Ég fékk að ræna þessum hamborgurum frá vinum mínum henni Sigrúnu og Árna og þeir voru æðislega góðir. Þá gerði ég venjulega hamborgara nema bætti 1 pakka af gráðosti á móti 1 kg af hakki saman við ásamt einum pakka af léttsteiktu beikoni. Slóu í gegn hjá fjölskyldunni!
Ég bauð þeim svo upp á afgangabrownies köku í eftirrétt með ís sem ég fann innst í frystinum og var búin að gleyma að ég ætti. Það getur verið hentugt að nota ekki allt súkkulaði sem maður kaupir í uppskriftir, eins og ég komst að í gær. Ég var orðin nokkuð örvæntingarfull eftir súkkulaðiköku og var að fá gesti í mat og sá mér þá leik á borði og ákvað að henda í eina gómsæta. Ég fann súkkulaðiafganga hér og þar í skápunum hjá mér og endaði með smá af Konsúm súkkulaði, smá af suðusúkkulaði og smá af 70% súkkulaði(ætlaði að nota líka hvíta súkkulaðið sem ég fann en þurfti ekki á því að halda) þess vegna kalla ég þessa "afganga brownies" kökuna mína.
Uppskriftin er svohljóðandi:
Afgangabrownies
f/2 hringlaga IKEA smelluform(eiga ekki allir svoleiðis?!)
250 gr smjör
224 gr súkkulaði, ca 50 gr suðu,60 gr 70%,114 gr Konsúm súkkulaði
200 ml sykur
1,5 tsk vanilludropar, eða 1 tsk vanilla extract(sterkara en droparnir)
5 stór egg
130 ml hveiti
70 ml ósætt kakóduft
1/2 tsk salt
Hálf dolla af súkkulaði frosting frá Betty Crocker og 2 msk hnetusmjör
Aðferð:
1. Hita ofninn í 175-180°C
2. Smyrjið formin og setjið bökunarpappír í botninn(einnig hægt að nota eitt 33 sm x 22,9 sm form)
3. Bræðið smjörið og súkkulaði saman, kælið svo niður þar til volgt. Pískið sykri og vanilludropum saman við og því næst eggjunum einu í einu og pískið vel á milli þar til silkimjúkt og fallegt.
4. Sigtið þá hveiti og kakó saman við ásamt salti og pískið þar til vel blandað saman.
5. Hellið í formin/ið og bakið í 25-27 mín. Ef þið notið tvö hringlaga form er best að tékka á kökunni eftir 20 mínútur því þá er hún þunn og bakast hraðar. Prjónn sem stungið er í miðju kökunnar á að koma út með rakri mylsnu fastri á þá er hún tilbúin.
Kælið örlítið og setjið svo á aðra þeirra fyrst hnetusmjörið og svo súkkulaðikremið ofan á það og svo á hina setjið aðeins súkkulaðikremið, þannig er eitthvað fyrir alla!
Enn betra væri að hafa hnetusmjör með heilum hnetum í en ég átti það ekki til í þetta skiptið.
Monday, May 4, 2009
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment