Sunday, March 2, 2008

Brasseraður kjúklingur með hvítlaukssveppum og beikoni




Þessi kjúklingur sló svo sannarlega í gegn á heimilinu og er að nokkru stolinn frá hinni klassísku uppskrift "Chicken Bonne Femme", sem er einmitt ein af mínum uppáhaldsklassíkerum í matreiðslunni. Hér er ég þó ekki með alvörusoð og reyni að aðlaga þetta að hinu venjulega heimili. Þessi uppskrift þarfnast örlítillar þolinmæði en lítillar natni. Þannig að það er meira að bíða eftir því að hlutirnir gerist en að þurfa að vinna mikið.
Í þessari uppskrift(fyrir þá sem búa annars staðar en á Íslandi) er hægt að nota kálfakjöt eða jafnvel svínakjöt en þá er mikilvægt að nota vöðva sem tekur u.þ.b. 30-45 mínútur að elda. Sem sagt ekki mjög seiga vöðva en þó ekki vöðva sem eru notaðir til að grilla eða steikja.
Í kvöld notaði ég kjúklingabringur þar sem það var það sem var til í ískápnum en ég mæli frekar með kjúklingahlutum sem eru með beinum, best væri að kaupa heilan kjúkling og hluta hann niður.

Brasseraður kjúklingur með hvítlaukssveppum og beikoni

F/4
1 kjúklingur eða 800-1000 gr kjúklingabringur eða annað kjöt
2 hvítlauksrif, heil eða skorin gróft
2 skallottlaukar(um 65 gr), gróft saxaðir
150 gr beikon, skorið í bita
270 gr sveppir, skornir í litla bita
1 stór gulrót. skorin í litla ferninga
1 og 3/4 kjúklingakraftsteningar
400 ml vatn
50 ml hvítvín
50 ml balsamic edik
1 1/2 tsk tómatpaste
1 lárviðarlauf
1 rósmaríngrein,lítil
3 salvíulauf
salt og pipar
30 gr smjör
ólífuolía

1300 gr litlar fallegar kartöflur
smjörklipa og ólífuolía
salt og pipar

1. Skerið grænmetið og beikonið og kjúklinginn ef þið eruð með heilan kjúkling.
2. Skerið kartöflurnar í báta og setjið í eldfast mót ásamt smjöri, olíu,salti og pipar og setjið í ofn við 200°C, bakið í ca.30-40 mínútur.
3. Takið stóran, þykkbotna pott, ef þið eigið Le cruisette er hann bestur ef ekki er best að gera þetta fyrst á pönnu og svo setja í eldfast mót sem annað hvort er hægt að loka eða ef það er ekki til heldur, setja þá álpappír yfir.
Steikið beikonið fyrst upp úr 20 gr af smjörinu, þegar það fer að taka lit er lauknum,sveppunum og gulrótinni bætt útí. Þegar þetta er farið að taka lit er þetta fært í skál og restinni af smjörinu og smá olíuslettu bætt útá pönnuna(pottinn)og kjúklingurinn er steiktur þar til hann fær á sig gullinbrúnan lit, þá er hann saltaður og pipraður. Því næst er hvítvíninu og balsamic edikinu bætt útí og látið sjóða niður á fullu blússi í ca.4 mínútur( um leið og vökva fer að þrjóta er slökkt á hitanum).
4. Þá er þetta allt saman sett í eldfast mót (eða haft í le cruisette pottinum)fyrir utan kartöflurnar, ásamt kryddi,krafti,vatni,hvítlauk og tómatpaste. Þetta er svo sett í ofn við 190°C í 30-40 mínútur.*ath. Mínúturnar eru miðaðar við heila kjúklingabita þetta getur verið misjaft eftir stærð kjúklings eða annars kjöts ef það er notað, því stærra því meiri tími. Gott er að fjárfesta í einföldum litlum kjötmæli til að mæla kjúkling og á hann að sýna 72° þegar honum er stungið í miðjan kjúklinginn.
5. Þegar kjúklingurinn er tilbúinn er hann tekinn uppúr og haldið heitum í álpappír, eða eins og ég gerði í öðrum potti, og vökvinn sigtaður frá öllu saman og settur í víðan pott, sett á fullan hita og látið sjóða hratt niður í ca. 10-15 mínútur. Eða þar til hann þykknar örlítið. Þegar það er tilbúið er hægt að bera allt saman fram eins og fólki þykir þægilegast. Ég bar þetta fram í eldföstu móti eins og myndin sýnir þá eru kartöflurnar undir og svo kjúklingurinn og sveppirnir og beikonið á milli.

*Hægt er að þykkja sósuna með smjörbollu ef ykkur þykja þannig sósur betri. Ef þið notið alvöru kjúklingasoð(já maður veit aldrei hverju fólk lumar á) þá er hægt að sjóða soðið alveg niður þar til það er orðið vel þykkt og þá er örlítilli smjörklípu bætt útí og þá eruð þið komin með eðalsósu sem eru venjulega bornar fram á veitingastöðum.

4 comments:

Azzam said...

Jæja búin að prófa túnfisksalatið, mjög gott og gerði í kvöld fiskinn með gulrótarklöttunum og sósunni og það var geðveikt. Meira að segja guttarnir mínir tveir sem borða ekki fisk nema honum sé fyrst drekkt í tómatsósu átu þetta með bestu lyst og báðu um meira. Vildu heldur ekki vera minni menn en litla stelpan á Ítalíu sem borðar þetta á hverjum degi (eða því laug ég allavega að þeim ;).
Lasagna næst á dagskrá og svo kjúklingurinn. Bíð spennt eftir meiru ;)

Takk fyrir mig!
Luv,
Ragnhildur

cockurinn said...

Glæsilegt!!! Líst vel á þig maður. Ég fæ því miður að vera svo sjaldan með tölvuna þess vegna kemur þetta inn í skorpum, en ég fæ lánaða tölvu í þarnnæstu viku og þá verður þetta líklegast á hverjum degi,eitthvað nýtt.
Takk fyrir áhugann....

Anonymous said...

Kjúklingarétturinn verður gerður aftur á þessu heimili og lasagnað líka. Hvortveggja æði gott!!!!!

Takk fyrir mig og ég vil meira ;)

RS

Sigurrós Pálsdóttir matreiðslumaður á Vox said...

Glæsó:)