Eiginmanninum leist svo vel á súpuna mína sem ég fékk mér í hádeginu að hann bað um þannig í kvöldmat og til að hafa hana aðeins matarmeiri bætti ég kjúklingi í uppskriftina og stækkaði hana aðeins. Útkoman var ljúffeng og ódýr kjúklingasúpa sem er nú ekki slæmt að gúffa í sig þessa dagana með allt þetta kvef í kringum mann. Ég fór nefnilega á netið til að athuga hvort eitthvað væri til í þessari þráhyggju í amerískum sjónvarpsþáttum og bíómyndum með kjúklingasúpu og kvef og hvort þetta gæti í raun og veru virkað. Viti menn það er búið að rannsaka þetta og þetta virkar að einhverju leyti, að sjálfsögðu er mikið af virkninni í hitanum og sálfræðinni en að sama skapi, virkar. Nú er stelpan mín með kvef, ég að fá það og litli guttinn orðinn stútfullur(hann fær nú reyndar bara að gæða sér á brjóstamjólkinni, en kannski síast eitthvað í gegn, aldrei að vita).
Ég set því hér inn uppskriftina eins og hún er fyrir fjóra.
Kjúklingasúpa með ferskum engifer
f/4
1,5 gulrót(stór)
1 steinseljurót
2 cm fersk engiferrót
1 laukur
2 sellerístilkar
2 hvítlauksrif
1 bakki kjúklingabitar(með beini)
1,5 teningur kraftur, grænmetis eða kjúklinga
1 msk edik, hvítt(mangóbalsamik t.d)
150 ml hvítvín
1-2 tsk smjör(hvort sem ykkur þykir betra)
1 msk olía
1 ltr vatn
Aðferð:
1. Allt grænmetið er skorið í litla bita(ferninga 1x1 cm)
2. Smjörið og olían er hitað í djúpum potti. Þegar smjörið freyðir er grænmetinu bætt saman við og svitað örlítið.
3. Húðin er tekin af kjúklingnum.
4. Hvítvíni og ediki er bætt saman við grænmetið og soðið niður í ca.4 mín. Þá er kjúklingnum bætt saman við og vatni hellt yfir. Teningnum bætt saman við.
5. Sjóðið við meðalháan hita í ca. 20 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn(takið þykkasta bitann og skerið í hann ef vökvinn sem kemur úr sárinu er glær er hann tilbúinn).
6. Takið af hitanum og takið kjúklingabitana upp úr og skerið(takið)kjötið af beinunum og bætið aftur útí pottinn. Látið suðuna koma aftur upp og berið fram með brauði, jafnvel hvítlauksbrauði.
Þið ráðið svo sem hvort þið takið kötið af beinunum eða ekki mér finnst það þægilegra sérstaklega í sambandi við börnin. Beinin eru hins vegar nauðsynleg í súpuna en þaðan kemur krafturinn og góða kjúklingabragðið. Þessi súpa, öfugt við grænmetissúpuna, er tær með grænmetisbitum en í grænmetissúpunni er allt saman maukað, en eins og ég sagði með hana er einmitt líka hægt að hafa hana tæra með grænmetisbitum. Allt er það jafn unaðslega gott og huggandi svona þegar skammdegið hellist yfir okkur þessa dagana.
Ég hins vegar gleymdi að taka lambið út úr frystinum þannig að það verður bara pizza í matinn í kvöld og ætla ég að prófa nýtt álegg á hana. Set það inn vonandi á morgun
Friday, November 6, 2009
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment