikuna en þó er ég í svo miklu stuði eitthvað að ég verð að improvisera rosalega þessa vikuna! Það verður eitthvað tekið úr frystinum og þess háttar en í kvöld verður spennandi að sjá hvort það heppnast sem ég ætla að búa til, hmmm....

Mánudagur
afgangar af grillspjótum sett í pomodorospaghetti sósu með spaghettíi

Þriðjudagur
lasagna tekið úr frystinum borið fram með salati og brauði

Miðvikudagur(heyrði af úrslitaleik í einhverju, verð því bara að elda fyrir mig og litlu mýslu)
Gulrótarsúpa með brauði og steiktar strengjabaunir, við þurfum ekki meira stúlkurnar enda er þetta hvoru tveggja uppáhaldið okkar

Fimmtudagur
steiktur eða grilluð bleikja( ef ég næ mér í góða í fiskbúðinni) með steiktum ananas og austurlenskri sósu

Föstudagur
kjúklingurinn verður líklegast tekinn úr frystinum og ætla ég að hafa hann nokkurs konar grillaðan Diavolo kjúkling borið fram með bökuðum kartöflum

Laugardagur
hér er nú venjulega allt óvíst en best að gera ráð fyrir einhverju sem hægt er að frysta ef manni væri boðið í mat eða eitthvað kæmi uppá þannig að ég ætla að hafa afganga af kjúklingnum með afganga af kartöflusalati, það gæti líka verið að ég kíki aftur í Kolaportið og kaupi einhver spennandi egg eins og Langvíu og hafi með einhverjum fisk. Eins og ég segi allt kemur til greina!!

Sunnudagur
eigum við ekki bara að segja PIZZA og í þetta skiptið ætla ég að grilla hana/þær mmm nammi namm...

Marinerað lamb og svín á teinum

Já við ákváðum að vígja nýja grillið okkar á laugardaginn og ákváðum við að gera grillspjót eins og Ítalirnir gera, ekki bara ein tegund af kjöti á hverjum teini, það gefur mjög sérstakt og gott bragð og þá er gott að hafa saman eitthvað feitt kjöt og svo magurt þannig fær maður safaríkt og gott kjöt á alla vegu. Ég fór líka niður í Kolaport og fékk nýuppteknar paprikur og agúrku og notaði paprikurnar í teinana, þær voru hreint unaðslegar, ég tók líka úr frystinum hörpudisk sem ég hafði lumað á í nokkurn tíma og úr varð heljarinnar veisla. Marineringin var líka algjört dúndur en mjög einföld og búin til úr því sem ég á alltaf í skápunum hjá mér.
Þessi vika hins vegar verður sparnaðarvika enda síðasta vika mánaðarins og þá er ekkert múður og naglasúpan verður að aðalmáltíð en maður verður nú að reyna að hafa hana kannski smá áhugaverða.

Spjót:
lambainnralæri
paprika(græn og rauð)
rauðlaukur
sveppir
svínarifjur(gott að fá fituna þaðan til að hafa þetta aðeins safaríkara, spjót geta oft þornað um of)

hörpudiskspjót:
hörpudiskur
lime(límóna)
tómatar
paprika(helst rauð)

Marinering fyrir kjötið:
f/2 innralæri(1 pakka)og ca 4-5 rifjur(1 pakka)
4-5 manns

3 msk balsamic edik
3 msk sojasósa
3 msk maple sýróp
1,5 msk púðursykur
2 tsk Dijon sinnep
50-100 ml olía(má vera hvaða sem er til á heimilinu)
salt og pipar(nýmalaður)

Aðferð:
1. allt fyrir utan olíuna sett í djúpa skál helst skál sem fylgir töfrasprotanum og þeytið með töfrasprotanum þar til vel blandað og hellið þá olíunni í mjórri bunu saman við þar til blandan þykknar.
2. Skerið kjötið í bita(ca 2x2 cm bita) og leggjið í marineringuna eins lengi og þið getið eða viljið. Ég hafði það í í ca 2 klst, og það kom mjög vel út.

Fyrir hörpudiskinn þá þræddi ég sitt á hvað á teina, hörpu-tómat-hörpu-papriku-hörpu og endaði á einum lime bát og setti í eldfast mót og dreypti smá sérrí yfir ásamt olíu til að það festist ekki eins við grillið. Ég hellti líka olíu á allt grænmetið áður en ég grillaði það.
Þetta varð allt svo safaríkt að ég þurfti enga grillsósu með en ég hafði þó kartöflusalatið hennar mömmu með og það passaði mjög vel við grillmatinn.

Thursday, May 21, 2009

Sól og sumar

Það er búin að vera svo mikil veðurblíða síðustu daga þannig að eldhúsverkin hafa setið á hakanum þessa vikuna og svo hefur okkur líka verið boðið í mat, sem er jú alltaf ótrúlega skemmtilegt. Ég ætla á morgun að grilla kjúkling að ítölskum hætti, þeir nefnilega skera heilan kjúkling eftir endilöngum kjúklingnum að neðan og svo er hann flattur út og grillaður. Ég á eftir að ákveða með hverju ég ætla að nudda hann upp úr en það verður eitthvað ótrúlega girnilegt, ég er í mjög svo girnilegu stuði þessa dagana. Ég er að fara um helgina að ná mér í sumarblóm, eiginmaðurinn bjó til beð handa mér í garðinum sem við höfum til umráða og svo verð ég með einhverjar kryddjurtir í glugganum. Ég reyndi fyrir 8 árum síðan(já mjög langt síðan) að hafa kryddjurtir í glugganum en þær fylltust af lús og ég réð ekki við neitt og þurfti að henda á endanum, mjög svo endasleppt það. En ég á vin sem hefur eina mest grænu fingur sem ég hef séð í langan tíma og hann sagði mér frá sérstöku eitri sem hægt væri að kaupa í dag í búðum og þess vegna hef ég ákveðið að prófa aftur. Nú er bara spurning um hvar ódýrustu blómapottana sé að finna.....
Til Hveragerðis fer ég með móður minni og sýstur til að kaupa sumarblómin og kryddjurtirnar, ég man eftir því að hafa farið með mömmu fyrir einhverjum árum að kaupa það sama og þeir voru með mjög áhugaverðar kryddjurtir þar, ekki bara það venjulega og ég vona að þeir séu með eitthvað spennandi í ár.
Ég mæli einnig með nýjum hóp á Fésbókinni(það kom einnig grein um það í Fréttablaðinu í dag) Kaupa beint frá býli. Þetta er hin mesta snilld! Ég hef nú lengi vitað til þess að frændfólk mitt sem eiga bústað rétt hjá Flúðum og hafa þau keypt beint frá gróðurhúsi þar rétt hjá og það jafnast ekkert á við þetta, hreint unaðslegt á bragðið, svo ferskt og gott, og mun bragðmeira en það sem maður hefur fengið í stórmörkuðunum hingað til.
En sem sagt fer lítið fyrir matseðli þessa vikuna en ég mun vonandi setja inn uppskriftina af grilluðum kjúkling á morgun.

Friday, May 15, 2009

Kjúklingamistök og skinkurúllur

já kokkum tekst það líka, eða þannig. Ég fann uppskrift sem mér leist svo vel á, hún átti að vera frá Chile og í huganum var það voða sumarlegt og ég þuldi upp fyrir eiginmanninn hvað hann átti að gera, ég reyndar viðurkenni að ég átti ekki alveg allt í uppskriftina en hvað um það, og útkoman var bara la la þannig að hún mun ekki rata hingað inn. Ég hef þó ekki sagt skilið við uppskriftir frá Suður-Ameríku með þessu, ég hef aldrei komið þangað en hef heyrt að þar sé góðan mat að fá, þannig að ætli maður prófi ekki eitthvað annað í næstu viku frá Chile eða öðru landi þarna frá þessu gríðarflæmi.
Mig langaði samt til að segja ykkur frá snilldarhugmynd eiginmannsins. Með kartöflusalatinu sem ég vildi bara hafa eitt og sér eins og hjá mömmu(að viðbættum túnfisknum) þá tók hann á það ráð að leggja nokkrar ostsneiðar á skinkusneið og svo dósaaspas þar ofan á og rúlla svo upp og þar voru komnar dýrindis skinku-og aspasrúllur með kartöflusalatinu! Þetta var æðislegt! Mjög einfalt og sumarlegt.

Wednesday, May 13, 2009

Misomarinering með sojasósu og sesamolíu

Ég prófaði þessa marineringu í fyrsta skipti í gær og kom hún mjög vel út. Ég var reyndar eitthvað gráðug og tvöfaldaði uppskriftina sem var algjör óþarfi þar sem marineringin er mjög bragðmikil, hún virðist vera fremur fátækleg við fyrstu sýn en örvæntið eigi því hún kemur á óvart(skemmtilega).

Misomarinering með sojasósu og sesamolíu
f/4(miðað við 200 gr af kjöti á mann, ath. ef kjötið er með mikilli fitu eða beini er best að miða við 250 gr á mann)
800 gr kjöt, ég notaði lambaprime en hægt er að notast við hvaða kjöt sem er
2 msk rautt miso
1 tsk sojasósa
1/2 tsk sesamolía
1 1/2 msk mirin, japanskt

Aðferð:
1. Mjög einfalt, hrærið öllu saman og makið yfir kjötið og látið liggja eins lengi og þið viljið/getið.
Ath. bæði miso og mirin brennur auðveldlega en kosturinn er að það bragðast bara betur aðeins brennt, á ekki líka grillmatur að brenna aðeins???

Miðjarðarhafssósa

Þessa sósu er hægt að nota með hverju sem er, ég hef mest notað hana sem ídýfu fyrir crudité(hrátt grænmeti)og hef haft í veislum sem og heima fyrir, ég hef einnig notað hana jafn mikið sem grillsósu með kjöti en hana er einnig hægt að nota með pastasalati, fiski og öllu kjöti sem auka sósa, ég get lofað ykkur að hún slær alltaf í gegn! Ég var meira að segja farin að selja hana úti á Ítalíu! Ég fékk hana fyrst úr bók Isabelle Allende,Afródítu en hef breytt henni aðeins eftir mínum smekk.

Miðjarðarhafsósa
f/5
1 lítil dolla majónes
1 lítil dolla sýrður rjómi(10%), hef einnig notað gríska jógúrt ef þið búið erlendis
salt og pipar
1 tómatur, fræhreinsaður, innihaldi hent og laufin söxuð
2-3 msk saxaðar ólífur(smakkið til-fyrst með 2 msk og bætið svo meira við ef ykkur þykir þörf á)
1/2 hvítlauksrif, kramið
1 msk balsamik edik
1/2 skallottulaukur, rifinn með fínu rifjárni eða saxaður mjög fínt
1 kúfuð msk af rifsberjahlaupi

Aðferð:
1. Pískið saman majónesi og sýrðum rjóma, saltið og piprið að smekk
2. Bætið ediki, lauk og hvítlauk saman við
3. Saxið ólífur og tómata og bætið saman við
4. Bætið síðast við rifsberjahlaupinu og best væri að gera það ca. klukkutíma áður en hún er borðuð ef það er hægt annars hef ég líka sleppt því ef ég er í tímaþröng og hún er samt góð.

Matseðill fyrir vikuna 10.05-16.05

Enn lætur sumarið ekkert á sér kræla og sumarstemningin á enn erfitt uppdráttar en þetta hlýtur að fara að koma. Ég er reyndar komin í smá grillfíling og langar að prófa eitthvað nýtt, sem ég og gerði í gær fyrir Eurovision grillpartýið sem ég fór í og heppnaðist bara ágætlega. Ég ætla líka að prófa nýjan kjúkling á morgun og hef því tekið úr frystinum. Á mánudaginn tók eiginmaðurinn yfir eldhúsið og bjó til dýrindis skyndibitasamlokur sem voru með majó, dijon sinnepi, aspas úr dós(sem reyndist merkilega dýr), osti og steiktri skinku(steikt saman þannig að osturinn bráðni), salati, tómötum og ef ég man rétt þá held ég að hann hafi troðið beikoni þarna inní líka, dúndur góð samloka! Í gær var ég í vinnunni allan daginn og kom þreytt heim og langaði því að gera eitthvað auðvelt og einfalt þannig að fyrir valinu varð misomarinerað lambakjöt(uppskrift fylgir) með kartöflusalati(uppskrift er þegar komin inn á síðuna) og Miðjarðarhafssósunni minni. Ég hef reyndar gert Miðjarðarhafssósuna í mörg ár og býst við að flestir sem hafa verið með mér í grillveislu hafi smakkað á henni og lumi á uppskriftinni einhvers staðar en fyrir hina þá læt ég hana einnig fylgja hér á eftir. Ég fékk þessa uppskrift úr frábærri bók eftir uppáhaldshöfundinn minn hana Isabelle Allende og heitir bókin Afródíta, ég hef reyndar breytt aðeins uppskriftinni eftir mínu höfði og eftir staðarháttum. Hver ein og einasta uppskrift sem ég hef gert upp úr þeirri bók hefur slegið í gegn, reyndar er ansi langt síðan ég gerði upp úr henni síðast en þegar ég hugsa um það þá er bara ansi langt síðan ég hef gert nokkuð eftir uppskrift, nema þá kökur, ég ætti kannski að fara að bæta einhverju í safnið.
Síðustu árin hef ég beðið spennt eftir aspastímabilinu sem er einmitt núna þessa dagana og hef alltaf kokkað mikið með aspasinn enda verið búsett erlendis en nú er tíðin önnur jeminn eini ég fór í lágvöruverslanirnar okkar hér og fékk vægt sjokk! Meira að segja dósaaspas er fokdýr! 300 kr, dósin og ég er nú ekki að fara að nota einungis eina í súpu handa okkur! Þannig að þetta árið verður lítið um eldamennsku úr aspas og græt ég það sárt enda aspas svo undursamlega góður. Ég á reyndar eftir að athuga hversu dýr ferskur aspas er en ég er ekki vongóð, varla getur hann verið ódýrari en dósaaspas.

Matseðill fyrir vikuna 10.05-16.05

Mánudagur
dýrindis samloka eiginmannsins

Þriðjudagur
grill-Misomarinerað lambaprime(á tilboði í Krónunni) með Miðjarðarhafssósu og kartöflusalati

Miðvikudagur
Afgangar af kartöflusalatinu bæti það með túnfisk til að hafa það matarmeira, þetta er það sem ég er alin upp við og finnst bara fínt að hafa bara þetta en eiginmaðurinn er ekki alveg sáttur við að hafa ekkert með... kannski maður finni þá eitthvað til að hafa með

Fimmtudagur
Kjúklingur í sósu frá Chile með hrísgrjónum, ætti að hafa linsur með en sleppi þeim þar sem eiginmaðurinn er ekki mikill aðdáandi þeirra

Föstudagur
Nú langar mig í súpu, þarf að skipta mygluðum gulrótum aftur í Bónus og kaupi þá kannski nýjar og bý til gulrótarsúpu, eða jafnvel enn betra lauksúpuna hennar mömmu(klikkar aldrei). Hefði viljað hafa þetta aspassúpu svona í tileftni tímabilsins, aldrei að vita nema maður lendi á ódýrum aspas einhvers staðar...

Laugardagur
nú er það Eurovision!!!! Býst ekki við neinum gloríum í eldhúsinu þennan daginn, látum það ráðast

Sunnudagur
pizzadagur, mig er farið að langa í Pizzu með steiktu eggaldini og parmesan eða Pizza Parmigiana

Thursday, May 7, 2009

Steikt ýsa með strengjabaunum bragðbættum með chilli og engifer og kotasælusósa með ólífum og graslauk

Þessi réttur sló alveg í gegn hér á heimilinu, dóttirin var engan veginn að trúa því að fiskurinn væri góður en mér tókst að vinna hana á mitt band með kotasælusósunni sem innihélt uppáhaldið hennar ólífur og graslaukinn úr garðinum(sem hún stelst í annað slagið). Strengjabaunirnar eru líka í miklu uppáhaldi á þessu heimili. Í þetta skiptið ákvað ég að nota frosnar baunir þar sem hinar eru rándýrar en að sjálfsögðu bragðmeiri, ég náði þó nokkru bragði í frosnu baunirnar með chilli og engifer og svo finnst mér þær extra góðar ef ég steiki þær mjög mikið, þannig að þær litist örlítið og salta vel með flögusalti, mmm algjört dúndur. Ýsunni er einfaldlega velt létt upp úr hveiti og steikt í örlitlu smjöri og olíu(það má sleppa smjörinu ef þið eruð að passa línurnar).

Steiktar strengjabaunir með chilli og engifer
f/4
1/4 af pokanum af frosnum baunum eða 2 litlir pakkar af ferskum
1/2 chillialdin, saxaður
1 msk engifer, saxað
1 hvítlauksrif, kramið eða saxað
olía til steikingar

Aðferð:
Hitið pönnuna vel og saxið chilli-ið og engiferið. Steikið baunirnar þar til þær mýkjast bætið þá afganginum saman við og steikið á meðalháum hita þar til þær rétt brúnast og saltið þá vel og piprið.

Kotasælusósa með ólífum og graslauk
f/4
2 dollur af kotasælu
4 msk ólífur, saxaðar
3 msk graslauk, saxaður

Aðferð:
1. Saxið ólífurnar og graslaukinn og blandið saman við kotasæluna, saltið og piprið að smekk

Gæti ekki verið einfaldara, enda tók það mig 20 mínútur að gera kvöldmatinn þetta kvöldið.

Matseðill fyrir vikuna 4.05.-10.05.

Ég hef nýtt mér þessa vikuna dálítið af því sem ég átti í ísskápnum og í skápunum hjá mér en mig grunar að það eigi eftir að duga skammt, sjáum til.

Mánudagur
Fljótlegar kjötbollur

Þriðjudagur
Pizza (letidagur) heimatilbúin að sjálfsögðu

Miðvikudagur
Steikt ýsa með steiktum strengjabaunum bragðbættum með chilli og engifer borið fram með kotasælusósu með ólífum og graslauk og ofnsteiktum kartöflum

Fimmtudagur
Marbella kjúklingur

Föstudagur
afmæli, býst við að fá að borða þar

Laugardagur
matarboð

Sunnudagur
Býst við þynnku hjá eiginmanninum, kannski maður hafi bara steiktar samlokur

Monday, May 4, 2009

Fáránlega fljótlegar kjötbollur í brúnni sósu

Ég var alveg sérstaklega löt í kvöld og þurfti að draga sjálfa mig inn í eldhúsið en ég varð að nota afgangana af hamborgarakjöthakkinu frá því í gær þannig að það var að duga eða drepast. Ég ákvað að gera kjötbollur úr hakkinu sem var búið að blanda með gráðosti, léttsteiktu beikoni, smá sinnepi, eggi, hveiti, salti og pipar og bjó til brúna sósu með sem tók nákvæmlega 15 mínútur að búa til frá grunni. Ég nennti ekki að bíða eftir kartöflum þannig að ég henti frönskum í ofninn og bar þetta svo fram með rabbarbarasultu, mér finnst það bara algerlega nauðsynlegt að hafa rabbarbarasultu með brúnni sósu.

Fljótlegar kjötbollur með brúnni sósu
f/4
4-500 gr kjöthakk
1/2 bakki gráðostur
1/2 pakki beikon
1 tsk sinnep
1 egg
2 msk hveiti
salt og pipar

sósa:
1/2 laukur, saxaður gróft
300 ml vatn
1 msk rjómi(má sleppa eða nota mjólk í staðinn)
1 msk kjúklingasoð(eða 1 nautakraftsteningur)
1 tsk tómatpúrra
1 grein timían(má sleppa)
1 tsk sulta(skiptir ekki máli hvernig en best er rifsberja)
1 msk balsamico edik
50 ml hvítvín eða rauðvín
smjörbolla eða maizena til að þykkja

Aðferð:
1. Hakkið og allt í það er hrært saman í skál.
2. laukurinn er saxaður
3. Smá olía er sett í pönnu og bollur myndaðar og settar á pönnuna ásamt lauknum. Þetta er steikt þar til bollurnar fá á sig fallega brúna steikarhúð. Oft er laukurinn fljótur að steikjast þá set ég hann yst á pönnuna til að hægja á steikingunni á honum. Þegar bollurnar eru fallega steiktar er edikinu og víninu hellt yfir og látið sjóða niður, þegar það hefur soðið niður um helming en ekki horfið(2-3 mín) er vatninu hellt yfir og restinni af hráefninu bætt saman við og látið sjóða í 10 mínútur.
4. Smakkið til með salti og pipar og jafnvel sojasósu ef vill og takið þá bollurnar upp úr sósunni(gangið úr skugga um að þær séu tilbúnar) og hellið sósunni í pott og þykkið annað hvort með smjörbollu eða maizena(einnig er hægt að þykkja með því að hrista saman hveiti og vatn en ég hef aldrei gert það, mamma og pabbi gerðu það alltaf hér í denn og það gekk alltaf upp þá)
5. Þegar sósan hefur náð réttri þykkt er rjómanum bætt saman við ef hann er notaður og bollunum er bætt út í sósuna og borið fram með frönskum og sultu en best væri að hafa kartöflumús ef maður hefur tíma.

Afganga Borwnies

Ég fékk að ræna þessum hamborgurum frá vinum mínum henni Sigrúnu og Árna og þeir voru æðislega góðir. Þá gerði ég venjulega hamborgara nema bætti 1 pakka af gráðosti á móti 1 kg af hakki saman við ásamt einum pakka af léttsteiktu beikoni. Slóu í gegn hjá fjölskyldunni!
Ég bauð þeim svo upp á afgangabrownies köku í eftirrétt með ís sem ég fann innst í frystinum og var búin að gleyma að ég ætti. Það getur verið hentugt að nota ekki allt súkkulaði sem maður kaupir í uppskriftir, eins og ég komst að í gær. Ég var orðin nokkuð örvæntingarfull eftir súkkulaðiköku og var að fá gesti í mat og sá mér þá leik á borði og ákvað að henda í eina gómsæta. Ég fann súkkulaðiafganga hér og þar í skápunum hjá mér og endaði með smá af Konsúm súkkulaði, smá af suðusúkkulaði og smá af 70% súkkulaði(ætlaði að nota líka hvíta súkkulaðið sem ég fann en þurfti ekki á því að halda) þess vegna kalla ég þessa "afganga brownies" kökuna mína.
Uppskriftin er svohljóðandi:

Afgangabrownies
f/2 hringlaga IKEA smelluform(eiga ekki allir svoleiðis?!)
250 gr smjör
224 gr súkkulaði, ca 50 gr suðu,60 gr 70%,114 gr Konsúm súkkulaði
200 ml sykur
1,5 tsk vanilludropar, eða 1 tsk vanilla extract(sterkara en droparnir)
5 stór egg
130 ml hveiti
70 ml ósætt kakóduft
1/2 tsk salt
Hálf dolla af súkkulaði frosting frá Betty Crocker og 2 msk hnetusmjör

Aðferð:
1. Hita ofninn í 175-180°C
2. Smyrjið formin og setjið bökunarpappír í botninn(einnig hægt að nota eitt 33 sm x 22,9 sm form)
3. Bræðið smjörið og súkkulaði saman, kælið svo niður þar til volgt. Pískið sykri og vanilludropum saman við og því næst eggjunum einu í einu og pískið vel á milli þar til silkimjúkt og fallegt.
4. Sigtið þá hveiti og kakó saman við ásamt salti og pískið þar til vel blandað saman.
5. Hellið í formin/ið og bakið í 25-27 mín. Ef þið notið tvö hringlaga form er best að tékka á kökunni eftir 20 mínútur því þá er hún þunn og bakast hraðar. Prjónn sem stungið er í miðju kökunnar á að koma út með rakri mylsnu fastri á þá er hún tilbúin.
Kælið örlítið og setjið svo á aðra þeirra fyrst hnetusmjörið og svo súkkulaðikremið ofan á það og svo á hina setjið aðeins súkkulaðikremið, þannig er eitthvað fyrir alla!
Enn betra væri að hafa hnetusmjör með heilum hnetum í en ég átti það ekki til í þetta skiptið.