Tuesday, October 14, 2008
Grænmetislasagna
Ég dreif mig út í búð í dag og keypti allt í matseðilinn góða og viti menn það var ekki nema 6500 kall!! það þykir mér vel sloppið fyrir kvöldverð 6 kvöld fyrir þrjá. Ég reyndar á við eitt vandamál að stríða tja ef vandamál má kalla, ég kann ekki að elda bara fyrir þrjá, það er í flestum tilfellum fyrir 4-6 manns, sem er gott þá fær Sverrir maðurinn minn nesti næsta dag.
Í grænmetislasagna er svo sem hægt að nota hvaða grænmeti sem er en ég hef verið að gera þetta í þó nokkur ár núna og hef komist að þeirri niðurstöðu að það er lang best með þessu tiltekna grænmeti sem er í þessari uppskrift. Það er kannski dýrt í kílóaverði en það þarf svo lítið af því að það kemur nokkurn veginn út á það sama.
Grænmetislasagna
f/6 manns
1/2 eggaldin skorið í þríhyrninga
1/2 zucchini, kúrbítur, skorið eins
2 laukar, sneiddur
1 fennel, kjarninn fjarlægður og skorið í sneiðar
1 rauð paprika, skorin í þunnar ræmur og svo í tvennt
4 litlar gulrætur, sneiddar
2 dósir heilir tómatar
1 msk tómatpaste
4 greinar timian(má sleppa)
1/2 grein rósmarín(má sleppa)
1 tsk balsamico edik
100 ml/1 dl hvítvín(má sleppa og má vera rauðvín)
1 kjúklingakraftsteningur(má einnig nota grænmetistening)
salt og pipar
ostsneiðar og parmesan(ef vill)
100 ml/1 dl extra virgin ólífuolía
4 hvítlauksrif, sneidd
500 gr kotasæla
lasagnaplötur
Aðferð:
1. Skerið allt grænmeti
2. Takið stærsta pottinn ykkar og hellið olíunni í og setjið á hæsta hita, þegar olían er heit er öllu grænmetinu og hvítlauk hellt út í og steikt í ca. 10-15 mínútur eða þar til allt er vel meyrt
3. Þegar allt er vel meyrt er edikinu hellt saman við og látið sjóða niður þá er hvítvíninu hellt saman við og látið sjóða örlítið niður.
4. Þegar það hefur soðið niður er tómötunum bætt saman við ásamt tómatpaste og öllu kryddi ,salti og pipar og tening, brytjið tómatana með sleifinni og hrærið vel saman og látið sjóða í 10 mínútur.
5. Setjið smá af grænmetissósunni í botninn á eldföstu móti og leggjið lasagnaplötur ofan á og þá aftur sósu og dreifið kotasælu yfir og svo aftur lasagnablöð og svo koll af kolli þar til sósan hefur klárast. Athugið að efsta lagið á að vera lasagnaplötur kotasæla og ostur. Dreifið rifnum parmesan yfir ef hann er notaður.
Bakið í ofni í 30 mín við 180°C.
Aths. Ég mun nota afganginn af grænmetinu í fiskiréttinn seinna í vikunni og einnig í brasseraða súpukjötið
Gott er að búa til salat úr icebergsalati með ristuðum furuhnetum eða einvherju gómsætu úr skápunum ykkar. og jafnvel brauð líka. Ég kaupi alltaf frosið brauð en það er ódýrast,svo er líka gott að hafa venjulegt ristað brauð og jafnvel strjúka það létt með hvítlauk og smyrja með smjöri.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment