Tuesday, December 30, 2008

SúkkulaðiBrullé

Þessa uppskrift fékk ég í Danmörku og hún er mjög rík eða það er mikið og gott súkkulaðibragð, sem þýðir að það má ekki vera í stórum skálum. Ég hef sett þetta í skotglös sem hefur hentað mjög vel. Til að gera hið fullkomna brullé þarf að hafa gasbrennara og ljósbrúnan cane sykur þá eruð þið pottþétt með þetta.

Súkkulaðibrullé
f/6 manns

500 ml rjómi(ekki matreiðslu)
135 gr dökkt súkkulaði(70%), fínt hakkað
1 vanillustöng(má setja 1 tsk vanilludropa)
6 eggjarauður

Aðferð:
1. Hitið rjómann í potti og takið hann svo af hitanum. Bætið hakkaða súkkulaðinu saman við ásamt vanillunni( skafið innan úr vanillustönginni).
2. Kælið blönduna örlítið og hrærið svo eggjunum varlega saman við. Passið að píska ekki of mikið því þá geta komið of mikið af loftbólum sem erfitt er að losna við.
3. Látið blönduna standa augnablik og skúmmið froðuna af yfirborðinu(ef þörf er á því)
4. Setjið í form eða skotglösin og bakið í ofni við 100°C í 20-25 mín. Gott er að setja rennblauta tusku í botninn á ofnskúffunni til að halda raka í ofninum.
5. Þegar þetta er tilbúið er gott að taka eitt skotglas og hrista það örlítið og ef vökvinn gárast mikið er þetta ekki tilbúið en ef hann rétt hristist eins og Royal búðingur er brullé-ið tilbúið og þá er það sett í ísskáp í 2-3 klst til að kæla alveg niður.
6. Rétt áður en það er borið fram er sykrinum stráð jafnt yfir yfirborðið á búðingnum og svo er hann brenndur með gasbrennaranum og borið fram.

Matardagskrá farin út um þúfur í bili,

Það var nú kannski við því að búast svona yfir jólin að það færi öll rútína úr skorðum en það á eftir að fara enn meira úr skorðum næstu mánuði því að ég er komin í vaktavinnu á ný. Það þýðir að það koma líklegast inn uppskriftir á nokkurra daga fresti. Ég mun þó ekki gefast upp á þessu skipulagi að búa til matseðil fyrir vikuna, heldur mun Sverrir verða að bretta upp ermarnar og elda almennilegan mat fyrir sig og Heklu, það þýðir ekki að vera alltaf í mat hjá mömmu þó að eiginkonan sé í vinnu. Þannig hef ég fengið nýtt verkefni, að búa til matseðil með réttum sem hann getur klórað sig fram úr.
Við eins og aðrir eyddum jólunum í kjötáti og hefur maginn fengið ærlega að kenna á því en ég hef lofað sjálfri mér því að hafa meiri fisk á næstu mánuðum, ekkert múður meir með það! Mig langar t.d. alveg svakalega í fisk í kvöld, ætli maður skelli sér ekki á einn slíkan, það ætti að vera ferskur fiskur í öllum fiskibúðum í dag, mmm hlakka til.
Mig langaði reyndar að setja hér inn að á aðfangadag var ég með súkkulaðibrulleé í eftirrétt(þeir voru þrír eftirréttirnir) og hafði ég það í skotglasi, sem er mjög sniðugt því að heil skál af því er eiginlega of mikið af því góða en ég læt hana hér inn, hún er ansi góð í eftirrétt á gamlárs fyrir þá sem enn eiga eftir að ákveða hvað á að hafa þá.

Tuesday, December 23, 2008

Lakkrís parfait

Hér kemur ein flókin fyrir hina huguðu. Ég er með þetta í eftirrétt á morgun ásamt súkkulaði brullé og Tobleróne ís fyrir krakkana, sem ég reyndar veit að fullorðnir eiga eftir að gæða sér á einnig þannig að ég gerði tvöfalda uppskrift af því.
Ég lærði hins vegar parfait-ið á Krogs fiskerestaurant og ég féll algerlega fyrir því en hingað til hef ég ekki fengið lakkrísduft til að búa það til en fann svo smá í vinnunni hjá mér, en fyrir þá sem hafa ekki tök á að fá lakkrísduft(gæti verið til í Danmörku:/) þá er þetta alveg rosalega gott án þess og svo er einnig hægt að skipta út hvíta súkkulaðinu og setja dökkt súkkulaði í staðinn.
Það er að nokkru að huga í þessari uppskrift og er erfiðleikastigið aðeins hærra en venjulega á þessari síðu og svo er þetta einnig dýrara þar sem hvítt súkkulaði er svívirðilega dýrt en eins og ég segi er hægt að nota 70% súkkulaði í staðinn, sem gerir þetta ódýrara.

Lakkrís parfait
f/ 6 manns

2 dl rjómi
1/2 dl rjómi
(8 gr lakkrísduft)
250 gr hvítt súkkulaði(eða 70% dökkt), hakkað fínt
2 eggjarauður

3 eggjarauður
1 egg
75 gr sykur
50 gr vatn

Aðferð:
1. Stífþeytið 2 dl rjóma og setjið inn í ísskáp
2. Sjóðið 1/2 dl af rjóma og þegar hann er heitur er lakkrísduftið bráðið saman við, þegar það hefur blandast vel saman við er súkkulaðinu bætt út í og bráðið, það lítur út fyrir að hafa skilið þegar það hefur bráðnað saman við en þá er eggjarauðunum bætt saman við og þetta er pískað saman þar til það glansar fallega. Passið að þessi blanda má ekki kólna alveg og er því gott að halda því volgu með því að hafa þetta í stálskál og hafa ofan á potti með næstum sjóðandi vatni. passa samt að það hitni ekki of mikið þannig að maður þarf að hræra af og til í og setja ofan á pottinn og taka af eftir hentugleika.
3. Setjið sykurinn og vatnið í pott og sjóðið þar til hitamælir segir 125°C. Á meðan eru eggjarauðurnar og heila eggið pískað vel saman. Þegar sykursýrópið hefur náð réttu hitastigi er það pískað saman við eggjamassan og passið að gera það mjög hægt eða hella sykrinum í hægri mjórri bunu á meðan pískurinn gengur á hæsta.
Pískið þar til blandan er köld og þykk.
4. Þegar hann er kaldur og þykkur er hann blandaður saman við súkkulaðiblönduna, fyrst einn þriðji og svo er restinni blandað saman við.
5. Síðast er svo þeytta rjómanum blandað saman við.
6. Allt er svo sett í form og inn í frysti í a.m.k. 5 klst.

Sunday, December 21, 2008

Steiktur kjúklingur með stökkri sinnepshúð, grænmeti og hrísgrjónum

Nú sem aldrei fyrr er ærin ástæða til að halda sig hófsömum og ekki fara út fyrir innkaupalistann og elda sem oftast heima í staðinn fyrir skyndibitamat, sem er orðinn skuggalega dýr.
Eins og sést hefur hér á síðunni þá er mikið að gera hjá okkur eins og hjá ykkur býst ég við og ekki alltaf tími fyrir þessa blessuðu heimaeldamennsku og þráum við að maturinn gæti bara hoppað sjálfur í pottana og kryddað sig sjálfur, bara ef lífið væri svo ljúft.
Ég byrjaði þessa viku fremur brösulega, komst ekki í búðina fyrr en á fimmtudegi og hafði þá úr litlu að moða dagana þar á undan en rembdist þó við að gera eitthvað ljúffengt úr því sem til var í skápunum, og viti menn það kom þessi snilldarréttur, ég mæli með því að prófa hann.
Húðin verður frábærlega stökk og bragðgóð við þessa aðferð, ég reyndar hafði grjón með því að ég átti ekki kartöflur en það getur vel verið að kartöflurnar séu jafnvel betri þó svo að grjónin hafi verið ljómandi góð með.

Steiktur kjúklingur með stökkri sinnepshúð, grænmeti og hrísgrjón

1 kjúklingur, ég átti bara heilan og skar hann í bita, annars er mjög fínt að vera með kjúklingabita
1/2 paprika, skorin í sneiðar
1 laukur, skorinn í sneiðar
1 msk engifer, saxað mjög smátt
1/2-1 chillialdin(fer eftir hversu sterkt þið viljið hafa þetta), saxað smátt
3 hvítlauksrif, kramin eða söxuð smátt
smá smjörklípa og olíudreytill
1 msk balsamico edik
hveiti
salt og pipar
djion sinnep
ég sletti síðustu dropunum úr hvítvínsbeljunni minni(sem ég keypti til matargerðar í september) en því má alveg sleppa

Aðferð:
1. Skerið grænmetið og steikið á pönnu með smá olíu(má sleppa ef notuð er teflonpanna), við meðalháan hita, þar til það hefur mýkst vel, þá er edikinu hellt yfir og látið sjóða alveg niður.
2. Á meðan grænmetið er á pönnunni er kjúklingurinn skorinn í læri, bringu, vængi og hveiti er sett í skál eða plastpoka og kjúklingnum er velt upp úr því. Panna er hituð með smjörklípu og olíu og mesta hveitið er dustað af hverjum kjúklingabita og hann settur í heita pönnuna. Leyfið að liggja á hvorri hlið í nokkrar mínútur eða þar til hann er orðinn fallega gullinbrúnn á hvorri hlið.
3. Þá ætti grænmetið að vera orðið fallega meyrt og fínt. Þá er ofninn hitaður í 200°C. Setjið grænmetið í botninn á ofnföstu fati og kjúklingabitana þar ofan á. Saltið og piprið yfir allt saman og smyrjið því næst þunnu lagi af sinnepi á hvern kjúklingabita og setjið inn í ofn í u.þ.b. 20-30 mín., ef þið notið hvítvín er því hellt yfir rétt áður en allt er sett inn í ofn og hellið því þá í kringum kjúklingabitana ekki yfir. (það er mjög gott að hella pönnurestunum yfir kjúklinginn)
4. Á meðan kjúklingurinn er í ofninum eru grjónin sett yfir og salatið gert klárt(ef það er haft með, ég er vön því að hafa ferskt salat með öllum mat).

Þetta tók mig ca. 50 mín. að gera og það er með öllu uppvaski þar sem ég bý ekki svo vel að hafa uppþvottavél, ég hef beðið jólasveininn margsinnis um eina slíka en svo virðist sem hann bara heyri ekki í mér, merkilegt nok!

Daginn eftir fór maðurinn minn í búðina, tók ekki með sér innkaupalista og eyddi að sjálfsögðu allt of miklu, en látum það nú liggja á milli hluta. Hann var þó mjög sniðugur í þeirri ferð því hann keypti salsasósu, sýrðan rjóma og tortillur(frá Bónus, mjög ódýrar) og þar var kvöldmaturinn kominn. Afgangarnir af kjúklingnum, grænmetinu og grjónunum var hent á pönnu með smá salsa, tortillurnar hitaðar og allt sett inní, rúllað upp e vuola! kvöldmaturinn tilbúinn. Þetta tók manninn minn ca. 10 mínútur að laga lesendur góðir og tja ég verð nú bara að segja að fyrir mig var þetta bókstaflega eins og maturinn hefði bara hoppað ofan í pottana og kryddað sig sjálfur!

Tuesday, December 16, 2008

jólajóla...stress...

Það er byrjað...jólastressið.
Mér finnst ég þurfa að gera hundrað þúsund hluti og það fyndna við þetta allt saman er að ég er ekki að gera neitt af því!
Ég þarf nú reyndar að finna eftirrétt fyrir aðfangadag, það eru komnar nokkrar hugmyndir og það er svona að greiðast úr þeim hægt og bítandi.
Það er nú lítið um heilstæðan matseðil þessa dagana þar sem maður er á þönum hingað og þangað og ekki einu sinni heima hjá sér í kvöldmat. En í kvöld var þó hent í kartöflusalatið góða og með því var síld og rúgbrauð og köld lifrarpylsa fyrir snúlluna. Henni fannst það alveg æðislegur matur, kartöflusalat og lifrarpylsa, ekki slæmt það.
Maður kannski hendir í sítrónukjúkling vol. III á morgun þó það sé erfitt að ákveða svona fyrirfram þessa dagana en það er planið og plan er góð byrjun.
Ég þyrfti að finna eitthvað gott til að búa til úr rófum, það varð nefnilega smá misskilningur á milli mín og mannins míns sem gerði það að verkum að ég á núna 3 risastórar rófur inni í ísskáp. Ég hef nú aldrei verið neitt sérstaklega fyrir þær en það er aldrei að vita nema maður detti niður á eitthvað sniðugt úr því.

Wednesday, December 10, 2008

Matseðill fyrir vikuna 10.des-

Desember er nú meiri mánuðurinn, það er ekki stundarfriður. Ekki það að það sé eitthvað slæmt, þetta minnkar matarinnkaupin verulega en kannski hækkar á hinn bóginn gjafakaupsreikninginn. Það er bara svo gaman að gefa. Desember er fullur af afmælum í báðum fjölskyldum okkar hjónanna, þetta þýðir að matseðillinn fer úr skorðum og allt fer í bölvað rugl, en hver slær þó hendinni gegn gómsætum afmælismat? Ég er nú svo lykkelig að koma úr fjölskyldu sem er mjög fær í eldhúsinu og það sama má segja um fjölskyldu eiginmannsins þannig að við höfum legið í vellystingum síðustu vikurnar og ekki verður neitt lát á næstu vikurnar. Við vorum því í gær í afmæli tengdamóður minnar og förum svo í afmæli systur minnar á föstudaginn og svo er vinna á laugardaginn og á sunnudaginn er okkur boðið í jólahlaðborð, já lífið er svo sannarlega ljúft.
En maður þarf víst að borða í dag og á morgun. En það verður ekki stuðst við flóknar uppskriftir í þessari viku því í kvöld vorum við með snarl eins og móðir mín kallar það. Þá er það síld og rúgbrauð og svo kartöflusalat með. Uppskriftin af því er hér á síðunni. Á morgun verður svo slátur með rófustöppu, ég ætla að fara gegn því sem maðurinn minn vill og hafa kartöflustöppu með líka, mér finnst það nauðsynlegt, honum hins vegar finnst nóg að hafa rófustöppuna. Maður kannski prófar að gera eins og Skotarnir og hella viskíi inn í lifrarpilsupokann rétt eftir að hann er opnaður, vera soldið villtur....

Wednesday, December 3, 2008

Sítrónukjúklingur vol.II

Jæja sjáum nú hvernig þessi gekk. Sverrir gleymdi að taka kjúklinginn úr ísskápnum eftir að hafa verið í frosti þannig að það var pastasalat í gær en í kvöld verður sítrónukjúklingurinn og uppskriftin er svona:

Sítrónukjúklingur vol.II

1 kjúklingur
2 sítrónur, safi og börkur rifinn
4 hvítlauksrif
1 msk salt
50 ml ólífuolía, extra virgin
1 msk rósmarín(ég átti bara þurrkað í þetta skiptið)
100 ml vatn

Aðferð:
1. Allt nema kjúklingurinn er hrært vel saman í skál og hellt yfir kjúklinginn.
2. Eldað í 200°C heitum ofni í klukkustund.

Borið fram með hrísgrjónum og salati

Aths. Ég ætlaði að setja kjúklingakraf með líka en gleymdi því þannig að þið megið búast við sítrónukjúkling vol.III. En spennandi....

Monday, December 1, 2008

Matseðill fyrir vikuna 02.- 04.nóv.2008

Ég hef nú sett inn þónokkrar myndir með réttum hér á síðunni og ég vona að einhvern daginn fái ég myndavél sem er betri en sú sem ég hef nú því að þessar myndir eru ekkert til að hrópa húrra fyrir, en þær eru þó myndir. Ég mun setja inn uppskriftir af réttum úr afmælinu svona af og til á næstu dögum, eftir því sem tími vinnst til þessa.
Matseðillinn þessa vikuna verður einfaldir réttir og ekki tímafrekir, þar sem ég er komin í mikla vinnu um helgar ásamt því að vinna á daginn þannig að þreytan mun segja aðeins til sín. Engin afsökun þó þar sem ég veit að venjulegir foreldrar gera það sama, aldrei tími fyrir eldamennsku. Ég verð hins vegar að vinna á kvöldin frá föstudegi til sunnudags þannig að þá verður eiginmaðurinn og dóttirin í mat hjá tengdó, ef ekki þá læt ég hann segja mér hvað hann bjó til og ég set það inná síðuna.

Matseðill vikunnar 02-04. nóv

Þriðjudagur

Sítrónukjúklingur vol.II
Best að reyna aftur og athuga hvort ég detti niður á góða uppskrift

Miðvikudagur

Slátur
Fyrst maður var nú að taka slátur er þá ekki best að borða það líka?

Fimmudagur

Pastasalat
Önnur tilraun við pastasalatið en það er uppskrift af því hér á síðunni, nema maður breyti eitthvað til... aldrei að vita nema maður verði ævintýragjarn á fimmtudaginn.