Monday, November 29, 2010

Hollar kökur- námskeið í Maður lifandi

Sæl öllsömul
Ég mun vera með námskeið á fimmtudaginn milli klukkan 18-20 og mun ég taka hollar kökur fyrir. Gerð þeirra, hvernig er hægt að breyta óhollum kökum í hollar og tilganginn með þessu öllu saman.
Námskeiðið verður haldið í Maður lifandi í Borgartúni fimmtudaginn 02.12.2010 milli klukkan 18 og 20 og kostar 3900 kr.
Endilega kíkið á þetta mjög svo áhugaverða námskeið og bráðnauðsynlegt svona í jólaundirbúningnum.

Með kveðju
Sigurrós

Sunday, July 25, 2010

Hin fullkomna samloka




Þessi er fyrir þá sem eru til í sukk og svínarí par excelance. Ég fór algerlega í hið svokallaða óverkill svo ég leyfi mér að sletta aðeins. Ef ég hefði átt trufflur eða truffluolíu hefði ég legið í vímu í allt kvöld, þannig að þeir sem hafa efni á eða eiga inni í skáp endilega bæta því ofan á þessa.
Þessi samloka er engan veginn fyrir þá sem eru að hugsa um línurnar heldur fyrir þá sem vilja njóta þess sem þetta líf býður uppá, enda er ég að fara í einkaþjálfun eftir helgina og vildi aðeins smakka á síðasta smjörmatnum í dágóðan tíma. Ójá það er smjör í henni þessari,en þó ekki svo mikið að maður fái klígju heldur ákkúrat rétta magnið,oh það er svo gott...stundum....
Hér kemur hún, hin fullkomna samloka...fyrir þá sem þora!

Hin fullkomna samloka
f/2
4 brauðsneiðar,ég nota heimilisbrauð en auðvitað væri best að vera með glænýtt sveitabrauð,skorið í góðar sneiðar
250 gr sveppir
4 sneiðar beikon
1 skallottulaukur
1 hvítlauksrif
1 msk balsamik edik
2 skinkusneiðar
8 ostsneiðar
4 tómatsneiðar
Dijon sinnep
majónes
smjör og nóg af því
salt og nýmalaður pipar
2 tsk maple sýróp

Aðferð:
1.Skerið sveppina í sneiðar,saxið laukinn,skerið beikonið smátt,skerið tómatana í sneiðar og saxið hvítlaukinn.
2.Setjið góða matskeið af smjöri á pönnu yfir hæsta hita og þegar það fer að krauma er beikoninu bætt saman við og það steikt þar til það fer að brúnast aðeins. Bætið þá hvítlauk,skallottulauk og sveppum saman við og steikið þar til sveppirnir fara að brúnast vel,ca. 5 mín. Bætið þá balsamik edikinu útá pönnuna og látið það sjóða alveg niður og hrærið vel á meðan. Takið þá af hitanum og geymið.
3. Takið nú brauðsneiðarnar og smyrjið allar með dijon sinnepi(örþunnt þó) og svo með majónesi.Leggjið skinkusneiðarnar,ostinn og tómatana ofan á og lokið með brauðsneið.
4.Hitið 3 msk af smjöri á stórri pönnu sem hægt er að loka með loki(eða disk,eða hverju sem þið finnið í eldhúsinu,brauðbretti jafnvel),þegar það er bráðið er samlokan lögð á smjörið og látin drekka í sig smjör þeim megin og svo velt strax aftur á hina hliðina og þar er hún steikt við hæsta hita í 3 mínútur,þá er hitinn lækkaður í meðal háan hita og steikt áfram í 3 mínútur(passið að kíkja undir og athuga hvort hún sé nokkuð að brenna),þegar hún er tilbúin þeim megin er henni snúið við og hún er steikt áfram í 4-5 mínútur, allan tímann er lokið á pönnunni(til þess að osturinn bráðni).Þegar hún er alveg að verða tilbúin er einni tsk af maple sýrópi smurt á hvora samloku. Ef þið notið truffluolíu eða trufflur mæli ég með því að dreypa henni yfir sveppablönduna eða sneiða trufflurnar yfir samlokuna.ohh þvílíkur draumur það væri.
Berið fram samlokuna með steiktu sveppunum til hliðar, og njótið til fulls því maður leyfir sér ekki svona unað oft.

Thursday, April 22, 2010

Magnaðir hamborgarar!


Þar sem ég er í hollustunni alla daga var mig farið að langa verulega í grillaða hamborgara og svona til að friða samviskuna þá ákvað ég að fara með þetta alla leið og bakaði meira að segja brauðið líka! Útkoman var hreint út sagt mögnuð!! Ég reyndi að taka mynd af herlegheitunum en veit ekki alveg hvernig til tókst þar sem það var á símann minn, en vonandi kem ég henni hér inn.
En hér er uppskriftin og ég get alveg lofað ykkur að þessir slá í gegn og verða gerðir aftur í sólinni í sumar(er mjög bjartsýn á gott sumar að sjálfsögðu)

Gleðilegt sumar allir saman og endilega grillið þessa og hafið bjór við höndina, hann passar hrikalega vel við, þá sérstaklega einhver dökkur eða Kaldi.
Til þess að það sé auðveldara fyrir fólk að leita að þessu í framtíðinni þá ætla ég að setja þetta í nokkrar færslur hér inn,þá er hægt að googla þetta auðveldlega, sérstaklega ef þið viljið nota sósuna í eitthvað annað eins og ég ætla svo sannarlega að gera.

Magnaðir hamborgarar með heimatilbúnu brauði og heimatilbúinni BBQ sósu

Hamborgarabrauð
f/8
250 ml nýmjólk
200 ml rjómi
50 ml volgt vatn
7 gr þurrger
50 ml sykur
2 tsk salt
1 kg hveiti (afsakið, þetta kemur soldið seint þessi lagfæring;))

1 egg
2 tsk sesamfræ

Aðferð:
1. Sjóðið létt saman mjólkina og rjómann og kælið niður í 40-50°C(eða þegar putta er stungið í og ykkur þykir blandan aðeins heit)
2. Blandið saman þurrgeri og vatni og bíðið þar til það freyðir, þá getið þið notað hana. ef hún freyðir ekki er ráð að henda og búa til nýja blöndu.
3. Bætið volgri mjólkurblöndunni saman við ásamt sykri,hveiti og salti. Hrærið í hrærivél á lágum hitafyrst(með hnoðaranum)eða hnoðið með sleif, svo á aðeins hraðari og hnoðið í 6 mín.(ef þið gerið í höndunum þá þarf ekki endilega að hnoða í 6 mín.) eða þar til deigið er svolítið klístrað.
4. Færið yfir í skál sem hefur verið smurð með olíu og berið olíu yfir deigið. Setjið viskastykki yfir og látið hefast við stofuhita eða aðeins heitara í 2 tíma.
5.Hnoðið þá aðeins deigið og bætið hveiti saman við og fletjið út í 2 cm þykkan hring og skerið út 8 hringi, ef þið náið ekki alveg 8 hringjum(10 cm í þvermál) er í lagi að hnoða afgangana einu sinni til viðbótar og skera út rest.
6. Setjið á bökunarpappír og setjið olíusmurða plastfilmu yfir látið hefast í 1,5 tíma eða jafnvel 2 ef þið hafið tíma, við stofuhita eða inni í ofni, eins og ég geri. Þegar þau eru tilbúin eru þau smurð með þeyttu egginu og sesamfræjum stráð yfir og brauðin eru bökuð í forhituðum ofni við 190°C í 20-25 mín. Kælið. Svo eru þau skorin í tvennt og sárin smurð með olíu og grilluð í eina mínútu með sárið niður.
Þessi er svakaleg!! Ég mæli með henni á allt BBQ í framtíðinni sem þið munið nokkurn tíman gera, þessi er svona The Ultimate, ekki spurning!

Kaffikryddaðir hamborgarar

Þetta kom mér svo skemmtilega á óvart að ég bara varð að deila þessu með ykkur. Ég gerði rétt um daginn sem var með kakói í og það kom svo vel út að ég hugsaði að það hlyti að vera það sama með kaffið. Ég notaði koffínlaust þar sem ég get ekki drukkið koffín og það kom ekki að sök. Bragðið verður svo djúpt og mjúkt við kaffið og rífur svo smá í við cayennapiparinn. Hreint æðislegt!

Kaffikryddaðir hamborgarar
f/5

Kaffikryddblanda
1 msk kaffi
2 tsk púðursykur
2 tsk pipar
1/2 tsk kóríanderduft
1/2 tsk oreganóduft
1/2 tsk salt
cayennapipar á hnífsoddi

Öllu blandað saman og stráð yfir hamborgarana áður en þeir fara á grillið og svo einnig á meðan þeir eru á grillinu.

Hamborgarar
f/5
1 kg nautahakk, passið að það sé hreint hakk, ekki með kartöflusterkju og vatni
salt og pipar

10 beikonsneiðar
10 cheddarostsneiðar

Aðferð:
1. Hnoðið hakkinu saman í borgara sem eru um 200 gr hver, ég reyndar gerði fyrir mína fjölskyldu um 160 gr það var alveg nóg fyrir okkur en þetta er smekksatriði
2. Steikið beikonið, ég grilla það í ofni á bökunarpappír, þá er ekki eins mikil bræla sem kemur af því.
3. Grillið borgarana og passið að setja kryddblönduna á meðan og svo þegar þið snúið borgurunum á seinni hliðina þá setjið þið ostsneiðarnar yfir þannig að þær bráðni.
Grillið þá þar til þið sjáið blóð koma upp úr sprungum á seinni hliðinni, fyrir medium borgara.

Setjið saman:
Hafið tómatsneiðar,salat,beikon og sósu til taks fyrir fólk að setja borgarana saman sjáft eftir smekk.
Gott að bera fram með heimatilbúnum frönskum kartöflum.

Texas BBQ sósa

Texas BBQ sósa
f/8 hamborgara
1 msk smjör
1 hvítlauksrif,kramið
200 ml tómatsósa(ketchup)
70 ml púðursykur
70 ml Worcestershire sósa
50 ml sítrónusafi
1 chillialdin, ég setti bara smá með fræjum en þeir sem vilja hafa hana heita setja heilann
1/4 tsk cayennapipar

Aðferð:
1.Bræðið smjörið í meðalstórum potti við meðalhita,bætið hvítlauk saman við og hrærið í 30 sekúndur. Bætið tómatsósu saman við ásam restinni af hráefninu. Látið sjóða. Lækkið hitann í meðal-lágan og látið malla þar til sósan er þykk og bragðmikil eða kemst í 270 ml glas, ca 15 mín., hrærið af og til á meðan. Saltið og piprið. Kælið.
Athugið að hægt er að geyma sósuna í kæliskáp í lofttæmdum umbúðum í viku.

Tuesday, April 13, 2010

Bragðmildur karrý-kókosréttur tilvalinn fyrir krakkana

Ég gerði þennan rétt í kvöld og þegar ég var að elda hann þá grátbað dóttir mín mig um að hafa hann ekki bragðsterkan, svo að ég ákvað að verða við þeirri bón en hann var alveg svakalega góður og allir fengu sér aftur og aftur á diskinn. Málið var nú eins og venjulega hjá mér þessa dagana að það var ekkert til í ískápnum, eða svo fannst mér en fann þetta og hitt og þetta var útkoman. Maður lumar jú alltaf á einhverjum kryddum í skápunum hjá sér og nýtti ég mér það að þessu sinni.

Karrý-kókos grænmetisréttur
f/4
1 lítil sæt kartafla
7-8 litlar gulrætur
1 laukur
1 sellerístöngull
1/4 paprika,rauð
2 hvítlauksrif
1 cm engiferrót
1 cm chillialdin(það er greinilega mjög milt í búðunum núna og þetta var þar engin undantekning,ég smakka það alltaf áður en ég set það út í réttinn)
2 tsk karrý
1 tsk kóríander
1 tsk engifer
1 kjúklinga/grænmetiskraftur
1 dós niðursoðnir tómatar
1 dós kókosmjólk
olía til steikingar

Aðferð:
1. skerið laukinn í sneiðar,saxið selleríið,hvítlaukinn,engiferið og chillialdinið og steikið létt á pönnu í olíu. Bætið kryddunum saman við og brennið létt á pönnunni þar til ilmar vel.
2. skerið restina af grænmetinu í franskar og bætið saman við, steikið létt. Bætið þá tómötunum og kókosmjólkinni saman við þannig að rétt fljóti yfir, bætið kraftinum saman við. Setjið lok á pönnuna og sjóðið við meðal-lágan hita í 40 mínútur eða þar til grænmetið er meyrt. Saltið og piprið eftir smekk.
Berið fram með annað hvort linsubaunum eða hrísgrjónum. Einnig er hægt að bæta baununum saman við.

Sunday, March 21, 2010

Afsakið hlé

Nú hef ég vanrækt þessa síðu ansi lengi því miður en ég hef ágætis afsökun fyrir því get ég sagt ykkur.
Ég var að taka við yfirkokkastöðu á Maður Lifandi og er búin að eyða síðustu tveimur vikum í tilraunastarfsemi heima við fyrir þann stað og hef því ekki getað sett inn neinar uppskriftir fyrir ykkur.
Ég býst við því að næsta vika verði eins en eftir það vona ég að ég geti farið að setja hér inn eitthvað spennandi og ótrúlega gott.
Góðar stundir
Sigurrós

Friday, January 29, 2010

Súkkulaði-og ostaköku-brownies


Mig langaði til að gera brownies en hafa eitthvað öðruvísi og þá fann ég þessa hugmynd, ég reyndar breytti aðeins uppskriftinni eftir mínum smekk og hún er algjört dúndur, ég bara get ekki hætt að borða þetta, ætli þetta sé ávanabindandi, það er spurning.
Ef þið viljið bombu þá prófið þessa!

Súkkulaði og ostakökubrownies
gerir 16 kökur

Fyrir browniesdeigið

120 gr suðusúkkulaði
110 gr 70% súkkulaði, gróft saxað
3 msk smjör
1 tsk vanilludropar
300 ml sykur
195 ml hveiti
3 egg

Fyrir ostakökudeigið

230 gr rjómaostur,mjúkur
1/4 tsk vanilludropar
70 ml sykur
1 eggjarauða


Aðferð:
1. Hitið ofninn í 180°C og smyrjið 20 cm ferkantað form
2. Bræðið smjörið og suðusúkkulaðið saman í vatnsbaði, þegar það er bráðið er sykrinum, vanillunni og eggjunum hrært saman við, þá er hveitinu bætt saman við og síðast söxuðu 70% súkkulaðinu. Hellið mestu deiginu í formið og geymið eins og 2 msk.
3. Gerið ostakökudeigið: hrærið saman rjómaosti,vanilludropum,sykri og eggjarauðu með sleif og setjið stóra dropa af því jafnt yfir súkkulaðideigið. Setjið svo restina af súkkulaðideiginu í dropum yfir ostakökudeigið og farið svo yfir með beittum hníf þannig að þið búið til skraut úr deiginu. eins og í marmara
4. Bakið við 180°C í 25-35 mínútur, eða þar til jaðarnir á kökunni hafa lyfts og hún hefur rétt sest í miðjunni.

Wednesday, January 20, 2010

Kjúklingasalat með pasta,rucola,feta,ólífum og dressingu


Ég átti eina og hálfa kjúklingabringu eftir frá kvöldverðinum í gær og þurfti að nýta það án þess að búa til samlokur, þar sem ég er komin með nóg af þeim í bili. Þá ákvað ég að búa til salat og drygja það með alls konar gúmmulaði.
Salatið er mjög gómsætt og þeim sem þykir beikon gott ættu að bæta því við hér, ég átti það ekki til og það er mjög gott án þess líka.
Ég átti líka afgang af dressingunni sem ég gerði um daginn og passar hún sérstaklega vel við.

Kjúklingasalat með pasta,rucola,feta,ólífum og dressingu
f/4
1,5 kjúklingabringa
1 túnfiskdós,olíunni/vatninu hellt af
2 tómatar, skornir í sneiðar
1/2 krukka ólífur
1/2 krukka fetaostur
1/2 bakki af rucolasalati
200 gr pastaslaufur
1 poki pecanhnetur
1/2 tsk red pepper flakes
2-3 msk teryaki sósa
flögusalt
dressing

Aðferð:
1. Sjóðið pastað og kælið undir rennandi vatni, látið renna vel af
2. Takið fram stóra skál og setjið fetaostinn,ólífurnar,tómatana, salatið, niður brytjaðann kjúklinginn, pastaslaufunum og túnfiskinn.
3. ristið hneturnar með red pepperflakes og hellið svo teryakisósunni yfir og látið sjóða niður þar til hún er orðin þykk, tekur nokkrar sekúndur(passið að anda ekki að ykkur yfir pönnunni þegar piparflögurnar eru að steikjast þær erta soldið hálsinn). Kælið og dreifið yfir salatið.
4. Blandið salatinu saman og saltið með flögusalti og setjið um 3 msk af dressingunni og dreifið hnetunum yfir, svo er gott að bera fram aukadressingu með ef fólk vill hafa meiri dressingu ásamt flögusaltinu.

Dressing:
Dressing:
2 msk balsamico edik
4-5 msk ólífuolía
1 tsk sinnep
1 msk púðursykur

Aðferð:
1.Notið helst töfrasprota til þess að gera hana þykka, þá er olíunni hellt varlega saman við edikið og púðursykurinn og hrært í á meðan svo er sinnepinu bætt saman við.

Thursday, January 14, 2010

Saltfiskur miðjarðarhafsstyle

Ég henti í þennan í gær og hann var þvílíkt lostæti og alveg sérstaklega góð leið til að koma fisk ofan í ungviðið. Fullt af grænmeti og bragði. Tekur kannski smá tíma að skera allt niður og steikja en það er þess virði.

Saltfiskur miðjarðarhafsstyle
f/6
1200 gr saltfiskur, skorinn í stóra skammta/bita
2 dósir af tómötum í dós
1/2 græn paprika, skorin í litla ferninga
1/2 rauð paprika,skorin í litla ferninga
1 rauðlaukur, skorinn í sneiðar
1/2 laukur, skorinn í sneiðar
2 gulrætur, skornar í litla ferninga
1/2 sellerístilkur, saxaður mjög smátt
600 gr kartöflur, skornar í sneiðar ca.1 cm
3 msk balsamic edik
2 tsk sinnep
rifinn ostur
1 krukka svartar ólífur, teknar í tvennt
hveiti til að velta uppúr
3 hvítlauksrif
pipar

Aðferð:
1. Skerið fiskinn og grænmetið eins og sagt er á undan.
2. Hitið pönnu og veltið fisknum uppúr hveiti og dustið allt aukahveiti af og steikið uppúr smá olíu. Takið af pönnunni og setjið í eldfast mót, steikið þá grænmetið og í annarri pönnu kartöflurnar.
3. þegar grænmetið er léttsteikt er edikinu bætt útí og látið sjóða niður þá er tómötunum bætt saman við ásamt sinnepinu og pipar. Látið aðeins malla þar til kartöflurnar eru léttbrúnaðar að utan.
4. Þá eru kartöflunum dreift ofan á og í kringum fiskinn og svo er tómatsósunni bætt ofan á og svo ólífum og síðast rifnum osti dreift yfir og bakað í ofni við 200°C í 25 mínútur.
Berið fram með fersku salati

Matseðill fyrir vikuna 11.01-17.01

Smá breytingar á matseðli, ég fékk nefnilega óvæntan reikning inn um lúguna og þarf því að nýta allt sem til er í ísskápnum og fæ ekki að fara í búðina fyrr en í næstu viku. Þess vegna verður lítið um grænmeti og ávexti, því miður er þetta bara svo dýrt, ætli maður geti nú ekki endalaust kvartað undan því á þessu skeri, ætla nú samt að halda í vonina um að einhvern daginn muni þetta vera niðurgreitt af ríkinu fyrir neytandann, wishful thinking...
Ég fékk hamborgarahrygg í jólagjöf og vildi ekki láta hann skemmast þannig að ég sauð hann og skar svo í bæði álegg og líka til að hafa kalt með kartöflusalati og setti í skammta og inn í frysti, þannig að það verður nýtt.
Ég verð nú líka aðeins að kvarta undan íslensku skinkunni, ég skil ekki hvers vegna það er ekki hægt að gera þetta eins og Ítalirnir, ég meina svín eru svín ekki satt?
Hvers vegna erum við svona rosalega mötuð af skinkunni, við fáum ekki að ráða þykktinni, ekki stærðinni og ekki hversu mikið við kaupum af henni, af hverju þarf að ákveða þetta fyrir okkur?
En jæja matseðillinn er því á þessa leið

fimmtudagur
pastasalat með hamborgarahryggsskinku, fetaosti og einhverju gúmmulaði sem ég finn

Föstudagur
Við erum svo lukkuleg að vera boðin í mat þetta kvöld

Laugardagur
hamborgarahryggsskinka og kartöflusalat

Sunnudagur
Lasagna tekið úr frystinum er einmitt fyrir svona vikur!

Wednesday, January 13, 2010

ofnbakaður kjúklingur með sveppum,beikoni og kartöflum

Ég gerði þennan í miklum flýti og hann heppnaðist ljómandi vel, hentar þeim sem hafa lítinn tíma til að búa til matinn en hafa tíma til að láta hann malla sjálfan inni í ofni.

Kjúklingur með beikoni, sveppum og kartöflum
f/5
1 heill kjúklingur
4-500 gr kartöflur, skornar í fernt
1 rauðlaukur, skorinn í sneiðar
1/2 bakki sveppir, skornir gróft í fernt
3 msk fljótandi kjúklinga eða kalkúnakraftur(bouillon)
salt og pipar
2 tsk poultry seasoning
5 beikonsneiðar
smá vatn

Aðferð:
1. Setjið kraftinn og smá vatn í botninn á roastin pan eða ofnskúffu
2. Leggjið kjúklinginn ofan í og dreifið kartöflum,lauk og sveppum í kring, kryddið kjúklinginn með salti og pipar og poultry seasoning og leggjið síðast beikonsneiðarnar yfir og setjið inn í ofn við 180°C í klukkutíma.
Gott að bera fram með salati.

Monday, January 11, 2010

Matseðill fyrir vikuna 11.01-17.01

Síðasta vika fór nú eitthvað í rugl svona um kvöldmatartímann sem gerði það að verkum að helmingurinn af því sem ég hafði ákveðið að búa til var ekki búið til en þá var því sem átti að nota bara hent í frystinn og verður notað í þessari viku eða seinna, eins og gengur og gerist bara.
Vonandi verður þessi vika eins og hún er plönuð en mig langaði hins vegar að segja ykkur frá því að ég fór í búðina með innkaupalista fyrir þessa rétti sem ég hafði ákveðið og við fórum ekkert í búðina fyrir utan þetta eina skipti og ég get sagt ykkur það að útgjöld þeirrar viku lækkuðu um helming ef ekki meira!
Það verður eitthvað flakk á okkur áfram í þessari viku þannig að ég ætla að búa til matseðil sem auðvelt er að breyta ef eitthvað kemur uppá.
Ég gerði aftur á móti kjúkling á mánudaginn sem kom mjög vel út og alveg fáránlega fljótlegur. Ég nefnilega hafði engan tíma til að elda og eiginmaðurinn í gamlingjabolta og ég þurfti að vera að skutlast hingað og þangað þannig að þetta endaði svona en sem betur fer var þetta afar gómsætt.

Matseðill fyrir vikuna 11.01-17.01

Mánudagur
kjúklingur og kartöflur með lauk, beikoni og sveppum

Þriðjudagur
samlokur

Miðvikudagur
saltfiskur miðjarðarhafsstyle

Fimmtudagur
pastasalat, ætli það verði ekki bara rifið úr ísskápnum það sem til er!

Föstudagur
Ætla að reyna aftur við lambaskankana, sjáum hvort ekki verði af því þennan daginn

Laugardagur
ætla að hafa allt opið þennan daginn

Sunnudagur
er ekki best að hafa pizzudag?!

Tuesday, January 5, 2010

Matseðill f.05-01.2010 til 11.01.2010

Jæja þá hef ég sett saman fyrsta matseðil ársins þar sem maður þarf verulega á því að halda að halda aftur að sér peningalega séð eftir fyllerí jólanna. Þar sem ég er þess fullviss um að ég borði heilbrigðan mat þá ætla ég nú ekki að fara að fylla þessa síðu af endalausum salötum eftir jólahlaðborðið, onei, ég mun halda áfram að setja inn hollar og góðar uppskrftir það er jú ennþá fimbulkuldi úti svo að við þurfum á mat að halda, salötin mega bíða sumarsins. Ég er sumarmanneskja í flestu nema mat, þar finnst mér hreint unaðslegt að verma hjarta mitt og sál með heitri súpu eða hægelduðu lambi og held því áfram að gera eitthvað skemmtilegt í þeim efnum. Ég hef þó tekið eftir auknum áhuga hjá lesendum mínum á bakstri og þar sem ég er í fæðingarorlofi og skemmti mér gríðarlega við að baka eitthvað gómsætt þá verður augljóslega eitthvað af því líka á næstu misserum.

Matseðill 05.01-11.01

Mánudagur
afgangur af kjúklingasúpunni með núðlum

Þriðjudagur
lasagna

Miðvikudagur
Miðjarðarhafssaltfiskur

Fimmtudagur
Brasseraðir lambaskankar með kryddblöndu, sveskjum og bjór

Föstudagur
Pastasalat

Laugardagur
Grísalundir úr Melabúðinni(korngrís fáránlega góður) með gráðostasósu og frönnum(beisik)

Sunnudagur
Pizzadagur!

Sunday, January 3, 2010

Karrýlöguð kjúklingasúpa með kókosmjólk, eplum og kóríander

Þessi er algjört æði! Mér var skipað að tölvunni til þess að skrifa niður uppskriftina þar sem þetta sló í gegn. Hún er einföld eins og flest sem ég geri, ódýr og fljótleg, fyrir utan suðutímann sem er um 30 mínútur. Mann langar til að fá sér meira og meira og meira. Er alveg að spá í að fá mér smá þegar ég hef sett inn uppskrftina.
Nú er flensutíð og þetta á að vera mjög gott til varnar henni og einnig hlýnar manni öllum að innan við að borða heita og unaðslega súpu.

Karrýlöguð kjúklingasúpa með kókosmjólk,eplum og kóríander
f/4-5
1 heill kjúklingur,skorinn í leggi,bringur, vængi og botninn settur í súpuna en svo tekinn úr
2 msk karrý
2 msk smjör, má vera smjörvi
1/2 paprika, rauð, skorin í bita
1/2 epli, skrælt og skorið í bita
1 lítill laukur(1/2 stór), skorinn í sneiðar
2 hvítlauksrif, skorin í sneiðar
örlítill stjörnuanís, má sleppa
2 gulrætur, skornar í bita
5 vorlaukar eða 1/2 púrrulaukur, skorinn í sneiðar
3 msk ferskur kóríander, saxaður(má sleppa, en ég mæli eindregið með honum)
1 dós kókosmjólk
vatn
1 kjúklingakraftur
Salt og pipar

Aðferð:
1. Takið fram stóran,djúpan pott, bræðið smjörið og bætið karrýinu saman við og látið malla aðeins, bætið þá öllu söxuðu grænmetinu saman við og léttsteikið
2. Takið mestu fituna og skinnið af kjúklingnum og léttsteikið hann einnig og hellið svo vatni yfir þannig að rétt fljóti yfir. Bætið svo kókosmjólkinni og sjóðið í 30 mínútur.
Smakkið til með salti og pipar og berið fram með söxuðum kóríander.
Aths. Ég tek kjúklinginn uppúr og sker hann í bita og set aftur ofan í og hendi beinunum til þess að það sé auðveldara fyrir krakkana að borða súpuna og svo er það líka þægilegra fyrir afgangana daginn eftir.

Friday, January 1, 2010

Marengstoppar fylltir með fílakaramellu-súkkulaðimús


Ég átti að sjá um eftirréttinn á gamlársdag og ákvað að vera með Toblerone ís, fékk uppskrift hjá tengdamömmu og svo kom í ljós að ísinn var meiriháttar auðveldur þannig að mér fannst ég þurfa að gera eitthvað meira og þar að auki átti ég þá 14 eggjahvítur eftir alla ísgerðina um hátíðarnar og ég bara hafði það ekki í mér að henda þeim í ruslið. Ég henti því í marengstoppa og ætlaði að láta það duga en svo bara einhvern veginn byrjaði þetta að gerjast í hausnum á mér og svo varð úr að ég ákvað að fylla þetta með einhverju sem væri fáránlega auðvelt að gera og úr varð súkkulaðimús, ég reyndar notaði afganginn af súkkulaðikaramellunum og bræddi þær og bætti svo meira súkkulaði við til að nota sem massann í súkkulaðimúsina og það var hreint út sagt guðdómlegt! Ég held samt sem áður að það sé líka alveg rosalega gott með einfaldri súkkulaðimús þannig að ég set hér inn uppskrift af því. Þessi marengs sem ég gerði varð holur sjálfkrafa og ég sprautaði þeim mjög nálægt hvor öðrum þannig að þegar ég þurfti að taka þá í sundur þá myndaðist smá gat á hliðinni þar sem ég gat sprautað súkkulaðimúsinni inní. Gestirnir spurðu mig oft að því hvort þetta væri ekki rosalega mikið mál en það lítur nefnilega þannig út en plúsinn er að það er það alls ekki! Þannig að þú getur boðið uppá þetta í matarboði og fólk á eftir að úa og aa og halda að þú hafir staðið sveitt yfir þessu en þá er þetta bara rosalega auðvelt! En ef það myndast ekki gat á þeim er hægt að skera toppana í tvennt og setja músina á milli. Ég gerði súkkulaðimús úr afgangi af súkkulaðikaramellunum sem ég gerði fyrir aðfangadag, en ég hafði gleymt nokkrum inni í ísskáp, en það er auðveldlega hægt að kaupa fílakaramellur og bræða þær ásamt súkkulaði til að setja í músina.

Púðursykursmarengstoppar
(2 ofnplötur) f/10-12 manns
8 eggjahvítur
200 gr sykur
200 gr púðursykur

Aðferð:
1. Hitið ofninn í 120°C
2. Stífþeytið eggjahvíturnar og bætið svo sykrunum saman við og þeytið í 8-12 mínútur.
3. Setjið í sprautupoka og sprautið toppa á bökunarpappír frekar nálægt hvor öðrum.
4. Bakið í 50-60 mínútur og hækkið hitann í 150°C síðustu 10 mínúturnar, kælið í ofninum annað hvort rétt aðeins opnum eða lokuðum.

Fílakaramellu-súkkulaðimús
f/toppa fyrir 10-12 manns
4-5 fílakaramellur
150 gr súkkulaði, má vera hvaða súkkulaði sem er en best væri 56%
200 ml rjómi
400 ml rjómi, léttþeyttur

Aðferð:
1. Bræðið súkkulaðið og 200 ml af rjóma saman í potti, kælið
2. Léttþeytið rjómann og blandið svo saman þegar súkkulaðið er orðið kalt.
3. setjið í sprautupoka með mjóum stút og sprautið inn í toppana.