Thursday, October 8, 2009

Kanilsnúðar með rjómaostsgljáa



Í þessum snúðum notaði ég gljáa sem er ekki með smjöri, er komin með nett nóg af smjörbragði enda fannst mér þessi gljái mun betri, ég hélt reyndar að hann yrði súrari þar sem í honum er rjómaostur og súrmjólk en hann var alls ekki súr heldur vóg sýran vel uppá móti flórsykrinum og myndaði frábæra contrasta sem pössuðu ótrúlega vel saman.
Ég hafði prófað aðra uppskrift á undan þessari sem bað um að hefast í endalausan tíma og setja inn í ísskáp í 16 tíma o.s.frv. og á endanum voru þeir alveg sérstaklega misheppnaðir, þannig að ég reyndi að finna uppskrift þar sem hefunin var í lágmarki, en að sjálfsögðu þegar maður er að vinna með ger er alltaf þörf á tíma í hefun. Þegar ég smakkaði þessa þá fann ég bragðið sem ég hef verið að leita að í mörg ár, fullkomið kanilpúðursykrursbragð með tvisti af sætum rjómaostskeim, hreinn unaður. Þeir eru líka alveg sérstaklega idiotproof þessir, þar sem ég er kanilsnúðabökunarvirgin og þessir komu fullkomlega út hjá mér.

Kanilsnúðar með rjómaostsgljáa
ca 18 snúðar
200 ml nýmjólk(ég notaði bara fjörmjólk, býst við að ef það er mjólk þá er það í lagi)
3 msk smjör
400 ml (gæti verið meira) hveiti
80 ml sykur, má minnka ef þið viljið
1 stórt egg
2 1/2 tsk þurrger
1 tsk salt
grænmetisolía til að smyrja

Fylling:
150 ml púðursykur
50 ml smjör, mjúkt
hrásykur(má sleppa)
2 msk kanill

Gljái:
3 msk rjómaostur
3 msk súrmjólk
300 ml flórsykur, má minnka ef vill tja eða setja meira, best að smakka til
1 tsk vanilludropar

Aðferð:
1. Hitið saman mjólkina og smjörið þannig að það sé volgt
2. Hrærið saman hveiti,sykur,egg,þurrger og salt og bætið svo mjólkurblöndunni saman við og bætið svo hveiti þangað til deigið er gljáandi og losnar auðveldlega frá hliðum skálarinnar.
3. Setjið deigið á hveitistráð borð og hnoðið í ca 5-8 mínútur og bætið hveiti eftir þörfum þar til deigið er hætt að vera klístrað og er fallega gljáandi og teygjanlegt
4. Smyrjið skál með olíunni og setjið deigkúluna í hana, setjið plastfilmu yfir og látið hefast á volgum stað í 2 klst. Ég kveiki á ofninum á lægstu stillingu og slekk svo á honum og læt skálina inn í ofninn og kveiki svo aftur þegar hann hefur kólnað alveg eftir ca.klst. Mér finnst þetta virka mun betur en að hafa skálina ofan á ofni.
5. Hrærið á meðan púðursykrinum saman við kanilinn og látið smjörið mýkjast við stofuhita.
6. Þegar deigið hefur tvöfaldast í stærð er það tekið úr skálinni og hnoðað létt aftur og svo flatt út í 30x40 cm ferhyrning og smurt vel með smjörinu og skiljið eftir 1 cm rönd við lengri endana. Þá er púðursykrinum dreift jafnt yfir allt saman og dempað létt með höndunum eða kökukeflinu þannig að sykurinn fari vel inn í deigið. Stráið svo hrásykrinum jafnt yfir ef þið notið hann og þrýstið honum létt niður í deigið einnig.
7. Rúllið svo deiginu upp eftir endilöngu og passið að rúlla þessu þétt upp og reynið svo að festa létt endann og svo slétta úr endunum á rúllunni. Skerið svo rúlluna í ca 18 bita.
8. Smyrjið 2 föt sem er annað hvort ferkantað og er um 23 cm eða eins og ég gerði þá var það eitt stórt eldfast egglaga fat 35 cm í hvorn endann(ég smurði með smjöri og dreifði hveiti yfir og dustaði úr allt auka hveiti)
9. Setjið snúðana í fatið og leggjið þá þannig að næstum ekkert pláss sé á milli þeirra. Setjið plastfilmu yfir og látið hefast í 40 mínútur og bakið svo við 190°C í 15 mín. Takið þá út úr ofninum og takið úr forminu og snúið við aftur í formið og bakið áfram í 4 mínútur eða þar til þeir eru gullinbrúnir að ofan. Takið þá úr forminu og látið kólna.
Aðferð fyrir gljáann:
1. Hrærið saman með písk eða handþeytara súrmjólkina og rjómaostinn og vanilludropana þar til engir kekkir eru og sigtið svo flórsykurinn saman við. Ég nennti reyndar ekki að sigta ekki frekar en fyrri daginn en þá þarf ég líka að hræra lengur til að losna við alla kekki. Dreifið svo yfir snúðana þegar þeir eru orðnir volgir og berið fram. Þeir eru bestir volgir en einnig svakalega góðir við stofuhita.