Tuesday, February 26, 2008

Lasagna


Hér ætla ég að setja inn lasagna eins og ég geri það frá grunni, þá meina ég að ég geri tómatsósuna líka en það er alveg hægt að nota annaðhvort heila tómata úr dós og skera þá í bita áður en þeir eru settir útí kjötið eða saxaða tómata úr dós.
Til þess að fá fullkomna tómata mæli ég með því að þeir séu keyptir nokkrum dögum áður en sósan er búin til og látnir standa við stofuhita. Á þennan hátt verða þeir rauðir, fallegir og svakalega safaríkir.

Lasagna

Tómatsósa

10- 12 tómatar, stórir og eldrauðir1
1/2 stór laukur, skorinn í sneiðar
50 ml ólífuolía
1 tsk rósmarín
1/2 tsk óreganó
1/2 msk balsamic edik
salt og pipar

1. Tómatarnir eru blancheraðir en það þýðir að það er skorinn kross á endann á honum og svo dýft í sjóðandi vatn í3 mínútur eða þar til fer að flettast upp úr krossinum þá er tómatarnir teknir upp einn og einn þegar þeir eru tilbúnir og settir í ísvatn eða í skál sem er sett undir rennandi kalt vatn, kældir alveg niður, þá eru þeir afhýddir.
2. Olían er hituð og laukurinn léttsteiktur yfir meðal hita þar til hann er orðinn vel mjúkur en hefur ekki tekið lit.
3. Tómatarnir eru skornir í bita og bætt útí laukinn, ásamt oreganóinu og rósmaríninu, þetta er látið malla rólega við lágan hita í 30-45 mínútur. Þá er þetta múlað með töfrasprota, og látið malla enn frekar í 10 mínútur. Edikinu bætt útí og saltað og piprað.

Kjötsósa fyrir lasagna

500 gr kjöthakk
1 gulrót
1/2 sellerístöngull
ólífuolía
300 ml vatn og 1 teningur kjötkraftur
100 ml hvítvín
1/2 laukur(þessu er sleppt ef búin er til tómatsósan sem er hér á undan)
Tómatsósan eða 1 dós tómatar
salt og pipar

1. Gulrótin og sellerístöngullinn er skorið í mjög smáa bita og laukurinn ef hann er notaður. Þetta er mýkt í olíu á pönnu og þegar pannan er orðin vel heit er kjöthakkinu bætt saman við, þetta er allt saman steikt þar til kjötið hefur náð smá lit.
2.Þá er hvítvíninu bætt útí og látið sjóða aðeins niður. Þá er tómatsósunni bætt saman við ásamt kjötsoðinu.
3.Þetta er látið sjóða í ca.20 - 25 mínútur við lægsta hita.

Bechamel sósa fyrir lasagna

1 ltr nýmjólk
30 gr smjör
35-40 gr hveiti
salt og pipar

1. Bræðið smjörið í potti sem tekur 1-1/2 ltr. bætið hveitinu saman við og búið til bollu
2. Hellið mjólkinni útí, 300 ml í einu, og pískið vel saman þar til allir kekkir eru farnir, þetta er allt saman gert yfir meðal hita.
Þegar mjólkin sýður er næstu 300 ml bætt saman við og svo koll af kolli þar til réttri þykkt er náð. Þetta á að vera svolítið þykkt eins og þykkt uppstúf. þá er þetta saltað og piprað að smekk.

Í þetta þarf að auki ost(Gouda eða mozzarella) og parmesan ost

Allt sett saman:
1. Hitið ofninn í 190°C.
2. Takið eldfast mót og smá ausu af bechamel sósunni í botninn og svo lasagnaplötur ofan á, þá setjið þið kjötsósuna og svo bechamelsósuna þar ofan á og þá annað lag af lasagnaplötum og svo koll af kolli þar til fatið er næstum fullt, síðasta lagið á að vera lasagnablöð bechamelsósa og svo ostsneiðar(gouda, eða fyrir þá sem vilja spreða mozzarella) og svo er heilmikill parmesanostur rifinn smátt yfir.
3. Bakið í ofni í 30-45 mínútur eða eins og segir á pakkningunum sem fylgja lasagnaplötunum(misjafnt eftir plötum eins og með pastaið). Ef osturinn brúnast of hratt er settur álpappír yfir. En ef osturinn brúnast of hægt er hægt að setja grillið á síðustu 5 mínúturnar.

Berið fram með rucolasalati með tómötum og ristuðum furuhnetum og munið að salta salataið, það er lang best þannig. Eða eins og Ítalirnir segja að þá er salat án salts eins og kaka án sykurs.




2 comments:

Anonymous said...

ég prófadi steikta fiskinn med kartöfluhreidrunum, öllum fannst thad rosalega gott....thúsund thakkir fyrir thetta frábaera blog!!

harpa og matgóda fjölskyldan

cockurinn said...

ÆÐISLEGT!!! rosalega er ég ánægð með það. Takktakk