Wednesday, March 25, 2009

Skyndibitavika

Þessi vika verður mjög sérstök, því peningurinn er að verða uppurinn svo að við gátum aðeins keypt nauðsynjar í búðinni og þá var lítið eftir fyrir kvöldmat. Í gær vorum við því með spaghetti pomodoro sem ég hef sett uppskriftina að hér á síðuna. Ég reyndar bragðbætti með soðsósunni af Stroganoffinu og varð sósan algjört æði!!!
Ég held ég verði að taka þessa viku dag fyrir dag og sjá hvað er til í skápunum hjá mér, en ég fer ekki út í búð sama hvað á gengur, það er á hreinu!
Hausinn er núna búinn að liggja í bleyti alllengi og ég á sem sagt kartöflur,brauð, fullt af eggjum og eitthvað fleira. Ég stakk upp á kartöflusalati með túnfisk en eiginmanninum langaði ekki í það, þá kom hann með eggjaköku en okkur stelpunum langaði ekki í það, en við gátum öll sæst á samlokur með skinku, osti, gráðosti, sinnepi(dijon) jafnvel steiktar upp úr smjöri og steiktar kartöflur með saffran og steinselju.
Samlokurnar útskýra sig sjálfar en kartöflurnar eru svona:

Steiktar kartöflur með saffran og steinselju
f/4
400 gr kartöflur, soðnar
saffran á hnífsoddi
1 msk steinselja, söxuð
Smjörklípa

Aðferð:
1. Kartöflurnar eru soðnar
2. Saffran er sett með smjörinu á pönnu ásamt steinseljunni og síðan kartöflurnar og þetta steikt þar til kartöflurnar verða fallega fullinbrúnar.

No comments: