Wednesday, May 13, 2009

Matseðill fyrir vikuna 10.05-16.05

Enn lætur sumarið ekkert á sér kræla og sumarstemningin á enn erfitt uppdráttar en þetta hlýtur að fara að koma. Ég er reyndar komin í smá grillfíling og langar að prófa eitthvað nýtt, sem ég og gerði í gær fyrir Eurovision grillpartýið sem ég fór í og heppnaðist bara ágætlega. Ég ætla líka að prófa nýjan kjúkling á morgun og hef því tekið úr frystinum. Á mánudaginn tók eiginmaðurinn yfir eldhúsið og bjó til dýrindis skyndibitasamlokur sem voru með majó, dijon sinnepi, aspas úr dós(sem reyndist merkilega dýr), osti og steiktri skinku(steikt saman þannig að osturinn bráðni), salati, tómötum og ef ég man rétt þá held ég að hann hafi troðið beikoni þarna inní líka, dúndur góð samloka! Í gær var ég í vinnunni allan daginn og kom þreytt heim og langaði því að gera eitthvað auðvelt og einfalt þannig að fyrir valinu varð misomarinerað lambakjöt(uppskrift fylgir) með kartöflusalati(uppskrift er þegar komin inn á síðuna) og Miðjarðarhafssósunni minni. Ég hef reyndar gert Miðjarðarhafssósuna í mörg ár og býst við að flestir sem hafa verið með mér í grillveislu hafi smakkað á henni og lumi á uppskriftinni einhvers staðar en fyrir hina þá læt ég hana einnig fylgja hér á eftir. Ég fékk þessa uppskrift úr frábærri bók eftir uppáhaldshöfundinn minn hana Isabelle Allende og heitir bókin Afródíta, ég hef reyndar breytt aðeins uppskriftinni eftir mínu höfði og eftir staðarháttum. Hver ein og einasta uppskrift sem ég hef gert upp úr þeirri bók hefur slegið í gegn, reyndar er ansi langt síðan ég gerði upp úr henni síðast en þegar ég hugsa um það þá er bara ansi langt síðan ég hef gert nokkuð eftir uppskrift, nema þá kökur, ég ætti kannski að fara að bæta einhverju í safnið.
Síðustu árin hef ég beðið spennt eftir aspastímabilinu sem er einmitt núna þessa dagana og hef alltaf kokkað mikið með aspasinn enda verið búsett erlendis en nú er tíðin önnur jeminn eini ég fór í lágvöruverslanirnar okkar hér og fékk vægt sjokk! Meira að segja dósaaspas er fokdýr! 300 kr, dósin og ég er nú ekki að fara að nota einungis eina í súpu handa okkur! Þannig að þetta árið verður lítið um eldamennsku úr aspas og græt ég það sárt enda aspas svo undursamlega góður. Ég á reyndar eftir að athuga hversu dýr ferskur aspas er en ég er ekki vongóð, varla getur hann verið ódýrari en dósaaspas.

Matseðill fyrir vikuna 10.05-16.05

Mánudagur
dýrindis samloka eiginmannsins

Þriðjudagur
grill-Misomarinerað lambaprime(á tilboði í Krónunni) með Miðjarðarhafssósu og kartöflusalati

Miðvikudagur
Afgangar af kartöflusalatinu bæti það með túnfisk til að hafa það matarmeira, þetta er það sem ég er alin upp við og finnst bara fínt að hafa bara þetta en eiginmaðurinn er ekki alveg sáttur við að hafa ekkert með... kannski maður finni þá eitthvað til að hafa með

Fimmtudagur
Kjúklingur í sósu frá Chile með hrísgrjónum, ætti að hafa linsur með en sleppi þeim þar sem eiginmaðurinn er ekki mikill aðdáandi þeirra

Föstudagur
Nú langar mig í súpu, þarf að skipta mygluðum gulrótum aftur í Bónus og kaupi þá kannski nýjar og bý til gulrótarsúpu, eða jafnvel enn betra lauksúpuna hennar mömmu(klikkar aldrei). Hefði viljað hafa þetta aspassúpu svona í tileftni tímabilsins, aldrei að vita nema maður lendi á ódýrum aspas einhvers staðar...

Laugardagur
nú er það Eurovision!!!! Býst ekki við neinum gloríum í eldhúsinu þennan daginn, látum það ráðast

Sunnudagur
pizzadagur, mig er farið að langa í Pizzu með steiktu eggaldini og parmesan eða Pizza Parmigiana

No comments: