Ég ætla mér að vera sníkjudýr á morgun og sníkja mat hjá tengdó eða foreldrum mínum fer eftir hvor býður betur(eða kannski hvor býður) en í kvöld verða pulsur. Þið eruð ef til vill að velta því fyrir ykkur hvers vegna ég læt svona illa í eldhúsinu en ástæðan er að við erum að fara til lands matarástríðunnar, eða Ítalíu á fimmtudaginn og þar förum við í ekta suður-Ítalskt, mjög kaþólskt brúðkaup innilegrar vinkonu minnar en það vill svo til að hún er snilldar Michelin matreiðslumaður. Hún hefur unnið á einum frægasta veitingastað Ítalíu en hann státar hvorki meira né minna en 3 stjörnum(ekki hægt að fá meira) og hefur haldið þeim lengi, hann er staðsettur í hlíðunum fyrir ofan Napólí, hún sýndi mér hann einhvern tímann á netinu en ég bara man því miður ekki hvað hann heitir. Ég mun spyrja hana og setja inn slóðina hér síðar. Ég hlakka alveg rosalega til að fara til hennar og gæða mér á matnum hennar og það sem verður boðið upp á í brúðkaupinu. Ég er búin að geyma eins og 3-4 kíló til góða fyrir þessa ferð og mun því ekki hafa neitt samviskubit yfir þeim þegar ég kem heim, því ég veit að þau verða komin. Síðast þegar við vorum hjá henni þá var svoleiðis troðið ofan í okkur góðgætinu að við máttum hafa okkur öll við og greyið hann Sverrir minn fékk alltaf auka skamt án þess að biðja um hann og tja fyrir þá sem ekki þekkja manninn minn þá er hann mjög matgrannur og borðum við oftast jafnmikið þannig að hann þurfti að pína ofan í sig gúmmulaðið með tárin í augunum horfandi á mig með ,,þarf ég að borða meira?" spurninguna í augunum og ég með böðulsaugnaráði horfði til baka, vildi ekki móðga þessa góðu konu, skipandi honum að troða þessu ofan í sig.
Buxurnar okkar virtust hafa hlaupið eitthvað í þvottinum þarna hjá henni, skildi ekkert í því sérstaklega þar sem ég setti þær alls ekkert í þvott, en hvað um það.
Ég ætla að reyna að taka eitthvað upp á vídeó eins og ég gerði þegar ég fór upp að Gardavatni og tók upp þegar gamla konan var að elda Spiedini og setja hér inn á síðuna, vonandi næ ég einhverju skemmtilegu og áhugaverðu fyrir mataráhugafólk. Ég ætla líka að reyna að ná einhverjum uppskriftum upp úr vinkonu minni. Það getur verið flókið mál að fá góðar og gamlar uppskriftir upp úr þeim en mér hefur tekist að ná nokkrum en þarf og vil fleiri.
Þannig að ég mun hvíla þessa síðu þar til á föstudaginn í næstu viku og vonandi kíkið þið inn hjá mér þá.
Góðar stundi á meðan og Gleðilega páska!
Tuesday, March 31, 2009
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment