Sunday, March 30, 2008

Ítalía í hnotskurn

Ég fór í heimsókn til ítalskrar fjölskyldu umj páskana og þar var mikið eldað,borðað og drukkið eins og Ítölum hæfir. Ég eyddi 3 dögum við Gardavatn í algeru matardekri. Við elduðum saman kiðlinga,mjólkurlömb,ætiþistla að hætti Rómverja,Spiedo(kjöt og kartöflur á spjóti, líklegast það besta sem til er í þessum heimi), La colomba, sem er páskakakan þeirra en hún er mjög svipuð Panettone nema lægri og löguð í krossfisk. Ég varð að koma með eitthvað smá frá mér og leyfði þeim að smakka s úkkulaðikökuna sem var í brúðkaupinu mínu, hún heitir Hindberja og möndlu súkkulaðikaka og er með þeim betri sem ég hef smakkað.
Ég lærði að einfaldleiki er í hávegum hafður í Ítalskri matreiðslu, þeir stilla öllu kryddi og eldun í hóf og halda þannig einstöku bragði hráefnisins sem notað er. Við Íslendingar getum lært mikið af Ítölunum í þessu og ættum að hætta að krydda allt eins mikið og við getum. Enda þykir okkur alltaf jafn unaðsleg tómatsósan hér á Ítalíu og pizzurnar, ástæðan; jú tómatsósan er nánast ekkert krydduð, tómatbragðinu er leyft að halda sér óbreytt. Lykilatriði er þó að nota eðalhráefni, til dæmis verður maður að nota mjög góða extra virgin ólífuolíu í allar ítalskar uppskriftir. Eitt atriði sem gott er að hafa í huga þegar valin er ólífuolía í búðinni og það er að ólífuolían missir lit við ljós, þannig að þær olíur sem eru í glærum glerflöskum eru í flestum tilfellum lélegri heldur en hinar þar sem í glæru glerflöskuolíuna er bætt litarefni til að halda olíunni grænni undir sterkum súpermarkaðsljósunum.
Ég verð líka að segja ykkur frá því að ég keypti búnt af Salvíu,Rósmarín og Timjan fyrir u.þ.b. 3 vikum og það er ennþá nothæft inni í ísskáp.. Leyndarmálið; jú það er að setja blauta pappírsþurrku í botninn á tupperware(IKEA eða það sem er til af lofttæmdum umbúðum) setja kryddjurtirnar ofan á og svo aftur hylja þær með blautri pappírsþurrku, loka og halda innst í ísskápnum(hluti má snerta vegginn á ísskápnum þannig að það frýs aðeins, bara betra). Á þennan hátt getið þið notað lítið af hverri jurt í hvert skipti sem þið eldið og þurfið ekki að hafa neitt samviskubit yfir kostnaðinum...... manni finnst jú blóðugt að borga morðfjár fyrir salvíubúnt og nota ekki nema 2-3 blöð í uppskriftina......
Ég set hér inn video af því þegar við fórum í heimsókn til konunnar sem hefur alltaf gert Spiedo fyrir fjölskylduna og þá er ég að tala um í 60 ár. Það er einfalt sem hún er að gera en tekur smá þolinmæði og jú sérstök tæki en mér fannst þetta bara svo áhugavert og skemmtilegt að sjá og mér datt í hug að sýna ykkur það líka. Það sem er á spjótunum er: kartöflur,kið,kanína,svínakjöt og kjúklingur og á milli setur hún salvíblöð. Þetta er svo látið snúast í ofninum í 2-4 tíma fer eftir stærð spjótsins og reglulega er helltblöndu af smjöri,olíu og salti, yfir spjótin og það sem rennur af þeim er svo hellt yfir þau aftur.

Spiedo

Wednesday, March 19, 2008

Macaroni & cheese


Eftir að ég hafði eytt deginum í að dunda mér með jarðaberin var komið að kvöldverðinum og fjölskyldan orðin glorsoltin. Ég kíkti í ísskápinn og viti menn, ekkert til. Ég átti ost,rjóma(afganga frá jarðaberjaeftirréttinum),tagliatelle og prociutto. Ég ákvað því að henda í mac & cheese nema bara með tagliatelle, maður verður jú að nýta það sem maður hefur. Úr varð þessi líka gómsæti réttur, unaðslega rjómakenndur.

Macaroni & Cheese

225 gr macaroni eða tagliatelle
300 ml rifinn ostur, það má vera mozzarella,gouda,skólaostur bara það sem til er í ísskápnum
200 ml rjómi
200 ml nýmjólk(ég notaði léttmjólk þar sem ég átti ekki nýmjólk og það var mjög gott)
85 gr prociutto, alveg hægt að nota beikon en þá myndi ég setja minna af því, skorið í litla bita
3 msk parmesan, rifinn
örlítið múskat, ferskt

1. Sjóðið pastað. Á meðan blandið öllum hráefnunum nema parmesanostinum saman í skál. Þegar spaghetti-ið er tilbúið er því blandað saman við rjómablandið og hrært vel saman.
2. Hitið ofinn í 190°C. Setjið spaghetti-ið í eldfast mót og dreifið rifna parmesanostinum (má einnig vera smá af rifnum osti)yfir og bakið þar til osturinn er orðinn fallega gullinbrúnn,ca 20 mínútur.

Jarðaberja ,,shortcakes" með jarðaberja coulis og jarðaberjaís







Athugið: ef þið klikkið á myndina getið þið séð hana stærri.


Shortcakes

4 stórar eggjarauður
120 gr sykur
120 gr ósaltað smjör, mjúkt
170 gr hveiti, plús extra til að rúlla út deigið
1 1/2 tsk lyftiduft

1. Þeytið eggjarauðurnar og sykurinn þar til það verður þykkt og mjúkt, bætið þá smjörinu smátt og smátt saman við. Sigtið hveitið og lyftiduftið saman og bætið saman við eggjablönduna. Hnoðið létt þar til það myndar mjúkt deig. Setjið þá inní plastfilmu og kælið í 30 mínútur.
2. Dreifið létt hveiti yfir svæðið sem þið getið rúllað út deiginu. Rúllið því út í ca.5 mm. Skerið þá út 6 diska sem eru ca.12 cm að stærð. Færið diskana á bökunarpappír og stingið létt með gaffli. Myndið smá holu í miðjuna á hverjum disk og myndið smá brún. Kælið í 30 mínútur. Passið að þegar þið eruð að rúlla út deigið að það verði ekki of heitt, þá bráðnar smjörið of mikið og kökurnar lyfta sér ekki nægilega mikið.
3. Hitið ofninn í 150°C. Dreifið smá sykri yfir diskana og bakið í 12 mínútur eða þar til þeir eru gullnir á litinn. Takið út úr ofninum og látið sitja í 1 mínútu takið þá af plötunni og látið kólna alveg á grind.

Heimatilbúinn jarðaberjaís

Ég var svo heppin að fá ísgerðarskál sem fylgihlut í Kitchenaid vélina í brúðkaupsgjöf og hef því verið að prófa mig áfram með ýmsa ísa. Fyrsta skiptið sem ég notaði skálina þá varð ísinn að sjeik en nú er ég farin að þekkja hana aðeins betur og þessi ís kom fullkomlega út, betri en nokkur jarðaberjaís sem ég hef smakkað. En því miður fyrir þá sem ekki eiga ísgerðarvél eða skál þá verð ég að segja að þennan ís er einungis hægt að gera í þess konar græjum.

Heimatilbúinn jarðaberjaís
(ég helmingaði þessa uppskrift fyrir 4-5)
f/8-10 með öðrum eftirrétt

500 gr jarðaber, hreinsuð og græna skorið af
300 ml sykur
1 msk sítrónusafi
300 ml rjómi
300 ml nýmjólk
4 stórar eggjarauður
1 tsk vanillusykur

1. Hakkið jarðaberin í púrré og bætið svo 100 ml af sykrinum ásamt sítrónusafanum saman við og kælið í klukkutíma, best ef þið hafið tíma til að kæla í 2 tíma.
2. Hitið mjólkina og rjómann og vanillusykurinn í víðum potti, á meðan þeytið saman restinni af sykrinum(200 ml) og eggjarauðurnar. Þegar rjómablandið er heitt(passið að hún má ekki vera sjóðandi, ca 80°C er best) er eggjablöndunni blandað saman við og þetta er svo sett á lægsta hita og botninn strokinn varlega og stanslaust með sleikju þar til blandan þykknar. Best er að sjá það með því að dýfa sleikjunni ofan í og gera línu í sleikjuna og ef vökvinn lekur strax yfir línuna er hún of þunn en ef það myndast lína þá er blandan tilbúin. Þetta tekur smá þolinmæði að búa til en á endanum kemur þetta. Passið að blandan hitni ekki of mikið.
Þegar þetta er þykkt og fallegt er það kælt þar til alveg kalt. Þá er jarðaberjablöndunni blandað saman við og þetta er sett í ísgerðarskálina eða vélina og fryst eftir leiðbeiningum sem fylgja hverri vél.

Jarðaberja coulis

Þessa sósu er í rauninni hægt að nota með hvaða eftirrétt sem er. Þetta er sósa sem er iðulega notuð á veitingahúsum. Ég set þetta í sér færslu til þess að hægt verði að nálgast þetta auðveldlega í archives seinna meir. Hægt er að sleppa rjómanum ef þetta er notað sem sósa með öðrum eftirréttum.

250 gr jarðaber, vel þroskuð
1 msk sykur
sítrónusafi, smá skvetta
2 msk ekta rjómi

1. Hakkið jarðaberin í mauk og bætið sykrinum saman við, smátt og smátt í einu og passið að smakka og hafa sósuna eins sæta og þið viljið hafa hana. Bætið þá sítrónusafanum saman við ásamt rjómanum.

Rétt áður en eftirrétturinn er borinn fram er sósan sett í miðju hvers disks og jarðaberjum raðað fallega ofan á. Best væri að vera með villt jarðaber til skreytingar en það er hins vegar mjög erfitt að ná í þau. Berið fram með jarðaberjaís eða sætum þeyttum rjóma.

Ástæðan fyrir sítrónusafanum er sú að sýran í honum dregur fram hið náttúrulega jarðaberjabragð þannig að það verður sterkara í sósunni.

Tuesday, March 18, 2008

Smá mistök

Já þarna fór inn blogg sem átti að fara á hina bloggsíðuna mína, biðst velvirðingar á þessu.
Hins vegar mun verða lítið um matarblogg þessa vikuna þar sem eiginmaðurinn minn hefur breytt eldhúsinu mínu í arkitektastúdíó með módelgerðardóti úti um allt.
Hins vegar verður næsta vika sérstaklega spennandi þar sem ég mun fara í smá ferðalag un helgina og mun þar með safna að mér alls kyns fróðleik um ítalska matreiðslu. Ég verð í litlum fjallabæ og mun reyna að komast að einhverjum leyndarmálum þar og svo þaðan mun ég fara að Gardavatni og þar verðum við með ítalskri fjölskyldu og að sjálfsögðu verður tímanum eytt í eldhúsinu. Ég ætla mér að læra af þeim hvernig ekta páskamatur er gerður að þeirra hætti. Ég hef eytt síðustu 2 páskum þarna í vellystingum og í þetta skiptið mun ég komast að öllum þeirra leyndarmálum og reyni að láta sem flestar myndir fylgja.
Á morgun set ég inn uppskrift af unaðslegum jarðaberjaeftirrétt, þar sem ég þurfti jú að nýta kílóið af jarðaberjunum sem ég fékk á markaðnum um daginn, og ekta ,,Mac & cheese" french style.

Friday, March 14, 2008

Marineraður kryddjurta og sítrónukjúklingur


Nú þegar vorið er að koma, ja hér á Ítalíu kannski ekki enn komið heima á Íslandi, þá fara markaðirnir að fyllast af nýjum og girnilegum kryddjurtum. Ég ákvað því að drífa mig á markaðinn og keypti allar þær kryddjurtir sem mig langaði í, ásamt heilu kílói af jarðaberjum sem ég verð nú að gera eitthvað úr á næstu dögum. Þessi kjúklingur er reyndar mjög líkur kjúklingnum hennar mömmu, sem við höfum eldað að minnsta kosti einu sinni í viku síðan ég man eftir mér, en ég ákvað að breyta aðeins til og bæta fullt af fersku kryddi saman við og úr varð alveg hreint geggjaður kjúklingur.

Marineraður kryddjurta og sítrónukjúklingur
f/6-8

2 stórir ferskir kjúklingar
2 sítrónur +
2/3 meira af extra virgin ólífuolíu(helli sítrónu safanum í glas og helli 2/3 meira af ólífuolíu)
hálfur hvítlaukshaus
1 msk salt
3 greinar rósmarín, blöðin strokin af
5 greinar timian, blöðin strokin af
3 greinar basilíka, blöðin strokin af og rifin
3 msk steinselja, söxuð gróft
nýmalaður pipar
400 ml basmati eða Jasmin hrísgrjón
800ml vatn
ferskt salat með tómötum og parmesan osti
rifinn parmesan ostur

1. Blandið olíunni og sítrónusafanum saman og bætið svo restinni af hráefnunum saman við, hrærið vel með gaffli. Leggjið kjúklingana í fatið sem þið ætlið að elda hann í, ég og mamma höfum alltaf notað leirpott sem er hentugast, en ég hef líka gert þetta í svörtum stórum ofnpotti og það hefur virkað, en látið kjúklinginn marinerast í frekar litlu íláti til þess að hann liggi í marineringunni. Látið hann marinerast í a.m.k. klukkutíma ég lét hann marinerast í 3 klukkutíma og varð hann ofboðslega safaríkur við það.
2. Bakið hann í ofni við 200°C ef þið notið leirpott en ef ekki þá bakið hann við 180°C í klukkutíma. Fyrsta hálftímann lét ég hann bakast með bringuna niður til þess að fá vökvann í bringuna og svo seinni hálftímann með bringuna upp til að fá á hann fallega gullinbrúnan lit og örlítið stökka húð.
3. Berið fram með Jasmín eða Basmati hrísgrjónum sem eru sett upp um leið og þið snúið kjúklingnum við. Best er að sjóða þau hrísgrjón þannig að þið látið suðuna koma upp og svo setjið hitann á lægsta og hafið pottinn hálfann á hellunni í ca 20 mínútur.
Þetta er einnig gott að bera fram með fersku salati með tómötum og parmesan osti og svo er parmesan ostur rifinn yfir kjúklinginn og hrísgrjónin.
4. Vökvinn og olían sem fellur af kjúklingnum er notuð sem sósa á hrísgrjónin og kjúklinginn.

Wednesday, March 12, 2008

Steiktur þorskur með rjómablaðlauk


Þetta er réttur sem mig hefur alltaf langað til að prófa, hann er vinsæll í Ameríku og ég hef séð margs konar útgáfur af þessum rétti en ákvað að gera bara mína og hafa þetta einfalt og eftir mínu höfði. Ég gerði mikið af réttinum og notaði afganginn í blómkálssúpu og kartöflusalat daginn eftir. Þegar rjóminn er soðinn svona mikið niður eins og í þessum rétti og kælir þá verður þetta að gómsætum púrre sem hægt er að nota í kartöflusalat,þá eru litlar nýjar kartöflu soðnar í saltvatni og skornar niður í mjög smáa bita og púrre-inu bætt útí, kom mjög skemmtilega á óvart.


Steiktur þorskur með rjómablaðlauk
f/4

3 blaðlaukar, einungis hvíti hlutinn
500 ml rjómi, má vera matreiðlsurrjómi
1 teningur kjúlingakraftur
smjörklípa og ólífuolía
salt og pipar
190-200 gr þorskur
2 dl hveiti
salt og pipar
100 gr kartöflur á mann, helst nýjar og litlar, soðnar í saltvatni
sítrónusafi
ólífuolía

1. Blaðlaukurinn er skorinn eftir endilöngu og svo í þunnar sneiðar, hann er svo settur í stóra skál með vatni og látið liggja í 2 mínútur, þá er hann varlega tekinn upp úr og passið að taka ekki moldina með sem oft fylgir blaðlauknum.
2. Hitið olíuna og smjörið í djúpri og stórri pönnu, bætið blaðlauknum útí og látið krauma í nokkrar mínútur eða þar til hann mýkist, bætið þá rjómanum saman við og látið sjóða í ca 20 mínútur eða þar til rjóminn er orðinn vel þykkur, bætið þá kraftinum saman við og saltið og piprið. Þetta er hægt að hita upp þegar þið viljið þannig að ég mæli með að gera þetta nokkru áður en fiskurinn er gerður, til að geta steikt fiskinn án vandræða.
3. Sjóðið kartöflurnar á meðan sósan er gerð í saltvatni, miðið við ca 1 ltr og 1 1/2 msk salt, þegar þær eru soðnar hellið vatninu af og sprautið smá sítrónusafa saman við og svo olíu yfir.
4. Hitið olíu í steikingarpönnu,(betra ef það er smjör en þeir sem vilja hugsa aðeins um kólesterólíð þá er mjög gott að nota olíu líka), þegar olían er heit er fisknum velt upp úr hveitinu og aukahveiti dustað af og settur á pönnuna, fiskurinn er steiktur í ca 4 mínútur á hvorri hlið, eða þar til hann er orðinn fallega gullinbrúnn, saltið og piprið.
Berið fram með fersku salati, blönduðu með tómötum og ristuðum sesamfræum.

Monday, March 10, 2008

Spaghetti með beikoni og salvíu, borið fram með ofnbökuðu brokkólí og írsku sóda brauði


Ég gerði þennan rétt með heimatilbúnu spaghettíi og það var ljúffengt, vægast sagt. Við borðuðum þetta sem sunnudagsmat og það var ekkert til í ískápnum hjá mér, en úr engu varð þessi unaður, já það er rétt sem þeir segja að neyðin kennir naktri konu að spinna.

Spaghetti með beikoni og salvíu
f/4

150 gr beikon, skorið í bita
2 skallottlaukar
2 msk söxuð salvía, fersk
50 ml ólífuolía, extra virgin
2 msk smjör
parmesan
1 hvítlauksrif

1. Hitið olíuna og smjörið, steikið laukinn og beikonið þar til það byrjar að taka örlítinn lit, bætið þá salvíunni saman við og steikið þar til beikonið er alveg steikt og fallega gullinbrúnt, bætið þá hvítlauknum saman við og hitið.
2. Á meðan sjóðið spaghettiið.
3. Berið fram: þá er spagetthi sett á diska og beikon sósunni hellt yfir og parmesan osti stráð yfir. Setjið einnig brokkólí og brauðsneið með smjöri á hvern disk.

Bakað brokkólí með parmesanosti

Brokkolí er grænmeti sem er mjög mikilvægt fyrir okkur, það er sagt geta varnað krabbameini og jú vera bara allra meina bót. Það er líka mjög ljúffengt. Osturinn sem ég ríf yfir er parmesan en það má svo sem nota hvaða ost sem er og þá sérstaklega ef börnin eiga að hakka þetta í sig eins og Hekla gerir, er gott að miða við ost sem þeim þykir góður.

1 haus brokkólí, skorin í lítil blóm
rifinn parmesan ostur
extra virgin ólífuolía
salt

1.Setjið brokkólíið í eldfast mót og veltið vel upp úr olíu, stráið ostinum yfir og bakið í 20-30 mínútur við 190°C

Þetta er frábært meðlæti með hverju sem er en þá sérstaklega pasta eða hvítum fisk

Írskt sóda brauð

Þar sem þessi síða er aðeins blogg síða en ekki almennileg uppskriftasíða þar sem hægt er að leita auðveldlega að uppskriftum mun ég setja þessar uppskriftir allar sér, þá er allavegana hægt að sjá í archives það sem maður er að leita að. Hér er eitt auðveldasta og fljótlegasta brauð sem ég hef nokkurn tíma búið til og það er gerlaust.

4 bollar hveiti
1 1/2 tsk matarsódi
1 tsk salt
1 msk sykur
1 3/4 bolli undanrenna, vel hrist(ég notaði léttmjólk og það var alveg í lagi)
1 msk bráðið smjör

1. Blandið þurrefnunum saman og bætið svo mjólkinni saman við, passið að setja ekki alla mjólkin strax heldur lítið í einu til að sjá hversu mikla mjólk þarf að nota. Hnoðið í fallegt deig og skiptið í tvær kúlur og setjið á smurt og hveiti stráðan bökunarpappír.
2. Skerið kross í kúlurnar og smyrjið með smörinu.
3. Bakið í ofni við 190°C í 30-40 mínútur.

Grillaður kjúklingur par excellance



Ég fékk alveg svakalega löngun í grillaðan kjúkling um daginn en ekki bara einhvern venulegan, ég vildi gera eitthvað aðeins öðruvísi en þó ekki flækja hlutina um of. Grillaður kjúklingur er ekki bara grillaður kjúklingur sjáiði til. Hér á Ítalíu getur maður fengið besta grillaða kjúkling sem til er, en við höfum einnig lent í að fá hann alveg svakalega vondan. Þannig að ég er að þróa minn eigin, sem á eftir að verða eftir nokkur ár af alls konar prufum, svakalega góður og ég er komin á rétta braut núna það er á hreinu því þessi var geggjaður. Berið þetta fram með engu öðru en frönskum kartöflum og kokteilsósu.

Grillaður kjúklingur
f/4

1 stór kjúklingur (800-1000 gr)
grillkrydd
hvítlaukur
smjörklípa
extra virgin ólífuolía
salt og pipar
1 grein rósmarín, fersk
4 laufblöð salvía, fersk
1/2 flaska bjór

1. Setjið kjúklinginn í stóran pott ætlaðan fyrir ofn.
2. Setjið klípu af smjöri innundir skinnið, klípu fyrir hvern vöðva
3. Kreistið hvítlaukinn og hellið olíu yfir kjúklinginn og í botninn á pottinum, takið svo hvítlaukinn og strjúkið kjúklinginn allan með hvítlauknum og passið að hann dreifist vel á hann allan. Saltið allan kjúklinginn og piprið og þekjið svo með grillkryddi. Setjið svo rósmarínið og salvíuna í botinn á pottinum ásamt brjórnum.
4. Bakið í ofni við 200°C, fyrstu 10 mínúturnar með loki og svo í 30-40 mínútur án loksins.

Berið fram með frönskum kartöflum og kokteilsósu

Aths. ég bæti smá sojasósu útí kokteilsósuna, það gerir hana extra góða.

Spaghetti pomodoro


Þetta er mesti klassíker hér á Ítalíu. Þetta er hægt að fá á hverju einasta veitingahúsi, meira að segja á michelinstaðnum sem ég var að vinna á. Þetta er gert á hverju einasta heimili og hver og einn er með sína eigin útgáfu. Þetta er uppáhaldsmaturinn hennar Heklu og ef hún fengi að ráða myndi hún ekki borða neitt annað. Ég verð líka að viðurkenna að þetta er alveg svakalega gott, manni einhvern veginn hlýnar öllum að innan og minnist góðra tíma þegar maður var í fríi við Gardavatn með mömmu og pabba. Hér er mín útgáfa af þessum rétti og var þetta svo gott að við Hekla sleiktum pottinn að innan með nýbökuðu ekta ítölsku brauði.

Spaghetti pomodoro
f/4

1/2 laukur, skorinn í þunnar sneiðar
200 ml extra virgin ólífuolía, helst eðal
50 ml hvítvín
1 þunn sneið beikon, saxað
1 dós niðursoðnir tómatar, heilir eða í bitum
basilika, má sleppa
þurrkað óreganó, má sleppa
1 tsk rósmarín, ferskt
2 lauf salvía, fersk
1 kjúklingakraftsteningur
2 tsk balsamic edik
50 ml vatn

spaghetti, miðað við 80 gr af þurru spaghetti á mann, 70 fyrir krakka og 90 fyrir þá sem borða mikið.

1.Hellið olíunni í meðal stóran pott og hitið við meðal-háan hita, bætið þá lauknum og beikoninu saman við og mýkjið vel en passið að það fái ekki á sig lit.
2.Hellið þá víninu og edikinu útí og látið krauma aðeins og bætið þá kryddinu saman við og látið þetta krauma í 2 mínútur.
3.Bætið þá tómatsósunni saman við(ef þið notið heila tómata úr dós mæi ég með því að skera þá í bita áður en þeim er hellt útí) ásamt kraftinum og vatninu(ég helli yfirleitt smá vatni í dósina til að hreinsa alla tómatsósu úr og helli því vatni í sósuna). Lækkið hitann í lægsta og látið sjóða varlega í 30 mínútur, eða því lengur sem þið nennið,eða hafið tíma til að láta sjóða því betri verður sósan.
Þegar sósan er búin að sjóða vel og lengi er hún bragðbætt með salti og pipar.

Sjóðið speghetti-ið eins og stendur á pakkanum.

Berið fram með nýju brauði.

Villisvepparisotto


Risotto er alveg sérstaklega einfalt að laga en af einhverjum ástæðum var ég smeyk við að prófa það í mörg ár. En þar sem maður býr í landi risotto þá kemst maður ekki hjá því að búa þetta til og það mjög oft og ég skil ekki hvers vegna ég var smeyk við þetta, þetta er alveg ótrúlega auðvelt.
Risotto er ódýr og þægilegur matur sem hentar mjög vel á köldum vetrardegi.
Þar sem ég geri þetta svo oft fer ég aldrei eftir uppskrift og hef í rauninni ekki hugmynd um hlutföllin í þessu, ég bara helli eitthvað af grjónum og er svo með 1 ltr af soði við hliðina og smakka svo til í endann. En ég fann út svona nokkurn veginn hlutföll fyri þá sem eru að byrja í þessu, en það er samt alltaf mikilvægt að smakka svona í endan þar sem grjónin eru mjög misjöfn. T.d. smakkaði ég risottogrjón í fyrra í litlum bæ uppi í fjöllum sem heitir Scopello og þetta eru bestu grjón sem ég hef nokkurn tímann smakkað.

Villisvepparisotto
F/4-6
2 msk ólífuolía
20 smjör(eða sleppa smjöri og setja meiri olíu)
1 skallottlaukur(má líka vera venjulegur, þá bara hálfur, lítill), saxaður
350 gr risottohrísgrjón
1,2 ltr kjúklingasoð (teningar +vatn)
hnefafylli af þurrkuðum villisveppum
50 ml sherry
100 ml hvítvín
50 gr parmesanostur+meira til að strá yfir við borðið
salt og pipar

1. Setjið sveppina í skál og hellið sherry-inu yfir og látið mýkjast í 15 mínútur,
2. Á meðan látið suðuna koma upp í soðinu og haldið því við suðupunkt.
3. Hitið olíuna í meðalstórum potti við meðal-háan hita, bætið lauknum útí og léttsteikjið í 2-3 mínútur, bætið þá hrísgrjónunum útí og látið hitna vel í 2-3 mínútur til viðbótar, hellið þá hvítvíninu saman við(víninu má sleppa) og látið sjóða niður í 2-3 mínútur. Hellið þá einni sleif af soði yfir og látið grjónin sjúga í sig vökvann, þegar vökvinn er næstum þrotinn er annarri ausu af soði ausið yfir og svo þannig koll af kolli þar til grjónin eru orðin mjúk og rjómakennd þá byrjið þið að smakka þau til og sjá hvað þarf mikið vatn til viðbótar. Þegar grjónin eru orðin "al dente" er 0 gr af rifnum parmesan osti bætt útí ásamt örlítilli klípu af smjöri. Sveppirnir eru saxaðir og settir útí. Þetta er svo látið blandast saman í 2-3 mínútur, hrærið í á meðan. þið ráðið hvort þið setjið vökvann af sveppunum með eða ekki, ég geri það stundum en stundum gleymi ég því og rétturinn er alltaf jafn góður, kannski örlítið betri ef bragðbættur með smá af vökvanum og salti og pipar.
Berið fram með nýju brauði.

Sunday, March 2, 2008

Brasseraður kjúklingur með hvítlaukssveppum og beikoni




Þessi kjúklingur sló svo sannarlega í gegn á heimilinu og er að nokkru stolinn frá hinni klassísku uppskrift "Chicken Bonne Femme", sem er einmitt ein af mínum uppáhaldsklassíkerum í matreiðslunni. Hér er ég þó ekki með alvörusoð og reyni að aðlaga þetta að hinu venjulega heimili. Þessi uppskrift þarfnast örlítillar þolinmæði en lítillar natni. Þannig að það er meira að bíða eftir því að hlutirnir gerist en að þurfa að vinna mikið.
Í þessari uppskrift(fyrir þá sem búa annars staðar en á Íslandi) er hægt að nota kálfakjöt eða jafnvel svínakjöt en þá er mikilvægt að nota vöðva sem tekur u.þ.b. 30-45 mínútur að elda. Sem sagt ekki mjög seiga vöðva en þó ekki vöðva sem eru notaðir til að grilla eða steikja.
Í kvöld notaði ég kjúklingabringur þar sem það var það sem var til í ískápnum en ég mæli frekar með kjúklingahlutum sem eru með beinum, best væri að kaupa heilan kjúkling og hluta hann niður.

Brasseraður kjúklingur með hvítlaukssveppum og beikoni

F/4
1 kjúklingur eða 800-1000 gr kjúklingabringur eða annað kjöt
2 hvítlauksrif, heil eða skorin gróft
2 skallottlaukar(um 65 gr), gróft saxaðir
150 gr beikon, skorið í bita
270 gr sveppir, skornir í litla bita
1 stór gulrót. skorin í litla ferninga
1 og 3/4 kjúklingakraftsteningar
400 ml vatn
50 ml hvítvín
50 ml balsamic edik
1 1/2 tsk tómatpaste
1 lárviðarlauf
1 rósmaríngrein,lítil
3 salvíulauf
salt og pipar
30 gr smjör
ólífuolía

1300 gr litlar fallegar kartöflur
smjörklipa og ólífuolía
salt og pipar

1. Skerið grænmetið og beikonið og kjúklinginn ef þið eruð með heilan kjúkling.
2. Skerið kartöflurnar í báta og setjið í eldfast mót ásamt smjöri, olíu,salti og pipar og setjið í ofn við 200°C, bakið í ca.30-40 mínútur.
3. Takið stóran, þykkbotna pott, ef þið eigið Le cruisette er hann bestur ef ekki er best að gera þetta fyrst á pönnu og svo setja í eldfast mót sem annað hvort er hægt að loka eða ef það er ekki til heldur, setja þá álpappír yfir.
Steikið beikonið fyrst upp úr 20 gr af smjörinu, þegar það fer að taka lit er lauknum,sveppunum og gulrótinni bætt útí. Þegar þetta er farið að taka lit er þetta fært í skál og restinni af smjörinu og smá olíuslettu bætt útá pönnuna(pottinn)og kjúklingurinn er steiktur þar til hann fær á sig gullinbrúnan lit, þá er hann saltaður og pipraður. Því næst er hvítvíninu og balsamic edikinu bætt útí og látið sjóða niður á fullu blússi í ca.4 mínútur( um leið og vökva fer að þrjóta er slökkt á hitanum).
4. Þá er þetta allt saman sett í eldfast mót (eða haft í le cruisette pottinum)fyrir utan kartöflurnar, ásamt kryddi,krafti,vatni,hvítlauk og tómatpaste. Þetta er svo sett í ofn við 190°C í 30-40 mínútur.*ath. Mínúturnar eru miðaðar við heila kjúklingabita þetta getur verið misjaft eftir stærð kjúklings eða annars kjöts ef það er notað, því stærra því meiri tími. Gott er að fjárfesta í einföldum litlum kjötmæli til að mæla kjúkling og á hann að sýna 72° þegar honum er stungið í miðjan kjúklinginn.
5. Þegar kjúklingurinn er tilbúinn er hann tekinn uppúr og haldið heitum í álpappír, eða eins og ég gerði í öðrum potti, og vökvinn sigtaður frá öllu saman og settur í víðan pott, sett á fullan hita og látið sjóða hratt niður í ca. 10-15 mínútur. Eða þar til hann þykknar örlítið. Þegar það er tilbúið er hægt að bera allt saman fram eins og fólki þykir þægilegast. Ég bar þetta fram í eldföstu móti eins og myndin sýnir þá eru kartöflurnar undir og svo kjúklingurinn og sveppirnir og beikonið á milli.

*Hægt er að þykkja sósuna með smjörbollu ef ykkur þykja þannig sósur betri. Ef þið notið alvöru kjúklingasoð(já maður veit aldrei hverju fólk lumar á) þá er hægt að sjóða soðið alveg niður þar til það er orðið vel þykkt og þá er örlítilli smjörklípu bætt útí og þá eruð þið komin með eðalsósu sem eru venjulega bornar fram á veitingastöðum.