Wednesday, December 10, 2008

Matseðill fyrir vikuna 10.des-

Desember er nú meiri mánuðurinn, það er ekki stundarfriður. Ekki það að það sé eitthvað slæmt, þetta minnkar matarinnkaupin verulega en kannski hækkar á hinn bóginn gjafakaupsreikninginn. Það er bara svo gaman að gefa. Desember er fullur af afmælum í báðum fjölskyldum okkar hjónanna, þetta þýðir að matseðillinn fer úr skorðum og allt fer í bölvað rugl, en hver slær þó hendinni gegn gómsætum afmælismat? Ég er nú svo lykkelig að koma úr fjölskyldu sem er mjög fær í eldhúsinu og það sama má segja um fjölskyldu eiginmannsins þannig að við höfum legið í vellystingum síðustu vikurnar og ekki verður neitt lát á næstu vikurnar. Við vorum því í gær í afmæli tengdamóður minnar og förum svo í afmæli systur minnar á föstudaginn og svo er vinna á laugardaginn og á sunnudaginn er okkur boðið í jólahlaðborð, já lífið er svo sannarlega ljúft.
En maður þarf víst að borða í dag og á morgun. En það verður ekki stuðst við flóknar uppskriftir í þessari viku því í kvöld vorum við með snarl eins og móðir mín kallar það. Þá er það síld og rúgbrauð og svo kartöflusalat með. Uppskriftin af því er hér á síðunni. Á morgun verður svo slátur með rófustöppu, ég ætla að fara gegn því sem maðurinn minn vill og hafa kartöflustöppu með líka, mér finnst það nauðsynlegt, honum hins vegar finnst nóg að hafa rófustöppuna. Maður kannski prófar að gera eins og Skotarnir og hella viskíi inn í lifrarpilsupokann rétt eftir að hann er opnaður, vera soldið villtur....

No comments: