Saturday, April 11, 2009

Formaggi, salumi, prociutto cotto e crudo! Che vita meravigliosa!







Þá er maður komin heim úr mikilli matarferð til Ítalíu. Við vorum á stað sem heitir Fisciano og er pínulítill bær rétt hjá Salerno á suður-Ítalíu. Við vorum þar í brúðkaupi ítalskrar vinkonu minnar og borðuðum svo mikið að ég er alveg með það á hreinu að við höfum bætt á okkur nokkrum kílóum. Við fórum alltaf svo södd í rúmið og alltaf var maður að malda í móinn og reyna að borða minna en það var bara ekki tekið neitt mark á því. Við fórum í pastabúð til að kaupa pasta og spaghetti fyrir brúðkaupið, við fórum með bróður brúðgumans og hann fór svo allt í einu eitthvað að hvísla að afgreiðslustúlkunni sem kinkaði svo kolli, svo kallaði hann á okkur og sagði okkur frá því að þetta væri í rauninni lítil pastaverksmiðja sem framleiddi pasta fyrir frægustu og bestu veitingastaðina á Ítalíu, þ.á.m. staði sem hampa michelin stjörnu, ekki nóg með það sagði hann að nú fengjum við sýnistúr um verksmiðjuna með eigandanum. Ég fékk að sjá hvernig þetta er gert frá grunni í 300 ára gamalli verksmiðju í pínulitlum bæ á suður-Ítalíu, mér fannst ég vera heppnasta manneskja í öllum heiminum! Þetta var svo áhugavert að ég missti næstum vatnið. Vélin sem þeir nota er eldgömul en pínulítil í rauninni, svo sáum við hvaðan vatnið kemur og hversu mikilvægt það er í framleiðslunni, en þeir halda því fram að vatnið þarna suðurfrá sé það besta á Ítalíu og því nær sem maður fer Napólí því betra er það í pizzur, pasta og kaffi, og að það sé einmitt þess vegna sem þessir hlutir eru bestir í Napólí. Næst var okkur sýnt hvernig það er þurrkað og hvernig þeir gera einungis eina tegund í 1-3 daga og svo taka þeir til við annað form á pasta. Einu sinni í viku gera þeir svo litað pasta eins og svart með kolkrabbableki, en þeir nota ekta blek sem er geymt í kæli hjá þeim og svo ýmis önnur bragðefni, spínat og fleira. Ég set hér inn nokkrar myndir af þessu, vonandi þykir ykkur þetta eins áhugavert og mér. Við keyptum nokkra pakka og gerðum sl pomodoro í gærkvöldi og það hefur aldrei smakkast eins vel!
Við gæddum okkur einnig á heimagerðu rauðvíni og ég hef nú þegar sett inn beiðni til vinkonu minnar um uppskriftina að því, en þau gera það úr ferskum vínberjum og það var rosalega gott, svona heimilisvín að sjálfsögðu.
Brúðkaupið var svo kapítuli útaf fyrir sig, þvílíkt og annað eins hef ég aldrei séð eða heyrt af! Þegar við komum úr kirkjunni þá keyrðum við í klukkutíma að hótelinu þar sem veislan fór fram og var okkur beint inn í einn sal og þar beið okkar forréttarhlaðborð, reyndar héldum við að þetta væri aðalmaturinn þar sem það var svo glæsilegt og mikið af réttum á því en þ.á.m. voru ostrur, kræklingur, túnfiskur, reyktur lax, alls konar fritto misto sem er djúpsteikt grænmeti eða fiskmeti svo voru þarna frittatas, mozzarella og pomodoro, snittur og margt margt fleira. Ítalirnir ruddust að borðinu og því miður fékk ég aðeins að smakka á helmingnum af góðgætinu því þeir kláruðu allt saman á 3-5 mínútum, ótrúlegt! En við þurftum nú ekki að örvænta því næst beið okkar sitjandi hádegisverður í ca.6 klukkutíma eða 6 réttir svo eftir það var boðið uppá 2 tegundir af tertu, brúðkaups-og skýrnarterta og svo eftir það var súkkulaðigosbrunnur með litlum smjördeigshjartalaga tertum og eftir það súkkulaði og koníak eða limoncello og vindlar til að toppa þetta allt saman. Vínið var ekki sparað allan tíman en það einhvern veginn þannig með Ítalina að þeir verða ekki drukknir þó svo að þeir séu að drekka í 6 klukkutíma. Það var náttúrulega borðað ótæpilega á þeim tíma sem auðvita skiptir máli. Ef þið einhvern tímann fáið tækifæri til að fara í Ítalskt brúðkaup mæli ég eindregið með því.
Hér læt ég fylgja með nokkrar myndir. Á myndunum má sjá pastavélina, þar sem pastað kemur út og er sett á viðargrindur, Viðargrindunum er svo staflað upp í litlu herbergi með gríðarstórri viftu þar sem það er þurrkað í ca.3 daga það fer þó eftir raka utandyra þar sem pínulítill gluggi er á þurrkherberginu og þetta fer allt saman eftir því hvort verkstjóranum þyki pastað vera tilbúið eða ekki. Þarna er einnig hægt að sjá tilbúið pasta í heljarinnar stórum pokum sem eru fluttir út á land á hina ýmsa veitingastaði og sérverslanir.

No comments: