Wednesday, March 18, 2009

Salade Nicoise

Eiginmaðurinn var eitthvað pirraður yfir að þurfa að fara í búðina og vita ekkert hvað Salade Nicoise er, en hér kemur uppskriftin og hann var hæstánægður með útkomuna í kvöld.
Þetta er klassískt salat sem hefur farið sigurför um heiminn, það er þó nokkuð misjafnt hvernig það er gert og hvað er nákvæmlega í því en samkvæmt hefðinni á það að vera aðeins öðruvísi en ég hafði það í kvöld, en aðaluppistaðan eru tómatar, ansjósur eða túnfiskur, grænar baunir(strengja,sykur eða þvíumlíkar), laukur, harðsoðin egg, svartar ólífur og ólífuolía. Samkvæmt reglunum má ekki setja eldað grænmeti eða kartöflur í þetta salat en eru reglur ekki til að brjóta þær?
Þetta er franskt salat nánar tiltekið frá Nice. Við stoppuðum einmitt í Nice síðasta sumar og mikið óskaplega er þetta falleg borg! Við kolféllum fyrir henni og hlakka ég mikið til að komast þangað aftur.
Salatið er létt og ferskt eins og Miðjarðarhafsbúum er einum lagið.

Salade Niciose
f/4
8 kartöflur, soðnar og skornar í fernt
6 harðsoðin egg, skorin í fernt
4 tómatar, vel þroskaðir og skornir í 6 báta
200 ml svartar steinlausar ólífur, ef þið eigið Kalamata væri það náttúrulega best
50 ml söxuð steinselja
300 ml túnfiskur í dós, í olíu, olíunni hellt af
4 ansjósur, má sleppa(sem ég gerði)
1/2 skallottulaukur eða 1/4 rauðlaukur, sneiddur mjög fínt
ef þið viljið er mjög gott að hafa léttsoðnar strengja-eða sykurbaunir en ég var búin með budgetið þessa vikuna þannig að það fékk ekki að rata í innkaupakörfuna

Dressing
1 1/2 tsk dijonsinnep
2 msk rauðvínsedik
4 msk olífuolía
1/2 tsk sykur
smá salt
vel af nýmöluðum pipar

Aðferð:
1. Sjóðið kartöflurnar og eggin
2. Á meðan blandið þið saman í skál tómötunum, ólífum,lauk og steinselju
3. Þegar kartöflurnar eru tilbúnar eru þær kældar þar til þær eru volgar, þá eru þær skrældar og skornar og settar á fat, tómata og ólífublöndunni er hellt jafnt yfir þær og eggjunum raðað í kringum salatið. Næstsíðast er túnfisknum dreift yfir og hann hafður í grófum bitum, síðast er dressingunni hellt jafnt yfir allt saman, e vuola'!

Dressing
Aðferð:
1. Sinnepi, ediki, salti og sykri er blandað saman og svo er olíunni hellt varlega saman við þar til hún þykknar örlítið.

Gott er að bera salatið fram með bökuðu baguette brauði. Einnig er mjög gott að hafa þetta ofan á baguette brauði og láta það liggja aðeins á brauðinu þannig að það sameinist í eitt(eða þannig)

No comments: