Monday, May 25, 2009

Marinerað lamb og svín á teinum

Já við ákváðum að vígja nýja grillið okkar á laugardaginn og ákváðum við að gera grillspjót eins og Ítalirnir gera, ekki bara ein tegund af kjöti á hverjum teini, það gefur mjög sérstakt og gott bragð og þá er gott að hafa saman eitthvað feitt kjöt og svo magurt þannig fær maður safaríkt og gott kjöt á alla vegu. Ég fór líka niður í Kolaport og fékk nýuppteknar paprikur og agúrku og notaði paprikurnar í teinana, þær voru hreint unaðslegar, ég tók líka úr frystinum hörpudisk sem ég hafði lumað á í nokkurn tíma og úr varð heljarinnar veisla. Marineringin var líka algjört dúndur en mjög einföld og búin til úr því sem ég á alltaf í skápunum hjá mér.
Þessi vika hins vegar verður sparnaðarvika enda síðasta vika mánaðarins og þá er ekkert múður og naglasúpan verður að aðalmáltíð en maður verður nú að reyna að hafa hana kannski smá áhugaverða.

Spjót:
lambainnralæri
paprika(græn og rauð)
rauðlaukur
sveppir
svínarifjur(gott að fá fituna þaðan til að hafa þetta aðeins safaríkara, spjót geta oft þornað um of)

hörpudiskspjót:
hörpudiskur
lime(límóna)
tómatar
paprika(helst rauð)

Marinering fyrir kjötið:
f/2 innralæri(1 pakka)og ca 4-5 rifjur(1 pakka)
4-5 manns

3 msk balsamic edik
3 msk sojasósa
3 msk maple sýróp
1,5 msk púðursykur
2 tsk Dijon sinnep
50-100 ml olía(má vera hvaða sem er til á heimilinu)
salt og pipar(nýmalaður)

Aðferð:
1. allt fyrir utan olíuna sett í djúpa skál helst skál sem fylgir töfrasprotanum og þeytið með töfrasprotanum þar til vel blandað og hellið þá olíunni í mjórri bunu saman við þar til blandan þykknar.
2. Skerið kjötið í bita(ca 2x2 cm bita) og leggjið í marineringuna eins lengi og þið getið eða viljið. Ég hafði það í í ca 2 klst, og það kom mjög vel út.

Fyrir hörpudiskinn þá þræddi ég sitt á hvað á teina, hörpu-tómat-hörpu-papriku-hörpu og endaði á einum lime bát og setti í eldfast mót og dreypti smá sérrí yfir ásamt olíu til að það festist ekki eins við grillið. Ég hellti líka olíu á allt grænmetið áður en ég grillaði það.
Þetta varð allt svo safaríkt að ég þurfti enga grillsósu með en ég hafði þó kartöflusalatið hennar mömmu með og það passaði mjög vel við grillmatinn.

No comments: