Ég var alveg sérstaklega löt í kvöld og þurfti að draga sjálfa mig inn í eldhúsið en ég varð að nota afgangana af hamborgarakjöthakkinu frá því í gær þannig að það var að duga eða drepast. Ég ákvað að gera kjötbollur úr hakkinu sem var búið að blanda með gráðosti, léttsteiktu beikoni, smá sinnepi, eggi, hveiti, salti og pipar og bjó til brúna sósu með sem tók nákvæmlega 15 mínútur að búa til frá grunni. Ég nennti ekki að bíða eftir kartöflum þannig að ég henti frönskum í ofninn og bar þetta svo fram með rabbarbarasultu, mér finnst það bara algerlega nauðsynlegt að hafa rabbarbarasultu með brúnni sósu.
Fljótlegar kjötbollur með brúnni sósu
f/4
4-500 gr kjöthakk
1/2 bakki gráðostur
1/2 pakki beikon
1 tsk sinnep
1 egg
2 msk hveiti
salt og pipar
sósa:
1/2 laukur, saxaður gróft
300 ml vatn
1 msk rjómi(má sleppa eða nota mjólk í staðinn)
1 msk kjúklingasoð(eða 1 nautakraftsteningur)
1 tsk tómatpúrra
1 grein timían(má sleppa)
1 tsk sulta(skiptir ekki máli hvernig en best er rifsberja)
1 msk balsamico edik
50 ml hvítvín eða rauðvín
smjörbolla eða maizena til að þykkja
Aðferð:
1. Hakkið og allt í það er hrært saman í skál.
2. laukurinn er saxaður
3. Smá olía er sett í pönnu og bollur myndaðar og settar á pönnuna ásamt lauknum. Þetta er steikt þar til bollurnar fá á sig fallega brúna steikarhúð. Oft er laukurinn fljótur að steikjast þá set ég hann yst á pönnuna til að hægja á steikingunni á honum. Þegar bollurnar eru fallega steiktar er edikinu og víninu hellt yfir og látið sjóða niður, þegar það hefur soðið niður um helming en ekki horfið(2-3 mín) er vatninu hellt yfir og restinni af hráefninu bætt saman við og látið sjóða í 10 mínútur.
4. Smakkið til með salti og pipar og jafnvel sojasósu ef vill og takið þá bollurnar upp úr sósunni(gangið úr skugga um að þær séu tilbúnar) og hellið sósunni í pott og þykkið annað hvort með smjörbollu eða maizena(einnig er hægt að þykkja með því að hrista saman hveiti og vatn en ég hef aldrei gert það, mamma og pabbi gerðu það alltaf hér í denn og það gekk alltaf upp þá)
5. Þegar sósan hefur náð réttri þykkt er rjómanum bætt saman við ef hann er notaður og bollunum er bætt út í sósuna og borið fram með frönskum og sultu en best væri að hafa kartöflumús ef maður hefur tíma.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
2 comments:
Nammi, namm, þetta hljómar mjög vel. Var svo heppin að detta inn á þessa síðu hjá þér fyrir nokkru og kíki alltaf reglulega á síðuna eftir nýjum girnilegum uppskriftum frá þér. Prófaði kjúklingasalatið um daginn og það sló heldur betur í gegn. Ástarþakkir fyrir að deila þessum flottu uppskriftum með okkur, alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt og ekki spillir fyrir hvað þetta er einfalt og þægilegt.
þúsund þakkir, alltaf gaman að fá svona skemmtileg komment!
Post a Comment