Sunday, July 25, 2010

Hin fullkomna samloka




Þessi er fyrir þá sem eru til í sukk og svínarí par excelance. Ég fór algerlega í hið svokallaða óverkill svo ég leyfi mér að sletta aðeins. Ef ég hefði átt trufflur eða truffluolíu hefði ég legið í vímu í allt kvöld, þannig að þeir sem hafa efni á eða eiga inni í skáp endilega bæta því ofan á þessa.
Þessi samloka er engan veginn fyrir þá sem eru að hugsa um línurnar heldur fyrir þá sem vilja njóta þess sem þetta líf býður uppá, enda er ég að fara í einkaþjálfun eftir helgina og vildi aðeins smakka á síðasta smjörmatnum í dágóðan tíma. Ójá það er smjör í henni þessari,en þó ekki svo mikið að maður fái klígju heldur ákkúrat rétta magnið,oh það er svo gott...stundum....
Hér kemur hún, hin fullkomna samloka...fyrir þá sem þora!

Hin fullkomna samloka
f/2
4 brauðsneiðar,ég nota heimilisbrauð en auðvitað væri best að vera með glænýtt sveitabrauð,skorið í góðar sneiðar
250 gr sveppir
4 sneiðar beikon
1 skallottulaukur
1 hvítlauksrif
1 msk balsamik edik
2 skinkusneiðar
8 ostsneiðar
4 tómatsneiðar
Dijon sinnep
majónes
smjör og nóg af því
salt og nýmalaður pipar
2 tsk maple sýróp

Aðferð:
1.Skerið sveppina í sneiðar,saxið laukinn,skerið beikonið smátt,skerið tómatana í sneiðar og saxið hvítlaukinn.
2.Setjið góða matskeið af smjöri á pönnu yfir hæsta hita og þegar það fer að krauma er beikoninu bætt saman við og það steikt þar til það fer að brúnast aðeins. Bætið þá hvítlauk,skallottulauk og sveppum saman við og steikið þar til sveppirnir fara að brúnast vel,ca. 5 mín. Bætið þá balsamik edikinu útá pönnuna og látið það sjóða alveg niður og hrærið vel á meðan. Takið þá af hitanum og geymið.
3. Takið nú brauðsneiðarnar og smyrjið allar með dijon sinnepi(örþunnt þó) og svo með majónesi.Leggjið skinkusneiðarnar,ostinn og tómatana ofan á og lokið með brauðsneið.
4.Hitið 3 msk af smjöri á stórri pönnu sem hægt er að loka með loki(eða disk,eða hverju sem þið finnið í eldhúsinu,brauðbretti jafnvel),þegar það er bráðið er samlokan lögð á smjörið og látin drekka í sig smjör þeim megin og svo velt strax aftur á hina hliðina og þar er hún steikt við hæsta hita í 3 mínútur,þá er hitinn lækkaður í meðal háan hita og steikt áfram í 3 mínútur(passið að kíkja undir og athuga hvort hún sé nokkuð að brenna),þegar hún er tilbúin þeim megin er henni snúið við og hún er steikt áfram í 4-5 mínútur, allan tímann er lokið á pönnunni(til þess að osturinn bráðni).Þegar hún er alveg að verða tilbúin er einni tsk af maple sýrópi smurt á hvora samloku. Ef þið notið truffluolíu eða trufflur mæli ég með því að dreypa henni yfir sveppablönduna eða sneiða trufflurnar yfir samlokuna.ohh þvílíkur draumur það væri.
Berið fram samlokuna með steiktu sveppunum til hliðar, og njótið til fulls því maður leyfir sér ekki svona unað oft.