Saturday, March 7, 2009

Steikt ýsa með nokkurs konar Ratatuille og linsubaunum

Við áttum afganga af zucchini og eggaldini og urðum að nýta það þar sem það er hluti af dýra grænmetinu og kemst ekki oft inná innkaupalistann af þeim sökum, en er svo rosalega gott steikt, grillað eða marinerað. Þannig að mér datt í hug að nota þetta í einhvers konar ratatuille og þetta passaði alveg rosalega vel við fiskinn. Ég steikti hann á einfaldan hátt eins og ég gerði um daginn og var þetta dýrindis máltíð.

Steikt ýsa með ratatuille og linsubaunum
F/4
1 kg ýsa
smá hveiti
2 msk ólífur, saxaðar gróft
1 msk capers
150 ml hvítvín

Ratatuille
1/2 eggaldin, skorið í teninga
1/2 zucchini, skorið í teninga
2 gulrætur, skorið í teninga og forsoðið
1/2 laukur, saxaður gróft
1 dós af niðursoðnum tómötum, saxaðir eða heilir og svo saxaðir
1 tsk tómatpúrra
1 hvítlauksrif, kramið
salt og pipar eftir smekk

Aðferð:
1. Skerið grænmetið og hitið olíu á pönnu(helst extra virgin). Fosjóðið gulræturnar þar til þær eru næstum meyrar.
2. Steikið allt grænmetið saman á pönnunni þar til það er meyrt og hellið þá tómötunum ásamt vökvanum yfir og bætið tómatpúrrunni saman við. Saltið og piprið.
3. Roðflettið ýsuna og veltið upp úr hveiti og dustið allt aukahveiti af. Hitið olíu og smjörklípu(má sleppa) á pönnu og steikið við meðalháan hita þegar gullinbrún húð hefur myndast er fisknum snúið við og ólífunum og capers bætt saman við. Þegar gullinbrún húð hefur einnig myndast á seinni hliðina á fisknum er hvítvíninu hellt yfir og látið sjóða vel niður.
4. Ég hafði linsubaunir einnig með þessu og blandaði þeim saman við ratatuille eftir að hafa sett klassískt vinaigrette á það og það passaði svakalega vel og þannig gat ég drýgt matinn út í hið óendanlega. Þannig hefði ég getað sett kannski smá kjötbita, kjúkling eða bara mótað bollur og steikt fyrir afganga daginn eftir.

Berið fram með ratatuille og heitu brauði.

No comments: