Tuesday, February 19, 2008

Aspasrisotto

Hér á Ítalíu er aspastíminn rétt að byrja og girnilegur aspasinn er að fylla búðirnar og markaðina. Ég stóðs ekki mátið og keypti stærðarinnar búnt án þess að átta mig á að við erum einungis 3 í heimili, en þetta þýðir að hinir ýmsu aspasréttir verða prófaðir á næstu dögum.

Aspasrisotto
f/4
300 gr aspas,skrældur
30 gr smjör
vatn
700 ml kjúklingasoð(700 ml vatn+11/2 kjúklingakraftsteningur)
300 gr risotto hrísgrjón
1 skallottulaukur, saxaður
2 msk ólífuolía
200 ml hvítvín
30 gr parmesan, og jafnvel meira eftir smekk
salt og pipar eftir smekk

1. Sjóðið vatn með salti, setjið skrældan aspasinn útí og sjóðið í 2 mínútur hellið mestu vatninu af en skiljið eftir botnfylli, bætið smjörinu útí og setjið lok yfir og sjóðið í 2 mínútur til viðbótar og passið að smjörið sé alveg bráðið og vel blandað saman við aspasinn. takið af hitanum og geymið.
2. Látið suðu koma upp í soðinu og haldið léttri suðu með því að hafa á lágum hita.
3. Í öðrum potti tiltölulega stórum (ca 22 cm í ummál), hitið létt ólífuolíuna og léttsteikjið laukinn, þegar hann hefur mýkst aðeins er hrísgrjónunum bætt útí og hrært vel, þar til hrísgrjóin eru farin að glansa, þá er hvítvíninu hellt útí og látið sjóða rétt aðeins niður.
4. Því næst er einni ausu af léttsjóðandi soðinu bætt útí og hrært vel saman við. Þegar hrísgrjónin hafa sogið í sig allan vökvann er meira af soðinu bætt útí, og svo koll af kolli þar til grjónin eru al dente(mikilvægt að smakka til áður en öllu soðinu er bætt útí því það er misjafnt eftir tegund grjóna hvað þau þurfa mikið vatn, þá er aspasinn skorinn í 3 cm bita og smá af vökvanum af aspasinum , ásamt aspasinum bætt útí og grjónin látin sjúga það í sig. Þegar grjónin eru tilbúin er parmesanosturinn rifinn útí saltað og piprað eftir smekk og borið fram með brauði.

1 comment:

Anonymous said...

Ég eldaði þennan frábæra rétt í kvöld, takk takk fyrir mig sæta :-)
Ást
ace