Thursday, April 22, 2010

Kaffikryddaðir hamborgarar

Þetta kom mér svo skemmtilega á óvart að ég bara varð að deila þessu með ykkur. Ég gerði rétt um daginn sem var með kakói í og það kom svo vel út að ég hugsaði að það hlyti að vera það sama með kaffið. Ég notaði koffínlaust þar sem ég get ekki drukkið koffín og það kom ekki að sök. Bragðið verður svo djúpt og mjúkt við kaffið og rífur svo smá í við cayennapiparinn. Hreint æðislegt!

Kaffikryddaðir hamborgarar
f/5

Kaffikryddblanda
1 msk kaffi
2 tsk púðursykur
2 tsk pipar
1/2 tsk kóríanderduft
1/2 tsk oreganóduft
1/2 tsk salt
cayennapipar á hnífsoddi

Öllu blandað saman og stráð yfir hamborgarana áður en þeir fara á grillið og svo einnig á meðan þeir eru á grillinu.

Hamborgarar
f/5
1 kg nautahakk, passið að það sé hreint hakk, ekki með kartöflusterkju og vatni
salt og pipar

10 beikonsneiðar
10 cheddarostsneiðar

Aðferð:
1. Hnoðið hakkinu saman í borgara sem eru um 200 gr hver, ég reyndar gerði fyrir mína fjölskyldu um 160 gr það var alveg nóg fyrir okkur en þetta er smekksatriði
2. Steikið beikonið, ég grilla það í ofni á bökunarpappír, þá er ekki eins mikil bræla sem kemur af því.
3. Grillið borgarana og passið að setja kryddblönduna á meðan og svo þegar þið snúið borgurunum á seinni hliðina þá setjið þið ostsneiðarnar yfir þannig að þær bráðni.
Grillið þá þar til þið sjáið blóð koma upp úr sprungum á seinni hliðinni, fyrir medium borgara.

Setjið saman:
Hafið tómatsneiðar,salat,beikon og sósu til taks fyrir fólk að setja borgarana saman sjáft eftir smekk.
Gott að bera fram með heimatilbúnum frönskum kartöflum.

No comments: