Wednesday, March 12, 2008

Steiktur þorskur með rjómablaðlauk


Þetta er réttur sem mig hefur alltaf langað til að prófa, hann er vinsæll í Ameríku og ég hef séð margs konar útgáfur af þessum rétti en ákvað að gera bara mína og hafa þetta einfalt og eftir mínu höfði. Ég gerði mikið af réttinum og notaði afganginn í blómkálssúpu og kartöflusalat daginn eftir. Þegar rjóminn er soðinn svona mikið niður eins og í þessum rétti og kælir þá verður þetta að gómsætum púrre sem hægt er að nota í kartöflusalat,þá eru litlar nýjar kartöflu soðnar í saltvatni og skornar niður í mjög smáa bita og púrre-inu bætt útí, kom mjög skemmtilega á óvart.


Steiktur þorskur með rjómablaðlauk
f/4

3 blaðlaukar, einungis hvíti hlutinn
500 ml rjómi, má vera matreiðlsurrjómi
1 teningur kjúlingakraftur
smjörklípa og ólífuolía
salt og pipar
190-200 gr þorskur
2 dl hveiti
salt og pipar
100 gr kartöflur á mann, helst nýjar og litlar, soðnar í saltvatni
sítrónusafi
ólífuolía

1. Blaðlaukurinn er skorinn eftir endilöngu og svo í þunnar sneiðar, hann er svo settur í stóra skál með vatni og látið liggja í 2 mínútur, þá er hann varlega tekinn upp úr og passið að taka ekki moldina með sem oft fylgir blaðlauknum.
2. Hitið olíuna og smjörið í djúpri og stórri pönnu, bætið blaðlauknum útí og látið krauma í nokkrar mínútur eða þar til hann mýkist, bætið þá rjómanum saman við og látið sjóða í ca 20 mínútur eða þar til rjóminn er orðinn vel þykkur, bætið þá kraftinum saman við og saltið og piprið. Þetta er hægt að hita upp þegar þið viljið þannig að ég mæli með að gera þetta nokkru áður en fiskurinn er gerður, til að geta steikt fiskinn án vandræða.
3. Sjóðið kartöflurnar á meðan sósan er gerð í saltvatni, miðið við ca 1 ltr og 1 1/2 msk salt, þegar þær eru soðnar hellið vatninu af og sprautið smá sítrónusafa saman við og svo olíu yfir.
4. Hitið olíu í steikingarpönnu,(betra ef það er smjör en þeir sem vilja hugsa aðeins um kólesterólíð þá er mjög gott að nota olíu líka), þegar olían er heit er fisknum velt upp úr hveitinu og aukahveiti dustað af og settur á pönnuna, fiskurinn er steiktur í ca 4 mínútur á hvorri hlið, eða þar til hann er orðinn fallega gullinbrúnn, saltið og piprið.
Berið fram með fersku salati, blönduðu með tómötum og ristuðum sesamfræum.

No comments: