Tuesday, April 13, 2010

Bragðmildur karrý-kókosréttur tilvalinn fyrir krakkana

Ég gerði þennan rétt í kvöld og þegar ég var að elda hann þá grátbað dóttir mín mig um að hafa hann ekki bragðsterkan, svo að ég ákvað að verða við þeirri bón en hann var alveg svakalega góður og allir fengu sér aftur og aftur á diskinn. Málið var nú eins og venjulega hjá mér þessa dagana að það var ekkert til í ískápnum, eða svo fannst mér en fann þetta og hitt og þetta var útkoman. Maður lumar jú alltaf á einhverjum kryddum í skápunum hjá sér og nýtti ég mér það að þessu sinni.

Karrý-kókos grænmetisréttur
f/4
1 lítil sæt kartafla
7-8 litlar gulrætur
1 laukur
1 sellerístöngull
1/4 paprika,rauð
2 hvítlauksrif
1 cm engiferrót
1 cm chillialdin(það er greinilega mjög milt í búðunum núna og þetta var þar engin undantekning,ég smakka það alltaf áður en ég set það út í réttinn)
2 tsk karrý
1 tsk kóríander
1 tsk engifer
1 kjúklinga/grænmetiskraftur
1 dós niðursoðnir tómatar
1 dós kókosmjólk
olía til steikingar

Aðferð:
1. skerið laukinn í sneiðar,saxið selleríið,hvítlaukinn,engiferið og chillialdinið og steikið létt á pönnu í olíu. Bætið kryddunum saman við og brennið létt á pönnunni þar til ilmar vel.
2. skerið restina af grænmetinu í franskar og bætið saman við, steikið létt. Bætið þá tómötunum og kókosmjólkinni saman við þannig að rétt fljóti yfir, bætið kraftinum saman við. Setjið lok á pönnuna og sjóðið við meðal-lágan hita í 40 mínútur eða þar til grænmetið er meyrt. Saltið og piprið eftir smekk.
Berið fram með annað hvort linsubaunum eða hrísgrjónum. Einnig er hægt að bæta baununum saman við.

No comments: