Friday, March 14, 2008

Marineraður kryddjurta og sítrónukjúklingur


Nú þegar vorið er að koma, ja hér á Ítalíu kannski ekki enn komið heima á Íslandi, þá fara markaðirnir að fyllast af nýjum og girnilegum kryddjurtum. Ég ákvað því að drífa mig á markaðinn og keypti allar þær kryddjurtir sem mig langaði í, ásamt heilu kílói af jarðaberjum sem ég verð nú að gera eitthvað úr á næstu dögum. Þessi kjúklingur er reyndar mjög líkur kjúklingnum hennar mömmu, sem við höfum eldað að minnsta kosti einu sinni í viku síðan ég man eftir mér, en ég ákvað að breyta aðeins til og bæta fullt af fersku kryddi saman við og úr varð alveg hreint geggjaður kjúklingur.

Marineraður kryddjurta og sítrónukjúklingur
f/6-8

2 stórir ferskir kjúklingar
2 sítrónur +
2/3 meira af extra virgin ólífuolíu(helli sítrónu safanum í glas og helli 2/3 meira af ólífuolíu)
hálfur hvítlaukshaus
1 msk salt
3 greinar rósmarín, blöðin strokin af
5 greinar timian, blöðin strokin af
3 greinar basilíka, blöðin strokin af og rifin
3 msk steinselja, söxuð gróft
nýmalaður pipar
400 ml basmati eða Jasmin hrísgrjón
800ml vatn
ferskt salat með tómötum og parmesan osti
rifinn parmesan ostur

1. Blandið olíunni og sítrónusafanum saman og bætið svo restinni af hráefnunum saman við, hrærið vel með gaffli. Leggjið kjúklingana í fatið sem þið ætlið að elda hann í, ég og mamma höfum alltaf notað leirpott sem er hentugast, en ég hef líka gert þetta í svörtum stórum ofnpotti og það hefur virkað, en látið kjúklinginn marinerast í frekar litlu íláti til þess að hann liggi í marineringunni. Látið hann marinerast í a.m.k. klukkutíma ég lét hann marinerast í 3 klukkutíma og varð hann ofboðslega safaríkur við það.
2. Bakið hann í ofni við 200°C ef þið notið leirpott en ef ekki þá bakið hann við 180°C í klukkutíma. Fyrsta hálftímann lét ég hann bakast með bringuna niður til þess að fá vökvann í bringuna og svo seinni hálftímann með bringuna upp til að fá á hann fallega gullinbrúnan lit og örlítið stökka húð.
3. Berið fram með Jasmín eða Basmati hrísgrjónum sem eru sett upp um leið og þið snúið kjúklingnum við. Best er að sjóða þau hrísgrjón þannig að þið látið suðuna koma upp og svo setjið hitann á lægsta og hafið pottinn hálfann á hellunni í ca 20 mínútur.
Þetta er einnig gott að bera fram með fersku salati með tómötum og parmesan osti og svo er parmesan ostur rifinn yfir kjúklinginn og hrísgrjónin.
4. Vökvinn og olían sem fellur af kjúklingnum er notuð sem sósa á hrísgrjónin og kjúklinginn.

No comments: