Ég hef mikið lesið af amerískum matartímaritum og þar hefur hefur mikið verið talað um ,,spice rub" sem er blanda af kryddum og engu öðru, ég hef oft velt því fyrir mér hvort það gæti verið of þurrt en kryddblöndurnar eru alltaf svo girnilegar að ég hef ekki getið hætt að hugsa um þetta fyrirbæri.
Ég ákvað því í kvöld að láta verða af þessu og bjó til mína eigin blöndu og ég varð svo sannarlega ekki svikin! Ég geri þetta aftur það er á hreinu. Ég hafði kjúklinginn í þetta skiptið á beinunum á grillbakka í ca 40 mínútur á grillinu við meðal hita og svo síðustu 10 mínúturnar setti ég hann á húðhliðina til að fá hann örlítið brenndan, eins og grillmatur á að vera.
Kjúklingurinn er skorinn eftir endilöngu á undirhliðinni og svo þvingaður út þannig að hann sé tiltölulega flatur.
Grillaður kjúklingur nuddaður með indverskri kryddblöndu
F/4-5
1 kjúklingur
1 msk sinnepsfræ(ég notaði dökk þar sem ég átti þau til)
1/2 msk mulin kóríanderfræ(ég nota kaffikvörn)
1/2 msk múlin kardimomma
1/2 msk anísstjörnur(muldar)
salt og nýmulinn pipar(ég er nú svo heppin að luma á sýrlenskum pipar)
3 msk púðursykur
Aðferð:
1.Skerið kjúklinginn og hitið grillið
2.Setjið þurrkryddið á litla pönnu og hitið þar til það byrjar að lykta unaðslega
3.Blandið því svo saman við púðursykurinn og nuddið vel skinnið á kjúklingnum og saltið og piprið yfir hann allan.
4.Setjið hann með beinahliðina á grillbakkann og grillið við meðalhita í 40 mín(athugið kjúklinginn á 20 mín. fresti, grill eru mjög misheit og ef hann byrjar að brenna er um að gera að lækka hitann örlítið). Snúið kjúklingnum svo við síðustu 10 mínúturnar til að fá fallega rétt brennda húð á hann. Athugið hvort hann er tilbúinn með að stinga með beittum hníf í þykkasta hlutann(bringuna) og athugið hvort vökvinn sem kemur úr er á litinn, ef hann er glær er hann tilbúinn(allt sem hefur smá roða í vökvanum þýðir að hann er ekki tilbúinn).
Mjög gott er að bera fram með tatziki sósu eða hvers kyns jógúrtsósu og ofnbökuðum kartöflubátum krydduðum með hvítlauk og engifer, salti og pipar.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment