Tuesday, November 24, 2009

Hið fullkomna súkkulaðimuffins

Loksins loksins hef ég fundið það sem ég hef verið að leita að. Ég er búin að prófa um 5 uppskriftir af súkkulaðimuffins í þessari leit minni að mjúkri, fullri af súkkulaðibragði unaðslegri muffins og hér er hún. Ég fékk hana á amerískum uppskriftavef svo að hún er alveg ekta amerísk en viðurkenni þá að hún kemur ekki frá mér persónulega.

Súkkulaðimuffins
12 stórar muffins/ fleiri í pappírsformunum

85 gr 70% súkkulaði, saxað gróft
285 gr 56% súkkulaði, gróft saxað eða súkkulaðidropar
200 ml hveiti
1/2 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
1 tsk vanilla
135 ml súrmjólk(má líka vera mjólk en ég mæli frekar með súrmjólkinni)
100 ml smjör,mjúkt
200 ml ljós púðursykur
2 stór egg

Aðferð:
1. Hitið ofninn í 180°C
2. Bræðið 70% súkkulaðið með 95 gr af 56% súkkulaðinu
3. Hrærið saman hveiti,matarsóda og salt
4. Hrærið saman súrmjólk og vanillu í annarri lítilli skál
5. Pískið saman sykur og smjör þar til það er létt og ljóst og bætið svo eggjunum einu í einu og hrærið vel eftir hvert egg. Bætið þá brædda súkkulaðinu saman við.
Bætið þá súrmjólkurblöndunni og hveitiblöndunni saman við sitt á hvað og byrjið á hveitiblöndunni og endið á henni einnig. Hrærið þá varlega afgangnum af súkkulaðibitunum saman við.
6. Bakið í 22-25 mínútur eða þar til prjónn sem er stungið í miðju múffunnar kemur út hreinn. Athugið samt að í hverri múffu eru súkkulaðibitar þannig að ef það er súkkulaði á prjóninum gæti það verið eftir súkkulaði bita þannig að bara að það komi ekki hrátt deig á prjóninn þá er það tilbúið.

Gulrótar-og eplasúpa með chilli og engifer

Ég er farin að gera súpu í hádeginu þar sem ég borðaði svo mikið af brauði með áleggi á meðgöngunni að ég fékk ógeð af því og er að reyna að fá mér eitthvað annað og þá verður súpa oft fyrir valinu og þessi var bara ansi góð. Það er nefnilega svo þægilegt að skera allt grænmetið bara einhvern veginn ofan í pottinnEplið gerir hana létta og chillíið og engiferið bæta hana á mjög óvenjulegan hátt.
Uppskriftin er fyrir 2 í aðalrétt eða 4 í forrétt eða hádegismat

Gulrótar-og eplasúpa með chilli og engifer
f/2 eða 4
4 gulrætur
1 meðalstór sellerístilkur
1/2 laukur
1 epli
1/4 chilli
1/2 cm engifer
vatn
1/2 grænmetisteningur
smá olía

Aðferð:
1. Allt grænmetið skorið í pott með olíu og léttsteikt svo er vatni hellt yfir þannig að fljóti yfir eins og 1 cm. Látið suðuna koma upp og sjóðið í ca20 mínútur eða þar til gulræturnar eru soðnar. Hakkið svo allt saman með töfrasprota eða í hakkavél. Smakkað til með salti og pipar.

Wednesday, November 18, 2009

Muffins með kaffinu

Ég bara get ekki hætt að baka eða hugsa um uppskriftir. Hvað er eiginlega að mér? Nú get ég t.d. ekki hætt að hugsa um hvernig best væri að betrumbæta þessa uppskrift þó svo að hún hafi slegið í gegn og hvort ekki sé hægt að setja eitthvað auðvelt krem ofan á. Nú styttist óðum í afmæli Heklu og ég hugsa um ekkert annað en margra hæða kökur og endalaust mjúkar og örlítið blautar súkkulaði muffins og ætli það verði ekki bráðum piparkökur eða piparkökuhús, það væri nú gaman að gera það aftur. Hef ekki gert svoleiðis síðan ég var krakki en fannst það mjög skemmtilegt. Ég er reyndar farin að gæla við tilhugsunina að búa til konfekt og það ekki með marsipani þar sem ég þoli það ekki, eitt af fáum hlutum sem ég get ekki enn borðað, það kemur kannski með aldrinum, aldrei að vita. En uppskriftin að þessu er í rauninni gulrótarökuuppskriftin bara aðeins breytt, það er eiginlega ekki hægt að segja að þetta sé súkkulaði muffins því það er ekki nægilega mikið af súkkulaði í henni en hún er ansi góð með kaffinu þessi.

muffins með kaffinu
ca 15 muffins(fer eftir hvort þið notið litlu pappírsformin eða stærri sílíkonformin)

400 ml hveiti
2 tsk lyftiduft
1,5 tsk matarsódi
1 tsk kanill
4 tsk kakó
400 ml sykur
300 ml matarolía
4 egg
1,5 appelsína(má sleppa) kemur með skemmtilega tilbreytingu
150 gr súkkulaði
200 ml Cranola cereal
50 ml mjólk
Ég setti líka 3 tsk af fljótandi karamellu sem ég átti inni í ísskáp frá síðustu kökutilraun en það má alveg sleppa því

Aðferð:
1.Hitið ofninn í 180°C
2.Blandið saman sykri,lyftidufti,matarsóda,hveiti,kanil,kakó,matarolíu og eggjum.
3.Hakkið saman í hakkavél, múlínex Cranólainu og súkkulaðinu þar til það er mjög fínt hakkað. og skerið appelsínuna í bita og bætið útí ásamt safanum úr appelsínunni og mjólkinni.
4. Setjið blönduna í muffinsformin og fyllið 3/4 af hverju formi.
5. Bakið í 18-20 mínútur, styttra ef þið notið litlu pappírsmuffins formin. Tékkið á þeim með prjóni og stingið í miðjuna og ef prjónninn kemur hreinn út er muffinsið tilbúið.

Monday, November 16, 2009

Dijon hamborgarar með guacamole og karamelliseruðum lauk

Þetta var nú bara til að klára það sem var til í ísskápnum hjá mér, bætti aðeins við en þegar fullt af avócadó er að eyðileggjast þá þarf að nýta það, ekki satt?
Mig langaði til að breyta til og gera hamborgara sem ég hef ekki gert áður og útkoman var þessi og hún var rosaleg!

Dijon hamborgarar með guacamole og karamelliseruðum lauk
f/4 hamborgara
ca 500 gr nautahakk
3 msk dijon sinnep
3 msk sýrður rjómi(ég notaði Ab-mjólk)
1 egg
3 msk brauðrasp( ég tók 2 brauðsneiðar, ristaði þær og hakkaði í hakkavél)
1/2 hvítlauksrif, kramið
ostsneiðar til að setja ofan á við steikingu
salt og pipar

Aðferð:
1.Hrærið varlega öllu saman og búið til hamborgara og steikið og þegar borgurunum hefur verið snúið við einu sinni er ostinum bætt ofan á

Karamelliseraður laukur
1 laukur, skorinn í sneiðar(ekki of þunnar)
1/2 chilli, saxaður
1 msk maple sýróp
5 gr smjör
1 cm ferskur engifer, saxaður
salt og pipar

Aðferð:
1. Skerið laukinn, saxið engiferið og chilli.
2. Bræðið smjörið á pönnu, þegar það freyðir er öllu bætt í pönnuna fyrir utan sýrópið og laukurinn er mýktur við meðalhita, þegar hann er orðinn vel mjúkur er hitinn lækkaður í meðallágan, sýrópinu bætt saman við og látið malla í 15 mínútur til viðbótar með loki hálft á. Hann er tilbúnn þegar hann er dökkgullinbrúnn.

Guacamole
4 pínulítil avócadó
2 msk majónes(má vera sýrður, ég bara átti hann ekki til)
salt og pipar
(ég sleppti hvítlauknum þar sem hann getur verið of bragðsterkur svona hrár en það er smekksatriði.
smá sítrónusafi

Aðferð:
1. Avócadóið þarf að vera mjög mjúkt en það er stappað með gaffli og svo er majónesinu hrært saman við og saltað og piprað og bragðbætt með sítrónusafa.

Svo þarf að hafa tómata og salatblöð og franskar kartöflur
Ekki spara laukinn á borgarana hann er æðislega góður. En annars er brauðið smurt með guacamole og smá salsasósu ef vill og lauk, tómötum og salati

Friday, November 13, 2009

Plómu-og rauðvínsbakaður kjúklingur



Ég rankaði við mér í gær og sá ansi mikið af plómum vera að eyðileggjast í ísskápnum hjá mér og sparigrísinn ég, get nú ekki verið þekkt fyrir að eyðileggja þvílíkan fjársjóð(rándýrt dæmi) og fyrst íhugaði ég að búa til svokallaða upside down cake sem mig hefur langað til að búa til ansi lengi en gerði mér þá grein fyrir að ég yrði sú eina sem myndi borða það þar sem eiginmaðurinn og dóttirin hafa ekki mikinn áhuga á svoleiðis kökum(vonandi fær sonurinn minn matarsmekk!) þannig að ég ákvað að henda þessu í kvöldmatinn og viti menn, algjört dúndur að sjálfsögðu. Allt öðruvísi en ég hef gert hingað til og svo unaðslega gott, örlítið sætt á móti söltu og súru-fullkomið.
Ég bar þetta svo fram með steiktum kartöflum, þurfti ekki meira.

Plómu-og rauðvíns(roasted)bakaður kjúklingur
f/4
2 bakkar kjúklingabitar eða 1 heill kjúklingur bitaður niður
8 plómur
200-300 ml rauðvín(eftir því hversu miklu þið tímið, annars bætið bara upp með vatni)
1 msk rauðvínsedik/balsamik edik
hveiti til að velta upp úr
5 greinar timían, ef þið eigið það annars er hægt að setja estragon(þurrt eða ferskt) og þá eins og 1/2 msk
2 msk rósmarín
1 stjörnuanís
1/2 kanilstöng
3-4 msk sykur
2 hvítlauksrif
3 skallottulaukar
1 teningur kjúklingakraftur
smjörklípa og 1 msk olía
salt og pipar

Aðferð:
1. skerið plómurnar í 6 bita hverja
2. Hitið smjörið og olíuna á stórri pönnu og bætið plómunum útá þegar smjörið byrjar að krauma og eldið í 2 mínútur. Bætið þá ediki saman við og svo rauðvíninu og sjóðið í 4 mínútur. Takið af hitanum. Bætið kryddinu, kraftinum, lauknum, sykrinum saman við.
3.Veltið kjúklingnum uppúr hveiti og dustið allt aukahveiti af hverjum bita og steikið í olíu á heitri pönnu þar til hann er gullinbrúnn(meðalháum hita) og setjið svo í eldfast mót eða roasting pan og hellið plómublöndunni yfir og lokið með álpappír.
4. Bakið við 150°C í 1 klukkustund.
5. Sigtið þá vökvann frá í djúpan pott, setjið kjúklinginn og plómurnar aftur inn í ofn með álpappír yfir og slökkvið á ofninum.
6. Sjóðið vökvann niður, þar til hann þykkist og bragðast unaðslega
7. Berið fram: Setjið eldfasta mótið með plómunum og kjúklingnum á borðið og berið fram með sósunni og steiktum kartöflum.

Monday, November 9, 2009

Bjórbrasserað lamb með kartöflumús og grænmeti

Fingerlicking good eins og móðir mín komst svo vel að orði. Ég held ekki vatni yfir þessum rétti, hann er gjörsamlega out of this world sérstaklega fyrir þá sem þykir svona vetrarmatur góður(comfort food á ensku). Sósan kom út með smávegis vott karamellu og kjötið féll af beinunum. Ég veit ekki hvernig ég get lýst þessum rétti betur. það er smá verk að búa réttinn til en það er sko vel þess virði. Fyrir útivinnandi þá mæli ég með því að búa réttinn til á sunnudegi(eða laugardegi) og svo er hægt að geyma hann þar til seinna í vikunni, hita upp og gæða sér á. Ég myndi áætla ca. klukkutíma í undirbúning og eftirvinnslu og svo er rétturinn rúma 2,5 klukkutíma inni í ofni.

Bjórbrasserað lamb með kartöflumús og grænmeti
f/5
2 kg súpukjöt, mesta fitan hreinsuð af(ekkert stress þó nokkuð sé af fitu)
2 gulrætur, skornar gróft
1 steinseljurót, skorin gróft
2 sellerístilkar, skornir gróft
1,5 laukur, skorinn górft
handfylli ferskt timían
1 lambakraftur, 1 teningur
1 tsk tómatkraftur
100 ml púðursykur
vatn
1 ltr bjór(eða pilsner til að hafa réttinn ódýrari)ég notaði venjulegan ódýran ljósan bjór en það má til að fá meira bragð hafa bjórinn dekkri eins og t.d. dökkan Kalda eða einhvern þannig.
100 ml rauðvínsedik
3 lárviðarlauf
nýmalaður pipar
sósa ef þið viljið þykkja hana:
hveiti og olían sem er fleytt af sósunni

Aðferð:
1.Skerið grænmetið og hreinsið mestu fituna af kjötinu og steikið á pönnu í smávegis smjöri og olíu(1 tsk af hvoru). Fyrst gærnmetið og hellið í oftsteikingarpott svo kjötið og leggjið yfir grænmetið.
2.Hellið rauðvínsedikinu í heita pönnuna og sjóðið aðeins niður(1 mínúta), hellið þá bjórnum í pönnuna(í tveimur hlutum ef þörf er á) og sjóðið örlítið niður(ca 5 mín), bætið þá púðursykrinum og látið bráðna og hellið svo yfir kjötið.
Hellið svo vatni yfir þannig að rétt fljóti yfir allt.
3. Bætið úti tímíani, lárviðarlaufi, tómatkrafti, nýmalaður pipar og lambakrafti. Setjið lok á og í ofninn á 160°C hita í rúmlega 2,5 tíma, ef lokið er ekki mjög fast á pottinum er gott að setja smjörpappír ofan á kjötið og svo lokið á.
4. Á meðan er kartöflumúsin búin til ég gerði 1200 gr kartöflur(bökunar afhýddar og soðnar í saltvatni)200 gr smjör og salt og pipar
og skerið einnig 1 gulrót og 1 steinseljurót í bita(1x1 cm). Setjið útí sjóðandi vatn í nokkrar mínútur þar til það er soðið.
5. Þegar kjötið hefur soðið í 2,5 tíma(rúman)þá er kjötið tekið uppúr og sett í skál/pott og lok ofan á eða álpappír. Sigtið vökvann í lítinn pott og sjóðið aðeins niður um ca 20%, nokkrar mínútur. Fleytið olíunni af og setjið í lítinn pott og blandið hveiti saman við þar til hún myndar kúlu eða bollu. Þetta er til að þykkja sósuna, en einnig er hægt að sleppa því að þykkja sósuna og sjóða hana þá aðeins lengur niður kannski um 30%. Ef þið þykkjið sósuna er smátt og smátt af hveitibollunni bætt saman við sjóðandi sósuna þar til þeirri þykkt er náð sem ykkur þykir góð(hún á að vera eins og brún sósa á þykkt). Smakkað til með salti og pipar(oft þarf þess ekki). Setjið grænmetið útí sósuna og hitið vel, takið svo uppúr með gataskeið/spaða.Á meðan grænmetið hitnar er kartöflumúsin hituð upp.
Berið fram:
Setjið kjötið á fat og dreifið grænmetinu í kring og berið fram með kartöflumúsinni og sósunni til hliðar.

Sunday, November 8, 2009

Pizza með steiktu eggaldini og karamelliseruðum lauk

Við höfðum pizzu í matinn í staðinn fyrir brasseraða lambið þar sem ég gleymdi enn og aftur að taka það úr frystinum. Þar sem við gerum pizzu u.þ.b. einu sinni í viku og alltaf það sama þá er ég komin með leið á því og ákvað að gera eitthvað spennandi og unaðslega gott. Mín uppáhaldspizza úti á Ítalíu var einmitt með eggaldini en mér finnst það betra steikt upp úr olíu heldur en grillað en það er smekksatriði, það er líka mjög misjafnt hvort maður fær þegar maður pantar þessa pizzu úti, þannig að ef þið eruð á leiðinni út og viljið með Melanzane þarf að spyrja hvort það er steikt eða grillað. Þegar það er grillað verður það þurrt en þá fáið þið grillbragðið en ef þið fáið það steikt þá er það safaríkt og með smá ólífuolíubragði aukalega. Ég er mikill aðdáandi karamelliseraðs(mikil þörf á betra orði fyrir þetta) lauks og ef það er rauðlaukur, enn betra. Ég aftur á móti hafði ekki mikinn tíma þannig að ég var ekkert að flækja málin með lauknum og hafði hann einfaldan, það er hins vegar hægt að gera hann á annan hátt með fleira hráefni og ég á eina slíka uppskrift sem er geggjuð og ég hef borið fram með kjöti og maður bara slefar yfir henni. Það er nú líka þannig með álegg á pizzur, maður sleppur með lítið hráefni.

Pizza með eggaldini og karamelliseruðum lauk
f/eina pizzu
3 sneiðar af eggaldini, skorið í 1 sm sneiðar
1 rauðlaukur(má líka vera venjulegur)
1 tsk smjör
1 msk ólífuolía
1 msk hlynsýróp, hægt að skipta út fyrir púðursykur og setja þá smá vatn með
1 msk balsamik edik
salt og pipar

Aðferð:
1. Hitið olíu á pönnu, þegar hún er heit er eggaldininu velt uppúr olíunni á annarri hliðinni og snúið við og steikt við meðal hita þar til það er brúnt og svo snúið við og steikt þar til það er brúnt og mjúkt. Tekið af og skorið í fjórðunga og dreift yfir pizzuna.
2. Skerið laukinn í 1/2 sm sneiðar og hitið olíu og smjör á pönnu. Bætið lauknum útá þegar hún er heit og hann er mýktur aðeins þá er sýrópinu og edikinu bætt saman við og látið malla á meðallágum hita með lok hálft á í ca 10 mínútur eða þar til hann hefur skroppið vel saman og er mjög mjúkur. Saltið og piprið. og dreifið yfir pizzuna.

Friday, November 6, 2009

Kjúklingasúpa með ferskum engifer

Eiginmanninum leist svo vel á súpuna mína sem ég fékk mér í hádeginu að hann bað um þannig í kvöldmat og til að hafa hana aðeins matarmeiri bætti ég kjúklingi í uppskriftina og stækkaði hana aðeins. Útkoman var ljúffeng og ódýr kjúklingasúpa sem er nú ekki slæmt að gúffa í sig þessa dagana með allt þetta kvef í kringum mann. Ég fór nefnilega á netið til að athuga hvort eitthvað væri til í þessari þráhyggju í amerískum sjónvarpsþáttum og bíómyndum með kjúklingasúpu og kvef og hvort þetta gæti í raun og veru virkað. Viti menn það er búið að rannsaka þetta og þetta virkar að einhverju leyti, að sjálfsögðu er mikið af virkninni í hitanum og sálfræðinni en að sama skapi, virkar. Nú er stelpan mín með kvef, ég að fá það og litli guttinn orðinn stútfullur(hann fær nú reyndar bara að gæða sér á brjóstamjólkinni, en kannski síast eitthvað í gegn, aldrei að vita).
Ég set því hér inn uppskriftina eins og hún er fyrir fjóra.

Kjúklingasúpa með ferskum engifer
f/4
1,5 gulrót(stór)
1 steinseljurót
2 cm fersk engiferrót
1 laukur
2 sellerístilkar
2 hvítlauksrif
1 bakki kjúklingabitar(með beini)
1,5 teningur kraftur, grænmetis eða kjúklinga
1 msk edik, hvítt(mangóbalsamik t.d)
150 ml hvítvín
1-2 tsk smjör(hvort sem ykkur þykir betra)
1 msk olía
1 ltr vatn

Aðferð:
1. Allt grænmetið er skorið í litla bita(ferninga 1x1 cm)
2. Smjörið og olían er hitað í djúpum potti. Þegar smjörið freyðir er grænmetinu bætt saman við og svitað örlítið.
3. Húðin er tekin af kjúklingnum.
4. Hvítvíni og ediki er bætt saman við grænmetið og soðið niður í ca.4 mín. Þá er kjúklingnum bætt saman við og vatni hellt yfir. Teningnum bætt saman við.
5. Sjóðið við meðalháan hita í ca. 20 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn(takið þykkasta bitann og skerið í hann ef vökvinn sem kemur úr sárinu er glær er hann tilbúinn).
6. Takið af hitanum og takið kjúklingabitana upp úr og skerið(takið)kjötið af beinunum og bætið aftur útí pottinn. Látið suðuna koma aftur upp og berið fram með brauði, jafnvel hvítlauksbrauði.

Þið ráðið svo sem hvort þið takið kötið af beinunum eða ekki mér finnst það þægilegra sérstaklega í sambandi við börnin. Beinin eru hins vegar nauðsynleg í súpuna en þaðan kemur krafturinn og góða kjúklingabragðið. Þessi súpa, öfugt við grænmetissúpuna, er tær með grænmetisbitum en í grænmetissúpunni er allt saman maukað, en eins og ég sagði með hana er einmitt líka hægt að hafa hana tæra með grænmetisbitum. Allt er það jafn unaðslega gott og huggandi svona þegar skammdegið hellist yfir okkur þessa dagana.
Ég hins vegar gleymdi að taka lambið út úr frystinum þannig að það verður bara pizza í matinn í kvöld og ætla ég að prófa nýtt álegg á hana. Set það inn vonandi á morgun

Thursday, November 5, 2009

Gulrótar og steinseljurótarsúpa með engifer

Það var hádegi og mig langaði ekki enn eina ferðina í brauðmeti í hádegismatinn og ég var farin að sakna súpunnar sem ég fékk alltaf í vinnunni. Ég ákvað því að búa mér til grænmetissúpu sem heppnaðist svona líka ljómandi vel og ekki er hægt að segja að hún hafi verið mjög dýr, sitt lítið af hverju er í henni og afgangana ætla ég svo að brassera á föstudaginn og þá ætla ég að prófa að brassera í bjór, mmm spennandi.
Uppskriftin er fyrir fáa þar sem ég var bara að búa til handa sjálfri mér í þetta skiptið. Ég get svarið það að það tók mig styttri tíma að búa þetta til heldur en það tók eiginmanninn að búa sér til samloku í ofni með steiktu eggi(hmmm hvor okkar ætli fengi kransæðastíflu á undan???)

Gulrótar-og steinseljurótarsúpa með engifer
f/2
1/2 stór gulrót
1 lítil steinseljurót
1/2 lítill laukur
1 stilkur af sellerí(fannst of dýrt að kaupa sellerírót)
1 hvítlauksrif
1 cm engifer
1/2 teningur grænmetiskraftur
50 ml hvítvín(má sleppa)
1 tsk mangóbalsamik edik(má vera hvaða ljósa edik sem er epla,hvítvíns, kampavíns hvað sem er)
útaf því hversu saltur krafturinn er þá saltaði ég ekki í þetta skiptið
1/2 tsk smjör
1 msk olía(má vera hvaða sem er, ég notaði Isio4)

Aðferð:
1. Bræðið smjörið og olíuna saman í litlum djúpum potti.
2. Þegar smjörið byrjar að freyta er grænmetið skorið útí í grófa bita. Aðeins hitað þar til laukurinn hefur mýkst aðeins þá er vatninu bætt saman við og suðan látin koma upp, teningnum bætt saman við og soðið við vægan hita í ca 10 mín(fer eftir stærð bitanna)eða þar til gulræturnar eru mjög meyrar.
3. Þá er allt maukað saman með töfrasprota eða í hakkavél, svo getið þið sigtað hana ef þið viljið(ég sleppti því í þetta skiptið og það kom ekki að sök). Ef þið eigið ekki hakkara af einhverju tagi er alveg hægt að skera grænmetið í litla bita og borða súpuna þegar grænmetið er meyrt án þess að mauka hana.