Thursday, November 6, 2008

Sellerírótarsúpa með beikoni og bökuðu brauði

Ég hef gert þessa súpu í þónokkur ár núna og hún er alltaf jafn góð. Ég reyndar geri þessa súpu annað hvort úr sellerírót eða steinseljurót, í rauninni er einnig hægt að setja blómkál í staðinn. Hún er einföld og góð og hlýjar manni um hjartarætur.

Sellerírótarsúpa

F/3
1/2 sellerírót, skræld og skorin í bita
3-4 litlir skallottulaukar(hægt að skipta út fyrir venjulegan lauk, enda er hann ódýrari
1/4 laukur
1 ltr soð(vatn+1 1/2 teningur)
3-4 hvítlauksrif, söxuð
150 ml hvítvín(má sleppa)
4 beikonsneiðar
2 hvítlauksbrauð
smá smjörklípa
1 tímíangrein(má sleppa)

Aðferð:
1. Skerið laukinn í sneiðar og rótina í bita.
2. Setjið smjörið í djúpan pott og léttsteikið laukinn(má ekki taka lit), bætið hvítlauknum og rótinni og léttsteikið allt saman. Bætið víninu saman við og látið sjóða niður um helming.
3. Hellið þá soðinu saman við ásamt timíanog látið sjóða í ca 15 mín eða þar til rótin er mjúk í gegn eða meyr.
4. Takið u.þ.b. 300 ml af vökvanum og geymið. Hakkið þá allt saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Sigtið í skál og hellið svo aftur í potttinn og hitið alveg í gegn og lagið þykktina eftir smekk með vökvanum sem tekinn var frá.
5. Á meðan rótin er að sjóða(áður en hún er hökkuð) er gott að steikja beikonið þar til það er alveg stökkt og setja brauðið inn í ofninn, ég nota frosin baguette og smyr það með heimagerðu hvítlaukssmjöri. Þá ætti allt að vera tilbúið þegar súpan er tilbúin.
6. Berið fram annað hvort hægt að setja súpuna í skálarnar og setja eina beikonsneið í hverja skál eða láta hvern og einn hafa beikon og leyfa þeim að gera það sem þeir vilja við það.

Aths. ef ykkur þykir súpan of þykk og þið hafið notað allan vökvann er mjög gott að bragðbæta með kókosmjólk, mjólk eða jafnvel örlitlum rjóma.

No comments: