Thursday, July 30, 2009

Hvítvíns-sinnepskjúklingur með sítrónurisotto

Eins og sést þá er greinilega mánaðarmót og fáir seðlar eftir í veskinu, þar sem kjúklingur er allsráðandi kvöldverður.
Ég hafði lítinn tíma í kvöld þar sem fólk var orðið svangt og horfði á mig með blóðhlaupin augun og froðu vellandi úr munnvikunum og spurði ,, hvað er langt í matinn...grrrrr..." eða var það bara ég, gæti verið, hef aldrei verið neitt sérstaklega þolinmóð þegar hungrið sverfur að.
Þannig að þessi fór í ofninn eftir 2 mínútur af sinneps- og hvítvínsnuddi og á meðan hann var að malla í ofninum þá henti ég í risottoið, svona til að dreifa huganum frá hungrinu.
En viti menn þetta var fáránlega gott og allir voru í gríðarlegu sumarstuði eftir matinn, saddir og sáttir.

Hvítvíns-og sinnepskjúklingur
f/4
2 bakkar af kjúklingabitum
2-3 msk dijon sinnep
3 hvítlauksrif, skorin gróft
2 msk ólífur
1 msk capers
100 ml hvítvín
25 gr smjör
salt og nýmalaður pipar
Smá sesamfræ

AÐferð:
1. Hellið hvítvíninu í eldfast mót sem rúmar alla kjúklingabitana.
2. Smyrjið kjúklinginn með sinnepi, skerið hvítlaukinn gróft yfir, dreifið ólífunum og capersinu yfir. Saltið og piprið kjúklinginn og svo stráið sesamfræjum síðast yfir kjúklinginn. Bakið í ofni við 200°C í 30 mínútur.

Sítrónurisotto
f/4
1,5 ltr kjúklingasoð, léttsjóðandi
80 gr smjör
1 saxaður lítill laukur, eða 2 litlir skallottulaukar
350 gr risottogrjón
1/2 sítróna, allur sítrónubörkurinn rifinn og smá af safanum
2 msk ólífuolía
100 ml hvítvín

Aðferð:
1. Látið soðið sjóða og haldið því rétt sjóðandi
2. Hitið ólífuolíuna og smá af smjörinu og þegar smjörið fer að bulla bætið söxuðum lauknum saman við og léttsteikið bætið þá grjónunum saman við og hitið í ca 4 mínútur. Hellið þá hvítvíninu saman við og látið sjóða niður. Byrjið þá að bæta soðinu saman við eina ausu í senn og látið grjónin taka upp vökvann eftir hverja ausu, þegar vökvinn hefur næstum verið drukkinn af grjónunum bætið þá annarri við þar til þið hafið notað næstum allt soðið þá er gott að byrja að smakka á þeim til að hafa þau alveg eins og þið viljið hafa þau. Þegar þau eru tilbúin og mjúk er sítrónuberkinum og safa bætt saman við ásamt salti og pipar og smjörklípu. Smakkið til með sítrónusafa og salti og pipar eftir smekk.

Gott að bera fram ferskst salat með.

Thursday, July 23, 2009

Súper fljótlegur kryddjurtagrillkjúklingur

Ég viðurkenni það ég nennti ekki að elda í kvöld þannig að ég henti í ótrúlega fljótlegan kjúkling og hann var svo góður að ég varð að setja hann hérna inn. Þessi er kannski meira fyrir þá sem eru að rækta kryddjurtir eða sem tíma að kaupa þær. Þær eru nefnilega notaðar í óhófi í þetta skiptið, sem er svo gaman svona annað slagið.

Kryddjurtakjúklingur með beikoni
f/4
2 bakkar kjúklingabitar, bara þeir ódýrustu
6 msk sítrónumelissa, söxuð
3 msk mynta, söxuð
4 msk timían, saxað
2 msk steinselja, söxuð
4 msk ólífuolía
2 msk edik af einhverju tagi, ég notaði mangó balsamik edik
2 msk sýróp, ég notaði maple
Flögusalt og pipar
1 pakki beikon

Aðferð:
1. Saxið allt kryddið og setjið í skál ásamtöllu hinu fyrir utan saltið og piparinn.
2. Saltið og piprið kjúklinginn vel.
3. veltið hverjum bita vel upp úr olíu og kryddjurtablöndunni og nuddið aðeins inn í kjúklinginn
4. Setjið í eldfast mót og leggjið svo beikonið yfir þannig að hylji. bakið í ofni við 210°C í 30 mínútur færið þá beikonið aðeins til hliðar og setjið svo á grillstillingu í ca 5 mínútur eða þar til beikonið er stökkt og hefur minnkað og kjúklingurinn gullinbrúnn.

Berið fram með steiktum kartöflum eða frönskum eða ofnbökuðum.

Ég sauð kartöflur og setti í eldfast mót og bakaði með kjúklingnum síðustu 10 mínúturnar af eldunartímanum með salti og pipar og ólífuolíu.

Tuesday, July 14, 2009

Grillaður rabbarbaralax með nýju smælki

Þessa dagana er tilvalið að fara í sitt nánasta umhverfi og ræna arfa og rabbarbara sem vex villtur, enda er allt matarkyns að hækka í verði ekki satt, um að gera að spara sér aurinn.
Ég fór því upp á hæðina sem er hér við enda götunnar og þar sá ég breiðurnar af villtum rabbarbara og kerfli svo að ég týndi mér smávegis í matinn. Ég hafði freistast í Melabúðina og keypt mér villt laxaflök og týndi smælki úr kartöflustaflanum sem var nýkominn úr týnslu. Enda gat ég ekki beðið eftir kvöldmatnum.
Þess vegna verður smá rabbarbaraþema kvöldmatarins í kvöld og ég get sagt ykkur það að við vorum í sjöunda himni!
Með þessu hafði ég svo rabbarbarasósu bragðbætta með chilli og balsamik ediki

Grillaður Rabbarbaralax
f/4
200 gr á mann(flestir borða meira af laxi en öðrum fiski annars er venjulega 150 gr á mann af fiski)
400 gr rabbarbari
75 gr hrásykur
50 ml vatn
nokkur blöð af kerfli
1/2 sítróna, sneidd

Aðferð:
1. Skerið rabbarbarann í litla bita og setjið í djúpan pott ásamt sykrinum og látið sjóða við vægan hita í ca 30 mínútur eða þar til rabbarbarinn er meyr en nokkrir harðari en aðrir. Sigtið og kælið.
2. Þvoið vel kerfilinn og leggjið hann á álpappír nægilega stóran til að fara utan um laxaflökin. Leggjið laxinn á kerfilinn og saltið og piprið laxinn og makið svo rabbarbaranum yfir og síðast leggjið sítrónusneiðarnar yfir og pakkið svo öllu inn í álpappírinn þannig að kerfillinn farin einnig yfir laxinn. Grillið við meðal háan hita á roðhliðinni í 7 mínútur og svo á kjöthliðinni í 3 mínútur.

Rabbarbarasósa
f/4
sýrópið sem kom af rabbarbaranum
1/2 chillialdin, saxið smátt
1 skallottulaukur, saxið smátt
1 msk balsamik edik
salt og pipar
1/2 msk ólífuolía, eða hvaða olía sem er

Aðferð:
1.Hitið olíuna í litlum potti og léttsteikið laukinn og chillialdinið, þegar það hefur mýkst er edikinu bætt saman við og látið sjóða alveg niður þá er sýrópinu bætt saman við og suðan látin koma upp, tekið af hitanum og saltað og piprað.

Smælki
f/4
100 gr á mann
50 gr smjör
flögusalt

Sjóðið kartöflurnar og þegar þær eru soðnar er smjöri bætt saman við og þær saltaðar. Berið strax fram.

Ég setti laxinn á rétt eftir að ég byrjaði að sjóða kartöflurnar. Sósuna var ég búin að gera áður en ég setti nokkuð á grill eða heita hellu.

Gott er að hafa ferskt salat með þessu öllu saman.

Monday, July 13, 2009

Grillað lambaprime marinerað í blóðbergi

Ég skellti mér upp á Valhúsahæð áðan en þar vex blóðberg eins og ég veit ekki hvað,út um allt þarna og bara bíður eftir að vera tínt, og ég tíndi heilmikið til að marinera lambaprime.
Lambaprime er eitt af því grillkjöti sem hefur verið hvað mest á tilboði í sumar og við höfum nýtt okkur það óspart því þetta er dýrindis kjöt, alltaf mjúkt, það eina sem þarf að passa er að skera af of mikla fitu sem getur verið á því, annars þarf ekker að gera við það.
Ég fór með svona í útilegu um daginn og setti í marineringu áður en lagt var af stað og það var svo mjúkt og bragðmikið eftir að hafa legið í marineringunni í 2 daga að ég er enn að láta mig dreyma um unaðslegt bragðið.
Í marineringuna í þetta skiptið notaði ég það sem hendi var næst og leyfði blóðberginu að njóta sín sem mest þannig að engar aðrar kryddjurtir voru notaðar og vökvi sem ýtir frekar undir bragðmikið blóðbergið frekar en að yfirgnæfa eða vera of bragðdauft. Með þessu bar ég fram nýjar kartöflur soðnar og svo velt upp úr smjöri og salti og nýtti svo afganginn af sósunni frá því í gær, grísku jógúrtinni með kryddjurtunum.

Marinering fyrir grillað lambaprime
f/4
200 gr á mann af kjöti
4 hvítlauksrif
2 tsk sinnep
2 góðar lúkur af blóbergi
salt og pipar
2 msk balsamik edik
4 msk ólífuolía(eða bara olía af einhverju tagi)
smá sletta af sherry, má sleppa
2 msk vodka(Reyka)

Aðferð:
1. Öllu hrært saman og kjötinu velt upp úr og látið liggja í leginum eins lengi og þið hafið tíma í en gott er að hafa það a.m.k. 30 mín til klukkutíma.
2. Grillið með öllu gúmmulaðinu á í ca 10 mínútur á meðalháum hita á hvorri hlið eða þar til vökvi sem rennur úr kjötinu er orðinn ljósrauður, fyrir medium steikt. Passið þá að stinga aðeins örlitla stungu í kjötið til þess að vökvinn fari ekki allur úr kjötinu og skilji eftir þurrt kjöt.
Berið fram með nýjum íslenskum kartöflum velt upp úr smjöri og salti
og góðri grillsósu

Sunday, July 12, 2009

Grillaður þorskur með kryddjurtum,lime, grískri jógúrt og steiktum kartöflum

Tölvan okkar er enn biluð þannig að ég er núna á lánstölvu og get því sett inn uppskriftir á ný.
Við höfum verið eitthvað löt við matseðlagerð síðustu vikur og hefur matarreikningurinn hækkar svo um munar, því verð ég að hætta þessu rugli og halda áfram með matseðlana.
Þar sem kryddjurtirnar mínar lifa dúndurgóðu lífi í glugganum hjá mér og úti í beði hef ég verið dugleg að nýta mér þær og ég mun örugglega setja inn nokkrar uppskriftir í sumar þar sem ég notast við þær, maður þarf nefnilega að grisja svona annað slagið.
Ég fór einnig í matjurtagarðinn minn í dag og þar náði ég mér í dýrindis grænkál og silfurblöðkur þar sem það þurfti líka að grisja af þeim. Þannig að kvöldmaturinn var uppfullur af vítamínum og fersku salati og kryddjurtum.
Ég fékk alveg frábæran þorsk hjá vinkonu minni en maðurinn hennar hafði farið í sjóstangaveiði og veitt hann, lítill og sætur en ofboðslega bragðgóður.
Með honum bar ég fram salat með strengjabaunum,avócadó og ristuðum söltuðum cashew hnetum, ásamt fersku grænkálssalati, steiktum kartöflum krydduðum með ferskum kryddjurtum og svo síðast en ekki síst kaldri sósu úr grískri jógúrt, hvítvíni og enn og aftur ferskum kryddjurtum.
Ykkur finnst þetta kannski einum of mikið en það tekur smá tíma fyrir þorskinn að grillast þegar hann er grillaður heill svo að ég var bara að nýta tímann í rauninni. Hann tók 40 mín á grillinu og það er tíminn sem ég tók í allt meðlætið, fyrir þá utan suðuna á kartöflunum því það gerði ég löngu áður og steikti svo alveg undir það síðasta.

Grillaður þorskur með ferskum kryddjurtum og lime
f/4
1 heill lítill þorskur, hreinsaður
1/2 lime
3 greinar timían
smá mynta
smá sítrónu melissa
smá basilíka
smá steinselja

Aðferð:
1. Þorskurinn er hreinsaður og skolaður vel og svo eru kryddjurtunum og limesneiðum komið fyrir í sárinu.
2. Pakkið svo inn í álpappír og setjið á meðalheitt grill og grillið í 20 mín á hvorri hlið.

Strengjabaunasalat með avócadó og ristuðum cashew hnetum
f/4
3 lúkur af frosnum baunum en mæli heldur með ferskum í þetta og þá ætti 2 bakkar að duga
1/2 avócadó
1 lúka af cashew hnetum, ég keypti hreinar en það er hægt að kaupa ristaðar og saltaðar
flögusalt og pipar
extra virgin ólífuolía
smá limesafi

Aðferð:
1. Baunirnar eru soðnar örstutt og skellt svo í ískalt vatn á eftir, þerraðar og sett á stóran disk
2. skerið avócadó í sneiðar og berið limesafa á til að hann brúnist ekki
3. Ristið hneturnar og saltið
4. Dreifið avócadóinu og hnetunum yfir baunirnar og hellið svo smávegis af ólífuolíu í mjórri bunu yfir allt saman og saltið og piprið.

Grænkálssalat
einfalt:
rífið niður grænkál og setjið í skál og hellið vinaigrette yfir, ég nota úr mangóbalsamik ediki og olíu

Kryddjurtasósa úr grískri jógúrt og hvítvíni
f/4
2 kúfaðar matskeiðar af grískri jógúrt
3 msk mable sýrópi
3 msk hvítvín
smá sítrónu melissa
smá mynta
smá basilíka
flögusalt og pipar

Aðferð:
1. Saxið kryddjurtirnar og blandið saman við jógúrtina, sýrópið og hvítvínið. Hrærið öllu vel saman og smakkið til. Ef ykkur finnst þurfa meira sætt endilega setjið meira af sýrópinu og ef ykkur þykir hún ekki nægilega bragðmikil er gott að bæta hvítvíni og salti útí og jafnvel smá sítrónu-eða limesafa.

Steiktar kartöflur með kryddjurtum
f/4
ca 400 gr kartöflur, soðnar
smá sítrónu melissa
smá mynta
smá basilíka
salt og pipar
3-4 msk extra virgin ólífuolía

Aðferð:
1. Sjóðið kartöflurnar, skrælið og þerrið
2. Saxið kryddjurtirnar
3. Hitið olíuna á stórri pönnu þar til hún er vel heit setjið þá kartöflurnar á pönnuna og steikið við meðal-háan hita þar til þær brúnast vel(hægt að bæta niðurskornu hvítlauksrifi saman við).
4. Þegar þær eru tilbúnar fallega brúnar þá eru þær settar í skál og kryddjurtunum dreift yfir ásamt salti og pipar.