Wednesday, March 19, 2008

Heimatilbúinn jarðaberjaís

Ég var svo heppin að fá ísgerðarskál sem fylgihlut í Kitchenaid vélina í brúðkaupsgjöf og hef því verið að prófa mig áfram með ýmsa ísa. Fyrsta skiptið sem ég notaði skálina þá varð ísinn að sjeik en nú er ég farin að þekkja hana aðeins betur og þessi ís kom fullkomlega út, betri en nokkur jarðaberjaís sem ég hef smakkað. En því miður fyrir þá sem ekki eiga ísgerðarvél eða skál þá verð ég að segja að þennan ís er einungis hægt að gera í þess konar græjum.

Heimatilbúinn jarðaberjaís
(ég helmingaði þessa uppskrift fyrir 4-5)
f/8-10 með öðrum eftirrétt

500 gr jarðaber, hreinsuð og græna skorið af
300 ml sykur
1 msk sítrónusafi
300 ml rjómi
300 ml nýmjólk
4 stórar eggjarauður
1 tsk vanillusykur

1. Hakkið jarðaberin í púrré og bætið svo 100 ml af sykrinum ásamt sítrónusafanum saman við og kælið í klukkutíma, best ef þið hafið tíma til að kæla í 2 tíma.
2. Hitið mjólkina og rjómann og vanillusykurinn í víðum potti, á meðan þeytið saman restinni af sykrinum(200 ml) og eggjarauðurnar. Þegar rjómablandið er heitt(passið að hún má ekki vera sjóðandi, ca 80°C er best) er eggjablöndunni blandað saman við og þetta er svo sett á lægsta hita og botninn strokinn varlega og stanslaust með sleikju þar til blandan þykknar. Best er að sjá það með því að dýfa sleikjunni ofan í og gera línu í sleikjuna og ef vökvinn lekur strax yfir línuna er hún of þunn en ef það myndast lína þá er blandan tilbúin. Þetta tekur smá þolinmæði að búa til en á endanum kemur þetta. Passið að blandan hitni ekki of mikið.
Þegar þetta er þykkt og fallegt er það kælt þar til alveg kalt. Þá er jarðaberjablöndunni blandað saman við og þetta er sett í ísgerðarskálina eða vélina og fryst eftir leiðbeiningum sem fylgja hverri vél.

No comments: