Sunday, November 8, 2009

Pizza með steiktu eggaldini og karamelliseruðum lauk

Við höfðum pizzu í matinn í staðinn fyrir brasseraða lambið þar sem ég gleymdi enn og aftur að taka það úr frystinum. Þar sem við gerum pizzu u.þ.b. einu sinni í viku og alltaf það sama þá er ég komin með leið á því og ákvað að gera eitthvað spennandi og unaðslega gott. Mín uppáhaldspizza úti á Ítalíu var einmitt með eggaldini en mér finnst það betra steikt upp úr olíu heldur en grillað en það er smekksatriði, það er líka mjög misjafnt hvort maður fær þegar maður pantar þessa pizzu úti, þannig að ef þið eruð á leiðinni út og viljið með Melanzane þarf að spyrja hvort það er steikt eða grillað. Þegar það er grillað verður það þurrt en þá fáið þið grillbragðið en ef þið fáið það steikt þá er það safaríkt og með smá ólífuolíubragði aukalega. Ég er mikill aðdáandi karamelliseraðs(mikil þörf á betra orði fyrir þetta) lauks og ef það er rauðlaukur, enn betra. Ég aftur á móti hafði ekki mikinn tíma þannig að ég var ekkert að flækja málin með lauknum og hafði hann einfaldan, það er hins vegar hægt að gera hann á annan hátt með fleira hráefni og ég á eina slíka uppskrift sem er geggjuð og ég hef borið fram með kjöti og maður bara slefar yfir henni. Það er nú líka þannig með álegg á pizzur, maður sleppur með lítið hráefni.

Pizza með eggaldini og karamelliseruðum lauk
f/eina pizzu
3 sneiðar af eggaldini, skorið í 1 sm sneiðar
1 rauðlaukur(má líka vera venjulegur)
1 tsk smjör
1 msk ólífuolía
1 msk hlynsýróp, hægt að skipta út fyrir púðursykur og setja þá smá vatn með
1 msk balsamik edik
salt og pipar

Aðferð:
1. Hitið olíu á pönnu, þegar hún er heit er eggaldininu velt uppúr olíunni á annarri hliðinni og snúið við og steikt við meðal hita þar til það er brúnt og svo snúið við og steikt þar til það er brúnt og mjúkt. Tekið af og skorið í fjórðunga og dreift yfir pizzuna.
2. Skerið laukinn í 1/2 sm sneiðar og hitið olíu og smjör á pönnu. Bætið lauknum útá þegar hún er heit og hann er mýktur aðeins þá er sýrópinu og edikinu bætt saman við og látið malla á meðallágum hita með lok hálft á í ca 10 mínútur eða þar til hann hefur skroppið vel saman og er mjög mjúkur. Saltið og piprið. og dreifið yfir pizzuna.

No comments: