Wednesday, May 27, 2009

Gulrótarsúpa og steiktar strengjabaunir

Kannski soldið skrítin samsetning en hún virkaði fyrir okkur stúlkurnar. Ég gerði strengjabaunirnar oft á þennan hátt þegar ég var au pair á Ítalíu fyrir óhemju mörgum árum síðan og gríp í þetta ennþá svona endrum og sinnum, þetta er eins og snakk svo gott er það. Það er svo sem engin uppskrift heldur set ég fullt af extra virgin ólífuolíu í stóra pönnu og svo hendi ég baununum á(ég nota hér á Íslandi frosnar og þær virka bara ágætlega) og salta vel og svo bara steiki ég þær í hel, þar til þær eru vel brúnar og steiktar og þá ríf ég parmesan yfir og steiki hann aðeins með og smakka svo til með enn meira flögusalti, þetta er æði ég lofa!
Gulrótarsúpan er líka mjög góð ég nota lítinn grænmetiskraf en fæ mér frekar kraft úr alls konar grænmeti sem ég finn í skápnum hjá mér og bæti svo einhverju bragðsterku eins og chilli, engifer og hvítlauk og nota það sem kryddið. Þetta er mjög næringarríkt og fyllandi.

Gulrótarsúpa
f/4
1/4 chilli
1 tsk engifer
2 lítil hvítlauksrif
1 msk rauð paprika
1 msk græn paprika
2 skallottulaukar
1 lítil kartafla
4 stórar gulrætur + 1 til viðbótar skorin sem skraut ofan í súpuna seinna
100 ml gulrótardjús, má vera hvað sem er ég notaði heilsudjús sem er blandaður og það virkaði bara mjög vel
vatn
grænmetiskraftur ef vill
1/2 msk smjör(ég notaði smjörva sem var í góðu lagi)

Aðferð:
1. Skerið allt grænmetið(skiptir ekki máli hvernig, það verður annað hvort hakkað eða sigtað frá)
2. Skerið gulræturnar fjórar frekar þunnt, til þess að þurfa ekki að sjóða súpuna mjög lengi, þar sem þynnri bitar eru tilbúnir fyrr heldur en þykkir bitar
3. Setjið smjörið í pott yfir meðal hita og hitið smjörið þar til það fer að freyða, bætið þá öllu grænmeti saman við fyrir utan gulræturnar. Létt steikið í ca 4 mínútur bætið þá gulrótunum saman við og léttsteikið áfram í 4 mínútur.
4. Hellið þá vatninu og djúsnum saman við þannig að fljóti yfir allt grænmetið og 2 cm til.
5. Sjóðið vel yfir meðal hita í ca 20-25 mínútur eða þar til gulræturnar eru meyrar, nú getið þið gert tvennt annað hvort hakkað þetta með töfrasprota og þá fáið þið kremaða mauksúpu eða þá sigtað súpuna og þá eruð þið með þunna grænmetissúpu, mér finnst hvoru tveggja alveg jafn gott, það fer eftir smekk hvers og eins.
6. Þegar búið er að hakka/sigta súpuna er hún bragðbætt með krafti/salti/pipar/djús eftir hvaða bragði þið leytið eftir, ég persónulega bragðbætti með þessu öllu saman. Þá er síðasta gulrótin sneidd mjög þunnt og sett útí og þetta látið sjóða þar til þær eru næstum meyrar en aðeins stökkar undir tönn.
7. Ég hafði þetta sem mauksúpu í þetta skiptið og bar fram með sýrðum rjóma og það var mjög gott og flott

No comments: