Það er búin að vera svo mikil veðurblíða síðustu daga þannig að eldhúsverkin hafa setið á hakanum þessa vikuna og svo hefur okkur líka verið boðið í mat, sem er jú alltaf ótrúlega skemmtilegt. Ég ætla á morgun að grilla kjúkling að ítölskum hætti, þeir nefnilega skera heilan kjúkling eftir endilöngum kjúklingnum að neðan og svo er hann flattur út og grillaður. Ég á eftir að ákveða með hverju ég ætla að nudda hann upp úr en það verður eitthvað ótrúlega girnilegt, ég er í mjög svo girnilegu stuði þessa dagana. Ég er að fara um helgina að ná mér í sumarblóm, eiginmaðurinn bjó til beð handa mér í garðinum sem við höfum til umráða og svo verð ég með einhverjar kryddjurtir í glugganum. Ég reyndi fyrir 8 árum síðan(já mjög langt síðan) að hafa kryddjurtir í glugganum en þær fylltust af lús og ég réð ekki við neitt og þurfti að henda á endanum, mjög svo endasleppt það. En ég á vin sem hefur eina mest grænu fingur sem ég hef séð í langan tíma og hann sagði mér frá sérstöku eitri sem hægt væri að kaupa í dag í búðum og þess vegna hef ég ákveðið að prófa aftur. Nú er bara spurning um hvar ódýrustu blómapottana sé að finna.....
Til Hveragerðis fer ég með móður minni og sýstur til að kaupa sumarblómin og kryddjurtirnar, ég man eftir því að hafa farið með mömmu fyrir einhverjum árum að kaupa það sama og þeir voru með mjög áhugaverðar kryddjurtir þar, ekki bara það venjulega og ég vona að þeir séu með eitthvað spennandi í ár.
Ég mæli einnig með nýjum hóp á Fésbókinni(það kom einnig grein um það í Fréttablaðinu í dag) Kaupa beint frá býli. Þetta er hin mesta snilld! Ég hef nú lengi vitað til þess að frændfólk mitt sem eiga bústað rétt hjá Flúðum og hafa þau keypt beint frá gróðurhúsi þar rétt hjá og það jafnast ekkert á við þetta, hreint unaðslegt á bragðið, svo ferskt og gott, og mun bragðmeira en það sem maður hefur fengið í stórmörkuðunum hingað til.
En sem sagt fer lítið fyrir matseðli þessa vikuna en ég mun vonandi setja inn uppskriftina af grilluðum kjúkling á morgun.
Thursday, May 21, 2009
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment