Þetta var nú alveg hreint frábær dagur. Fyrst var farið með allan krakkaskarann í fjöruferð svo þegar heim var komið um fjögur leytið var byrjað á pizzugerð. Við gerðum þetta alveg eins og þeir gera á Ítalíu, en það var þannig að hveitið er sett í haug á borð og svo gerð smá hola í hauginn og þar setur maður salt,þurrger, olíu og volgt vatn og svo fengu allar hendur að kremja og hnoða og pota í hauginn með yfirsjón minni að sjálfsögðu. Krökkunum fannst þetta alveg frábært. Á meðan deigið hefaðist fóru krakkarnir út að leika svo þegar átti að fletja út og setja á þá komu þau inn og fengu öll að gera sínar pizzur, svo voru þær settar inn í 250 gráðu heitann ofn í 20 mínútur og þá réðust þau á pizzurnar og hámuðu þær í sig. Alveg hreint ótrúlega skemmtilegt!
Ekta napólskar pizzur
f/2 pizzur ég mæli með 4 pizzum(þunnum) fyrir 5-6 manns
400 gr hveiti
7-10 gr þurrger
1 glas volgt vatn
4-5 msk ólífuolía
salt(fínt borðsalt, ekki flögu)
Aðferð:
1. Allt fyrir utan vatnið er sett í haug á borð og vatninu blandað saman við lítið í einu og hnoðað þar til deigið er orðið glansandi fínt.
2. Látið hefast í klukkustund á volgum stað, t.d. ofan á ofni.
3. Deigið er flatt út og tómatsósan sett á og álegg sem hverjum og einum þykir gott, toppað með rifnum osti og bakað við 250+ gráður í 20 mín.
Ítölsk pizzasósa
2 dósir heilir niðursoðnir tómatar
4 msk extra virgin ólífuolía
smá óreganó
1-2 hvítlauksrif, kramin eða skorin smátt
Aðferð:
1. Tómatarnir skornir smátt og allt sett í pott og soðið niður þar til orðið nokkuð þykkt.
Ég mæli með því að hella smávegis af ólífuolíu yfir pizzurnar um leið og þær eru teknar út úr ofninum, það gerir þær aðeins safaríkari og að gera eina uppskrift í einu, þannig er hægt að vera með eina í ofninum, að vinna í einni og jafnvel krakkarnir byrjaðir að borða eina.
Sunday, October 12, 2008
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment