Wednesday, February 20, 2008

Aspassúpa


Já ég sagði ykkur að það hefði verið allt of stórt aspasbúntið sem ég keypti þannig að það var aspassúpa í kvöldmatinn í kvöld, hér kemur hún:


Aspassúpa

300 gr aspas, topparnir skornir af um 2 cm og geymdir þar til síðar
30 gr laukur, má vera skallott eða venjulegur
1 hvítlauksrif(má sleppa)
1 sletta hvítvín(má sleppa ef ekki er opin flaska í ískápnum)
700 ml vatn
1 súputeningur, grænmetis
40 gr smjör
41/2 msk hveiti
salt og pipar

1. Skerið aspasinn í bita, skerið laukinn í þunnar sneiðar. Hitið smá klípu af smjöri og olíu í potti, léttsteikið laukinn bætið aspasinum útí. Þegar þetta hefur mýkst aðeins þá er vatninu hellt yfir og súputeningnum bætt útí. Þetta er soðið í ca 15 mínútur. Þá er þetta hakkað með töfrasprota. Því næst er þetta sigtað yfir í stóra skál.
2. Bræðið 40 gr af smjöri í pottinum, þegar það er bráðið er hveitinu bætt útí og þetta látið blandast vel saman þannig að myndi þétta bollu, þegar það er búið er aspasvökvanum bætt útí slatta í einu og pískað vel saman og þá er restinni af aspasvökvanum bætt saman við. Þetta er pískað vel saman og suðan er látin koma upp. Þá er aspastoppunum bætt útí súpuna. Látið sjóða í ca.5 mínútur, ef þykktin er eins og þið viljið hafa hana er þetta bragðbætt með salti og pipar og smá nýmjólk, rjóma eða jafnvel kókosmjólk. Ef hins vegar ykkur þykir súpan of þykk er meira vatni bætt útí hana. Athugið að rjómi og mjólk þykkja súpur og sósur, þær þynna ekki. Það er líka misjafnt eftir hveiti hvernig súpan þykknar þess vegna er magnið ekki alltaf það rétta þegar farið er eftir uppskriftinni.

Berið fram með brauði, ég set smjör,skinku og mozzarella á rúnstykki og bræði undir grillinu í örskamma stund.
Eins og sést líkar yngri kynslóðinni einnig mjög vel við súpuna.

No comments: