Tuesday, October 7, 2008

KREPPUTAL

Jæja þá hef ég nú séð þessa síðu almennilega fyrir mér og hef ákveðið að setja þetta upp fyrir þá sem hafa ekki hugmynd um hvað á að elda eftir hvern vinnudag og hvernig á að haga sér í þessari blessuðu kreppu. Þannig er nú mál með vexti að ég fór í fjármálaráðgjöf hjá Spara.is og þar má segja að ég hafi rankað við mér, nú er að duga eða drepast og láta ímyndunaraflið fara á flug, elda ódýrt en gott. Það verður haldið í hefðir en ekki farið eftir öllum reglum ömmu gömlu, það má aðeins breyta til ekki satt?!
Ég hef nú byrjað að setja saman matseðil fyrir vikuna og eftir að hann hefur verið festur niður á blað þá fer ég í búðina(södd!) og kaupi ekkert annað en það sem stendur á miðanum og versla aðeins einu sinni í viku. Þetta gerðu foreldrar mínir öll mín uppvaxtarár og voru ekki flestar ömmur og afar með hið svokallaða búr, sem einmitt er einnig stolt Nigellu sjónvarpsmatgæðings. Þetta væri mikið þarfaþing á hverju heimili í dag. Ég er þó ekki svo heppin að hafa pláss fyrir þess háttar lúxus en ég nota það sem ég hef til fulls.
Matseðillinn hangir á ískápnum en hann er þó ekki algerlega heilagur, t.d. ef miklir afgangar verða þá nýti ég þá að sjálfsögðu daginn eftir, í flestum tilfellum ekki í sömu mynd, ég er allt of nýungagjörn til þess.
Hér inn á þessa síðu ætla ég því að setja inn matseðil vikunnar og ef ykkur finnst þetta kannski of hversdagslegt eða gammeldags, tja þá kalla þessir tímar sem við lifum á á þess háttar matargerð. Ég efast þó um að ég standist mátið að gera mér glaðan dag svona af og til og gera eitthvað magnað og fáránlega dýrt. Það verður alltaf til staðar hjá mér, kannski bara ekki á hverjum degi.
Ég set saman matseðilinn á mánudagskvöldum þar sem þriðjudagar eru frábærir til að versla, þá á ég búðina algerlega fyrir mig og allt/flest er nýtt í hillunum.

Matseðill fyrir vikuna 6.-13.okt.

Þriðjudagur.

Spaghetti Bolognese
Kallinn minn þarf að elda og er þetta frábær pabbaréttur, hann var alltaf bestur hjá pabba og Sverrir er að verða alger snillingur í honum og krakkarnir elska hann.

Miðvikudagur

Marbellakjúklingur með hrísgrjónum og salati
Það er til kjúklingur í frystinum, ólífur og capers er alltaf til í ískápnum og púðusykur í tupperware, tilvalið að nýta það sem maður á í skápunum.

Fimtudagur


Steiktur fiskur með tartarsósu og kartöflum

Allt of langt síðan ég var með fisk. Þessi liður gæti breyst, ef það verður mikill afgangur af kjúklingnum verður kannski naglakjúlli, aldrei að vita.

Föstudagur

Verð með veislu þennan dag, þannig að ætli ég borði nokkuð

Laugardagur


Krakkapizza

Ójá á laugardaginn ætla ég loksins að taka mig til og elda ekta napólskar pizzur og vonandi verð ég með fullt hús af krökkum til að hjálpa til, nú er eins gott að ofninn standi sig, eða kannski maður hendi þeim bara á grillið. (þ.e. pizzunum ekki krökkunum).

Sunnudagur


Þar sem við erum með vissa upphæð sem við megum eyða í vikunni ræðst sunnudagurinn af peningaafgangi vikunnar, það gæti verið steik og það gæti verið slátur með hafragraut. Kemur í ljós á sunnudaginn.

Vonandi líst ykkur vel á nýtt skipulag og ég lofa að vera með skemmtilegar uppskriftir í hverri viku.

3 comments:

Anonymous said...

Velkomin aftur á stjá!

Fylgja ekki svo örugglega uppskriftir með hverjum nýjum rétti á matseðlinum:)
Það er líka kreppa í Ameríku og hér eru gerðir matseðlar fyrir hverja viku. Frábært að fá hugmyndir frá þér til að gera matseðilinn aðeins fjölbreyttari.

Bið að heilsa Sverre!

Luv,

Kreppukryppan

Sigurrós Pálsdóttir matreiðslumaður á Vox said...

takktakk. jújú það verða allar uppskriftir settar inn!!!

Ólöf said...

Ég fylgist spennt með skvís:)