Sunday, December 21, 2008

Steiktur kjúklingur með stökkri sinnepshúð, grænmeti og hrísgrjónum

Nú sem aldrei fyrr er ærin ástæða til að halda sig hófsömum og ekki fara út fyrir innkaupalistann og elda sem oftast heima í staðinn fyrir skyndibitamat, sem er orðinn skuggalega dýr.
Eins og sést hefur hér á síðunni þá er mikið að gera hjá okkur eins og hjá ykkur býst ég við og ekki alltaf tími fyrir þessa blessuðu heimaeldamennsku og þráum við að maturinn gæti bara hoppað sjálfur í pottana og kryddað sig sjálfur, bara ef lífið væri svo ljúft.
Ég byrjaði þessa viku fremur brösulega, komst ekki í búðina fyrr en á fimmtudegi og hafði þá úr litlu að moða dagana þar á undan en rembdist þó við að gera eitthvað ljúffengt úr því sem til var í skápunum, og viti menn það kom þessi snilldarréttur, ég mæli með því að prófa hann.
Húðin verður frábærlega stökk og bragðgóð við þessa aðferð, ég reyndar hafði grjón með því að ég átti ekki kartöflur en það getur vel verið að kartöflurnar séu jafnvel betri þó svo að grjónin hafi verið ljómandi góð með.

Steiktur kjúklingur með stökkri sinnepshúð, grænmeti og hrísgrjón

1 kjúklingur, ég átti bara heilan og skar hann í bita, annars er mjög fínt að vera með kjúklingabita
1/2 paprika, skorin í sneiðar
1 laukur, skorinn í sneiðar
1 msk engifer, saxað mjög smátt
1/2-1 chillialdin(fer eftir hversu sterkt þið viljið hafa þetta), saxað smátt
3 hvítlauksrif, kramin eða söxuð smátt
smá smjörklípa og olíudreytill
1 msk balsamico edik
hveiti
salt og pipar
djion sinnep
ég sletti síðustu dropunum úr hvítvínsbeljunni minni(sem ég keypti til matargerðar í september) en því má alveg sleppa

Aðferð:
1. Skerið grænmetið og steikið á pönnu með smá olíu(má sleppa ef notuð er teflonpanna), við meðalháan hita, þar til það hefur mýkst vel, þá er edikinu hellt yfir og látið sjóða alveg niður.
2. Á meðan grænmetið er á pönnunni er kjúklingurinn skorinn í læri, bringu, vængi og hveiti er sett í skál eða plastpoka og kjúklingnum er velt upp úr því. Panna er hituð með smjörklípu og olíu og mesta hveitið er dustað af hverjum kjúklingabita og hann settur í heita pönnuna. Leyfið að liggja á hvorri hlið í nokkrar mínútur eða þar til hann er orðinn fallega gullinbrúnn á hvorri hlið.
3. Þá ætti grænmetið að vera orðið fallega meyrt og fínt. Þá er ofninn hitaður í 200°C. Setjið grænmetið í botninn á ofnföstu fati og kjúklingabitana þar ofan á. Saltið og piprið yfir allt saman og smyrjið því næst þunnu lagi af sinnepi á hvern kjúklingabita og setjið inn í ofn í u.þ.b. 20-30 mín., ef þið notið hvítvín er því hellt yfir rétt áður en allt er sett inn í ofn og hellið því þá í kringum kjúklingabitana ekki yfir. (það er mjög gott að hella pönnurestunum yfir kjúklinginn)
4. Á meðan kjúklingurinn er í ofninum eru grjónin sett yfir og salatið gert klárt(ef það er haft með, ég er vön því að hafa ferskt salat með öllum mat).

Þetta tók mig ca. 50 mín. að gera og það er með öllu uppvaski þar sem ég bý ekki svo vel að hafa uppþvottavél, ég hef beðið jólasveininn margsinnis um eina slíka en svo virðist sem hann bara heyri ekki í mér, merkilegt nok!

Daginn eftir fór maðurinn minn í búðina, tók ekki með sér innkaupalista og eyddi að sjálfsögðu allt of miklu, en látum það nú liggja á milli hluta. Hann var þó mjög sniðugur í þeirri ferð því hann keypti salsasósu, sýrðan rjóma og tortillur(frá Bónus, mjög ódýrar) og þar var kvöldmaturinn kominn. Afgangarnir af kjúklingnum, grænmetinu og grjónunum var hent á pönnu með smá salsa, tortillurnar hitaðar og allt sett inní, rúllað upp e vuola! kvöldmaturinn tilbúinn. Þetta tók manninn minn ca. 10 mínútur að laga lesendur góðir og tja ég verð nú bara að segja að fyrir mig var þetta bókstaflega eins og maturinn hefði bara hoppað ofan í pottana og kryddað sig sjálfur!

No comments: